Skip to main content

Hrönn Svansdóttir

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er 36 ára cis lesbía og bý í Reykjavík með eiginkonu minni og 2 ára hundinum okkar. Ég starfa fyrir Íþróttabandalag Reykjavíkur sem gjaldkeri og verkefnastjóri. Ég er steingeit í sól og tungli, rísandi bogamaður og golden retriever týpa sem elskar excel, íþróttir og bollu/sprengidag meira en jólin!

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Á síðasta aðalfundi Samtakanna 78 var ég kjörin í félagaráð og sinnti hlutverki áheyrnarfulltrúa stjórnar. Einnig hef ég setið í stjórn Veru, hinsegin félagi kvenna og kvára síðastliðin 2 ár og skipulagt hinsegin viðburði almennt í næstum 17 ár. Ég hef mikla reynslu af stjórnunarstörfum og kem með mikinn metnað og skipulag í stjórn verði ég kjörin. Hápunkturinn er klárlega þegar ég fékk að stjórna jólabingói Samtakanna 78 árið 2012 í Vinabæ.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Samtökin standa frammi fyrir mörgum breytingum á bæði stjórn og starfsfólki. Það er mikill missir að sjá á eftir fólki sem hefur barist svona hart og lengi fyrir okkur, en á sama tíma er spennandi að sjá hvaða nýju tækifæri munu myndast á komandi árum. Ég tel að Samtökin standi á góðum grunni sem hefur nýst vel t.d. í núverandi bakslagi og tel mögulegt að byggja enn frekar á þeim grunni fyrir komandi tíma.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Ég kom út þegar ég var 19 ára með mjög litla vitneskju um hinsegin samfélagið á Íslandi. Ég vil vernda það starf sem Samtökin 78 vinna að núna með því að styðja við ráðgjöfina og fræðsluna. Auk þess vil ég virkja samfélagið okkar með því að halda utan um viðburði sem við þörfnumst hverju sinni, hvort sem það er lýðheilsa, félagsskapur eða vilji til að læra eitthvað nýtt. Einnig langar mig að koma Jólabingói Samtakanna 78 aftur á laggirnar.