Skip to main content
search

Bjarndís Helga Tómasdóttir

Framboð til formanns

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég heiti Bjarndís og er rúmlega fertug tvíkynhneigð kona, búsett í Hafnarfirði. Ég á tvö börn, eina kærustu og einn mjög sætan hund sem heitir Kókos. Ég er DeWalt-kona, geitur eru sennilega uppáhalds dýrið mitt og ég elska Samtökin ´78 meira en ég elska fyrsta kaffibollann á morgnana.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég hef setið í stjórn Samtakanna ’78 síðustu fimm ár, fyrst sem ritari og síðar sem varaformaður. Áður hafði ég einnig setið í trúnaðarráði, nú félagaráði.

Auk hefðbundinna stjórnarstarfa hef ég tekið þátt í ýmsum verkefnum innan Samtakanna. Ég hef komið að skipulagningu félagsfunda, málþinga, landsþings og fjölþjóðlegrar ráðstefnu hinsegin fólks hér á landi, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess sem ég hef staðið að ýmsum smærri viðburðum. Ég leiddi einnig verkefnið Ein saga- eitt skref, verkefni sem fólst í söguöflun í formi viðtala við hinsegin fólk um samskipti sín og upplifun af kirkjunni. Verkefnið var mikilvægur áfangi í varðveislu sögu hinsegin samfélagsins. Síðustu mánuði hef ég svo stigið inn í fræðslustarf Samtakanna og flutt fræðsluerindi um hinseginleikann um land allt, mér til mikillar ánægju.

Síðustu ár hef ég ritstýrt Tímariti Hinsegin daga, en það er eina tímarit hinsegin fólks á Íslandi sem kemur reglulega út á prenti. Það er virkilega gefandi vinna sem hefur gefið mér einstaka innsýn inn í fjölbreytileika hinsegin samfélagsins og skýrt enn frekar fyrir mér hversu mikilvægt samfélagið okkar er og hversu mikilvægt það er að við finnum leiðir til inngildingar allra hópa þess.

Ég er hugmyndarík, fjölhæf og á gott með að fá fólk með mér í hvers kyns verkefni, sem eru kostir sem ég hafa nýst mér einstaklega vel í starfi mínu innan Samtakanna 78. Það er fátt sem ég hef jafn mikla ástríðu fyrir og málefni hinsegin fólks, hvort sem er í hagsmunabaráttu, sögulegu samhengi eða í alþjóðasamstarfi. Síðustu ár hef ég m.a. haft sérstakan áhuga á að stofna til og styrkja samband okkar við Grænland og Færeyjar og hef síðustu tvö ár tekið frumkvæði í því verkefni með góðum árangri. Við höfum nú þegar myndað sterk tengsl við systurfélög okkar í þessum löndum og stefnum á að hefja formlegt Vestnorrænt samstarf innan tíðar.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Síðustu ár hafa Samtökin vaxið gríðarlega og er það þrotlausri vinnu starfsfólks, sýn og ástríðu stjórnar og óeigingjarnrar vinnu sjálfboðaliða að þakka. Samtökin hafa stækkað mikið, eflt þjónustu sína, styrkt fagmennsku og þekkingu svo eftir er tekið. Ársskýrslur síðustu ára bera það með sér að gróskan er mikil og ég vil nýta þetta tækifæri til að hvetja öll til að kynna sér ársskýrslurnar á vefsíðu Samtakanna, þær eru virkilega fróðleg og skemmtileg lesning! Stuðningur stjórnvalda er afskaplega mikilvægur en einstaklingsframlög Regnbogavina vega þungt til þess að við getum veitt þá þjónustu sem við gerum í dag. Fjárframlögin eru mikilvæg en stuðningurinn sem við finnum frá samfélaginu er ekki í síður mikilvægur og blæs stjórn og starfsfólki þrek í brjóst þegar starfið er þungt. Sjálf er ég ákaflega hreykin af því að hafa átt þátt í þeirri vinnu sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum í dag og vil áfram nýta krafta mína í þá vinnu sem bíður okkar.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Samtökin okkar standa sannarlega sterk en þó er ekkert svo gott að ekki sé hægt að bæta það enn frekar. Það er mikilvægt að við vöndum næstu skref og að þau séu tekin með skýrri stefnu að leiðarljósi. Samtökin þurfa að halda í þann mikilvæga trúverðugleika sem þau hafa byggt upp síðustu ár en þurfa einnig að taka stærri skref til að vera samtök okkar allra. Næstu verkefni eru því m.a. á sviði inngildingar fleiri hópa samfélagsins, á sviði faglegrar upplýsingamiðlunar til fagfólks sem vinnur með fólki og að finna stöðugleika í þessum mikilvægu mannréttindasamtökum, þessum stóru félagasamtökum.
Því gleymum því ekki að við erum félagasamtök í grunninn. Við erum fyrst og fremst til staðar fyrir hvort annað, burtséð frá ferlum, reglum og lögum, við erum saman í baráttunni, þaðan kemur styrkur okkar. Þegar Samtökin voru stofnuð fyrir bráðum fimmtíu árum síðan var þörf fyrir samfélag sem gætti hvors annars og Samtökin urðu þetta samfélag. Enn í dag gegnum við mikilvægu hlutverki fyrir nýjar kynslóðir, og fyrir þær sem á undan komu því að í fyrsta sinn í sögu Íslands er til kynslóð hinsegin fólks, homma, lesbía og trans fólks, sem komin eru á eftirlaunaaldur og lifa opin með sína kynhneigð og kynvitund. Á næstu árum þurfum við að fara í þá vinnu að safna sögum úr samfélaginu okkar, vinna að geymd menningararfs hinsegin fólks á Íslandi því að það er okkar saga og við þurfum að segja hana sjálf, frá okkar sjónarhorni.
Á sama tíma verðum við að skapa rými fyrir nýjar sögur nýrrar kynslóðar og sögur fólks sem fram til þessa hefur staðið á jaðri hinsegin samfélagsins. Við þurfum að skapa rými og leggja við hlustir. Inngilding er ekki bara tískuorð, inngilding er eitt mikilvægasta málefnið í starfi okkar í dag og við þurfum að læra hvernig við vinnum að því markmiði að öll sem vilja finni sig tilheyra innan Samtakanna ‘78.

Við erum sannarlega komin langt og staða hinsegin fólks í dag allt önnur og betri en árið 1978 þegar lítill hópur homma og lesbía tóku sig saman um að stofna Samtökin ‘78. Sýnileiki okkar hættir þó aldrei að vera mikilvægur, það hafa síðustu ár sýnt okkur en við höfum séð mikið bakslag í samfélagsumræðunni. Þetta bakslag má ekki verða til þess að fólk geti ekki stigið úr felum og lifað sínu lífi fyrir opnum tjöldum. Við þurfum áfram að ýta á móti, þurfum að sýna að við erum til og að við erum fjölbreyttur hópur. Sýnileikinn er mikilvægur þegar kemur að réttindabaráttunni en hann er ekki síður mikilvægur svo að þau okkar sem eru ein og án stuðnings viti alltaf hvar okkur er að finna og að við vinnum í þeirra þágu.