Opnun: Stig Styrmand – Fundin verk, skakka Amsterdam

Stig Styrmand er listamanneskja sem ekki hefur farið hátt í íslenskum listheimum og er óhætt að fullyrða að ekkert verka hans hafi áður komið fyrir sjónir íslenskra listunnenda á opinberum vetvangi.

Enginn veit nákvæmlega hvenær Styrmand fæddist eða hvort hann/hún/hán er á lífi í dag. Hvernig sem þeim málum er háttað þá komu þau verk sem hér eru sýnd í ljós við upphaf þessa árs við tiltekt í arkævi Ásdísar Óladóttur, eina Íslendingsins sem vitað er til að hafi hitt Styrmand.

Fundum þeirra bar saman í Amsterdam við upphaf 10. áratugar 20. Aldar. Á ferð sinni um borgina kom Ásdís auga á manneskju sem gekk milli búðarglugga í miðborginni og tók ljósmyndir af þeim. Vakti þetta forvitni Ásdísar og tóku þau Ásdís og Styrmand tal saman.

Varð að samkomulagi þeirra á milli að Styrmand léti framkalla myndirnar og afhenti þær svo viku seinna ef það mætti verða til
þess að Ásdís gæti komið verkunum á framfæri við eitthvað af þeim framúrstefnugalleríum sem störfuðu í Reykjavík á þeim árum.

Því miður varð minna úr framkvæmdum en efni stóðu til og að lokum enduðu verkin í skjala kassa og hafa verið þar þangað til núna að ákveðið hefur verið að birta verkin opinberlega.

Neyslumenning tíunda áratugar tuttugustu aldarinnar er meginviðfangsefni myndanna og sú mikla ofgnótt varnings og hetrónormatívra fyrirmynda á borð við brúðhjón. En einnig bregður fyrir karlmannlegu myndefni eins og kjötfjalli, rakgræjum, bíldyrum og öðrum varningi.