Skip to main content
search

Anna Íris Pétursdóttir

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég heiti Anna Íris og er menntað sem leikari og listgreinakennari. Ég kenni krökkum í unglingadeild leiklist, og hef verið að kenna leiklist af og á síðan 2016. Síðustu ár hef ég starfað með framleiðslufyrirtækinu Rokkur Friggjar sem er rekið af einungis hinsegin fólki. Ég hef lagt mig fram um að sýna fjölbreytilegar hliðar mannlífsins í minni vinnu, þá sérstaklega hvað varðar hinsegin málefni.

Ég bý í Hafnarfirði með unnustunni minni, og við eigum hvítan kött sem heitir Tófú. Ég er grænmetisæta og elska góðan mat, og geri virkilega gott vegan jólapaté.

Ég lærði leiklist í Bretlandi, og þegar ég flutti þangað kynntist ég hinsegin samfélagi sem var stærra og með lengri skráða sögu en ég var vant á Íslandi, sem gaf mér mikla reynslu af að hrærast í hinsegin menningu og hópum. Ég tók þátt í vinnu hjá ljóðskáldakollektívinu London Queer Writers, og gerði lokaverkefnið mitt um butch-femme menningu í listrænu samhengi.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Eina reynslan sem ég hef af vinnu með Samtökunum sjálfum er að vera sjálfboðaliði fyrir fræðsluna, en hins vegar hef ég mikla reynslu af stjórnarstörfum í gegnum leikhúsið. Ég er þaulvant skrifræði og hvers kyns umsóknum, fjárhagsáætlunum og verkefnastjórn. Einnig hef ég reynslu af meðhöndlun trúnaðarmála og að leysa viðkvæm vandamál.

Ég vinn mikið með ungu fólki og í listageiranum og kem því með það sjónarhorn með mér inn í öll störf.

Ég hef líka reynslu af störfum á alþjóðavettvangi, í gegnum Erasmus+, Nordplus, alþjóðlegar leiksýningar og sjálfboðastarf fyrir skátana.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Síðustu ár hefur verið gott að sjá hvernig Samtökin beita sér fyrir réttindum hinsegin fólks, og ég myndi vilja taka þátt í að halda því áfram, sérstaklega þegar það kemur að réttindum og réttindabaráttu hinsegin fólks í jaðarsettum samfélagshópum. Til þess held ég að það sé mikilvægt að skoða alþjóðasamhengið þegar við íhugum hvernig skal nálgast þau málefni. Það er líka mikilvægt að hlusta á fólk sem tilheyrir lengra jaðarsettum hópum þegar talað er um málefni þeirra, og hafa þau með í samtalinu.

Hafandi verið hinsegin ungmenni sem átti mjög erfitt með andlega heilsu vegna takmarkaðs upplags á hinsegin félagslífi og fræðslu, og þar sem ég vinn með unglingum á viðkvæmum aldri sem eru að finna sig sem einstaklinga sem passa ekki endilega inn í heterónormið, þá vil ég styðja við þá frábæru vinnu sem hinsegin félagsmiðstöðin hefur verið að gera. Ég sem kennari hef séð jákvæðu áhrifin sem hún hefur haft, og það að bæta stöðu hinsegin félagsmiðstöðvarinnar er gríðarlega mikilvægt til að hún geti haldið áfram að styðja við þá sem munu hafa gagn af henni.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna?

Þær framfarir sem samtökin hafa knúið áfram í samfélaginu eru ótrúlegar og ég er mjög þakklátt fyrir það. Mig langar að vera hluti af áframhaldandi baráttu og þróun.