Skip to main content

Spurt & svarað

Hér gerum við heiðarlega tilraun til að svara sem flestum spurningum um starfsemi Samtakanna ’78, hinseginleikann og annað er brennur á félögum okkar. Þú getur líka alltaf verið í sambandi við okkur

Ráðgjöf

Hvernig bóka ég ráðgjöf?

Hægt er að bóka ráðgjöf á heimasíðu Samtakanna ‘78 hér: Bóka ráðgjöf. Einnig er hægt að hringja í síma 552-7878 á opnunartíma skrifstofu, senda okkur línu á Facebook, senda póst á skrifstofa@samtokin78.is eða vera í bandi hér.

Hvað er falið í ráðgjöfinni sem Samtökin ‘78 bjóða upp á?

Ráðgjöfin er fyrst og fremst fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra og er markmiðið að styðja og auka lífsgæði hinsegin samfélagsins. Ráðgjöfin er öllum opin, félagsfólki jafnt sem öðrum. Nær allir sem leita til ráðgjafa samtakanna eiga það sameiginlegt að vera hinsegin eða aðstandendur hinsegin fólks. Flest eru að takast á við mál sem tengjast kynhneigð eða kynvitund á einhvern hátt. Mörg eiga við kvíða, þunglyndi og/eða félagslega einangrun að stríða og einnig geta verið vandkvæði í samskiptum við fjölskyldu. Ekkert tengt hinseginleikanum er ráðgjöfinni óviðkomandi. Hægt er að panta ráðgjöf hér.

Hver eru þau sem starfa sem ráðgjafar hjá Samtökunum ‘78?

Hjá samtökunum er starfandi teymi fagaðila sem sér um félags- og sálfræðiráðgjöf. Ráðgjafarnir koma úr ólíkum áttum og hafa ólíka reynslu, bakgrunn og menntun. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í hinsegin málefnum. Þeir eru því vel í stakk búnir til að takast á við flestan þann vanda sem einstaklingar koma með auk þess að taka fullt tillit til kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar og/eða kyneinkenna einstaklinga. Betur er hægt að kynnast ráðgjöfunum hér.

Er boðið upp á að sækja sér ráðgjöf á fleiri tungumálum en íslensku?

Já, einnig er boðið upp á ráðgjöf á ensku, spænsku og pólsku. Sé ekkert þessa tungumála skjólstæðingnum aðgengilegt er notast við túlkaþjónustu. Tekið skal fram í bókun ef túlkaþjónustu sé þörf og á hvaða tungumáli og Samtökin ‘78 gera sitt besta til að mæta þeirri þörf. Hægt er að panta ráðgjöf hér.

Hvaða ástæður búa að baki þess að fólk vilji nýta sér ráðgjafarþjónustu Samtakanna ‘78?

Mjög misjafnt er hver tilgangur fólks er sem leitar til ráðgjafanna. Sumir koma eingöngu vegna hinsegin mála hjá þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum, á meðan aðrir leita til ráðgjafanna vegna annarra mála samhliða þeim, vitandi að þeim verður vel tekið og að hinsegin málefni munu ekki flækjast fyrir ráðgjöfinni. Fólki getur þótt erfitt að leita til fagaðila og ræða sína kynhneigð, kyneinkenni og/eða kynvitund án þess að vera viss um að sá aðili hafi þekkingu á þessum málaflokkum. Samtökunum ‘78 hafa borist fregnir frá félagsmönnum sem hafa leitað til ráðgjafa annars staðar og fengið ófullnægjandi þjónustu vegna vanþekkingar á hinsegin málefnum og jafnvel upplifað fordóma. Þetta getur m.a. birst í tilhneigingu meðferðaraðila til að taka ekki tillit til kynhneigðar, kyneinkenna og/eða kynvitundar. Einnig þekkist það að meðferðaraðili vilji alhæfa, tengja alla líðan við kynhneigð, kyneinkenni og/eða kynvitund og gera þessar breytur að aðalumræðuefni þótt þær séu það ekki og fólk sé að leita sér ráðgjafar til að ræða allt önnur mál. Einstaklingar sem leita til ráðgjafa hjá Samtökunum ´78 eru því að koma inn á öruggt svæði. Þar er kynhneigð, kyneinkennum og/eða kynvitund þeirra tekið sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut og ekki lagt út af þeim breytum ef það á ekki við. Hægt er að lesa sér til um ráðgjöfina hér.

Hve mörg nýta sér ráðgjafarþjónustu Samtakanna ‘78 árlega?

Árið 2019 var fjöldi skjólstæðinga 345 og viðtala 905. Viðtölum fjölgaði þá um 75% milli ára en árið 2018 hafði fjöldi viðtala verið 516 við 211 skjólstæðinga. Fjöldi þeirra sem nýta sér þessa þjónustu Samtakanna eykst því hratt. Hægt er að lesa nánar um tölur úr ráðgjöfinni í ársskýrslum Samtakanna: Ársskýrslur – Samtökin ’78.

Hvað má ræða í ráðgjöfinni?

Ekkert mál er of stórt eða of smátt til að ræða í ráðgjöfinni og gildir fullur trúnaður um það sem fer fram milli ráðgjafa og skjólstæðings. Hægt er að lesa nánar um ráðgjöfina hér. Til að bóka ráðgjöf, smelltu hér.

Ég er í sjálfsvígshugleiðingum, hvert get ég leitað?

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum, bendum við á að leita aðstoðar hjá Geðdeild Landspítalans: Bráðaþjónusta geðsviðs. Utan þjónustutíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. Við bendum einnig á hjálparsíma og netspjall Rauða Krossins, 1717: Hjálparsíminn 1717 og netspjallið | Hjálparsíminn 1717

Hvað er fjallað um í stuðningshópunum?

Umfjöllunarefni stuðningshópana fer eftir því hvað liggur fólki á hjarta sem mætir. Hægt er að hafa samband við skrifstofu Samtakanna til að fræðast betur um stuðningshópana og hvernig þeir fara fram í síma 552-7878 eða með því að senda erindi.

Er ég nógu hinsegin til að geta nýtt mér ráðgjafarþjónustu Samtakanna ‘78?

Viðtal við ráðgjafa gæti verið fullkominn staður til að ræða þessa spurningu. Það eru öll velkomin í ráðgjöf, óháð kynhneigð, kynvitund, kynþætti og svo framvegis. Ekki hika við að hafa samband og bóka viðtal hér: Bóka ráðgjöf.

Mig langar til að vita meira um stuðningshópana, er til stuðningshópur þar sem ég passa inn?

Sem stendur halda Samtökin ‘78 úti sex stuðningshópum sem eru eftirfarandi: stuðningshópur trans kvenna, hópar fyrir trans ungmenni 13-17 ára annars vegar og 18-25 ára hins vegar, stuðningshópur spænskumælandi og loks hópur fyrir aðstandendur trans fólks. Frekari upplýsingar má finna hér

Finnst þér enginn þessara hópa eiga við þig? Þá viljum við benda þér á ráðgjafarþjónustu okkar sem nálgast má hér auk þess sem alltaf má senda ábendingar um það sem betur mætti fara hér.

Bjóða Samtökin ‘78 upp á lögfræðiráðgjöf?

Síðan í október 2015 hafa Samtökin ’78 boðið upp á lögfræðiráðgjöf til félagsfólks. Aðstoð lögfræðings felst í að leiðbeina um þau lagalegu úrræði sem standa einstaklingi til boða að íslenskum rétti og innan stjórnsýslunnar. Þar með felst ráðgjöf ekki í lögmannsstörfum fyrir einstaka félagsmenn heldur í ráðgjöf um fyrstu skref og aðstoð við að meta hvaða rétt fólk á. Hægt er að bóka lögfræðiráðgjöf hér.

Réttindamál

Hvað er kynrænt sjálfræði?

Kynrænt sjálfræði eru lög sem samþykkt voru á Alþingi 18. júní 2019. Lögin fela í sér tvær meginbreytingar. Sú fyrri er hlutlaus kynskráning, þ.e. að hægt verður að skrá sig sem hvorki karl né konu – táknað með X á skilríkjum. Seinni meginbreytingin er að fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda“ af hendi heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Börn undir 18 ára aldri geta jafnframt skráð sitt rétta kyn og nafn í Þjóðskrá með samþykki foreldra. Ef samþykki foreldra liggur ekki fyrir geta þau leitað til sérstakrar sérfræðinefndar. Lögin eru mikil réttarbót fyrir trans og intersex fólk hérlendis.

Lög um kynrænt sjálfræði

Ég varð fyrir ofbeldi vegna þess að ég er hinsegin, hvað á ég að gera?

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi vegna hinseginleika er mikilvægt að tilkynna brotið hjá lögreglu. Hægt er að hringja í lögreglu í 112 eða tilkynna brot rafrænt hér: Lögreglan | Lögregluvefurinn.

Samtökin ‘78 halda einnig gagnagrunn yfir ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp á veg Samtakanna ‘78 hér: Tilkynna ofbeldi, mismunun, áreiti, hatursorðræðu eða hatursglæp. Vert er að athuga að Samtökin ‘78 tilkynna ekki til erindi sem berast til lögreglu, heldur er gáttin einungis hugsuð sem gagnasöfnun.

Samtökin ‘78 bjóða einnig upp á lögfræðiráðgjöf. Lögfræðiráðgjafi Samtakanna getur lagt mat hvort um stærra mál er að ræða sem þarfnast dómstóla. Í slíkum tilfellum vísar lögfræðiráðgjafinn á viðeigandi aðila. Hægt er að bóka lögfræðiráðgjöf hér: Bóka ráðgjöf.

Einnig bendum við á Bjarkarhlíð, en Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Hægt er að bóka tíma hér: Bjarkarhlíð.

Að lokum minnum við á ráðgjöf Samtakanna ‘78, en fyrstu þrír tímarnir eru þér að kostnaðarlausu. Hægt er að bóka tíma hér: Bóka ráðgjöf.

Hvernig haga ég skráningu kyns á eyðublöðum?

Samtökin ’78 og Trans Ísland hafa útbúið ítarlegar leiðbeiningar sem þú finnur á sérsíðu hér.

Hvar stendur Ísland í réttindamálum hinsegin fólks?

Samtökin ’78 eru ábyrg fyrir því að uppfæra Regnbogakort ILGA-Europe ár hvert. Endilega skoðaðu heimasíðu Regnbogakortsins hér eða útdrátt á íslensku hér.

Geta umsækjendur um alþjóðlega vernd (flóttafólk/hælisleitendur) leitað ráðgjafar hjá Samtökunum ’78?

Hinsegin umsækjendur um alþjóðlega vernd geta nýtt sér ráðgjafarþjónustu Samtakanna ’78. Hægt er að bóka ráðgjöf á heimasíðu Samtakanna ’78 hér.

Hvernig haga ég skráningu kyns á eyðublöðum?

Samtökin ’78 í samstarfi við Trans Ísland hafa gefið frá sér helstu upplýsingar um skráningu kyns á eyðublöðum, sem nálgast má hér.

Skrifstofa og húsnæði

Hvenær er opið hjá Samtökunum ‘78?

Opnunartími Samtakanna ‘78 er mánudaga til fimmtudaga milli klukkan 13 og 16. Þú getur haft samband í gegnum heimasíðuna, sent okkur póst á skrifstofa@samtokin78.is, bókað tíma með ráðgjöfum, starfsfólki eða stjórn, sent okkur facebook skilaboð, hringt í síma 552 7878 eða stoppað við hjá okkur.

Hvernig bóka ég fund með starfsmanni Samtakanna ‘78?

Hér! Einnig er hægt að senda tölvupóst á skrifstofa@samtokin78.is og við vísum þér áfram. Beint tölvupóstfang framkvæmdastjóra er daniel@samtokin78.is, teymisstýru ráðgjafar siggabirna@samtokin78.is, skrifstofustýru bergrun@samtokin78.is, rekstrarstjóra magnus@samtokin78.is og verkefnastjóra thorbjorg@samtokin78.is 

Er húsnæði Samtakanna aðgengilegt?

Húsnæði Samtakanna ’78 er með gott aðgengi fyrir hjólastóla. Eitt baðherbergjanna er fullgert til að mæta þörfum fólks með fatlanir og er að auki laust við kynjaskiptingu. Næsta aðgengilega bílastæði er hjá bílastæðasvæðinu fyrir ofan Samtökin ‘78, við Tjarnargötu. Einnig eru P stæði í bílastæðahúsi Ráðhúss Reykjavíkur, ská á móti húsnæði Samtakanna ’78. Næsta strætóstoppistöð er við Ráðhús Reykjavíkur eða Lækjartorg. 

Vert er að hafa í huga að þegar margt fólk er í rýminu getur bergmál valdið óþægindum fyrir þau sem nota heyrnartæki eða heyra illa. Ekki hefur verið ráðist í sérstakar aðgerðir til að bæta aðgengi sjónskertra að húsnæðinu. Við tökum á móti öllum ábendingum um það sem betur mætti fara, sem og spurningum.

Hér er hægt að skoða aðgengisstefnu samtakanna.

Hvernig leigi ég salinn?

Samtökin ’78 leigja salinn ekki út heldur er hann einungis notaður af Samtökunum ’78 sjálfum, hagsmunafélögum þess og tengdum aðilum. 

Má mæta niður í Samtökin ’78 án þess að eiga sérstakt erindi?

Já, öllum er velkomið að líta við í kaffibolla á skrifstofutíma Samtakanna ’78, mánudaga til fimmtudaga milli 13-16.

Hvað á sér stað á skrifstofu Samtakanna frá degi til dags?

Á skrifstofu Samtakanna ’78 starfa fjórir starfsmenn í fullu starfi. Bergrún er skrifstofustýra Samtakanna ’78 og svarar öllum erindum sem berast. Einnig sér hún um bókanir ráðgjafarinnar og fræðslunnar. Tótla er fræðslustýra Samtakanna ’78. Hennar starf felst í því að fræða ýmsa hópa um hinseginleikann og er hún því oft út úr húsi til að sinna fræðsluerindunum sem berast til Samtakanna. Sigga Birna er teymisstýra ráðgjafar og stuðningshópa, Þorbjörg er verkefnastjóri og tekur við málum sem snúa að mismunun og hatursorðræðu. Daníel er framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 og sinnir fjármálum félagsins, samskiptum við stjórnvöld, fjölmiðlaumfjöllun og málum sem tengjast réttindabaráttu hinsegin fólks, ásamt tilfallandi verkefnum. 

Að koma út

Hvernig kem ég út fyrir foreldrum?

Það er allur gangur á hvort og hvernig fólk kemur út fyrir foreldrum sínu og fer það að miklu leyti eftir sambandinu við foreldrana. Gott getur verið að setjast niður og segja frá í rólegheitum, skrifa bréf eða póst til þeirra eða fá aðstoð frá einhverjum sem þú treystir eins og kennara, vin eða maka. Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að leita til ráðgjafarþjónustu Samtakanna ‘78 til að fá ráð og aðstoð með að koma út. Til að bóka tíma í ráðgjöf smelltu hér: Bóka ráðgjöf.

Ég er trans og vil byrja ferli, hvert leita ég?

Fyrir fólk yngra en 18 ára sem hefja vill trans ferli er haft samband við Barna-og Unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Fyrir fólk eldri en 18 ára er haft samband við trans teymi Landspítalans í gegnum transteymi@landspitali.is. Hægt er hafa samband við þjónustuver Landspítalans í síma 543-1000.

Samtökin ‘78 bjóða upp á ráðgjöf og stuðningshópa fyrir trans fólk og aðstandendur þeirra. Hægt er að bóka ráðgjöf hér: Bóka ráðgjöf. Upplýsingar um stuðningshópa má nálgast hér á Facebook síðu Samtakanna ‘78. Sjá hér: Stuðningshópur trans kvenna, Stuðningshópur yngri trans ungmenna, Stuðningshópur eldri trans ungmenna og Stuðningshópur aðstandenda trans ungmenna.

Þarf ég að skilgreina mig?

Það er enginn krafa að skilgreina sig, hvort sem fólk er hinsegin eða ekki. Sumum finnst gott að skilgreina sig og upplifa sig þá tilheyra hópi. Aðrir hafa lítinn áhuga á að skilgreina sig og er það í góðu lagi. Allur gangur er á hvort eða hvernig fólk skilgreinir sig. Hægt er að lesa sér til um hinsegin hugtök og reynslusögur á fræðsluvef Samtakanna ‘78: www.otila.is.

Hvernig get ég stutt við hinsegin ástvin?

Gott getur verið að leita til ráðgjafarteymis Samtakanna ‘78 þegar kemur að stuðningi við hinsegin ástvin, en ráðgjafarnir okkar hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Hægt er að bóka tíma hér:  Bóka ráðgjöf.

Ég held að barnið mitt sé hinsegin, hvað á ég að gera?

Mikilvægt að styðja við barnið á sinni vegferð með skilning og kærleika. Gott getur verið að tala við óháðan aðila sem getur veitt ráð varðandi stuðning. Ráðgjafar Samtakanna ‘78 veita slíka ráðgjöf bæði fyrir aðstandendur og fyrir barnið ef þörf krefur. Hægt er að bóka tíma hér: Bóka ráðgjöf.

Ég er unglingur og nýkomið út úr skápnum og langar að kynnast fleiri í sömu sporum, hvernig eignast ég hinsegin vini?

Samtökin ‘78 bjóða upp á ýmis verkefni sem þjóna þeim tilgangi að stuðla að tengslaneti. Fyrir fólk á aldrinum 13-17 ára bjóðum við upp á Hinsegin félagsmiðstöðina, sem opin er vikulega á þriðjudagskvöldum. Frekari upplýsingar má nálgast hér og á Facebook, og á instagram @hinseginfelagsmidstods78.

Ég er á miðjum aldri og kom nýlega út úr skápnum, hvar kynnist ég hinsegin fólki á mínum aldri?

Nokkrir möguleikar eru í boði sem gætu aðstoðað við að kynnast hinsegin fólki. Hægt er að gerast sjálfboðaliði Samtakanna ‘78 og kynnast öðrum sjálfboðaliðum. Skráningar eru hér í gegnum heimasíðu: Ég vil gerast sjálfboðaliði.

Samtökin ‘78 eru einnig með starfræktan bókmenntaklúbb fyrir þau sem hafa áhuga á bókmenntum. Facebook hóp bókmenntaklúbbsins má nálgast hér: https://www.facebook.com/groups/1675590172737764/

Viðburðafélögin Loki – félagsskapur karla og kvára og Vera – hinsegin félag kvenna og kvára halda reglulega úti viðburðum saman og hvort í sínu lagi sem auglýstir eru á facebook og instagram.


Einnig er hægt að gerast sjálfboðaliði Hinsegin daga og kynnast fólki á meðan hátíðin stendur yfir. Auglýst er eftir sjálfboðaliðum á heimasíðunni þeirra: Ég vil gerast sjálfboðaliði 

Við mælum einnig með skemmtistöðunum Kíkí: https://www.facebook.com/Kikiqueerbar/ og Gauknum: Gaukurinn – Home sem eru ætlaðir hinsegin fólki eða innihalda dagskrárliði sem beint er að hinsegin fólki.

Hinsegin ferða-og brúðkaupsþjónustan Pink Iceland skipuleggur reglulega hinsegin viðburði og halda yfirlit yfir hinsegin viðburði sem eru í gangi hverju sinni á Facebook síðunni þeirra: Pink Iceland – Home.

Foreldrar mínir styðja mig ekki, hvað get ég gert?

Gott getur verið að leita til ráðgjafarteymi Samtakanna ‘78 þegar kemur að málum líkt og þessu, en ráðgjafarnir okkar hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Hægt er að koma eitt í tíma eða með foreldrum þínum, ef þú telur það gagnast. Ráðgjöfin er ókeypis. Tekið er við bókunum hér:  Bóka ráðgjöf.

Almennt um Samtökin ’78

Hvað eru Samtökin ‘78?

Fullu nafni heita þau Samtökin ‘78 – félag hinsegin fólks á Íslandi og eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi. Samtökin eru málsvari hinsegin fólks á Íslandi, veita hinsegin fólki styrkari rödd í samfélagsumræðunni og berjast fyrir lagasetningu sem skilar bættum réttindum hinsegin fólks. Aðsetur Samtakanna er að Suðurgötu 3, 101 Reykjavík. Þar er aðsetur skrifstofu og félagsmiðstöðvar. Þar fer einnig fram einstaklingsráðgjöf sérstaklega fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra auk þess sem stuðningshópar koma saman nokkur skipti í mánuði. Þá sinna Samtökin ’78 umfangsmikilli fræðslustarfsemi þar sem skólar, stofnanir og fyrirtæki eru heimsótt og frætt er um hinsegin málefni. Samtökin ‘78 eru þannig hinsegin fólki skjól, þau veita þeim málsvörn, ráðgjöf, eru samkomustaður og stuðla að betra lífi fyrir hinsegin fólk út á við gegn um fræðslu og réttindabaráttu.

Hvernig gerist ég félagi í Samtökunum ‘78?

Félagar Samtakanna ‘78 eru mikilvæg stoð í grunnstarfsemi Samtakanna og erum við þakklát fyrir allan stuðning. Hægt er að gerast félagi í gegnum heimasíðu Samtakanna hér: Gerast félagi.

Mig langar að styrkja Samtökin, hvernig ber ég mig að?

Hægt er að styrkja Samtökin ‘78 með því að gerast Regnbogavinur, félagi eða einfaldlega leggja inn á Samtökin ‘78.

Regnbogavinir eru mánaðarlegir styrktaraðilar Samtakanna ‘78 og mikilvæg stoð í grunnstarfsemi Samtakanna. Hægt er að velja sér upphæð til að greiða mánaðarlega eftir því sem hentar þér. Smelltu hér til að gerast Regnbogavinur: Gerast Regnbogavinur

Ársgjöld félaga Samtakanna ‘78 eru stór hluti af sjálfsaflafé Samtakanna ‘78. Með því að gerast félagi styður þú grunnstarfsemi Samtakanna ásamt því að öðlast kosningarétt á aðalfundi Samtakanna ‘78. Félagaskírteini fylgja ýmis fríðindi sem hægt er að lesa um hér: Afsláttarkjör til félaga. Smelltu hér til að gerast félagi: Gerast félagi.

Sumir hafa áhuga á að styrkja félagið með eingreiðslu, sem við tökum við með opnum örmum. Upplýsingar til að styðja með eingreiðslu má nálgast hér: Framlag til starfsins.

Af hverju kenna Samtökin sig við töluna 78?

Þau voru stofnuð árið 1978 og kenna sig því við stofnár sitt.

Gera Samtökin ‘78 eitthvað í ástandi í útlöndum?

Samtökin ‘78 hafa reglulega staðið fyrir mótmælum, viðburðum sem vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í öðrum löndum og söfnunum sem styrkja við baráttu systursamtaka erlendis. 

Þá eru Samtökin í reglulegum samskiptum við systursamtök sín í öðrum löndum auk þess að tilheyra ILGA-Europe, evrópskum regnhlífarsamtökum hinsegin félaga.

Hvað eru margir félagar í Samtökunum ‘78?

Þegar þessi texti er ritaður (nóvember 2023) eru félagar Samtakanna ‘78 um 1500 talsins. Hægt er að gerast félagi í gegnum heimasíðu Samtakanna hér: Gerast félagi

Hvernig gerist ég sjálfboðaliði?

Mikið af starfsemi Samtakanna ‘78 er unnin af sjálfboðaliðum og erum við þakklát fyrir alla þá aðstoð sem við getum fengið. Samtökin ‘78 bjóða upp á mismunandi sjálfboðaliðaverkefni sem hægt er að velja um. Til að gerast sjálfboðaliði, smelltu hér: Ég vil gerast sjálfboðaliði.

Ég er með hugmynd fyrir Samtökin, við hvern tala ég?

Við tökum öllum nýjum hugmyndum opnum örmum. Ef þú ert með hugmynd fyrir Samtökin ‘78 hafðu samband við skrifstofu með því að fylla út þetta form  eða í síma 552-7878 með upplýsingar um hugmyndina og framkvæmd hennar.

Hvar finn ég upplýsingar um sögu Samtakanna ‘78?

Samtökin ‘78 halda utan um útgefið efni sitt á þessari heimasíðu. Einnig mælum við með að skoða 30 ára afmælisrit Samtakanna ‘78, 30 ára afmælisrit Samtakanna ’78  og 40 ára afmælisrit Samtakanna ’78 ásamt ársskýrslum sem aðgengilegar eru hér: Ársskýrslur – Samtökin ’78.

Á heimasíðu Hinsegin daga er mikið af efni sem tengist sögu Samtakanna ‘78 og hinsegin fólks á Íslandi, sem nálgast má hér: Tímarit Hinsegin daga 2019, Tímarit fyrri ára og Viðtöl og greinar.

Einnig mælum við með þáttaröðinni Svona fólk og heimasíðu þáttana, www.svonafolk.is, sem hýsir mikið af efni og eldri greinum. Svona fólk fjallar um sögu homma og lesbía á Íslandi sem tengist að miklu leyti sögu Samtakanna ‘78.

Hver eru í stjórn Samtakanna ‘78?

Hægt er að lesa sér til um stjórnarmeðlimi Samtakanna hér: Stjórn – Samtökin ’78.

Hver er formaður Samtakanna ‘78?

Formaður Samtakanna ‘78 frá árinu 2024 er Bjarndís Helega Tómasdóttir. Frekari upplýsingar um stjórn Samtakanna má nálgast hér: Stjórn – Samtökin ’78.

Fræðsla og þekking

Ég er á aldrinum 18-30 ára og langar að kynnast fleira hinsegin fólki, hvaða ráð hafið þið fyrir mig?

Q – félag hinsegin stúdenta er ætlað fólki á aldrinum 18-30 ára og stendur fyrir reglulegum viðburðum. Ekki er þörf á að vera nemi til að taka þátt í félaginu, en það var upprunalega stofnað sem félag háskólanema. 

HinUng er félagsskapur sem hittist annan hvern sunnudag og fylgjast má með viðburðum þeirra á instagram síðu hópsins.

Einnig má finna fjölmörg tækifæri til að kynnast öðru hinsegin fólki á vettvangi Samtakanna ‘78.

Hægt er að gerast sjálfboðaliði Samtakanna ‘78 og kynnast öðrum sjálfboðaliðum. Skráningar eru hér í gegnum heimasíðu: Ég vil gerast sjálfboðaliði.

Samtökin ‘78 eru einnig með starfræktan bókmenntaklúbb fyrir þau sem hafa áhuga á bókmenntum. Upplýsingar um hóp bókmenntaklúbbsins má nálgast hér og á Facebook.

Samtökin ‘78 bjóða einnig upp á stuðningshópa fyrir hinsegin fólk, þar sem hægt er að kynnast fólki og deila svipaðri reynslu. Upplýsingar um stuðningshópa má nálgast hér á Facebook síðu Samtakanna ‘78. 

Einnig er hægt að gerast sjálfboðaliði Hinsegin daga og kynnast fólki á meðan hátíðin stendur yfir í ágúst. Auglýst er eftir sjálfboðaliðum á heimasíðunni þeirra: Ég vil gerast sjálfboðaliði 

Við mælum einnig með skemmtistöðunum Kíkí: https://www.facebook.com/Kikiqueerbar/  og Gauknum: Gaukurinn – Home sem eru ætlaðir hinsegin fólki eða innihalda dagskrárliði sem beint er að hinsegin fólki. Vert er þó að benda á að krafist er lágmark 20 ára aldurs á ákveðnum tímum sólarhringsins.

Hinsegin ferða-og brúðkaupsþjónustan Pink Iceland skipuleggur reglulega hinsegin viðburði og halda yfirlit yfir hinsegin viðburði sem eru í gangi hverju sinni á Facebook síðunni þeirra: Pink Iceland – Home.

Hvar finn ég upplýsingar um hinsegin málefni?

Samtökin ‘78 reka fræðslusíðu um hinsegin málefni á www.otila.is. Ef frekari spurningar um hinsegin málefni vakna er hægt að senda erindi á eða með því að hringja í síma 552-7878 á opnunartíma skrifstofu.

Hvað þýðir það að vera hinsegin?

Orðið hinsegin hefur margvíslegar merkingar og skírskotanir. Í hinsegin umræðu hérlendis hefur það öðlast sess sem regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk. Hægt er að lesa sér nánar til um hvað það er að vera hinsegin og önnur hinsegin hugtök á fræðsluvef Samtakanna ‘78: Hinsegin frá Ö til A.

Af hverju notið þið orðið hinsegin?

Áður fyrr var hinsegin-hugtakið stundum notað sem samheiti yfir það að vera samkynhneigður eða sem lýsing á „afbrigðilegri“ kynhegðun, þá oftast á niðrandi hátt. Orðið á sér því myrka sögu kúgunar, jaðarsetningar og fordóma en hefur á undanförnum árum verið notað af hinsegin fólki sem jákvætt og sameinandi orð. Fjölmörg dæmi eru um orð sem hafa verið endurskilgreind á þennan hátt af þeim hópum sem um ræðir hverju sinni.

Þessi endurskilgreining orða sem áður voru niðrandi þjónar mikilvægum tilgangi í réttindabaráttu jaðarsettra hópa og getur stuðlað að bættri stöðu hópsins í samfélaginu. Orð sem áður voru notuð til að lýsa yfir fyrirlitningu á margbreytileikanum eru nú notuð til að fagna fjölbreyttum kynhneigðum, kyneinkennum og kynvitundum. Hægt er að lesa nánar um orðið hinsegin á fræðsluvef Samtakanna ‘78: Hinsegin frá Ö til A

Hve mörg eru hinsegin á Íslandi?

Ómögulegt er að segja hve stór hluti fólks sé hinsegin á Íslandi. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir enda væri erfitt að rannsaka slíkt. Þá væri vandasamt að túlka niðurstöður slíkrar rannsóknar. Mismunandi er hve tilbúið fólk er til að taka upp hinsegin sjálfsmynd jafnvel þó það upplifi hluti sem falla undir hinseginleika, svo sem aðlöðun að öðrum kynjum en gagnstæðu kyni. Þá er samfélagsleg staða hinsegin fólks á Íslandi því miður enn þannig að sumt hinsegin fólk tekur ákvörðun um að koma aldrei út úr skápnum. Það er því afskaplega erfitt að ætla að festa tölu á fjölda hinsegin fólks á Íslandi.

Það veit enginn neitt um hinsegin málefni í skólanum mínum, hvað get ég gert?

Samtökin ‘78 bjóða upp á fræðslu fyrir grunn-og framhaldsskólanema, auk starfsfólks. Við hvetjum þig til að benda kennara eða öðru starfsfólki á að þú hafir áhuga á að bekkurinn þinn hljóti slíka fræðslu. Ef þú treystir þér ekki til þess geturðu sjálft haft samband við Samtökin ’78 og við komum ábendingu þinni áleiðis til skólans. Hægt er að panta fræðslu í gegnum heimasíðu Samtakanna hér: Panta fræðslu.

Um hvað fjallar fræðslan?

Í fræðslu Samtakanna ’78 er fjallað um hinseginleika, hvað það þýðir að vera hinsegin og hvert er hægt að leita fyrir aðstoð og stuðnings. Í lok hverrar fræðslu er opnað fyrir nafnlausar spurningar og þeim svarað eftir bestu getu. Hægt er að hafa samband við skrifstofu Samtakanna ’78 fyrir upplýsingar um fræðsluna í síma 552-7878 eða í gegnum tölvupóst skrifstofa@samtokin78.is. Hægt er að lesa frekar um fræðsluna hér. Tekið er við bókunum á fræðslu í gegnum heimasíðu Samtakanna ’78 hér,

Ég er með spurningar um ákveðið hugtak en þori ekki að spyrja. Hvað geri ég?

Þú einfaldlega sendir okkur fyrirspurn hér. Einnig er hægt að lesa sér til á fræðsluvefnum Ö til A, en Samtökin ’78 reka þann vef. Forvitni er oftast af honu góða og við hvetjum þig til að spyrja okkur, mögulega er það sniðugra heldur en að t.d. ganga að hinsegin manneskju og spyrja hana að einhverju. Þó að manneskja sé hinsegin þá er hún ekki alltaf til í að ræða persónulega hluti um sitt líf, rétt eins og aðrir. Því erum við hér, og reynum við að svara eftir bestu getu.

Hvar finn ég skemmtilegar bíómyndir eða bækur um hinsegin fólk?

Samtökin ‘78 gáfu Borgarbókasafninu bókasafn sitt til að varðveita og eru því mikið af hinsegin bókmenntum þar að finna í sérmerktri deild. Einnig eru þar DVD myndir og fleira sem hægt er að taka til leigu. Heimasíðu Borgarbókasafnins má nálgast hér: Borgarbókasafnið Grófinni.

Sjá Samtökin ‘78 um Gleðigönguna?

Nei, Samtökin ‘78 sjá ekki um Gleðigönguna. Hinsegin dagar eru sjálfstætt starfandi félag rekið eingöngu af sjálfboðaliðum og tengjast Samtökunum ‘78 að því leiti að vera hagsmunafélag og deila húsnæði með Samtökunum ‘78. Hægt er að hafa samband við Hinsegin daga í tölvupóstfanginu pride@hinsegindagar.is, á heimasíðunni www.hinsegindagar.is og á facebook Hinsegin dagar – Reykjavik Pride – Home

Ef ég panta fræðslu, hver kemur og fræðir?

Einhver af okkar frábæru fræðurum! Þú finnur þau hér.

Hve margar fræðslur eru Samtökin ‘78 að halda á einu ári?

Árið 2022 voru haldin alls 431 erindi. Gert er ráð fyrir að um það bil 12.000 einstaklingar hafi hlotið fræðslu frá Samtökunum ‘78 á árinu, sem er 100% aukning frá árinu 2019. Töluleg gögn má finna í ársskýrslum okkar.

Mér finnst ég eiga erfitt með að halda utan um mismunandi hinsegin hugtök og skilgreiningar, hvar get ég nálgast góðar upplýsingar?

Vefsíðan Hinsegin frá Ö til A er frábær staður til að nálgast slíkar upplýsingar. Síðan býður upp á fjölmargar skilgreiningar, persónulegar reynslusögur auk allskyns annarra upplýsinga um hinsegin málefni. Vefinn má finna hér www.otila.is. Þú getur einnig sent okkur línu!

Hvað táknar skammstöfunin MSM?

Með skammstöfuninni MSM er átt við menn sem sofa hjá mönnum. Skammstöfunin er notadrjúg því hún nær yfir karlmenn sem sofa hjá öðrum karlmönnum óháð því hvernig þeir skilgreina sig eða velja annars að lifa lífi sínu að öðru leyti en að velja að stunda tiltölulega reglulega kynlíf með öðrum karlmönnum.

Hvað er PrEP og hvernig get ég nálgast það?

Með heitinu PrEP er átt við forvarnarlyf gegn HIV-smiti, annaðhvort Truvada eða samheitalyf þess. Lyfið er í boði fyrir karla sem sofa hjá körlum og allt trans fólk. Slíkt samheitalyf hefur fengist niðurgreitt á Íslandi frá árinu 2018 að uppfylltum ströngum skilyrðum og verður mögulegur notandi að teljast vera sérlega útsettur fyrir mögulegu smiti til að geta fengið lyfinu ávísað. Aðeins sérfræðingar í smitsjúkdómum geta ávísað lyfinu. Hægt er að hafa samband við göngudeild smitsjúkdóma í síma 543-6040. Með daglegri inntöku lyfsins má minnka stórkostlega hættu á HIV-smiti. Uppáskrift lyfsins fylgir einnig ströng eftirfylgni en notendur þurfa að fara í kynsjúkdómatjékk á þriggja mánaða fresti. Mikilvægt er að notendur haldi áfram að nota smokkinn til að verndar gegn öðrum kynsjúkdómum. Í júlí 2015 voru 158 notendur skráðir.

Er Ísland besti staður í heimi fyrir hinsegin fólk?

Það er í raun ekki auðvelt að ætla að svara þeirri spurningu en það er hægt að nota niðurstöður mismunandi kannana og rannsókna til að gera tilraun til þess.

Þótt íslenskt samfélag sé komið langt á veg hvað varðar réttindi hinsegin fólks er enn töluvert í land þar til fullum jöfnuði er náð. Þá verður að muna að lagalegt jafnrétti er eitt, en viðhorf og lífsgæði annað. Þessi atriði haldast ekki alltaf í hendur og víða um heim býr fólk við neikvæð viðhorf, andúð, misrétti og ofbeldi þótt lagaleg staða sé bærileg. Annars staðar er þessu mögulega öfugt farið og sumsstaðar eru allir þessir þættir í ólestri. Gott og hinseginvænt laga- og regluverk þarf að vera til staðar en það eitt og sér tryggir ekki endilega að fólki sé ekki mismunað. Drjúgur hluti af starfsemi Samtakanna ‘78 snýst einmitt um að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks gagnvart lögum og framkvæmd þeirra.

Hvar kaupi ég regnbogafána?

Hægt er að nálgast regnbogavarning í Kaupfélagi Hinsegin daga meðan á hátíðinni stendur í ágúst en einnig á Hinsegin kaupfélaginu, www.hinkaup.is en allur ágóði þess rennur óskiptur til hinsegin málefna.

Er það ennþá þannig að hommar megi ekki gefa blóð?

Já, sú löggjöf er ennþá í gildi að karlmenn sem sofa hjá karlmönnum mega ekki gefa blóð. Samtökin ’78 vinna hins vegar að því að breyti þeirri löggjöf.

Hvenær eru Hinsegin dagar?

Hátíð Hinsegin dagar er í ágúst á hverju ári, í kringum helgina eftir verslunarmannahelgina. Dagskrá Hinsegin daga spanner heila viku og er stútfull af skemmti-og fræðsluviðburðum. Dagskrána má nálgast á heimasíðu Hinsegin daga www.hinsegindagar.is

Vantar eitthvað á þessa síðu? Langar þig að spyrja?