Félögin ILGA-Europe, sem Samtökin ‘78 eru aðili að, og Transgender Europe (TGEU) gefa árlega út hvort sitt yfirlitið á lagalegum réttindum hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu.
Í mati Regnbogakorts ILGA-Europe árið 2025 bætir Ísland lítillega við sig milli ára og uppfyllir nú 84.06% matsþátta. Ástæða hækkunarinnar er sú að punkti um hatursorðræðu vegna kyneinkenna var bætt við sem matsþætti, og Ísland uppfyllir þann þátt nú þegar. Engar aðrar breytingar urðu á stöðu Íslands milli ára.
Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78, birti á dögunum grein þar sem hann sagði um Regnbogakortið:
„Á meðan réttindi hinsegin fólks skerðast víða um heim heldur Ísland [..] áfram í rétta átt. Árlega gefa ILGA-Europe, regnhlífarsamtök hinsegin fólks í Evrópu, út Regnbogakortið sem greinir lagalega stöðu í öllum löndum Evrópu. Í vikunni birtist uppfærð útgáfa kortsins og féll Ísland úr öðru sæti niður í það þriðja, þrátt fyrir að bæta við sig á milli ára. Belgía fer upp fyrir okkur í annað sæti Regnbogakortsins fyrst og fremst vegna aðgerða stjórnvalda þar í landi gegn hatursglæpum og hatursorðræðu.
Tækifæri eru því til staðar fyrir Ísland að skipa sér í allra fremstu röð í heiminum og það er sjálfsögð krafa hinsegin samfélagsins að þangað skuli áfram stefnt. Það er mögulegt á aðeins einu ári ef ný ríkisstjórn hefur kjark og vilja til þess. Íslensk stjórnvöld geta til dæmis fylgt fordæmi Belga og stigið inn með afgerandi hætti með aðgerðum gegn hatursglæpum og hatursorðræðu. Einnig þarf að bæta lagalega umgjörð til að tryggja líkamlega friðhelgi intersex fólks og loks réttindi fólks sem þarf á alþjóðlegri vernd að halda. Þegar andstæðingar mannréttinda hinsegin fólks ýta á móti er aðeins ein fær leið fyrir frjálslynt lýðræðisríki: Áfram.“
Lesa má um stöðu Íslands og þá þætti sem enn á eftir að uppfylla á sérstakri vefsíðu um Regnbogakortið. Þau sem fylgjast vel með réttindabaráttunni eru væntanlega að velta því fyrir sér hvers vegna blóðgjafir án mismununar vegna kynhneigðar og kynvitundar hafa ekki enn verið metnar inn hjá ILGA-Europe, en það er vegna þess að enn er óljóst hvernig aflétting bannsins verður útfærð og hvenær það gerist.
Engar breytingar urðu á milli ára á stöðu Íslands á transréttindakorti TGEU, en lagaleg réttindi trans fólks hafa verið þau bestu í Evrópu og Mið-Asíu skv. mati TGEU frá árinu 2023.
Samtökin ‘78 fagna árangri Íslands í alþjóðlegum samanburði og leggja ríka áherslu á það að við höldum áfram í rétta átt, en skýrslur bæði ILGA-Europe og TGEU sýna skýrt bakslag í réttindamálum hinsegin fólks víða í ríkjum Evrópu og Mið-Asíu. Mikilvægt er að Ísland haldi áfram að sýna gott fordæmi á heimsvísu og stefni enn hærra. Samtökin ‘78 hafa átt í góðum samskiptum bæði við embættismenn og stjórnmálafólk á undanförnum árum, enda teljum við ljóst að samstarf og samtal við stjórnvöld er lykillinn að áframhaldandi árangri á lagalega sviðinu.