Skip to main content
search

Framboð

Frambjóðendur til stjórnar og trúnaðarráðs fyrir aðalfund 2020

Framboð til formanns

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Nafn og fornafn
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, hún

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Ég er mjög ánægð með stöðu Samtakanna '78 eins og hún er í dag. Það hefur gríðarlega margt áunnist á síðustu árum og við erum hvergi nærri hætt. Að því sögðu þá sé ég jafnframt mikil tækifæri til þess að efla starfið á hinum ýmsu sviðum, en mestu máli skiptir í því samhengi að Samtökin hafa öflugan grunn til þess að byggja á. Síðastliðin ár hefur grunnurinn verið styrktur og mikil vinna lögð í að gera samtökin faglegri og þar með tilbúnari undir frekari verkefni. Samtökin ‘78 njóta virðingar og hafa á fjórum áratugum bæði áunnið sér og viðhaldið trausti samfélagsins. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að félagið hafi nýlega sett sér siðareglur, búið til sjálfboðaliðastefnu, jafnréttis- og umhverfisstefnu og gert aðgerðaráætlun gegn ofbeldi.
Það er leitun að félagasamtökum sem eru jafn rík af sjálfboðaliðum og starfsfólki og Samtökin ‘78. Grunnstarfsemi Samtakanna ‘78 hefur vaxið jafnt og þétt og ráðgjafatímum, fræðslubeiðnum og stuðningshópum hefur aftur fjölgað milli ára. Nýrri verkefni eins og félagsmiðstöð Samtakanna ‘78 og Tjarnarinnar hafa einnig vaxið, en aðsókn í féló hefur aldrei verið meiri en nú. Við höfum einnig lagt okkur fram við að bjóða upp á fjölbreytta viðburði fyrir félagsfólk og gert meira úr félagsfundum og aðalfundi. Á sama tíma höfum við sinnt hagsmunabaráttu af fullum krafti, setið í nefndum á vegum hins opinbera, skrifað greinar, farið í viðtöl, mótmælt óréttlæti og talað fyrir breytingum. Barátta félagsins átti stóran þátt í því að á síðasta ári voru sett lög um kynrænt sjálfræði, sem var mikil réttarbót fyrir trans fólk. Það er svo sannarlega í mörg horn að líta hjá Samtökunum ‘78, en mér finnst hafa tekist vel að sinna öllum þessum verkefnum þrátt fyrir takmörkuð fjárráð.

Á síðasta starfsári höfum við þó notið þeirrar gæfu að opinber framlög til okkar hafa aukist sem og styrkir frá fyrirtækjum og einstaklingum. Á árinu var einnig farið af stað með Regnbogavini Samtakanna ‘78, en það eru einstaklingar sem styrkja félagið með mánaðarlegu fjárframlagi. Allt skiptir þetta máli, því án fjármagns hefði sá vöxtur í starfseminni sem hefur átt sér stað að undanförnu - þá sérstaklega vegna aukinnar ásóknar í þá þjónustu sem við veitum - ekki getað orðið að veruleika.

Það sem mér hefur fundist vanta er skýrari stefna og afmörkuð markmið, enda er togað í Samtökin ‘78 úr öllum áttum og oft getur verið erfitt að velja og hafna verkefnum sem öll eru mikilvæg. Stjórn og trúnaðarráð hafa hafist handa við að setja félaginu stefnu til næstu ára, en betur má ef duga skal.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78
Ég hef verið formaður Samtakanna á síðastliðnu starfsári. Þar á undan gegndi ég embætti ritara 2018-2019 og sat í trúnaðarráði árið 2015.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?
Á næstu þremur árum sé ég fyrir mér að Samtökin ‘78 muni halda áfram að vaxa og dafna. Mér finnst ákaflega mikilvægt að næsta stjórn setji sér skýra stefnu í upphafi starfsársins til lengri tíma en áður hefur verið gert og vinni markvisst að mælanlegum markmiðum sem styðja þá stefnu. Samtökin eru nú í fyrsta sinn á fjárlögum og við þurfum að halda afar vel utan um félagið á næstu árum, enda skiptir öllu máli að aukið fjármagn nýtist sem allra best og að vaxtarverkirnir verði sem minnstir.

Við verðum að gæta þess að vinnuumhverfi starfsfólks og sjálfboðaliða sé gott og mér finnst afar mikilvægt að traust og jákvæður andi ríki innan félagsins. Ráðist hefur verið í breytingar á húsnæði Samtakanna með það að markmiði að starfsfólkið okkar hafi betri vinnuaðstöðu og meira næði til þess að sinna öllum þeim mikilvægu verkefnum sem þau fá á borð til sín. Það verður svo stjórnar setja nægilega skýra stefnu þannig að starfsfólk geti með einföldum hætti forgangsraðað verkefnum og erindum.

Á síðasta starfsári komum við af stað Regnbogavinum, átaki sem ætlað er að auka sjálfsaflafé félagsins. Ég vil leggja meiri áherslu á að afla fleiri Regnbogavina á næsta starfsári, enda afar mikilvægt að Samtökin ‘78 hafi fjárhagslegt sjálfstæði sem er óháð pólitík hvers tíma.
Þegar kemur að réttindabaráttu þá þurfum við að þrýsta áfram á stjórnvöld í því að klára löggjöf sem verndar intersex börn gegn ónauðsynlegum inngripum sem allra fyrst, auk þess sem enn á eftir að breyta lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar til samræmis við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Annað brýnt verkefni er lagaleg staða og aðbúnaður hinsegin hælisleitenda. Réttindi barna gagnvart foreldrum sínum innan hinsegin fjölskyldna þar sem fleiri en tveir einstaklingar stofna til fjölskyldu saman er svo enn annað dæmi um mál sem ég tel að Samtökin ‘78 eigi að setja á dagskrá.

Þekkingu á hinsegin málefnum verður að auka sérstaklega meðal fagstétta á borð við kennara og heilbrigðisstarfsfólk, en leiðirnar til þess eru fjölbreyttar og þær þarf að kortleggja og gera áætlanir í kjölfarið. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að Samtökin ‘78 taki alþjóðamál föstum tökum og efli áfram samstarf við Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA Europe) og önnur hinsegin félög á Norðurlöndunum.

Það mikilvægasta finnst mér þó að Samtökin hafi samstöðu og sýnileika hinsegin samfélagins að leiðarljósi í allri sinni vinnu. Samtökin ‘78 eru félag alls hinsegin fólks á Íslandi. Þess vegna verðum við að vera sameinandi afl, því saman berjumst við best fyrir réttindum okkar allra.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að gegna embætti formanns á síðastliðnu ári og vona að félagsfólk treysti mér áfram til þess að leiða Samtökin ‘78.

Örlítið um þig: T.d. fjölskylduhagir, menntun, reynsla af vinnumarkaði og/eða félagsstörfum
Ég er þrítug tvíkynhneigð sís kona, kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur og á með henni tvö börn sem eru hálfs árs og fjögurra ára.
Ég er málfræðingur að mennt, lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá HÍ 2015 og meistaraprófi í málvísindum frá háskólanum í Leiden í Hollandi 2017.
Ég hef gegnt hinum ýmsu störfum í gegnum tíðina, verið kassastarfsmaður, sinnt ummönnun aldraðra, verið barþjónn, móttökustarfsmaður á hóteli og flugfreyja. Frá útskrift úr málvísindanáminu hef ég lengst af starfað sem rannsóknarmaður og doktorsnemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en hóf nýverið störf við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði þar sem ég kenni íslensku á unglingastigi. Þá sit ég einnig í menningar- og safnanefnd Garðabæjar.
Samhliða námi og vinnu hef ég tekið virkan þátt í félagsstörfum og átt sæti í stjórnum Skólafélags MR, Mímis – félags stúdenta í íslenskum fræðum, Ungra jafnaðarmanna og Garðabæjarlistans. Ég var fyrst kjörin í stjórn Samtakanna ’78 á aðalfundi 2018.

Framboð til stjórnar

Andrean Sigurgeirsson

Nafn
Sigurður Andrean Sigurgeirsson

Fornafn
Hann

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Staða Samtakanna 78 er að, mínu mati, virkilega sterk. Samtökin njóta mikillar virðingar og trausts sem áhrifaafl og sem fræðslusetur sem starfar af mikilli fagmennsku. Með þeim litlu fjármunum sem Samtökin hafa á milli handanna, hefur þeim tekist að fanga athygli fjölmiðla, menntastofnana og stjórnvalda, og skapað sér stóran sess sem áhrifaafl á Íslandi.

Samtökin 78 gegna lykilhlutverki í íslensku samfélagi sem hávær og áhrifamikil rödd í hagsmunagæslu hinsegin fólks og í stefnumótun, og sem mikilvægur félagslegur samkomustaður. Í hagsmunagæslu sinni hafa Samtökin ekki einungis styrkt réttindi, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þeirra í hinsegin samfélaginu, heldur allra annarra þar sem frelsi og réttindi varða samfélagið í heild sinni. Hagsmunagæslu lýkur aldrei, í dag eru öfgar beggja vegna miðjunnar að ná til sífellt fleiri kjósenda og á tímum öfgakenndra stjórnmála skapast sú áhætta að kjósendur og fjölmiðlar álíti réttindabaráttur og málefni minnihlutahópa ekki álíka mikilvæg og efnahagsmál. Þetta skapar rými fyrir öfgakenndar og afturhaldssamar stefnur að fljóta upp á yfirborðið. Víða er verið að þrengja að hinsegin samfélaginu og Ísland er ekki ónæmt fyrir afturhaldi, Samtökin þurfa að halda áfram vera jafn árvökul og hávær (ef ekki meir) og áður ,enda var það ekki nema í fyrra sem nýnasistahópur taldi sig nægilega öruggan til að koma fram tvisvar, á Alþingisreit og Lækjartorgi.

Samtökin 78 geta hinsvegar fagnað þeim mikla árangri sem hingað til hefur náðst t.d; nýlegri lögfestingu frumvarpsins á kynræðu sjálfstæði, aukinnar kennslu á hinseginfræðslu, vinsældum og mikilvægi Hinsegindaga sem hátíð, góðrar nýtingu á - og ánægju með fræðslu Samtakanna til fagfólks og nemenda (jafningjafræðslu einnig), aukinnar samfélagsumræðu um að brjóta úreltar staðalímyndir kynja og veita fólki meira frelsi að vera og haga sér óháð kyni, kynvitund, eða kynhneigð. Þessi upptalningin gæti haldið áfram lengi.

Ég er stoltur af Samtökunum og vil glaður leggja mitt lóð á vogaskálarnar Samtökunum og hinsegin samfélaginu til stuðnings.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Hingað til hef ég aldrei unnið með Samtökunum né verið félagsmaður. Ástæða þess kemur frá foríðartortryggni gagnvart Samtökunum. Þegar ég kom út úr skápnum var ég mjög viðkvæmur og berskjaldaður. Ég mætti til Samtakanna, sem þá voru á Laugarveginum, í þeirri von að fá einhverskonar huggun, styrkingu og samtöðu en mér var mætt á frekar kaldan máta. Mér sagt að þau hefðu ekki tíma til þess að hjálpa mér núna og að ég ætti að koma seinna og mér vísað svo á dyr. Ég var með tárin í augunum og særðist mjög. En ég vona að upplifun mín hafi verið einsdæmi vegna þess að ég fyllist af stolti yfir þeim árangri sem Samtökin hafa áorkað. Bæði lagalega sem og félagslega. Ég hef hinsvegar alltaf fylgst með samfélagsumræðunni og sýnt samstöðu með listinni minni og aktívisma. Eftir að hafa tekið þátt í gjörningi sem ég gerði með Hatara í Eurovision, þar sem við tókum þátt fyrir hönd Íslands með þann ásetning að skapa umræðu um þá firringu að halda keppnina í landi þar sem ólöglegt hernám á sér stað, þar sem aðskilnaðarstefnu er viðhaldið, og þar sem sífellt er verið að brjóta á mannréttindum fólks. Við nýttum dagskrárvaldið okkar til þess að gagnrýna þá þversögn að keppni sem talar fyrir fjölbreytileika og sameiningu fólks sé haldin í landi sem sundrar og mismunar. Við lögðum einnig mikla áherslu á að Ísrael væri líklega að beita “pink-washing” til þess að fegra ímynd sína. Óhjákvæmilega fengum við mikið fylgi aðdáenda og ég hef nýtt það sem stökkpall til þess berjast fyrir réttindum hinsegin fólks. Ég nýtti hvert tækifæri sem gafst til að vekja athygli á hinsegin samfélaginu.

Ég veifaði regnbogafánanum í græna herberginu í Tel Aviv. Regnbogafáninn er bannaður í Eurovision en “tolerated” sem þýðir að fólk má vera með hann á keppninni en allar upptökuvélar reyna að forðast hann vegna þess að mörg lönd sem taka þátt styðja ekki mannréttindi hinseginfólks. Á rauða dreglinum gekk ég í kjól eftir samkynhneigðan palestínkan hönnuð sem táknaði þær margþættu togstreitur sem hönnuðurinn var að upplifa; Það að vera samkynhneigður Palestínumaður í Ísrael þar sem hann getur lifað opiðskátt sem samkynhneigður maður í Tel Aviv en samt verið mismunað vegna uppruna síns; Það að vilja berjast fyrir sjálfstæði landsins síns en óttast að réttindi hans sem samkynhneigðum manni yrðu ekki virt o.s.frv.

Sumarið 2019 kom ég fram á Reykjavík Pride í fyrsta skipti sem listamaður og var með atriði á opnunarhátíðinni. Einnig dansaði með Hatara eftir gönguna í Hljómskálagarði. Veturinn 2019 lét ég búa til risa stóra regnbogavængi sem ég breiddi út á tónleikum í Moskvu í Rússlandi til þess að sýna samtöðu með kúgaða hinseginsamfélaginu þar. Og í janúar 2020 gagnrýndi ég núverandi ríkisstjórn Póllands (the PiS Party), og and­stöðu hennar við rétt­inda­bar­áttu hinseg­ins fólks með gjörningi og breiddi út sömu vængjum og í Rússlandi.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

Ég tel að Samtökin þurfa að sjálfsögðu að halda áfram sínu grundvallarhlutverki að vera hagsmunagæsla og fræðslumiðlari.

Ég myndi vilja vinna frekar að því að virkja ungt fólk og gera samtökin að enn áhugaverðari stað. Ungt hinsegið fólk sem líður öruggt og ánægt þurfa að mínu mati samt að vera virk og áhugasöm til þess að standa vörð um réttindi sín og frelsi, og einnig til þess að berjast fyrir auknum réttindum og betra lífi fyrir aðra sem eru ekki í sömu stöðu.

Ég vil halda áfram að virkja alþjóðastarf Samtakanna og skapa áhuga og helst athygli á þátttöku okkar. Ég vil einnig leggja meiri kraft í að opna landamærin meira fyrir hinsegin flóttafólki sem er í afar viðkvæmri stöðu.

Sem listamaður tel að ég að við gætum gert mun meira í listaheiminum, vera meira áberandi og beita okkur fyrir fleiri allskonar sýningum sem fjalla um hinsegið fólk og þeirra málefni.

Ég sem listamaður held að ég gæti komið inn í Samtökin með önnur og ný sjónarhorn.

Um Sigurð Andrean
Ég hef verið í sambandi með Viktori Stefánssyni, stjórnmálahagfræðingi í að verða 9 ár.

Ég kláraði B.A. gráðu í sviðlistum með áherslu á samtímadans við Listaháskóla Íslands 2016.

Þar eftir hef ég unnið í allskonar sviðsuppsetningum en hef unnið hjá Íslenska Dansflokknum síðan haustið 2017 og fékk fastráðningu haustið 2019.

Með skóla starfaði ég sem flugþjónn en þar áður sem herferðarstarfsmaður hjá Íslandsdeild Amnesty International. Einnig hef ég unnið í járnabindingum og sölufulltrúi í Ikea.

Ég var varaformaður í ungliðahreyfingar Amnesty International í 3 ár.

Ég stofnaði félagið Ungt fólk í átt að sjálfbærni á menntaskólaárunum mínum. Félagið hittist á tveggja vikna fresti og fræddi sig um sjálfbæra þróun og mikilvægi þess. Okkur var svo boðið á umhverfisráðstefnu ungs fólks 2010 í Eistlandi.

Framboð til stjórnar

Bjarndís Helga Tómasdóttir

Nafn
Bjarndís Helga Tómasdóttir

Fornafn
Hún

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Á þeim árum sem ég hef fylgst með starfi Samtakanna 78 hefur mikil framför orðið í málefnum hinsegin fólks hér á landi. Íslendingar eru jákvæðastir allra í garð hinsegin fólks, eins og fram kom í fréttum á síðasta ári, og er það ekki síst þrotlausri vinnu Samtakanna 78 og þeim sjálfboðaliðum sem starfa innan þeirra, að þakka. Félagastarf verður aldrei betra en þeir sem starfa innan þess og innan Samtakanna hefur mikill metnaður, elja og ástríða fyrir tilveru og hagsmunum hinsegin fólks mótað allt það góða starf sem þar fer fram. Samtökin hafa skipað sér í flokk með öðrum félagasamtökum sem er leiðandi í mannréttindabaráttu á Íslandi. Þegar kemur að málefnum hinsegin fólks í stjórnsýslunni er sérstaklega leitað til Samtakanna, þar sem sérþekkingin sem býr innan þeirra er alkunna.

Síðustu ár hefur mikil stefnumótunarvinna átt sér stað og þungi lagður í að gera starf Samtakanna sem faglegast. Sérstök áhersla hefur verið lögð á grunnstoðir starfsins á borð við ráðgjafaþjónustuna og Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar, en þessir þættir tel ég að séu sérstaklega mikilvægir þar sem um viðkvæmustu hópa hinsegin samfélagsins er að ræða. Á síðustu árum hefur innviði Samtakanna einnig tekið stakkaskiptum og hefur það skilað sér í því að nú, í fyrsta sinn í sögu félagsins, eru Samtökin á fjárlögum ríkisins. Er það merki um þá mikla grósku félagsins sem ég hef orðið vitni að á undanförum árum.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Ég hef verið viðloðandi starf hagsmunafélags Samtakanna, Hinsegin daga, síðustu ár og séð þar um skipulagningu Hýrra húslestra. Í gegnum það kynntist ég starfi Samtakanna og sat í trúnaðarráði starfsárið 2018-2019, þá sem varaáheyrnarfulltrúi í stjórn Samtakanna. Ég var kosin í aftur í trúnaðarráð fyrir starfsárið 2019-2020 en vegna röð atvika þurfti trúnaðarráð að tilnefna einn aðila frá sér til að taka sæti í stjórn. Ég var hvött til þess að bjóða mig fram í þá setu og hef nú sinnt starfi ritara síðasta árið.

Með fram ritarastörfum hef ég sinnt verkefnum og viðburðum tengdum menningu og listum. Má þar kannski sérstaklega nefna viðburðinn Jólaupplestur og bókmenntaspjall með Lilju Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur. Þar lásu þær fyrir okkur úr nýjum verkum sínum og ræddu bókmenntir og hinsegin heimsmynd. Einnig kom ég að skipulagningu félagsfundarins í nóvember, og þá sérstaklega að samtali kynslóða sem Vera Illugadóttir leiddi og Lana Kolbrún Eddudóttir, Júlía Margrét Einarsdóttir og Sólveig Daðadóttir ræddu upplifun sína og sögu sem hinsegin konur á ólíkum aldri. Í áframhaldandi starfi í stjórn Samtakanna hefði ég áhuga á að sinna álíka verkefnum, enda er hinsegin listir og menning mér hugleikin og hugmyndirnar margar.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

Fyrir félagasamtök á borð við Samtökin 78 er sjálfstæði lykilatriði. Staða Samtakanna í réttindabaráttu og skyldur okkar til félagsfólks eru slíkar að mikilvægt er að við berum höfuðið hátt og skipum okkur áfram og alltaf í framlínu baráttunnar. Samtökin 78 eru ekki lítil samtök sem eiga bara heima á lítilli skrifstofu og er til fyrir fátt fólk. Samtökin 78 eru raunverulega gríðarstór samtök sem vinna staðfastlega að bættum kjörum alls hinsegin fólks, bæði úti í samfélaginu en líka innan Samtakanna sjálfra. Ráðgjafaþjónustan, félagsmiðstöð 13-17 ára, stuðningshópar, fræðsluviðburðir, skemmtikvöld og margt fleira, bera þess vitni. Þetta sjálfstæði þarf fyrir alla muni að halda í, alltaf. Samtökin 78 eru stór samtök sem leitast við, og eiga að leitast við, að vera í samstarfi við aðra, en ævinlega á sínum eigin forsendum. Alltaf á okkar forsendum.

Sýnileiki okkar í samfélaginu hættir aldrei að vera mikilvægur. Við þurfum að sýna að við erum til og að við erum fjölbreyttur hópur. Sýnileikinn er mikilvægur þegar kemur að réttindabaráttunni en hann er ekki síður mikilvægur svo að þau okkar sem eru ein og án stuðnings viti alltaf hvar okkur er að finna. Þessi sýnileiki er ekki hvað síst mikilvægur á vettvangi menningar og lista. Listin er bæði tjáningarform, pólitískt afl en einnig hvíld frá skarkalanum. Samtökin 78 hafa verið í örum vexti undanfarin ár. Þegar félagasamtök stækka með slíkum hraða verða óhjákvæmilega einhverjir vaxtaverkir. Stefnan hefur þó verið mörkuð, nú þarf bara að styrkja stoðirnar, bæta ferla, kerfi og þjónustu. Það er í nægu að snúast og þarf stjórn næstu ára að vera tilbúin til þess að leggja á sig mikla, en spennandi, vinnu.

Það er erfitt að halda því fram að einhverjir fáir þættir séu mikilvægari en aðrir. Markmið okkar hlýtur alltaf að við séum öll frjáls til þess að vera við sjálf og til þess þarf samfléttun margra þátta. Ég veit hins vegar hvar styrkur minn liggur og hvar ég get virkilega lagt hönd á plóg og er það einlæg ósk mín að fá tækifæri til þess að skapa fleiri tækifæri og vettvang fyrir hinsegin fólk til þess að deila rödd sinni.

Um Bjarndísi
Ég er kvikmyndafræðingur að mennt og hef talsverða reynslu af verkefna- og viðburðastjórnun, t.d. fyrir Samtökin 78, Hinsegin daga og í tvö eftirminnileg skipti, Rauða kross Íslands. Einnig var ég um tveggja ára skeið ritstjóri Sirkústjaldsins, vefrits um menningu og listir. Núna er ég í kennsluréttindanámi fyrir framhaldsskóla í HÍ.
Það er sennilega mikilvægt að taka fram að ég er stofnmeðlimur og núverandi formaður aðdáendaklúbbs Lilju Sigurðardóttur og Lönu Kolbrúnar Eddudóttur.

Framboð til stjórnar

Edda Sigurðardóttir

Nafn
Edda Sigurðardóttir

Fornafn
Hún

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Samtökin '78 hafa náð ákveðnum virðingarsess í samfélaginu, á okkur er hlustað og það þykir ekki smart að standa ekki við bakið á okkur. Þetta er stórmerkilegur árangur sem við þurfum að passa. Hinsegin félagsmiðstöðin okkar er síðan líka mjög sérstakt og mikilvægt verkefni þar sem við erum hinsegin félögum erlendis fyrirmynd og innblástur. Samtökin hafa undanfarin ár að mínu mati unnið mikið og gott starf en er jafnframt i stöðu til að geta leyft sér að vera ennþá metnaðarfyllri.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Síðasta starfsár 2019 - 2020 sat ég í Trúnaðarráði. Ég var áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðst
á stjónarfundum Samtakan '78. Ég aðstoðaði við ýmis verkefni Samtakana á þessum
tíma, eins og aðstoð við skipulagningu viðburða til dæmis.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

Augljósast finnst mér að við verðum að sinna sérstaklega stöðu intersex fólks sem drógst enn frekar afturúr þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt en intersex kaflinn fékk ekki að fylgja með. Eins sjáum við að standa þarf vörð um, og bæta úr, aðgengi trans fólks að heilbrigðisþjónustu. Þetta eru þeir hópar sem standa veikast og mikilvægt að passa vel. Þar fyrir utan vil ég gjarnan sjá áframhaldandi vinnu í þá átt að brúa bilið milli kynslóða hinsegin fólks og þétta hinsegin samstöðuna. Þetta er verkefni sem hinsegin samfélög erlendis standa jafnframt frammi fyrir en ég held að geti verið skemmtilegt og gefandi.

Um Eddu
Þrjátíu ára nemi og kennari.
BA próf í Heimspeki með ritlist sem aukafag frá HÍ
Er í MA námi i Heimspekikennslu í HÍ
Formaður Soffíu, nemendafélags heimspekinema veturinn 2011-2012
Sat í stjórn BDSM á Íslandi 2013 - 2016
Var í Trúnaðarráði 2019-2020

Framboð til stjórnar

Saga Emelía

Nafn
Saga Emelía

Fornafn
Hún

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Ég tel að Samtökin 78 standi á nokkrum tímamótum vegna stórvægilegra breytinga á samfélagi samtímans. Einnig vegna þess endurlits sem á sér stað á sögu ýmis konar kynverundar og kyneinkenna, en líka kyngervis og kyntjáningar. Ný kynslóð hefur hægt og bítandi verið að hasla sér völl og skilja við hið liðna. Þroskaskostir samfélags og einstaklinga eru afar margir og margvíslegir. Um leið eru áskoranir miklar og afar brýnt er að takast á við þær af skilvirkni; og af eindrægni líkama, hugar og anda; og af fullum heiðarleika. Það mun geta skipt sköpum fyrir farsæld og lífsviðurværi þess samfélags sem við þekkjum og skiljum. Hvert og eitt okkar erum hver á sinn hátt þátttakendur í þess háttar samfélagi og líka í sögu af tímans rás. Málsvörn er lykill að þeirri framtíð sem við þurfum að heyja. Það þarf að færa umræðuna opinskátt og af alúð inn í öll svið íslensks samfélags og út í alla afkima þess þjóðfélags Íslands sem við veljum að elska og virða. Verkefnin eru ærin og þau lúta bæði að daglegu amstri og að félagslegum tengslum, tengslaneti og mikilli innsýn inn í stöðu þess margflókna veruleika og skynjun sem Ísland nútímans hefur færst til. Málsvörn þarf að vera okkar aðferð til að sækja fram lögformleg réttindi, og okkar sameiginleg manngildi og mannhelgi.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Ég gaf kost á mér til setu í Trúnaðarráð á aðalfundi Samtakanna 78 árið 2004. Uppstilling var á tíu einstaklingum og höfðu þeir einstaklingar verið stillt upp til kjörsins. Tíu sæti í Trúnaðarráðinu stóðu til boða og ég var sá sem út af stóð undir mínu fyrra nafni og kyneinkennum.Gengið var til leynilegrar kosningar ellefu í kjöri og náði ég ekki sæti í Trúnaðarráðinu það skiptið. Undanfarna formennskutíð hef ég sótt almenna félagsfundi Samtakanna 78 undir formennsku Þorbjargar sem er núverandi formaður og Daníels framkvæmdastjóra.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

● Það þarf að efla og auka alla málsvörn fyrir mannhelgi, mannvirðingu og manngildi samfélags og einstaklinga. Það á við um alla sem kenna sig við það samfélag sem fellur formlega og óformlega undir Samtökin 78; og öllu samfélagi sem tengist beint og óbeint við það einstaklinga í þeim sama ranni.
● Það þarf að koma upp góðri aðstöðu til félagsstarfa og þátttöku allra góð viljaðra einstaklinga og hópa í okkar samfélagi. Slíkt húsnæði þarf að vera í sambýli við mjög gott og öruggt húsnæði sem er með tilheyrandi vinnuaðstöðu fyrir skrifstofu og fundahöld. Ég hef afar góða almenna þekkingu á húsnæðismálum frá mínu sérsviði í námi, fræðaiðkun og margvíslegum störfum mínum.
● Það þarf að gera upp sögu samtíðar og sögu fortíðar. Sögu einstaklinga í hinsegin samfélagi og sögu þekkingar um slíka líkamlega og andlega nánd. Söguleg geymd færir okkur völd í hendur sem ella mun vera kastað í glatkistuna. Ég var sú fyrst sem sendi inn ábendingu á vefinn huldukonur.is og hef fylgt því eftir með enn annarri og mun fyllri ábendingu sama efnis. Þannig vinnur samfélag hinsgin kynverundar ýmsa sigra og eigum þar með fagnaðarfundi við fyrri tíðar ástir og örlög.
● Viðhalda þarf trúverðugleika gagnvart stofnunum og félagasamtökum. Einmitt í slíku augnamiði vil ég beita mér af alefli fyrir því að Samtökin 78 sæki um og nái fram aðild að Almannaheill - Samtökum þriðja geirans (www.almannaheill.is). Það er óformlegt kosningaloforð að ganga slíkra erinda og að fá því framgengt að af full aðild Samtakanna 78 að Almannaheillum raungerist. Ég tel allar forsendur vera fyrir slíku frumkvæði af hálfu nýrrar stjórnar og hef sent skrifstofu Samtakanna 78 tillögu um slíka málsmeðferð á sjálfum aðalfundinum sem framundan er. Slík nálgun er bæði brýn og mikilvæg til samtíðar og framtíðar litið. Hún festir Samtökin 78 í sessi sem félagsamtök fyrir annars vegar margbreytileika einstaklingsins og kynvitundar þeirra hinna sömu einstaklinga; og hins vegar fyrir þau félög sem rúmast innan Samtakanna 78.

Framboð til stjórnar

Steinar Svan Birgisson

Nafn
Steinar Svan Birgisson

Fornafn
Hann

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Staðan er sterk, en þó má en heimikið gera til að efla vitund almennings um tilvist samtakanna, skerpa á hlutverki samtakanna, skýra en frekar hverjir geti leitað til þeirra og einnig skýra hvaða verkefnum hefur verið náð og hvaða verkefni eru en óunnin. Tel tildæmis heimikið verk óunnið er varðar hóp hinsgin öryrkja

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Hef ekki unnið fyrir samtökin áður, en þó síðan ég kom út úr skápnum opinberlega á síðasta ári og síðan þá hef ég rætt mikið um hinsegin málefni og þreytist seint á því að minnast á mikilvægi þess að á hópinn sé hlustað og honum tryggður skýrlaus réttur til jafns við aðra þegna samfélagsins. Ég kom út sem hinsegin öryrki, og því beini því sjónum mínum aðallega að þeim hópi, þó finnst mér erfitt að taka einn hóp út fyrir sviga og tala því um hinsegin fólk, einstaklinga, í umræðu um málefni hópnum tengd. Þó vil ég gera þeim hópi hinseginn öryrkum vegamikinn sess í umræðunni nái ég kjöri.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

Ég á samtökunum Mikið að þakka þau hafa styrkt mig í þeirri trú að halda áfram á vegferð minni til áframhaldandi réttindaöflunnar, hvort sem það er í stjórn samtakanna eða utan hennar. Jafnframt hefur vinna undangegninna ára gert mér auðveldara að koma út en ella. Þótt ég hefi fengið minn skerf af mótlæti, líkt og allt of mörg okkar höfum reynslu af. Ég tel að feiki mörg góð verk hafi verið unninn í áraraðir á vegum samtakanna og sú vinna hafi verið borinn á herðum fárra þótt hópurinn fari vissulega stækkandi sem veiti samtökunum liðsinni í sjálfboðastarfi í ræðu og riti orði og borð og út á akrinum í samféginu. Ég tel að mikilvægt sé að halda áfram þar sem frá var horfið, skerpa á hlutverki samtakanna, skýra en frekar hverjir geti þangað leitað og tryggja meö öllum tiltækum ráðum að samtökunum sé tryggður fjárhagslegur grunndvöllur til að veita félagsmönnum liðsinni til ferkari ávinnings í þeirra baráttu til frekari réttinda.

Um Steinar
Sjálfur er ég sem sagt hinsegin öryrki, samkynhneigður karlmaður, ég kem frá góðu heimili, þótt mamma og pabbi séu skilin, pabbi menntaður kennari, nú komin á eftirlaun, mamma vinnur sem símadama á heislugæslu Suðurlands ég er ógiftur, ekki í sambúð, ekki vinamargur, en undanfarið hafa þó verið að vinnast sterk mið á félagslegu hliðinni, þáttakandi í uppistandshópi Soalflow comedy og tilheyrt þeim hópi frá upphafi, myndlistamaður m.a. hélt þrjár myndlistasýningar á síðasta ári ein þeirra haldin í húsakynnum samtakanna og fékk sú sýning nafnið Hinsegin veröld. Sýningin vakti mikila athylgi, einnig sýndi ég sama ár á Ljósanótt og bar sú sýning nafnið Ljósmál og var haldin í Fishershúsi, aukin heldur var ég partur af listaverkamarkaði sama var á vegum lista án landamæra. Risastórt ár fyrir mig og styrkti mig í trúnni á það að ég hef heimikið til málanna að leggja í hinsegin baráttunni, einkum tengt hinsgin öryrkjum, eins og áður segir, tilheyri ég þeim hópi. Ég hef lokið við grunnskólapróf, auk fjöldanum öllum af öðrum áföngum í margskonar fögum þar á meðal lauk ég grunndeild matvælaiðna og fór nokkuð langt inní matartæknanám. Nam myndlist við Myndlistarskólann í Kópavogi, Myndlistaskólann í reykjavík, sótti þar námsskeið, m.a. hjá Þorra Hirngssyni, einnig Lagði ég stund á myndlaistarnám við Testrup Hojskola og Korgerup hojskole. Talsvert góður í dönsku, held ég geti sagt með nokkuð góðri samvisku að ég sé stúdent í því fagi, fer þó eftir brautum sem yrðu þá fyrir valinu. Einnig þokkalegur í ensku og góður í íslensku. Jafnframt viðurkenni´ég að ég á helmargt ólært í hinseginfræðum, því tek ég allri leiðsögn félagsmanna fagnandi í þeim efnum. Ég hef þó náð að afla mér þó nokkukrrar þekkingar á því sviði á undangengnu ári, þökk sé sterku samtali mínu við fólk er tilheyrir hinseginsamfélaginu.
Reynsla mín af vinnumarkaði er frekar grýtt, hef fegnið minn skerf af mótlæti á því sviði og er nú að ljúka starfsmati, til að fá skarpari mynd af framtíðarhorfum á vinnumarkaði. Enn á fjúgandi siglingu í myndlisttinni og heilmikið í undirbúningi þar. Þau störf sem ég hef aðallega lagt stund á á undagengum árum eru aðallega ýmiskonar afgreiðslustörf.

Framboð til stjórnar

Unnsteinn Jóhannsson

Nafn
Unnsteinn Jóhannsson

Fornafn
Hann

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem
unnið hefur verið að á síðustu árum?

Samtökin ´78 hafa tekið stakkaskiptum síðustu ár, þá sérstaklega þegar litið er til hvernig unnið hefur að því að gera starfsemina faglegri og fastari í skorðum. Það eru forréttindi að fá að fylgjast með með þessum breytingum og hafa t.a.m. aldrei fleiri nýtt sér þjónustu Samtakanna ´78. Frá því að ég fór að fylgjast með Samtökunum og taka þátt í starfsemi þeirra hafa þau farið úr því að vera með tvö 50% stöðugildi í þrjú 100% stöðugildi. Enn bætist við frábæran hóp ráðgjafa og Hinsegin félagsmiðstöðin blómstrar. Ný lög um kynrænt sjálfræði hafa verið samþykkt, þó ekki hafi náðst að fullu þau réttindi sem við sáum fyrir okkur. Lögin hafa þó haft jákvæð áhrif og með góðri eftirfylgni og pressu munum við vonandi sjá þá réttarbót fyrir trans – og intersex fólk sem lagt var upp með. Með nýrri aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og einelti og nýrri sjálfboðaliðastefnu höfum við tekið skref í rétta átt og skýrt betur hverju félgasfólk má vænta. Þrátt fyrir frábæran árangur er ennþá af nógu að taka og enn er margt óunnið. Þar sem Samtökin hafa stækkað svo um munar síðustu ár hafa fylgt því ákveðnir vaxtaverkir og álag á starfsfólk og stjórn hefur aukist.
Það þýðir einnig að hugsanlega hafa ákveðin verkefnið þurft að bíða og oft þarf að bregðast við með mjög litlum fyrirvara, þetta þyrfti að bæta. Einnig þarf að skoða hvort og hvernig má virkja betur samtalið við félagsfólk og virkja þann kraft sem býr í þeim fjölda einstaklinga sem eru velviljuð Samtökunum ´78.

Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78?
Ég hef setið í trúnaðarráði tvö ár í röð. Einnig kom ég að því árið 2014 að skipuleggja „Tónleika með tilgang“ sem Samtökin 78 og Amnesty International stóðu fyrir til að vekja athygli á mannréttindabrotum gegn hinsegin fólki í Úganda og safna fé til handa hinsegin aðgerðarsinnum þar í landi. Þá sat ég í stjórn árið 2016, þá sem varaformaður, en sagði mig frá stjórn á miðju kjörtímabili vegna vinnu. Árið 2018 bauð ég mig síðan aftur fram og hef setið í stjórn síðan, bæði sem alþjóðafulltrúi og síðar sem varaformaður.

Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða
verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?

Mikilvægast fyrir mér er að halda áfram að styrkja grunnstoðir Samtakanna ´78. Með því að halda áfram að leggja metnað að viðhalda og efla grunnþjónustu okkar, það er fræðslan, ráðgjöfin, Hinsegin félagsmiðstöðin og vera málsvarar hinsegin fólks gagnvart stjórnvöldum hverju sinni. Með því að vinna að leiðum til að gera Samtökin ´78 fjárhagslega sjálfstæð þar sem ekki þarf að treysta einungis á verkefnasamninga við ríki og sveitarfélög munum við sjá sterkari samtök. Einnig er nauðsynlegt að skoða hvernig megi vinna að því að setja Samtökunum ´78 stefnu til lengri tíma með félagsfólki þar sem stjórn og starfsfólk fær þá góðan leiðarvísi um hvað sé mikilvægast félagsfólki hverju sinni. Þannig má betur forgangsraða og vinna með skipulegum hætti að sameiginlegu markmiðum. Þætti mér einnig mjög mikilvægt að halda áfram að styrkja tengsl okkar við systurfélög okkar á norðurlöndunum því þar liggur mikill styrkur fyrir okkur öll, þegar við vinnum saman og deilum reynslu, þekkingu og áskorunum hverju sinni. Barneignir, menning, réttindabarátta, að eldest hinsegin og viðburðir sem tengja saman kynslóðir eru einnig mikilvægar sem og málefni hinsegin hælisleitenda og flóttafólks.

Um Unnstein
Fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu. Skáti, bróðir, KaosPilot, eiginmaður, fósturfaðir, hundaeigandi, opinskár, pólitíkst nörd, pylsugerðamaður, forvitinn og með sterka réttlætiskennd.

Framboð í trúnaðarráð

Agnes Jónasdóttir

Anna Eir Guðfinnudóttir

Ástrós Erla Benediktsdóttir

Elísabet Rakel Sigurðardóttir

Eyþór Óli Borgþórsson

Jódís Skúladóttir

Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir

Ragnar Pálsson

Saga Emelía

Sigtýr Ægir Kárason

Steinar Svan Birgisson

Framboð sem skoðunarmenn reikningar

Sigurjón Guðmundsson

Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson