Ósýnileg ævistörf

Reynsluheimur sjálboðaliða í Samtökunum ’78

Eftir Maríu Helgu Guðmundsdóttur

Verkefnin sem ráðist var í á fyrstu starfsárum félags hómósexúalista lögðu grunninn að starfsemi félagsins eins og hún er enn í dag. Félagsmiðstöðin var opin tvö og síðar þrjú kvöld í viku, ráðgjöf í síma var veitt á vissum tímum og snemma á níunda áratugnum hófust fræðsluheimsóknir í framhaldsskóla. Útgáfumál skipuðu enn fremur mikilvægan sess. Böðvar Björnsson kom fyrst á vettvang Samtakanna í nóvember 1980 og lýsir heimsókninni svo: „Þá var þarna Guðni Baldursson, fyrsti formaður félagsins, og Jón Ágústsson, kallaður Jón kennari. Þeir voru að vinna með stensil að prenta. Ég kem inn og kynni mig og við förum eitthvað aðeins að tala saman. Fimm mínútum síðar er ég kominn á stensilinn, byrjaður að vinna.“

Að sögn Böðvars var þetta fjarri því óvenjulegt, því fyrstu árin eftir stofnun Samtakanna ’78 var lítill greinarmunur á „félögum“ og „sjálfboðaliðum“. „Flestir sem komu niður í Samtök, hvort sem það voru strákar eða stelpur, þau unnu í Samtökunum. Þau komu ekki bara til að njóta. Það var ekki þannig hugsun. Það þurfti svo margar hendur til að reka þessa félagsmiðstöð. Við vorum að flytja og þá þurfti að mála. Einhverjir splæstu í húsgögn. Ég borgaði kannski einn stól og einhver gaf borð. Og svo var komið með málningu. Það þurfti að sparsla og mála. Þetta voru ofsalega margir sjálfboðaliðar sem voru alltaf að. Það unnu eiginlega allir félagsmenn eitthvað.“

Úr stenslinum sem Böðvar og félagar sneru kom meðal annars fréttabréf Samtakanna ’78, sem seinna þróaðist í blaðið Úr felum. Ragnhildur Sverrisdóttir var ein þeirra sem seldu blaðið fyrir utan verslanir ÁTVR á Lindargötunni og Snorrabrautinni á árunum eftir 1980. „Ég held að það hafi alltaf verið í helgarfyllerís-traffíkinni á föstudögum. Við fórum alltaf þegar það voru flestir. Þá var fólk líka með „kass“ og það átti pening þegar það kom út úr Ríkinu. Við seldum grimmt.“ Þorstinn eftir upplýsingum var greinilegur, þótt fáir þyrðu að gangast við honum. Föstudagsbríarí gat verið ágætis átylla til að splæsa í blað og lesa sér til.

„Ég er svolítið hræddur við það sem ég kalla Hollywood-útgáfu af sögunni, það er að taka einn eða fáeina einstaklinga og segja: „Þeir gerðu þetta.“ Þetta er bara bull, hetjuþvættingur. Margir einstaklingar gerðu mjög góða hluti, en gagnvart stóru sögunni þá er það grasrótin sem gerir þetta. Fólk sem vann þarna og vann og vann og vann, ár eftir ár, og það veit enginn að það hafi nokkurn tímann verið til.“

Böðvar Björnsson

Heiminum breytt, ball fyrir ball

Frá fyrstu tíð voru miklar hugsjónir í spilinu innan Samtakanna ’78. Í grein í Stúdentablaðinu í mars 1979 sagði ónefndur málsvari þeirra (nær örugglega formaðurinn, Guðni Baldursson) að félagið stefndi á „að ná algerum jöfnuði fyrir lögunum“ og horfði til erlendra fordæma um bann við mismunun í fjölskyldu-, atvinnu- og húsnæðismálum. En að mati Böðvars voru þessar hugsjónir meira á pappírnum. „Þær voru ekki orðnar að praxis. Þær voru ekki mikið í huganum á okkur. Það var ekki rými fyrir þær í samfélaginu. Fyrst þurftum við að fá að vera til áður en við fórum að berjast fyrir réttindum.“

Fljótlega fór að bera á deildum meiningum um það hve fyrirferðarmikið skemmtanalíf ætti að vera í félaginu. Í áðurnefndri grein í Stúdentablaðinu eru tilgreind tvö atriði sem samkynhneigðir gagnrýni helst við hin nýstofnuðu Samtök: leyndin yfir félagatalinu og skortur á skemmtanahaldi. „Guðni var ekki mikið fyrir að standa fyrir partíum,“ rifjar Ragnhildur upp. „Honum fannst svo ægilega vond þessi áhersla að vera alltaf að blása í partí og böll. Það var ekki alveg hans. Hann var betri í öðru.“ Guðni var á sínum tíma sakaður um að standa hreinlega í vegi fyrir skemmtanahaldi en í samtali við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur fyrir 30 ára afmælisrit Samtakanna vísaði hann því á bug. „Að mínu mati var það óréttmætt þótt mitt áhugasvið væri annað,“ sagði Guðni. „Þeir sem vildu halda skemmtanir gátu vel gert það og gerðu það þótt mín nyti ekki við.“

Og það fór aldrei svo að enginn tæki að sér félagslífið. Böðvar segir frá: „Reynir Már Einarsson, Veturliði Guðnason, Guðmundur, kallaður Trixí, og Björn Bragi Björnsson voru jarðýtur í skemmtanalífinu í Samtökunum og utan Samtakanna. Þeir drógu tugi manna og kvenna úr felum með áberandi tilveru sinni og báðust ekki afsökunar á neinu.“ Að mati Böðvars var það áherslan á félagslífið sem átti stærstan þátt í því að félögum fjölgaði. „Á böllunum var von um ást og kynlíf. Það seldi mest, eðlilega. Svo voru gay tímarit frá Norðurlöndum og Ameríku niðri í félagi og líka eitthvað klám. Fólk þyrsti í upplýsingar og klámblöðin voru sjaldséður glaðningur sem var vinsæll hjá strákunum. Samtökin urðu að gera eitthvað til að fá fólk.“

Andrés Peláez
Böðvar Björnsson
Ragnhildur Sverrisdóttir
Auður Magndís Auðardóttir
Fríða Agnarsdóttir
Jóhann G. Thorarensen
Ynda Eldborg
Matthías Matthíasson

Útvarpsstjóra sagt til syndanna:
Leiðin til samfélags og sjálfsvirðingar

Böllin og tímaritin trekktu kannski að en þegar kom að því að efla tengslin gegndi sjálfboðavinnan mikilvægu hlutverki. Hékk það vafalaust saman við þá staðreynd að ekki voru sérstök skil milli hlutverks félaga og sjálfboðaliða. „Sjálfboðastörfin límdu okkur saman,“ segir Böðvar. „Þessi hversdagsstörf öll, það voru þau sem bjuggu þetta allt til og tengdu fólkið. Ég hugsa þetta þannig að við vorum bara að byggja upp fótboltafélag. Við höfðum að vísu ekki unnið leik í mörg ár. En við vorum komin með húsnæði, komin með félagsmenn, fólk mætti á æfingar og svona. Við unnum sigrana inn á við. Þar sáu lesbíurnar og hommarnir að við ættum alveg rétt á sjálfsvirðingu eins og aðrir.“

Utan félagsmiðstöðvar Samtakanna var svigrúmið fyrir tilvist homma og lesbía þó sama og ekkert. Áralöng deila Samtakanna við Ríkisútvarpið, sem neitaði að leyfa orðin hommi og lesbía í útvarpsauglýsingum, er löngu orðin fræg. Í henni kristallaðist baráttan fyrir tilvistarréttinum, að mati Böðvars. „Um leið og þú leyfðir þessi orð, hommi og lesbía, varstu búinn að leyfa tilvist þessa fólks í samfélaginu. Það var meira en margir vildu og þoldu.“

Í baráttunni um orðin tóku sjálfboðastörfin á sig aðra mynd. Þar fóru greinaskrif og blaðaviðtöl saman við öllu beinskeyttari átök. Böðvar greinir frá eftirminnilegri ferð í Útvarpshúsið: „Ég fór með Guðna Baldurssyni til útvarpsstjóra, Andrésar Björnssonar, því við fengum ekki að auglýsa. Andrés sagði okkur að það væri best fyrir fólk eins og okkur að láta sem minnst fyrir okkur fara. Það hefði reynst farsælast í öllum samfélögum. Ég varð reiður, missti mig alveg og hraunaði yfir manninn. Ég endaði á að segja: „Þú segir mér ekki hvernig ég á að lifa lífinu.“ Heimsókninni lauk þar með og Guðni var ekki sáttur við framkomu mína á fundinum.“

Böðvar tengir getuna til að svara fordómum ráðamannsins fullum hálsi við sjálfsstyrkingarmátt félagslífsins. „Ég hafði kynnst þessum flottu strákum í skemmtanalífinu og þeir voru fljúgandi gay og báðust ekki afsökunar á sjálfum sér. Þeir voru miklu sterkari en ég, sterkari karakterar. Þeir kenndu manni að bera höfuðið hátt.“

Ragnhildur, sem fór ásamt Þorvaldi Kristinssyni, Katli Guðmundssyni, Lilju Steingrímsdóttur og fleirum með fræðslufundi í framhaldsskóla á þessum árum, tekur í sama streng. „Ég var að fóta mig sjálf og finna mig í þessum nýja veruleika sem var bara eftir að maður var kominn út. Ég held að þetta hafi verið þörf fyrir að smíða mitt samfélag. Maður fann að það gaf manni ofsalega mikið að tala við þessa krakka, sem töluðu við mann af viti á móti. Það styrkti mann líka að tala við hálfvitana fremst, sem voru með kjaftháttinn og allt þetta sem maður hafði alltaf heyrt.“

Ein eftirminnilegasta skólaheimsóknin var þó í Menntaskólann við Sund. „Þá var þemavika og krakkarnir máttu velja sér að fara á hina og þessa viðburði. Það hafði verið svo mikil aðsókn að [fræðsluheimsóknin okkar] var flutt í íþróttasalinn. Við vissum það ekkert. Við vorum bara búin að fara að heimsækja bekki. Svo komum við og vorum leidd baksviðs og allt í einu upp á svið. Þar voru stólar og míkrófónn og leikfimisalur fullur af öllum nemendum skólans. Allir. Þau svoleiðis héngu í rimlunum alls staðar. Það var magnað. Ég veit ekki hvað það hafa margir úr þessum blessaða leikfimisal komið og talað við mig, sagt: „Ég var í salnum þegar þið komuð.“ Það hafði áhrif.“

Og enn má heyra sjálfboðaliða tala um sjálfsstyrkinguna sem störfin veita þeim. Ung hinsegin kona sem kom út úr skápnum upp úr 2010 segir: „Ég var með áralanga uppsafnaða skömm sem ég þurfti að vinna úr. Þátttaka í Samtökunum gaf mér farveg til að gera það. Þar gat ég snúið því sem ég hafði bælt svo lengi upp í eitthvað jákvætt. Þegar ég talaði við krakka sem jafningjafræðari var ég í aðra röndina að segja sjálfri mér allt sem ég hefði þurft að heyra sem barn.“

„Fámennur skemmtiklúbbur“ tekur stakkaskiptum:
Kynslóðaskipti og fagvæðing

Samtökin ’78 höfðu ekki náð tíu ára aldri þegar alnæmi kvað dyra á Íslandi. „Allt í einu gerist það,“ rifjar Böðvar upp, „þegar þetta er allt á fljúgandi uppleið, þá kemur AIDS fyrir alvöru. Það var alveg hrikalegt högg.“ Á þessum árum gekk félagsfólk Samtakanna í gegnum gríðarleg áföll. Margir létu lífið, sumir úr sjúkdómnum og aðrir fyrir eigin hendi, og afleiðingarnar fyrir geðheilsu þeirra sem eftir lifðu voru ótvíræðar. Áhrifin á starfsemi Samtakanna voru líka afdráttarlaus. Böðvar lýsir þessum vatnaskilum svo í grein sinni um alnæmisfaraldurinn í 30 ára afmælisritinu:

Samtökin ’78 höfðu alla tíð að meginhluta verið grasrótarhreyfing, harðskeytt baráttusamtök. En alnæmið breytti öllu og líka Samtökunum ’78. Í kjölfar alnæmisfaraldursins og vaxandi tengsla Samtakanna við stofnanir samfélagsins, þróuðust baráttu- og vinnuaðferðir Samtakanna eðlilega í átt til lobbyisma, því það er tungumálið sem stofnanir samfélagsins ræða saman á. Það urðu einnig mannabreytingar um borð í Samtakaskútunni. Frá upphafi hafði baráttan verið drifin áfram af ögrandi skemmtanasjúkum drottningum, droppátum og uppreisnarfólki af öllu tagi ásamt einstaka menntamönnum. En nú þegar storminn fór að lægja og það var orðið tiltölulega óhætt að koma út, barst okkur stór liðsauki af lífsglöðu, drífandi og hæfileikaríku sérmenntuðu fólki – og gamla liðið hvarf smátt og smátt inn í baklandið. Það urðu kynslóðaskipti í mörgum skilningi.

Böðvar var sjálfur einn þeirra sem kvöddu starfið í þessum kynslóðaskiptum. „Ég var náttúrulega orðinn lúinn af þessu öllu saman, en mér fannst þetta einhvern veginn bara vera í höfn. Þetta var klikkuð hugsun, en mér fannst það bara. Alþingi var komið í þetta og allt svona, komnar allar þessar tengingar vegna alnæmis og byrjað að ræða um réttindi fyrir samkynhneigða. Þá fannst mér mínu hlutverki vera lokið. Þá fór að koma inn í Samtökin fólk úr háskólanum sem fór meira í þessa bjúrókratísku vinnu, að mæta á fundi niðri á Alþingi og svona. Ég bara fílaði þetta ekki. Þetta var ekki mín deild. Það voru aðrir betur fallnir til þess heldur en ég.“

Lilja Sigurðardóttir að dytta að einhverju á Lindargötunni í tiltektarrispu.„Þetta hús hékk saman á málningunni og sjálfboðavinnunni“ rifjar Lilja upp.

Vorið 1994 hafði Margrét Pála Ólafsdóttir tekið við formennsku og einsett sér „að gera Samtökin ’78 að faglegum félagasamtökum,“ eins og hún orðaði það í viðtali við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur í 30 ára afmælisritinu. „Það var ekki í boði fyrir samtökin að vera áfram fámennur skemmtiklúbbur, í útjaðri samfélagsins.“ Ný kynslóð var tekin við og bar með sér nýjar áherslur. Klámsafnið sem trekkti svo að í árdaga fékk að fjúka og kynlífsrólan sem hangið hafði í kjallara Lindargötunnar sömuleiðis. Af sérhæfðari starfsemi og auknum opinberum umsvifum leiddi enn fremur að hlutverk sjálfboðaliða og félagsmanns tóku að greinast í sundur. Ekki voru allir félagar sáttir við þessar breytingar, sérstaklega ekki þeir sem höfðu borið skemmtanalífið uppi á fyrstu árunum.

Matthías Matthíasson var hluti af kynslóðinni sem tók við um þetta leyti. Hann kom fyrst á vettvang árið 1994 og tók þátt í starfseminni með einhverjum hléum allt fram til ársins 2016. Matthías minnist þess að á tíunda áratugnum hafi orðið miklar breytingar í átt að aukinni fagvæðingu. „Þessi grasrótarfílingur sem var í gangi þegar ég kom inn á Lindargötuna fyrst, hann var svolítið að minnka.“ Rík áhersla var lögð á að byggja upp Samtökin sem baráttufélag fyrir mannréttindum, sem skilaði sér í fjölda réttarbóta á sviði fjölskyldulöggjafar og verndar gegn hatursorðræðu á síðustu árum 20. aldar. Að vissu leyti var þetta stefnubreyting en um leið ákveðið afturhvarf til hinna metnaðarfullu hugsjóna sem „fótboltafélagið“ hafði sett sér í upphafi.

Vaktaskiptin á fyrri hluta tíunda áratugarins urðu heldur ekki þau síðustu. „Hópurinn þarna fyrst, Kristín Sævars og fleiri einstaklingar, voru mjög kappsfullir alveg í byrjun og voru í svolítinn tíma,“ rifjar Matthías upp um félaga sína í baráttunni á tíunda áratugnum. „En svo verða skil upp úr aldamótum.“ Matthías gegndi formennsku árið 1999–2000 og tók sér svo nokkurra ára hlé til að sinna öðrum verkefnum. „Þegar ég kem aftur er kominn alveg nýr hópur. Þá var eiginlega enginn eftir af þeim sem höfðu verið áður.“

Það var einmitt um þetta leyti sem næsta bylgja fagvæðingar átti sér stað. Nú var áherslan ekki síst á hlutverk Samtakanna sem þjónustuaðila fyrir félagsfólk, meðal annars með stofnun formlegrar ráðgjafarþjónustu þar sem faglært fólk veitti viðtöl (Matthías varð síðar einn þessara ráðgjafa). Í 30 ára afmælisritinu er einmitt fjallað um Samtökin sem „fjölbreytta þjónustustofnun“ sem þurfi að geta sinnt ýmsum þörfum skjólstæðinga sinna.

Breytingar á eðli starfseminnar, úr félagslegu athvarfi í átt að hagsmunabaráttu og faglegum þjónustuaðila, hafa eflaust átt sinn þátt í því að sjálfboðaliðar stöldruðu skemur við en á fyrstu árunum. En á þriðja og fjórða áratug starfseminnar hafði aukið andrými í samfélaginu einnig sitt að segja. Fríða Agnarsdóttir hóf að venja komur sínar á Laugaveginn í kringum árið 2005. Hún mætti þar á barinn á opnum húsum og var fljótlega farin að standa vaktina fyrir innan barborðið. Að sögn Fríðu höfðu breytingar á tíðaranda mikil áhrif á aðsókn í félagsmiðstöðina. „Það voru komnir fleiri staðir fyrir hinsegin fólk, og það kom tímabil þar sem það virtist ekki vera eins mikil þörf.“ Samtökin voru ekki lengur eina athvarfið sem fólk átti.

Eins hafa einstaklingar alla tíð ofreynt sig í störfum fyrir félagið, orðið frá að hverfa vegna heilsu og gengið í gegnum það sem nú er gjarnan nefnt „kulnun“, þótt það orð hafi lengst af ekki verið notað. Á fyrstu árunum átti fólk ekki í mörg hús að venda þótt álagið af því að tilheyra jaðarsettum hópi gæti verið sligandi. Félagslega andrýmið sem skapaðist þegar baráttan tók að skila árangri átti eflaust sinn þátt í því að þau sem ofreyndu sig gátu horfið frá þegar þau þurftu á því að halda.

Fagvæðing Samtakanna ’78 er samofin sögu þeirra allt frá upphafi, þótt breytingarnar hafi verið mishraðar eftir tíðaranda og áherslum hjá forystu félagsins hverju sinni. Greina má fyrsta vísinn að henni í metnaðarfullum stefnuskrám upphafsáranna en í kjölfar alnæmisáranna hafa skipulagsbreytingar einatt miðað í þá átt að færa viðkvæm, erfið verkefni yfir til fagfólks og umbuna fyrir slík störf eftir megni. Í ljósi þess er athyglisvert að hve miklu leyti grunnstoðir starfseminnar eru upprunalegar. Ráðgjöf, fræðsla og félagsheimili hefur verið á sínum stað síðan snemma á níunda áratugnum, ungliðastarfið bættist við undir lok þess áratugar og öll þessi starfsemi nema ráðgjöfin fer enn að allnokkru leyti fram í sjálfboðavinnu.
Sambúð fjársveltis og fagvæðingar hafði þær afleiðingar að flestir þeir fagaðilar sem störfuðu fyrir Samtökin voru sjálfir tengdir félaginu. Í grein um rekstur félagsins úr ritinu Stjórnun og rekstur félagasamtaka frá árinu 2008 ritar þáverandi framkvæmdastjóri, Hrafnkell T. Stefánsson: „Löng hefð er fyrir því að leita til velviljaðra einstaklinga með sérfræðiþekkingu á tilteknum sviðum sem oft og tíðum gefa vinnu sína. Oft er þetta fólk félagar eða persónulega tengt félagsfólki og vill þannig sýna stuðning sinn í verki.“ Kosturinn við þetta var að þessir einstaklingar þekktu iðulega vel til félagsins og báru hag þess fyrir brjósti.
Í dag rekur fólk sem þekkir starfsemi félagsins einungis úr fjarlægð einatt upp stór augu þegar það heyrir að hjá Samtökunum séu ekki nema þrír til fjórir fastráðnir starfsmenn. Lengst af hefðu Samtökin þó ekki getað látið sig dreyma um slíkt starfsmannahald. Fyrsti framkvæmdastjórinn var ráðinn í 50% starf árið 1994 til að sinna almennum skrifstofustörfum og fræðslufulltrúi í sama starfshlutfall árið 2001. Haustið 2007, fyrir hrun, voru bæði stöðugildi komin upp í 100% en rekstrarstyrkir félagsins drógust snarplega saman innan tíðar og fór samanlagt starfsmannahald ekki aftur upp fyrir eitt stöðugildi fyrr en haustið 2016.
Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri félagsins síðan 2017, metur að tæpur helmingur af starfsemi félagsins fari nú fram í sjálfboðavinnu. „Þegar ég hóf störf hjá félaginu unnu sjálfboðaliðar að meðaltali um 100 tíma á viku, eða sem samsvarar 2,5 stöðugildum. Einhver hluti þeirra verkefna hefur flust yfir á launað starfsfólk síðan, svo í dag er þetta nær hálfu öðru stöðugildi í sjálfboðavinnu á móti þremur stöðugildum launaðs starfsfólks.“ Sjálfboðastörfin hafa líka verið „fagvædd“ á sinn hátt – jafningjafræðarar og umsjónaraðilar í félagsmiðstöð ungliða hljóta t.d. formlega þjálfun fyrir verkefni sín.

Þorvaldur Kristinsson, Fríða Agnarsdóttir og Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir búa bókahillur af bókasafni Samtakanna ’78 undir flutninga á nýtt heimili. Hillurnar voru seldar bókasafni Fjallabyggðar á Ólafsfirði þegar samtökin gáfu Borgarbókasafni og Þjóðarbókhlöðu bókakost sinn árið 2014.

Athvörf ný og gömul

Athvarfið sem Samtökin ’78 buðu skipti þó enn gríðarmiklu máli, sérstaklega fyrir einstaklinga sem voru að stíga sín fyrstu skref út úr skápnum eða félagslega einangraðir að öðru leyti. Þegar húsnæði Samtakanna lokaði til lengri eða skemmri tíma gat það því haft mikil áhrif á þátttöku fólks í starfinu og afstöðu þess til félagsins. Fríða minnist þess að breytingar á barnum á Laugaveginum sumarið 2010 hafi lagst illa í marga félaga. „Húsnæðið var lokað í það langan tíma að mörgum fastakúnnum fannst þetta fáránlegt.“

Jóhann G. Thorarensen gerði sig ekki heimakominn á Laugavegi fyrr en ári síðar, eftir að barinn var kominn í eðlilegt horf. Hann fylgdist hins vegar grannt með umræðum um fyrirhugaða flutninga af Laugavegi á Suðurgötu sem upphófust skömmu síðar. Fríða og Jóhann lýsa bæði Laugavegi 3 sem ákveðnu skjóli fyrir þau sem þangað vöndu komur sínar. Rótið sem fylgdi flutningunum, nýtt og sýnilegra húsnæði á jarðhæð og ekki síst eins og hálfs árs húsnæðislaust tímabil á árunum 2014–15 raskaði þessu skjóli fyrir marga. Afleiðingin varð sú að margir virkir þátttakendur í félagsstarfi Samtakanna hurfu af vettvangi. „Stór hluti af því fólki kom ekki [á Suðurgötuna],“ segir Jóhann, „eða kom mjög sjaldan.“ Andrúmsloftið hafi verið gott á báðum stöðum en á Suðurgötunni sé allt annar hópur en var á Laugaveginum.

Með nýjum hópi fastagesta komu nýir sjálfboðaliðar og ný verkefni litu dagsins ljós í bland við gömul. Ein þeirra sem borið hafa ferska strauma inn í félagið á Suðurgötuárunum er listfræðingurinn Ynda Eldborg. Hún bjó um árabil á Englandi og kynntist þar sjálfboðastarfi, bæði innan listaheimsins og hinsegin samfélagsins. Við heimkomuna árið 2014 hafði Ynda frétt að Samtökin ’78 væru að flytja í nýtt húsnæði við Suðurgötu 3. Flutningarnir skildu eftir sig ákveðið tómarúm: Bókakostur bókasafns Samtakanna hafði verið færður Borgarbókasafni og Þjóðarbókhlöðu að gjöf. Þótt notkun bókasafnsins hefði dalað mjög mikið á 21. öldinni var þess eigi að síður sárt saknað og hafa ýmsir reynt að fylla það tóm beint og óbeint með annarri menningarstarfsemi.

Í nýju húsnæði eygði Ynda tækifæri fyrir annað listform. „Ég hugsaði að þarna væri tilvalið rými fyrir myndir. Mér fannst kjörið að vinna myndlistinni framgang þarna og gera það á nýjum forsendum. Þótt myndlist hafi verið þáttur í starfi Samtakanna að minnsta kosti aftur til Brautarholtsáranna, þá hefur list hinsegin fólks ekki verið mikið sýnileg utan hinsegin samfélagsins. Það er eitt af því sem mig langar að gera, að gera hana sýnilega utan hinsegin samfélagsins og að hún öðlist viðurkenningu.“ Í samvinnu við þáverandi stjórn og Ásdísi Óladóttur þróaði hún hugmyndina að Galleríi 78, listagalleríi sem starfað hefur síðan í húsnæði félagsins undir dyggri stjórn Yndu og Ásdísar.

Laun erfiðisins

Eins og Böðvar og Ragnhildur hafa bæði lýst fólust laun sjálfboðaliðans á fyrstu starfsárunum ekki síst í því að eignast samfélag og efla sjálfsvirðingu sína eftir áralangt niðurbrot í fordómahríð samfélagsins. Þessi fyrsta kynslóð sjálfboðaliða hjá Samtökunum ’78 hafði sjaldnast tilefni til að horfa þakklát um öxl. Flestar fyrirmyndir þeirra og fordæmi voru erlendis og hér heima þurfti að byggja starfsemina frá grunni – byggja upp fótboltafélagið, eins og Böðvar komst að orði.

Síðari kynslóðum verður þó tíðrætt um að þær standi í þakkarskuld við forvera sína. „Það er gott að geta fengið að gefa eitthvað til baka af því sem Samtökin hafa gefið mér,“ segir Ynda um hvatana að stofnun Gallerís 78. Jóhann G. Thorarensen, fastakúnninn frá Laugavegi 3, ákvað að bjóða fram krafta sína eftir flutningana á Suðurgötu og hefur síðan verið ötull sjálfboðaliði í félagsheimilinu og setið þrjú ár í trúnaðarráði. „Ég var búinn að vera þiggjandi allt of lengi,“ segir hann. „Mig langaði að gefa til baka.“

Fáir sjálfboðaliðar hafa gefið jafn mikið til baka og af jafn ríkri ábyrgðartilfinningu og Fríða Agnarsdóttir. Auk óteljandi verkefna á sviði viðhalds, innkaupa, þrifa, ungliðastarfs og stjórnarsetu stóð hún vaktina á barnum á Laugavegi árum saman. „Þetta var þakklátt starf. Stundum var maður aleinn á barnum allt kvöldið, nema að það var einhver á bókasafninu. En þótt það kæmu ekki nema tveir allt kvöldið þá voru þeir þakklátir að það var opið. Mér fannst mikilvægt að halda þessu gangandi, að fólk hefði athvarf til að koma í.“

Að sögn Fríðu skiptir gríðarlegu máli að forysta félagsins viðurkenni vel unnin störf. „Ég er ekkert að tala um peningaupphæðir, bara að segja: „Takk fyrir frábært starf.“ Það skiptir rosalega miklu máli þegar þú ert með sjálfboðaliða að þeim sé umbunað einhvern veginn. Bara að fá sér vínglas eða kókglas saman og þakka fyrir.“ Eftirtekt og þakklæti forsvarsaðila félagsins segir Fríða þó að hafi verið upp og ofan. „Það var mjög misjafnt hvort stjórnir tækju eftir því sem maður gerði eða ekki,“ segir Fríða. „Stundum fannst mér eins og það væri bara ætlast til þess, bara gert ráð fyrir því að hitt og þetta væri gert og ekki hugsað út í að ég væri ekki að þiggja laun fyrir þetta.“ Aðrar stjórnir segir hún að hafi þó verið mun meðvitaðri um vinnuframlag sjálfboðaliða.

Bak við tjöldin í Samtökunum ’78 hefur alltaf verið fólk sem vinnur baki brotnu að verkefnum sem fylgir lítil virðing eða viðurkenning. Einn þessara manna var Sigþór Sigþórsson. Hann gekk í nánast öll störf í félaginu í tvo áratugi, allt frá því að hann kom þangað fyrst árið 1987. „Hann var aldrei almennilega virtur,“ segir Böðvar Björnsson um Sigþór, „en svo var búist við því að hann ætti að gera allt.“ Fríða Agnarsdóttir kynntist Sigþóri þegar hann stóð vaktina á barnum á Lindargötunni. „Hann var bak við borðið og vildi ekki láta mikið á sér bera. Allt í einu var bara búið að ganga í verkið. Hann var eins konar falinn starfsmaður,“ segir Fríða, en hún tók við verkefnum Sigþórs þegar hann dró sig út úr starfseminni í nóvember 2009.
Eftirfarandi er brot úr minningargrein sem Þorvaldur Kristinsson ritaði um Sigþór og birtist í Morgunblaðinu þann 16. maí 2014:
„Þegar við lítum yfir hóp samkynhneigðra félaga okkar hættir okkur stundum til að stara um of á fólkið sem skipar sér í framvarðarsveitina, en gleymum fótgönguliðinu sem fylgir fast á eftir. Án þess hefðu engir sigrar unnist og engin hreyfing verið merkjanleg. Því það er fótgönguliðið, þessi lítt sýnilegi hópur, sem myndar aflið sem skiptir máli í hverri þeirri grasrótarhreyfingu sem sækir á brattann.
Einn sá þrautseigasti í þeim hópi var Sigþór. Hann birtist fyrst í félagsmiðstöð Samtakanna ’78 á Lindargötu 49 kvöld eitt árið 1987 og sagðist nýkominn að norðan.
Í vikunni þar á eftir var hann farinn að taka til hendinni, byrjaður að þrífa, mála og smíða og nokkru síðar var hann sestur í stjórn félagsins og orðinn gjaldkeri þess. Því starfi gegndi hann í fimm ár og vann það einstaklega vel. Ekki var þó framlagi hans þar með lokið því að í tvo áratugi sinnti hann margvíslegum störfum á vettvangi Samtakanna ´78, kom að verkefnum á skrifstofu félagsins milli þess sem hann hélt uppi fyrri iðju, að smíða, mála, þrífa og taka á móti þeim sem komu í fyrsta sinn á vettvang. Hann vissi allt um það hve fyrstu skrefin inn í hópinn geta verið erfið og var laginn við að mæta nýjum gestum á þeirra forsendum. „Það er hagur félagsins að þeir komi aftur,“ sagði hann af þeirri diplómatísku hyggju sem honum var eiginleg. Og þegar Sigþóri fannst sig skorta verkefni á vettvangi síns gamla félags leitaði hann lengra til að veita athafnaseminni útrás og var árum saman ötull liðsmaður félagsins MSC Ísland þar sem hommar komu saman og ræktuðu fjörugan félagsskap. Þar varð hann að sjálfsögðu líka gjaldkeri, málari, smiður og gestgjafi. Ekki er öll sagan sögð því að hann var líka einn af brautryðjendum Hinsegin daga í Reykjavík og vann það meðal annars sér til ágætis að smíða fyrstu vagnana sem ekið var niður Laugaveg í Gleðigöngunni á árum áður.“

Fríða straujar fartölvur fyrir Samtakamáttinn 2013.

Jóhann og Ynda taka undir með Fríðu um mikilvægi stuðnings frá stjórn og starfsfólki. Ynda nefnir þar sérstaklega stuðning framkvæmdastjóranna Auðar Magndísar Auðardóttur og Daníels Arnarssonar. „Ég hef stundum verið alveg að því komin að gefast upp,“ segir hún, „en Daníel tekst alltaf að peppa mig upp og koma með nýjar pælingar og hugmyndir inn í myndina, sem er ómetanlegt.“

Gegnum tíðina hafa stjórnir og starfsfólk félagsins þó gefið stuðningi og umbun til sjálfboðaliða talsverðan gaum. Fyrsta formlega umbunarkerfið var sett á laggirnar þegar Margrét Pála Ólafsdóttir var formaður um miðjan tíunda áratuginn. Matthías var einn þeirra sem nutu góðs af þessu skipulagi. „Það voru haldnar vinnustofur fyrir utan bæinn og farið að halda vel utan um hópinn,“ minnist hann. „Þetta utanumhald utan um sjálfboðaliða var svolítið grasrótarkennt á þessum tíma en varð alltaf meira og meira formlegt.“ Á þessu tímabili var líka tekinn upp eins konar gjaldmiðill á vegum Samtakanna, svonefndir Samtakapunktar. „Þeir voru hluti af því sem kallaðist Bleika efnahagssvæðið,“ segir Matthías, „umbun til sjálfboðaliða sem gátu leyst út punkta hjá ákveðnum vildaraðilum Samtakanna ’78 en fyrst og fremst hjá Samtökunum sjálfum.“

Samtakapunktarnir voru lagðir niður sem hluti af fjárhagslegu aðhaldi nokkrum árum síðar, þegar Matthías var sjálfur formaður, og að hans sögn hvarf þetta utanumhald um sjálfboðaliða í kynslóðaskiptunum um aldamótin. „Eftir það var alveg viðleitni en hún var öðruvísi. Vinnustofur, samþjöppun og pælingar um þessa sameiginlegu sýn voru síður, en frekar ákveðin umbun.“ Ef til vill réðst þetta af því að þjónustuhlutverkið tók að ryðja sér til rúms, meðan tíundi áratugurinn hafði að miklu leyti helgast baráttu fyrir grundvallarréttindum þar sem sameiginleg framtíðarsýn skipti höfuðmáli. Matthías minnist þess að á árunum eftir aldamót hafi verið byrjað að halda matarboð fyrir sjálfboðaliðana til að þakka þeim fyrir vel unnin störf. „Það var mjög fallega gert og skemmtilegt að halda því.“

Stjórn Margrétar Pálu var þó ekki sú síðasta til að innleiða formlegt umbunarkerfi. Auður Magndís Auðardóttir var ráðin framkvæmdastjóri árið 2015 og átti þátt í innleiðingu nýs umbunarkerfis sjálfboðaliða veturinn 2015-16 ásamt þáverandi formanni, Hilmari Hildar Magnúsarsyni. „Þegar ég kem þarna inn var mjög stór hluti starfsins borinn uppi af sjálfboðaliðum: öll fræðslan, félagslífið, allt nema daglegur rekstur og bein hagsmunagæsla í fjölmiðlum,“ útskýrir Auður. „Mér fannst rökrétt að verja einhverju af fjármunum Samtakanna í að umbuna þeim til að allir myndu ekki brenna upp og sýna að stjórn og framkvæmdastýra meta þetta brjálæðislega framlag mikils. Þetta voru ekki rosalegar umbanir en þær höfðu verið litlar eða engar.“ Í stað þess að innleiða punktakerfi eða að tengja umbun við tiltekin embætti var nú brugðið á það ráð að umbuna eftir fjölda unninna tíma í sjálfboðavinnu. Verðlaunin miðuðust fyrst og fremst við að efla félagsleg tengsl sjálfboðaliða, t.d. með partíum og kvöldverðarboðum.

Þessar tilraunir hafa þó gefist misvel. Formlegt umbunarkerfi þykir Fríðu heldur tilgerðarleg hugmynd. „Þegar þú vinnur þér inn einhverja punkta, þá ertu eiginlega ekki að gera þetta af hugsjón. Áður þá var fólk meira að þessu af því að því fannst það vera að gera gott fyrir félagið, ekki fyrir sig. Þetta var nauðsynlegur þáttur fyrir félagsmenn.“ Líklega á þessi breyting einmitt upptök sín á tíunda áratugnum, þegar verkefnin urðu sérhæfðari, fagvæðingin hófst og hlutverk félagsmanns og sjálfboðaliða tóku að vaxa í sundur. Þegar ekki var lengur sjálfsagt að allir félagar ynnu sjálfboðastörf skapaðist þörf til að viðurkenna sérstaklega framlag þeirra sem lögðu þau á sig. Hvort hægt er að gera það kerfisbundið og af sanngirni, án þess þó að það rýri hlutverk hugsjónarinnar, er svo önnur saga.

Sigþór Sigþórsson, maðurinn á bak við tjöldin.

Að fá að tilheyra:
Nýjar raddir og sjálfsmyndir

Í sögu sjálfboðaliða Samtakanna ’78 er þó líka nauðsynlegt að skoða ósýnileika þeirra sem bjuggu eða búa við skert tækifæri til að taka þátt í störfum félagsins. Húsnæði þess var að mestu óaðgengilegt fólki í hjólastól þar til 2015 og enn er ýmsum atriðum er varða aðgengi fatlaðs fólks að Samtökunum ábótavant. Fólk af erlendum uppruna hefur einnig haft takmörkuð tækifæri til þátttöku í starfinu, sérstaklega þau sem ekki hafa náð fullum tökum á íslensku.

Eins og svo oft áður hafa sjálfboðaliðar átt frumkvæðið að mikilvægum úrbótum. Andrés Peláez, hommi frá Gvatemala sem á íslenskan eiginmann, átti stóran þátt í því að árið 2016 fór félagið að bjóða upp á sérstök alþjóðakvöld fyrir fólk af erlendum uppruna. „Mig langaði að skapa vettvang fyrir erlenda íbúa á höfuðborgarsvæðinu til að koma saman og deila reynslu sinni af því að búa á Íslandi. Í mínum huga var þessum kvöldum ætlað að sporna við einmanaleika og einangrun, vandamálum sem hafa mikil áhrif á hinsegin samfélagið,“ segir Andrés um tilurð kvöldanna. Að ýmsu leyti kallast þessi lýsing á við lýsingar á upphafsárum Samtakanna, þar sem ríkasta þörfin var fyrir félagslegt athvarf og sjálfsstyrkingu. En hinsegin fólk af erlendum uppruna á Íslandi er þó og verður miklu sundurleitari hópur heldur en fyrstu kynslóðir félaga í Samtökunum ’78.

Lengst af voru Samtökin ’78 félag lesbía og homma. Fólk úr öðrum hinsegin sjálfsmyndarhópum hafði því litla ástæðu til að leita til félagsins og gat fengið slæmar viðtökur ef það hafði samband. Stormasamt samband félagsins við tvíkynhneigða hafði lengi mikil áhrif á tækifæri þeirra og löngun til þátttöku í starfinu. Og jafnvel þegar félagið var byrjað að þreifa fyrir sér með að verða „LGBT-félag“ eins og algengt var orðið í nágrannalöndum örlaði á íhaldssemi gagnvart erindum úr nýjum áttum. Til dæmis hafði núverandi formaður Intersex Íslands, Kitty Anderson, samband við skrifstofu félagsins um miðjan fyrsta áratug 21. aldarinnar og fékk þau svör að intersex væri allsendis ótengt málefnum samkynhneigðra og ætti ekki heima þar. Þau viðhorf áttu þó eftir að breytast. Eftir stofnun Intersex Íslands tæpum áratug síðar, árið 2014, þótti aðalfundi Samtakanna sjálfsagt að félagið tæki intersex baráttumál upp á sína arma.

Þegar áður ósýnilegir sjálfsmyndarhópar eru að reyna að auka samstöðu sína og sýnileika í samfélaginu virðast sjálfboðastörf í Samtökunum ’78 enn gegna mikilvægu hlutverki. Eitt skýrasta dæmið um þetta er mikil þátttaka trans fólks í starfinu undanfarinn áratug. Þessu hlutverki er hvergi nærri lokið; enn eru nýir hinsegin sjálfsmyndarhópar að ryðja sér til rúms og líta til Samtakanna ’78 sem vettvangs til að eignast samfélag og sjálfsvirðingu. Orð Böðvars og Ragnhildar um sköpun samfélags og sjálfsmyndar á níunda áratugnum endurspeglast í miklum dugnaði sjálfboðaliða úr BDSM á Íslandi og nýstofnuðu félagi eikynhneigðra, Ásum á Íslandi, síðastliðin ár. Fólk úr þeim hópum hefur til dæmis verið boðið og búið að taka að sér umsjón með opnum húsum á Suðurgötu, meðan rótgrónari sjálfsmyndarhópar hafa sýnt þeim þætti starfseminnar minni áhuga.

Gluggar á Suðurgötu 3 málaðir fyrir veturinn. Ásta Lovísa Arnórsdóttir, Viktoría Birgisdóttir og greinarhöfundur munda penslana á haustdögum 2016.

Það er fullt eftir ógert.

„Margir vilja kannski fyrst og fremst láta minnast sín, og það er kannski allt í lagi upp að vissu marki, en í sjálfu sér er gaman að segja sögu allra.“

 – Matthías Matthíasson

Það að segja sögu allra er í senn háleitt og fráleitt markmið. Engin grein getur gert framlagi allra skil sem unnið hafa ómetanleg störf fyrir félagið í fjörutíu ára sögu þess. Um 150 manns hafa setið í stjórn þess til lengri eða skemmri tíma og ókunnur fjöldi til viðbótar sinnt ómissandi verkefnum án þess að taka sæti í stjórn. Þessi fjölmenni hópur fólks er mestanpart ósýnilegur, í það minnsta út fyrir sinn nánasta hóp vina og samferðafólks.

Eflaust liggja þar margar ástæður að baki. Undanfarin ár hefur oft verið rætt um skort á samskiptum milli kynslóða hinsegin fólks og á hún eflaust stóran þátt í þessu. Hluti af gleymskunni er eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing þess að tíminn líður, sjálfboðaliðar koma og fara, og aðeins lítill hluti þess sem sem er á seyði hverju sinni er varðveitt sem hluti af „sögunni“.

Meðvitundin um það að vera þátttakandi í einhverri „sögu“ er heldur ekki sjálfgefin. „Við vissum aldrei að Samtökin yrðu neitt sérstakt,“ segir Böðvar. „Þetta var bara lífið sjálft. Þetta fékk ekki merkingu fyrr en löngu, löngu síðar. En ef maður hefði vitað á sínum tíma að það yrði eitthvað merkilegt úr þessu, þá hefði maður náttúrulega skráð þetta allt saman niður og tekið myndir og sett í möppu. Það var enginn að pæla í því.“

Síðari kynslóðir eru óneitanlega meðvitaðri um sögulegt samhengi og mikilvægi Samtakanna ’78. Á hinn bóginn ekki er víst að þau finni öll sömu þörf til að taka þátt í starfi félagsins og jafnaldrar þeirra hefðu fundið til á árum áður. Vettvangar og tækifæri eru fleiri, fordómar minni og margt hinsegin fólk upplifir ekki sérstaka þörf fyrir átthagafélag, hvað þá löngun til að starfa fyrir það í sjálfboðavinnu. Matthías nefnir þar sérstaklega marga yngri homma sem hann þekkir. „Ég held að þeirra félagslega hugmyndafræði sé önnur og áhuginn minni. Það getur alveg verið að þeir muni vakna til lífsins á einhverjum tímapunkti ef skóinn kreppir. En eins og staðan er núna þá er þeim alveg sama, þeir vilja bara djamma eða vera með vinum sínum og eru alveg sáttir.“

Fríða telur þó að fólk sem finnur ekki þörf til að leggja sitt af mörkum ætti að hugsa sig tvisvar um. „Í dag finnst svo mörgum sjálfsagt að þetta félag sé bara til staðar og eigi að vinna fyrir sig. Auðvitað er fullt af fólki sem brennur af áhuga og vinnur af góðri meiningu. En svo er fullt af fólki sem segir bara: „Af hverju er ekki þetta og þetta gert?“ Af hverju gerir þú það ekki? Fólki finnst einhvern veginn allt vera komið svo langt. Við erum ekki komin eins langt og við höldum. Það er fullt eftir ógert.“

Fleiri greinar úr afmælisritinu eru á vefnum!