Ungliðahreyfingin er ætluð hinsegin ungmennum á aldrinum 13-17 ára og tilgangur hennar er að skapa og styrkja félagsleg tengsl milli þeirra. Hópurinn hittist alla þriðjudaga kl. 19.30 - 22:00 í húsnæði Samtakanna '78 að Suðurgötu 3. Húsnæðið er aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun.

Sumarleyfi: Ungliðarnir eru í sumarleyfi í júlí. Við stefnum á að hittast aftur til að undirbúa atriði fyrir hinsegin daga! Best er að fylgjast með á Facebook síðu Ungliðanna.

 

Hvað gerum við?
Andrúmsloftið er mjög svipað og í venjulegum félagsmiðstöðvum eða nemendafélögum. Fyrst og fremst viljum við kynnast hvert öðru, búa til góðan félagsskap og mynda vináttubönd. Þá bjóðum stundum til okkar gestum úr þjóðfélaginu til að ræða spennandi málefni, stundum höfum við boðið foreldrum okkar í heimsókn, og við höldum videókvöld, förum í útilegur og höldum árshátíð og margt fleira. Það er okkar sjálfra að móta dagskrána með umsjónarfólki hópsins. Einnig tökum við þátt í starfi Samtakanna 78, m.a. höfum við sagt frá lífi okkar á fræðslufundum í skólum, og við tökum virkan þátt í undirbúningi Hinsegin daga. Það getur tekið hálft ár að búa til gott atriði í gleðigönguna

Af hverju að koma á ungliðafund?
Það er talsvert átak fyrir okkur öll að koma út úr skápnum, segja foreldrum okkar og fjölskyldu frá því að við séum hinsegin. Það er gott að fá stuðning frá öðrum hinsegin ungmennum og vita að það eru fleiri í sömu sporum og þú! Fyrir utan að það er bara einfaldlega gaman á ungliðafundunum þá er líka ofsalega gott að kynnast öðru hinsegin fólki á sama aldri, sem skilur hvað þú ert að fara í gegnum. 

Að mæta í fyrsta sinn
Það ríkir 100% trúnaður um það hver mætir á ungliðafundina. Enginn má segja frá því hvað er rætt eða hver mætti. Þú þarft ekki að vera komin/n/ð út úr skápnum til að mega mæta og þú þarft ekki að vera viss um að þú sért hinsegin. Það er engin skylda að vera hinsegin til að mæta á fundina svo þú getur líka tekið með þér vin eða vinkonu til að styðja þig. Við tökum vel á móti öllum, við vorum líka eitt sinn ný og þekktum engan!

Hafðu samband í síma 552 7878 ef þú vilt vita meira eða með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða til ungliðanna sjálfra á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Þú getur líka haft samband í gegnum Facebook síðu Ungliðanna.

 

 

|