RasmusRasmussen
Minningarathöfn verður haldin sunnudaginn 14. október, til minningar um færeyska gítarleikarann og þungarokkarann Rasmus Rasmussen sem lést nýverið, langt fyrir aldur fram. Rasmus hafði undanfarin ár tekist á við afleiðingar fólskulegrar árásar, sem hann varð fyrir árið 2006, en tókst aldrei að jafna sig að fullu eftir hana. Árásin og ofsóknir í kjölfar hennar tengdust samkynhneigð Rasmusar og með þessari athöfn vilja aðstandendur hennar vekja athygli á þeim fordómum og hatursglæpum sem hinsegin fólk verður fyrir í heiminum. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan ráðist var á transmann á bar í Reykjavík fyrir það eitt að vera trans og því ljóst að fordómarnir og hatrið leynast víða - líka í okkar annars umburðarlynda samfélagi.
Athöfnin hefst kl. 19:00 með kertafleytingu á Tjörninni, við Iðnó. Að henni lokinni tekur við samverustund í Fríkirkjunni í Reykjavík, þar sem Hörður Torfa, Jens Guð ásamt fleirum munu koma fram.
Allir eru hjartanlega velkomnir.

|