Skip to main content
search

Álfur Birkir Bjarnason

Framboð til formanns

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er 28 ára náttúruunnandi sem sækist eftir kjöri sem formaður Samtakanna ’78.

Ég uni mér best þegar ég get látið gott af mér leiða. Hvort sem það er við náttúruvernd og landvörslu, stærðfræðikennslu eða í félagsstörfum og mannréttindabaráttu. Ég veit að innan Samtakanna ’78 get ég haft jákvæð áhrif á samfélagið okkar.

Í frístundum sæki ég í náttúruna. Ég nýt þess að ganga um og velta fyrir mér lífríki landsins og formfegurð þess. Ég hef einnig gaman af að fylgjast með mannlífinu og sjá allt sem gerir okkur einstök en samt svo áþekk.

Ég er tölvunarstærðfræðingur að mennt og verðandi líffræðingur þar að auki. Undanfarin ár hef ég starfað sem landvörður í nágrenni Kirkjubæjarklausturs á sumrin og sem stærðfræðikennari í Háskólanum í Reykjavík með náminu. Þar áður starfaði ég sem gagnasérfræðingur hjá Meniga.

Ég hef sinnt ýmsum félagsstörfum, svo sem í stjórn Samtakanna ’78, skipulagsteymi Druslugöngunnar og sem formaður Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík.

Ég bý í miðbænum í 55 fm íbúð á tveimur hæðum með kærastanum mínum og við leggjum mikið upp úr því að hafa það huggulegt í kotinu.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég sat í stjórn Samtakanna ’78 árin 2016-2018 sem meðstjórnandi og ritari, auk þess sem ég gegndi hlutverki varaformanns í nokkra mánuði. Sem stjórnarmeðlimur tók ég þátt í endurskoðun laga Samtakanna fyrir aðalfund 2017. Ég sat einnig í kjörnefnd Samtakanna ‘78 árið 2018-2019.

Ég hef því þó nokkra þekkingu á starfsemi Samtakanna ’78 auk þess sem ég hef ýmiss konar reynslu af öðrum félagsstörfum, svo sem við skipulag Druslugöngunnar 2019. Eins og kom fram að ofan hef ég einnig starfað við greiningu og tölfræðilega vinnslu gagna, og sem kennari og landvörður. Ég hef gaman af að miðla þekkingu og vekja áhuga á málefnum sem geta virst flókin við fyrstu sýn.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Í samræmi við þau markmið sem félagið setti sér á síðasta ári vil ég leggja áherslu á áframhaldandi réttarbætur hinsegin fólks með hliðsjón af Regnbogakorti ILGA Europe. Sem stendur er einkunn Íslands 54% en þar vantar mest upp á flokkana um alþjóðlega vernd á grundvelli hinseginleika, lagalega vernd gegn hatursglæpum og varnir gegn mismunun vegna hinseginleika, en lengi mætti telja til viðbótar. Á þessum sviðum er brýnt að Samtökin ’78 þrýsti á stjórnvöld um úrbætur.

Ég vil einnig halda áfram að byggja upp félagsmiðstöðina okkar fyrir hinsegin ungmenni. Aðsókn að henni hefur margfaldast á síðustu árum og ljóst að við þurfum að mæta breyttum þörfum þeirra sem sækja félagsmiðstöðina m.a. með tilliti til aðstöðu. Mögulega er einfaldlega kominn tími til að endurskoða húsakost Samtakanna ’78 í heild sinni. Þar að auki er full ástæða til að leggja áherslu á að auka þann hluta starfsemi félagsmiðstöðvarinnar sem er unnin af starfsfólki en minnka hlut sjálfboðastarfs á þessu sviði.

Að lokum er mikilvægt halda áfram að leggja áherslu á sýnileika og samstöðu hinsegin samfélagsins. Ég vil efla kynningu á starfsemi Samtakanna út á við, svo sem í fjölmiðlum, en hvetja einnig til aukins samtals okkar á milli. Við megum aldrei gleymast og við megum ekki gleyma hvert öðru. Við erum stór og flókin fjölskylda en öll eigum við okkar samastað undir regnhlíf Samtakanna ’78.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Samtökin ’78 eru ein sterkustu félagasamtök í mannréttindabaráttu á Íslandi.

Í rúm fjörutíu ár höfum við barist fyrir bættri stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á síðustu árum hafa mikilvægir sigrar náðst þótt enn sé margt óunnið. Lögin um kynrænt sjálfræði, sem samþykkt voru 2019 en þarf að fylgja eftir og bæta enn frekar, eru dæmi um löngu tímabærar réttarbætur sem Samtökin ’78, Trans Ísland og Intersex Ísland unnu að. Raunar tel ég hagsmunabaráttu Samtakanna ’78 fyrir hinsegin fólk til fyrirmyndar. Við veitum stjórnvöldum ákveðið en uppbyggilegt aðhald, við sækjum þær réttarbætur sem við teljum þörf á og við látum í okkur heyra þegar við teljum gengið á rétt okkar. Slíkri baráttu er aldrei lokið og mikilvægt að við höldum samstöðunni og spyrnum fæti við þeim sem vilja sundra okkur.

Ég er einnig afar ánægður með það faglega starf sem unnið er innan Samtakanna ’78, svo sem hinseginfræðslu grunn- og framhaldsskólanema, kennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra, ráðgjafaþjónustuna okkar fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þess, og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar fyrir hinsegin ungmenni. Þetta starf tel ég mikilvægan þátt í að bæta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu og lífsgæði þess. Ekkert annað félag eða stofnun getur unnið þetta starf.

Til marks um aukin umsvif félagsins hafa fastar rekstrartekjur Samtakanna ’78 rúmlega fjórfaldast á síðustu tíu árum úr 13,5 milljón í tæplega 56 milljónir og á sama tíma hefur stöðugildum á skrifstofu fjölgað úr einu í fjögur. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu veltur stór hluti starfsemi Samtakanna á sjálfboðavinnu félagsfólks, svo sem í félagsmiðstöðinni fyrir ungmenni, á opnum húsum og með hinsegin hælisleitendum.

Mig langar að nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg í gegnum árin við að byggja upp félagið okkar og vona að ég fái tækifæri til að móta þau áfram sem formaður Samtakanna ’78 næsta árið.