Skip to main content

Bjarndís Helga Tómasdóttir

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er bráðum fertug hinsegin kona, kvikmyndafræðingur að mennt og hef talsverða reynslu af verkefna- og viðburðastjórnun, s.s. fyrir Samtökin 78 og Hinsegin daga. Þá hef ég unnið við ristjórn og var ég um tveggja ára skeið ritstjóri Sirkústjaldsins, vefrits um menningu og listir. Ég var einnig annar ritstjóra tímarits Hinsegin daga árin 2020 og 2021.

Nýlega flutti ég í Hafnarfjörð ásamt tveimur börnum mínum og líður okkar afskaplega vel þar. Ég á mér mörg áhugamál svo sem bókmenntir, prjón og Netflix. Nú nýlega uppgötvaði ég svo sjósund og á það hug minn allan. Það er fátt betra en að demba sér út í jökulkalt hafið á laugardagsmorgni í góðum hóp (hinsegin) fólks. Annars er ég svo forvitin að eðlisfari að það er aldrei að vita hvað ég tek mér fyrir hendur næst.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Síðustu þrjú ár hef ég setið í stjórn Samtakanna og tekið þátt í skipulagningu fjölmargra viðburða auk hefðbundinna stjórnarstarfa. Ég hef komið að skipulagningu félagsfunda og landsþings svo eitthvað sé nefnt auk þess sem ég hef staðið að stökum viðburðum s.s. samtali kynslóða, bókmenntakvöldum, hinsegin rithöfundaspjalli og barsvari. Ég hef einnig sinnt viðburðastjórnun á Hinsegin dögum þar sem ég sá um Hýra húslestra og kom á fót ljóðasamkeppni Hinsegin daga. Ég er hugmyndarík og á gott með að fá fólk með mér í hvers kyns verkefni, sem eru kostir sem ég hafa nýst mér einstaklega vel í starfi mínu innan Samtakanna 78.

Síðustu misseri hef ég unnið að verkefninu Ein saga- eitt skref, sem er samvinnuverkefni Samtakanna 78 og íslensku þjóðkirkjunnar. Verkefnið snýr að söguöflun og er í formi viðtala við hinsegin fólk um samskipti sín og upplifun af kirkjunni. Þetta er mikilvægur áfangi í varðveislu sögu hinsegin samfélagsins.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Það er erfitt að halda því fram að einhverjir fáir þættir séu mikilvægari en aðrir en nú þegar við stefnum úr þessum hríðarbyl sem Covid hefur verið, er mjög mikilvægt að hlúa að fólkinu í hinsegin samfélaginu. Síðustu tvö ár er viðbúið að mörg hafi komið úr skápnum eða áttað sig á því að þau ættu heima undir regnhlífinni. Staðan í samfélaginu kann því miður að hafa gert þeim erfitt um vik að tengjast öðru hinsegin fólki. Einnig er viðbúið að einstaklingar í viðkvæmri stöðu hafi einangrast og því er mikilvægt að Samtökin setji nú aukinn kraft í félagslegu hlið starfsins auk þess sem ráðgjöfin þarf að vera í stakk búin til þess að taka á móti fólki sem á þeim þarf að halda. Þá er mikilvægt að hafa í huga að nú er elsta kynslóð homma og lesbía og annars hinsegin fólks margt komið á eftirlaunaaldur. Það þarf því sérstaklega að hugsa að málefnum þessa hóps.

Þó svo að félagsleg hlið starfsins sé mér ofarlega í huga hlýtur markmið okkar þó alltaf að vera frelsi okkar til þess að vera við sjálf og til þess þarf samfléttun margra þátta. Ég veit hins vegar hvar styrkur minn liggur og hvar ég get virkilega lagt hönd á plóg og er það einlæg ósk mín að geta áfram tekið þátt í að skapa fleiri tækifæri og vettvang fyrir hinsegin fólk til þess að deila rödd sinni. Sýnileiki okkar í samfélaginu hættir aldrei að vera mikilvægur. Við þurfum að sýna að við erum til og að við erum fjölbreyttur hópur. Sýnileikinn er mikilvægur þegar kemur að réttindabaráttunni en hann er ekki síður mikilvægur svo að þau okkar sem eru ein og án stuðnings viti alltaf hvar okkur er að finna. Þessi sýnileiki er ekki hvað síst mikilvægur á vettvangi menningar og lista. Listin er bæði tjáningarform og pólitískt afl en einnig dýrmæt og mikilvæg hvíld frá skarkalanum.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Síðustu ár hefur stjórn Samtakanna unnið að stefnumótun fyrir félagið. Með auknu fjármagni, fleiri starfsgildum og mikilli vinnu hefur starf Samtakanna orðið faglegra. Sérstök áhersla hefur verið lögð á grunnstoðir starfsins á borð við ráðgjafaþjónustuna og Hinsegin félagsmiðstöðina. Þar er einmitt sérstaklega mikilvægt að vanda til enda um viðkvæmustu hópa hinsegin samfélagsins er að ræða.

Samtökin hafa aldrei staðið jafn vel að vígi og hafa skipað sér í flokk með öðrum félagasamtökum sem eru leiðandi í mannréttindabaráttu á Íslandi. Samtökin eru málsvari hinsegin fólks í stjórnsýslunni og vegna þeirra sérþekkingar sem innan Samtakanna má finna er leitað til þeirra þegar kemur að málefnum hinsegin fólks. Samtökin 78 eru ekki lítil samtök sem eiga bara heima á lítilli skrifstofu og er til fyrir fátt fólk. Samtökin 78 eru gríðarstór samtök sem vinna staðfastlega að bættum kjörum alls hinsegin fólks, bæði úti í samfélaginu en líka innan Samtakanna sjálfra. Ráðgjafaþjónustan, félagsmiðstöð, stuðningshópar, fræðsluviðburðir, skemmtikvöld og margt fleira, bera þess vitni.

Það verður aldrei of oft sagt að við megum ekki sofna á verðinum þegar kemur að réttindabaráttu okkar. Við verðum áfram að styrkja stoðir Samtakanna og gera okkur sýnilegri út á við. Þetta gerum við með því að virkja þá þekkingu og þann kraft sem býr í fólkinu í samfélaginu okkar því félagasamtök eru fólkið sem innan þeirra starfar.