Samtökin ’78 líða ekki ofbeldi að neinu tagi innan sinna raða. Því settum við okkur metnaðarfulla aðgerðaráætlun til að sporna við því
Fyrirvari
Aðgerðaráætlun þessi skal vera notuð til að bregðast við ofbeldismálum sem geta komið upp á milli félagsmanna Samtakanna ‘78. Hafa ber í huga að aðgerðaráætlunin sjálf fyrirbyggir ekki ofbeldismál og er aðeins verkfæri til að leiða þau mál til lykta sem kunna að koma upp. Með aðgerðaráætluninni á fyrst og fremst að tryggja stöðu brotaþola og einnig að koma í veg fyrir að ofbeldismál séu óuppgerð innan Samtakanna ‘78. Aðgerðaráætlunin er lifandi skjal og er alltaf í vinnslu og mótun.
Ef um neyðartilvik er að ræða þá skal hafa samband við lögreglu.
- Inngangsorð
- Andlegt ofbeldi
- Líkamlegt ofbeldi
- Kynferðislegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti
- Sakarvottorð og sakaskrá
- Fagráð
Inngangsorð
Aðgerðaráætun gegn ofbeldi er hluti af siðareglum Samtakanna ‘78. Áætlunin byggir á siðareglunum. Allir einstaklingar sem starfa í og með Samtökunum ’78 hafa rétt á því að tjá skoðanir sínar og sinna störfum í öruggu umhverfi og að borin sé virðing fyrir þeim. Samtökin líða ekki líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi af neinu tagi hvort sem það er í formi áreitis, eineltis, niðurlægingar eða rógburðar. Samtökin ’78 vilja búa svo um að einstaklingar geti unnið að sínum málum án þess að eiga í hættu á að verða fyrir ofbeldi af nokkru tagi. Samtökin telja að hreinskiptinna samskipta, heiðarleika og virðingar eigi að gæta í öllum störfum Samtakanna. Samtökin ‘78 líða ekki ofbeldi innan samtakanna, hvort sem það er ofbeldi meðal starfsfólks, sjálfboðaliða eða stjórnar.
Skilgreining á ofbeldi
Með ofbeldi er almennt átt við vísvitandi hegðun þar sem einstaklingur eða hópur beitir valdi til að meiða eða niðurlægja aðra, þó í vissum tilfellum gerir gerandi sér ekki grein fyrir ofbeldi sem hann beitir. Ofbeldi getur tekið á sig ýmsar myndir. Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt.
Andlegt ofbeldi
Allar tilkynningar um andlegt ofbeldi skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð ofbeldismál innan samtakanna sjálfra
Skilgreining á andlegu ofbeldi og einelti
Andlegt ofbeldi getur verið í formi orðaskipta eða í formi líkamstjáningar eða framkomu. Samskiptin einkennast oft af niðurlægingu og er yfirleitt leið einhvers til að ná stjórn á eða völdum yfir öðrum einstaklingi. Andlegt ofbeldi, t.d. einelti, getur þrifist alls staðar þar sem samskipti eiga sér stað án tillits til mismununarbreyta. Andlegt ofbeldi getur því komið upp hjá öllum aldursflokkum, bæði börnum og fullorðnum. Þá hefur andlegt ofbeldi margar mismunandi birtingarmyndir, en til þess teljast m.a. uppnefni, lítilsvirðing, hótanir, ógnanir, einangrun og endurtekin stríðni.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Allir sjálfboðaliðar og starfsfólk sem taka að sér vinnu eða vinna með Samtökunum ’78 skulu vera upplýst um aðgerðaráætlun þessa. Aðgerðaráætlunin skal vera opinber þar sem öll þau sem vinna með eða mögulega gætu unnið með Samtökunum átti sig á eðli hennar og til hvers hún er notuð. Allir sjálfboðaliðar skulu fá viðtal með starfsmanni Samtakanna ef þess er óskað þar sem farið er yfir aðgerðaráætlunina og hún rædd. Ef einhver vafi er á aðgerðaráætluninni þá skal hafa samband við framkvæmdastjóra eða formann Samtakanna til að leysa úr þeim vafa.
Ef þú verður fyrir andlegu ofbeldi eða verður vitni að andlegu ofbeldi þá fer eftirfarandi ferill af stað:
Tilkynning
Ábyrgðaraðili, svo sem skráður sjálfboðaliði, starfsmaður, stjórnarmeðlimur eða ábyrgðaraðili á viðburði, sem verður var við ofbeldið, skal reyna að leysa úr vandanum eins fljótt og unnt er og skerast í leikinn og tryggja öryggi ef þess er kostur, þetta getur til dæmis þýtt að hringja í lögregluyfirvöld, tilkynna fagráði eða framkvæmdastjóra/formanni um ofbeldið. Um leið og ljóst er að vandinn er orðinn stærri en svo að hægt sé að leysa úr honum strax skal tilkynna um málið til stjórnar félags eða framkvæmdastjóra. Fái starfsmaður eða sjálfboðaliði félags ábendingu eða tilkynningu um andlegt ofbeldi skal hann koma henni áfram til stjórnar eða framkvæmdastjóra.
Öllum er heimilt að tilkynna um andlegt ofbeldi innan Samtakanna ’78 og eru allar tilkynningar teknar alvarlega. Fylla skal út tilkynningu á þar til gert eyðublað á heimasíðu félagsins (sjá fylgiskjal) og skal henni skilað til fagráðs (nánar um fagráð neðar).
Könnun
Þegar formanni eða framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 berst tilkynning um andlegt ofbeldi innan Samtakanna skal tilkynningunni komið áfram til fagráðs. Ef að um börn er að ræða skulu foreldrar/forráðamenn þeirra upplýstir um tilkynninguna eftir atvikum, og ef brotaþoli leyfir. Framkvæmdastjóri eða formaður byrjar á því að afla allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru frá brotaþola, meintum geranda/gerendum og foreldrum/ forráðamönnum þeirra, ábyrgðaraðilum og öðrum sem geta veitt upplýsingar um það mál sem liggur fyrir. Upplýsingaöflun skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að meta umfang vandans.
Fagráð metur þær upplýsingar sem fram eru komnar og setur saman áætlun um það hvernig skuli tekið á málinu.
Lausn
Fagráð vinnur samkvæmt áætluninni að lausn vandans. Fagráð leitar til þolanda og geranda ásamt foreldrum/forráðamönnum, eftir atvikum, eins oft og nauðsynlegt er. Allir ábyrgðaraðilar sem vinna með þolanda og geranda eru upplýstir um andlega ofbeldið og skulu þeir upplýsa fagráðið um öll atvik sem þeir verða vitni að.
Fagráðið skal reyna að komast að rót vandans og aðstoða aðila við að vinna úr málinu í samráði við foreldra/forráðamenn, ef við á. Andlegt ofbeldi er mjög ólíkt innbyrðis og því er ekki hægt að setja fram reglur um eitt ákveðið vinnuferli sem alltaf eigi að fara eftir. Fulltrúar í fagráði verða því að vega og meta hverju sinni hvaða leið sé líklegust til árangurs.
Nokkrar meginreglur eiga þó alltaf við:
Tryggja þarf öryggi brotaþola og að leita skal lausna á forsendum brotaþola.
Leggja skal áherslu á jákvæð samskipti og að virðing sé borin fyrir öllum aðilum máls.
Bæði brotaþoli og gerandi/gerendur þurfa að fá stuðning og aðstoð við að vinna úr sínum málum.
Ef gerendur eru fleiri en einn er árangursríkast að tala við gerendur einn og einn í einu.
Leggja skal áherslu á að ná góðu samstarfi við foreldra/forráðamenn. Mikilvægt er að eiga góð samskipti við foreldra/forráðamenn og halda þeim upplýstum um það hvernig sé verið að vinna í málinu, ef við á.
Ef grípa þarf til einhverra aðgerða til þess að aðskilja aðila í félagsstarfi skal gerandi/gerendur ávallt vera færður til en ekki brotaþoli. Á þetta bæði við um börn og ungmenni sem og aðra sjálfboðaliða og starfsfólk.
Í þeim tilfellum sem starfsmaður/sjálfboðaliði gerist sekur um að beita einstakling andlegu ofbeldi og/eða einelti skal stjórn félags víkja starfsmanni úr starfi tímabundið á meðan unnið er að lausn málsins ef viðvera hans hefur áhrif á daglegt starf innan Samtakanna ‘78, t.d. ef um starfsmann eða stjórnarmeðlim er að ræða.
Eftirfylgni
Ábyrgðaraðilar sem vinna með þolanda og geranda fylgjast með þeim og eru vakandi fyrir því hvort andlega ofbeldið/eineltið taki sig upp aftur. Fagráð, framkvæmdastjóri eða formaður skulu einnig fylgjast með gangi mála í að minnsta kosti 12 mánuði eftir formlega úrlausn.
Ef mál tekur sig upp aftur skal fagráðið meta hvort setja þurfi saman aðra áætlun um það hvernig skuli leyst úr málinu að nýju.
Fagráð Samtakanna ‘78 fylgir því eftir að mál fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og verklagsreglum um meðferð ofbeldismála hjá Samtökunum. Fagráðið sér einnig um að taka við tilkynningum þolenda, leiðbeina þeim um málsmeðferð og sjá til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni. Þá er fagráðið hagsmunafélögum til ráðgjafar varðandi mál er tengjast ofbeldismálum.
Líkamlegt ofbeldi
Allar tilkynningar um líkamlegt ofbeldi skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð ofbeldismál innan samtakanna sjálfra
Skilgreining á líkamlegu ofbeldi
Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi, hvort sem líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Líkamlegt ofbeldi er líka þegar haldið er aftur af líkamlegum þörfum viðkomandi. Algengt er að líkamlegu ofbeldi sé beitt í kjölfar eða samhliða andlegu ofbeldi sem hefur verið til staðar um tíma. Dæmi um líkamlegt ofbeldi eru þegar einhver heldur manneskju í gíslingu, skaðar hana, meinar henni aðgangi að nauðþurftum, spörk eða hnefahögg, heftir frelsi manneskju o.fl. Eins telst það líkamlegt ofbeldi þegar einhver slær, kýlir, lemur, klórar, bítur, skallar, klípur, sparkar í, rífur í hár, hrindir, brennir, drekkir, kæfir, eða tekur manneskju kverkataki. Þessi upptalning er ekki tæmandi heldur sett fram til viðmiðunar.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Allir sjálfboðaliðar og starfsfólk sem taka að sér vinnu eða vinna með Samtökunum ’78 skulu vera upplýst um aðgerðaráætlun þessa. Aðgerðaráætlunin skal vera opinber þar sem öll þau sem vinna með eða mögulega gætu unnið með Samtökunum átti sig á eðli hennar og til hvers hún er notuð. Allir sjálfboðaliðar skulu fá viðtal með framkvæmdastjóra Samtakanna ef þess er óskað þar sem farið er yfir aðgerðaráætlunina og hún rædd. Ef einhver vafi er á aðgerðaráætluninni þá skal hafa samband við framkvæmdastjóra eða formann Samtakanna til að leysa úr þeim vafa.
Ef þú verður fyrir líkamlegu ofbeldi eða verður vitni að líkamlegu ofbeldi þá fer eftirfarandi ferill af stað:
Tilkynning
Ábyrgðaraðili, sem verður var við ofbeldið, skal reyna að leysa úr vandanum eins fljótt og unnt er og skerast í leikinn og tryggja öryggi ef þess er kostur, þetta getur til dæmis þýtt að hringja í lögregluyfirvöld, tilkynna fagráði eða framkvæmdastjóra/formanni um ofbeldið. Um leið og ljóst er að ekki sé um einangrað tilvik að ræða, eða að hjálpa þurfi til við úrvinnslu ofbeldisins skal tilkynna um málið til stjórnar félags eða framkvæmdastjóra. Fái starfsmaður eða sjálfboðaliði félags ábendingu eða tilkynningu um líkamlegt ofbeldi skal hann koma henni áfram til stjórnar eða framkvæmdastjóra.
Öllum er heimilt að tilkynna um líkamlegt ofbeldi innan Samtakanna ’78 og eru allar tilkynningar teknar alvarlega. Fylla skal út tilkynningu á þar til gert eyðublað (sjá fylgiskjal) og skal henni skilað til fagráðs (nánar um fagráð neðar).
Könnun
Þegar formanni eða framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 berst tilkynning um líkamlegt ofbeldi innan Samtakanna skal tilkynningunni komið áfram til fagráðs. Ef að um börn er að ræða skulu foreldrar/forráðamenn aðila upplýstir um tilkynninguna ef brotaþoli gefur leyfi. Framkvæmdastjóri eða formaður byrjar á því að afla allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru frá brotaþola, geranda/gerendum og foreldrum/ forráðamönnum þeirra, ábyrgðaraðilum og öðrum sem geta veitt upplýsingar um það mál sem liggur fyrir. Upplýsingaöflun skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að meta umfang vandans.
Fagráð metur þær upplýsingar sem fram eru komnar og setur saman áætlun um það hvernig skuli tekið á málinu.
Lausn
Fagráð vinnur samkvæmt áætluninni að lausn vandans. Fagráð leitar til þolanda og geranda ásamt foreldrum/forráðamönnum, eftir atvikum, eins oft og nauðsynlegt er. Allir ábyrgðaraðilar sem vinna með þolanda og geranda eru upplýstir um líkamlega ofbeldið og skulu þeir upplýsa fagráðið um öll atvik sem þeir verða vitni að.
Fagráðið skal reyna að komast að rót vandans og aðstoða aðila við að vinna úr málinu í samráði við foreldra/forráðamenn, ef við á. Líkamlegt ofbeldi er mjög ólíkt innbyrðis og því er ekki hægt að setja fram reglur um eitt ákveðið vinnuferli sem alltaf eigi að fara eftir. Fulltrúar í fagráði verða því að vega og meta hverju sinni hvaða leið sé líklegust til árangurs.
Nokkrar meginreglur eiga þó alltaf við:
Tryggja þarf öryggi þolanda og að leitað skal lausna á forsendum þolanda.
Leggja skal áherslu á jákvæð samskipti og að virðing sé borin fyrir öllum aðilum máls.
Bæði brotaþoli og gerandi/gerendur þurfa að fá stuðning og aðstoð við að vinna úr sínum málum.
Ef gerendur eru fleiri en einn er árangursríkast að tala við gerendur einn og einn í einu.
Leggja skal áherslu á að ná góðu samstarfi við foreldra/forráðamenn. Mikilvægt er að eiga góð samskipti við foreldra/forráðamenn og halda þeim upplýstum um það hvernig sé verið að vinna í málinu, ef við á.
Ef grípa þarf til einhverra aðgerða til þess að aðskilja aðila í félagsstarfi skal gerandi/gerendur ávallt vera færður til en ekki brotaþoli. Á þetta bæði við um börn og ungmenni sem og ábyrgðaraðila.
Í þeim tilfellum sem starfsmaður/sjálfboðaliði gerist sekur um að beita einstakling ofbeldi skal stjórn félags víkja starfsmanni úr starfi tímabundið á meðan unnið er að lausn málsins ef viðvera hans hefur áhrif á daglegt starf innan Samtakanna ‘78.
Eftirfylgni
Ábyrgðaraðilar sem vinna með þolanda og geranda fylgjast með þeim og eru vakandi fyrir því hvort eineltið taki sig upp aftur. Fagráð, framkvæmdastjóri eða formaður skulu einnig fylgjast með gangi mála í að minnsta kosti 12 mánuði frá formlegri úrlausn.
Ef mál tekur sig upp aftur skal fagráðið meta hvort setja þurfi saman aðra áætlun um það hvernig skuli leyst úr málinu að nýju.
Fagráð Samtakanna ‘78 fylgir því eftir að mál fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og verklagsreglum um meðferð ofbeldismála hjá Samtökunum. Fagráðið sér einnig um að taka við tilkynningum þolenda, leiðbeina þeim um málsmeðferð og sjá til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni. Þá er fagráðið hagsmunafélögum til ráðgjafar varðandi mál er tengjast ofbeldismálum.
Kynferðislegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti
Allar tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð ofbeldismál innan samtakanna sjálfra. Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Til að tryggja öryggi í samskiptum og draga úr hættu á tilhæfulausum ásökunum er gott að hafa eftirfarandi í huga:
Fullorðinn einstaklingur og barn undir 18 ára aldri skulu aldrei vera tvö saman í lokuðu rými, ef hjá því verður komist, nema þegar um ráðgjafa eða forstöðumann félagsmiðstöðvar er að ræða.
Koma skal í veg fyrir snertingar sem auðvelt er að mistúlka (t.d. snertingar á sundbolasvæði).
Forðast skal óeðlileg vinasambönd starfsmanna og sjálfboðaliða við börn og ungmenni.
Skilgreining á kynferðislegu ofbeldi
Kynferðislegt ofbeldi er ein alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis. Kynferðislegt ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið, framkomu sem ætlað er að knýja einstaklinga til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni og niðurlægingu fyrir þann sem fyrir áreitninni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans.
Það telst jafnframt kynferðislegt ofbeldi þegar einstaklingur er fenginn til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik gegn vilja viðkomandi eða án samþykkis, óháð því hvort það sé gert með valdi eða ekki. Einnig telst það kynferðislegt ofbeldi þegar einhver notfærir sér þroska- og reynsluleysi barns undir 18 ára aldri til þess að fá það til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum.
Kynferðisleg áreitni og/eða ofbeldi getur falist í eftirfarandi: Dónalegum bröndurum og kynferðislegum athugasemdum í máli, myndum eða skriflegum athugasemdum. Óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni. Snertingu sem ekki er óskað eftir. Endurteknum beiðnum um kynferðislegt samband sem mæta áhugaleysi eða er hafnað. Hótun um nauðgun og nauðgun. Þetta er þó ekki endanlegur listi þar sem birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldi eru margar og ólíkar.
Ef barn eða ungmenni verður fyrir kynferðislegu ofbeldi
Ef grunur vaknar um að barn eða ungmenni hafi orðið fyrir kynferðisbroti í félagsstarfi skal það tilkynnt til framkvæmdastjóra eða formanns án tafar.
Tryggja þarf öryggi barns/ungmennis.
Yfirmaður gerir barnaverndaryfirvöldum og lögreglu viðvart í síma 112.
Framkvæmdastjóri eða formaður gerir fagráði viðvart.
Framkvæmdastjóri, formaður eða fagráð skal hafa samband við foreldra/forráðamenn barns eða ungmennis og greina þeim frá atburðum – nema að barnaverndaryfirvöld eða lögregla gefi fyrirmæli um annað.
Sé langt um liðið síðan meint brot átti sér stað eru líkur á því að brot geti verið fyrnt. Slík brot skal samt sem áður tilkynna til sömu aðila. Barnaverndarnefnd getur tekið slík mál til skoðunar á grundvelli 35. gr. barnaverndarlaga og komið með tillögur að niðurstöðu.
Ef starfsmaður er grunaður um að hafa beitt barn eða ungmenni kynferðislegu ofbeldi skal stjórn félags ávallt vísa viðkomandi tímabundið úr starfi á meðan rannsókn máls stendur yfir. Þegar niðurstöður liggja fyrir hjá viðeigandi yfirvöldum (lögreglu og/ eða barnaverndarnefnd eða öðrum aðilum) skal tekin ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort meintur gerandi fái að starfa áfram innan félags eða ekki. Leita skal álits barnaverndaryfirvalda, ef við á, og fagráðs Samtakanna ‘78 áður en viðkomandi er heimilað að koma aftur til starfa innan félagsins.
Eftir að mál hefur verið tilkynnt til réttra aðila sjá barnaverndaryfirvöld og lögregla alfarið um meðferð málsins og skulu hvorki ábyrgðaraðilar né stjórn félags hafa önnur afskipti af máli nema þess sé óskað af barnaverndaryfirvöldum og lögreglu.
Fagráð Samtakanna ‘78 fylgir því eftir að mál fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og verklagsreglum um meðferð kynferðisbrotamála hjá Samtökunum. Fagráðið sér einnig um að taka við tilkynningum þolenda, leiðbeina þeim um málsmeðferð og sjá til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni. Þá er fagráðið hagsmunafélögum til ráðgjafar varðandi mál er tengjast kynferðisbrotum.
Ef fullorðinn einstaklingur verður fyrir kynferðislegu ofbeldi eða verður vitni að kynferðislegu ofbeldi þá fer eftirfarandi ferill af stað:
Tilkynning
Ábyrgðaraðili, sem verður var við ofbeldið, tilkynna um málið til stjórnar félags eða framkvæmdastjóra. Fái starfsmaður eða sjálfboðaliði félags ábendingu eða tilkynningu um kynferðislegt ofbeldi skal hann koma henni áfram til stjórnar eða framkvæmdastjóra.
Öllum er heimilt að tilkynna um kynferðislegt ofbeldi innan Samtakanna ’78 og eru allar tilkynningar teknar alvarlega. Fylla skal út tilkynningu á þar til gert eyðublað (sjá fylgiskjal) og skal henni skilað til fagráðs (nánar um fagráð neðar).
Könnun
Þegar formanni eða framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 berst tilkynning um kynferðislegt ofbeldi innan Samtakanna skal tilkynningunni komið áfram til fagráðs. Framkvæmdastjóri eða formaður byrjar á því að afla allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru frá brotaþola, geranda/gerendum, ábyrgðaraðilum og öðrum sem geta veitt upplýsingar um það mál sem liggur fyrir. Upplýsingaöflun skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að meta umfang vandans.
Fagráð metur þær upplýsingar sem fram eru komnar og setur saman áætlun um það hvernig skuli tekið á málinu.
Lausn
Fagráð vinnur samkvæmt áætluninni að lausn vandans. Fagráð leitar til þolanda og geranda eins oft og nauðsynlegt er.
Fagráðið skal reyna að komast að rót vandans og aðstoða aðila við að vinna úr málinu. Kynferðislegt ofbeldi er mjög ólíkt innbyrðis og því er ekki hægt að setja fram reglur um eitt ákveðið vinnuferli sem alltaf eigi að fara eftir. Fulltrúar í fagráði verða því að vega og meta hverju sinni hvaða leið sé líklegust til árangurs.
Nokkrar meginreglur eiga þó alltaf við:
Tryggja þarf öryggi þolanda og að leitað skal lausna á forsendum þolanda.
Leggja skal áherslu á jákvæð samskipti og að virðing sé borin fyrir öllum aðilum máls.
Bæði brotaþoli og gerandi/gerendur þurfa að fá stuðning og aðstoð við að vinna úr sínum málum.
Ef gerendur eru fleiri en einn er árangursríkast að tala við gerendur einn og einn í einu.
Ef grípa þarf til einhverra aðgerða til þess að aðskilja aðila í félagsstarfi skal gerandi/gerendur ávallt vera færður til en ekki brotaþoli.
Í þeim tilfellum sem starfsmaður/sjálfboðaliði gerist sekur um að beita einstakling kynferðislegu ofbeldiskal stjórn félags víkja starfsmanni úr starfi tímabundið á meðan unnið er að lausn málsins.
Eftirfylgni
Ábyrgðaraðilar sem vinna með þolanda og geranda fylgjast með þeim og eru vakandi fyrir því hvort ofbeldið taki sig upp aftur. Fagráð, framkvæmdastjóri eða formaður skulu einnig fylgjast með gangi mála í að minnsta kosti 12 mánuði frá formlegri úrlausn.
Ef mál tekur sig upp aftur skal fagráðið meta hvort setja þurfi saman aðra áætlun um það hvernig skuli leyst úr málinu að nýju.
Sakarvottorð og sakaskrá
Framkvæmdastjóra, formanni eða fagráði, ef svo ber undir, er heimilt að leita eftir upplýsingum um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot úr sakaskrá viðkomandi sjálfboðaliða eða starfsmanns að gefnu leyfi viðkomandi og sérstaklega ef grunur leikur á um að viðkomandi beiti ofbeldi innan Samtakanna.
Hafi sjálfboðaliði eða starfsmaður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot skal honum vikið úr starfi tafarlaust.
Ef einstaklingur vinnur með börnum þá skal upplýsingaöflunin fara fram áður en viðkomandi hefur störf sem inniber samskipti við börn.
Fagráð
Hlutverk Samtakanna ‘78 er að standa vörð um hagsmuni félaga Samtakanna ‘78. Samtökin ‘78 líða ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfs og telja mjög mikilvægt að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur.
Á vegum Samtakanna ‘78 starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar ofbeldismál sem koma upp innan þeirra Samtakanna ‘78.
Fagráðið er skipað þremur einstaklingum, tveimur óháðum sérfræðingum tilnefndum af Samtökunum ‘78 auk fulltrúa Samtakanna ‘78. Í fagráðinu sitja alltaf tveir óháðir sérfræðingar sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við meðferð ofbeldismála. Þegar tilkynning kemur til fagráðsins er framkvæmdastjóri eða formaður, eftir því sem tilkynningin varðar, kallaður inn í fagráðið og tekur hann þá sæti í fagráðinu við meðferð málsins. Þannig situr framkvæmdastjóri eða formaður sem þriðji einstaklingur í fagráðinu.
Sé framkvæmdastjóri eða formaður Samtakanna ‘78 vanhæfur skal annar stjórnarmeðlimur innan Samtakanna ‘78 taka sæti í fagráðinu. Í ákveðnum tilvikum getur fagráðið ákveðið að fulltrúi Samtakanna ‘78 taki ekki þátt í málsmeðferð. Í þeim tilvikum getur fagráðið kallað annan óháðan aðila inn í fagráðið ef þörf er á.
Fagráðið tekur við öllum tilkynningum um ofbeldismál sem koma upp í starfi Samtakanna ‘78 og og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið brotaþolum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.
Fagráðið tekur einnig á eineltismálum sem upp koma innan Samtakanna ‘78. Hlutverk fagráðsins í eineltismálum er annars vegar að leita viðunandi niðurstöðu í málum með sáttum sé þess nokkur kostur og hins vegar að veita félögum ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli.
Hafdís Inga Hinriksdóttir og Karitas Hrund Harðardóttir skipa fagráð Samtakanna ’78 frá árinu 2022.