Skip to main content
search

Arna Magnea Danks

Framboð til formanns

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er svo margt og misjafnt eftir því á hvað er horft.
Ég er kona, móðir, mannréttinda aktivisti og er lærð leikkona (East 15 acting school 1997 – 2000) og áhættuleikstýra (BADC – British Academy of Dramatic Combat 2000 – 2003) frá Bretlandi. Tók kennsluréttindin við LHÍ vorið 2009 og er á lokametrunum við að klára MA í Kynjafræði við HÍ.
Ég er pan kynhneigð og finnst pan henta mér persónulega þar sem ég laðast að fólki, andlega, líkamlega og tilfinningalega hvort sem það er innan eða utan kynjatvíhyggjunnar.
Ég sjálf er trans, því það er skilgreining sem ég og aðrir í minni stöðu hafa fengið, en ég er samt ég og hef alltaf verið rétt, það voru bara umbúðirnar sem voru rangar, innihaldið var alltaf rétt og það er, fyrir mér, að vera trans kona. Ég fæddist í röngum líkama/umbúðum og til að ég fengi og finni frið þá þurfti að laga það í samræmi við sjálfið/vitundina. Ég geri mér einnig grein fyrir því að ekki upplifa allir trans einstaklingar það sama og við erum eins misjöfn og við erum mörg.
En það er líka vegna þess að ég er vel menntuð trans kona sem bý við ákveðið öryggi sem svo margar okkar búa ekki við, að ég er að bjóða mig fram til forstýru. Til að vera rödd fyrir þær/þá/þau sem ekki hafa hana og sjaldan hefur verið meiri nauðsyn á að við sem getum, séum sýnileg, svo að öll trans börn og ungmenni (binary og non binary) viti að það er ljós og líf hinum megin við vegginn.
https://www.dv.is/fokus/2021/12/23/arna-er-loksins-laus-ur-burinu-eg-vissi-ad-eg-var-stelpa-thegar-eg-var-fjogurra-ara/

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Var í samráðshópi Samtakanna ’78 sem aðstoðaði forsætisráðuneytið við gerð verkefnaáætlunar í málefnum hinsegin fólks. Hef verið virk í félagsstarfinu, bæði sem hinsegin foreldri og sótt stuðningsfundi og ýmsa aðra viðburði. Er einnig félagi í Veru, félag fyrir hinsegin konur og kvár og félagi í TÍ. Verið virk þar. Það sem ég get fært S78 er að ég er fær í riti og orði bæði á ensku og íslensku. Er hádramatísk díva og ekki feimin eða hrædd við neitt lengur. Ég er pankynhneigð trans kona og hef ekkert að fela lengur. Allir skápar kyrfilega brotnir.
Ég er starfandi sérkennari við Grunnskóla Seltjarnarnes og kenni þar börnum af erlendum uppruna íslensku en þar á undan var ég leiklistarkennari, ensku, íslensku og umsjónakennari til fjölda ára. Einnig verið stundakennari við Menntavísindasvið HÍ, við leikara og listkennsludeild LHÍ og við KVÍ (Kvikmyndaskóla Íslands). Ég hef haldið TedxReykjavík fyrirlestur, leikið á leiksviði, kvikmyndum og sjónvarpi ásamt því að hafa hannað og séð um áhættuleik á leiksviði, kvikmyndum og sjónvarpi. Sjá nánar meðfylgjandi bio og á https://www.imdb.com/name/nm2049261/?ref_=hm_rvi_nm_i_1

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Þrennt sem kemur upp í hugann:
1. Sýnileiki fjölbreytileikans, – allir hópar/samfélög innan S78 finni að það er verið að vinna fyrir þau öll.
2. Fræðsla og menntun, – ýta enn frekar á stjórnvöld og á skólasamfélagið og sýna fram á nauðsyn kynjafræði kennslu, þar með hinseginfræði, á öllum skólastigum þar sem rannsóknir og reynslan kennir okkur að hinsegin ungmenni eiga undir högg að sækja og þurfa á töluvert meiri stuðning að halda en nú er og þar er fræðslan okkar sterkasta tæki til að uppræta fordóma.
3. Styðja hvort annað sem samfélag, finna öryggi, gleði, styrk og stolt í hvert öðru.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Hún er mjög góð og má þakka fráfarandi forstýru okkar, henni Þorbjörgu Þorvaldsdóttur og framkvæmdastjóranum okkar Daníel E. Arnarsyni sérstaklega en einnig fráfarandi stjórn, því engin stendur ein/n/t í svona baráttu.

Hlutverk þess sem tekur við formennsku er ekki að umbylta eða gjörbreyta allt og öllu, heldur læra af auðmykt af fráfarandi stjórn og stjórnarforystu, taka við keflinu og með tíð og tíma, vonandi, skila því áfram ekki minna glæsilegu og þegar var tekið við því.