Skip to main content

Vera Illugadóttir

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég heiti Vera og er 33 ára hinsegin manneskja fædd og uppalin í Reykjavík.

Ég er með BA-próf í arabísku og Miðausturlandafræðum frá Stokkhólmsháskóla, og hef starfað við dagskrárgerð og fréttamennsku hjá Ríkisútvarpinu undanfarinn áratug. Síðustu ár hef ég haft umsjón með útvarpsþáttunum Í ljósi sögunnar á Rás 1, ásamt öðru.

Ég bý í miðbæ Reykjavíkur og á kærustu og tvo ketti. Ég hef brennandi áhuga á sagnfræði og skrítnum dýrum. Önnur áhugamál eru meðal annars bardagaíþróttir, sjósund, og hverskyns spurningakeppnir.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég hef stjórnað nokkrum viðburðum á fundum Samtakanna ‘78 á síðustu árum: samtali kynslóða þar sem ólíkar kynslóðir hinsegin fólks hafa komið saman og rætt málefni nútíðar, fortíðar og framtíðar. Í léttari kantinum hef ég einnig séð um pöbbkviss fyrir Samtökin! Mér þykir einkar vænt um Samtökin og vil veg þeirra sem mestan.

Annars hef ég mikla reynslu af fjölmiðlastörfum, sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi, og ýmisskonar fyrirlestrarhaldi og fundarstjórnun. Þá hef ég komið að góðgerðastarfi fyrir Fatímusjóðinn, í þágu jemenskra barna, og í Vinafélagi Íslands og Miðausturlanda.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Þó staða hinsegin fólks á Íslandi hafi batnað mikið á síðustu árum er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Mér finnst mikilvægt að við berjumst gegn því að hér á landi verði viðlíka bakslag í réttindabaráttu hinsegin hópa og við höfum séð undanfarið í ýmsum vestrænum löndum.

Við verðum öll að halda baráttunni áfram fyrir trans og kynsegin systkini okkar og aðra hópa sem eiga undir högg að sækja, og standa vörð um samheldni hinsegin samfélagsins.

Þá finnst mér mikilvægt að reyna að brúa ákveðið kynslóðabil sem myndast hefur í samfélagi hinsegin fólks á Íslandi. Yngri kynslóðir hafa margt að læra af eldri kynslóðum, og öfugt, og okkur öllum til hags að samtal og samvinna kynslóðanna sé sem mest.

Einnig er mikilvægt að halda sögu okkar til haga, læra af henni og tryggja að hún glatist ekki.

Að endingu finnst mér, nú í lok heimsfaraldursins, að setja þurfi kraft í að efla félagslíf hinsegin fólks að nýju. Hvort sem það eru partí, bóka- og spilaklúbbar eða íþróttir — allt er skemmtilegra með hinsegin félögum!

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Staða Samtakanna ‘78 í dag er sterk og þau hafa greinilega styrkst mikið á undanförnum árum, stjórnendur og starfsmenn staðið sig frábærlega í sinni vinnu.

Það er mikilvægt að missa ekki niður þennan meðbyr, standa vörð um sigra okkar og halda áfram að þjóna samfélaginu okkar með lífsnauðsynlegri ráðgjöf og fræðslu og stuðla að fordómalausu samfélagi og velferð alls hinsegin fólks.

Alltaf má gera betur og mér finnst að Samtökin mættu svo vera enn sýnilegri, bæði gagnvart hinsegin fólki og úti í samfélaginu, út á við. Látum í okkur heyra og til okkar taka.