Skip to main content

Álfur Birkir Bjarnason

Framboð til formanns

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er 29 ára hommi, líffræðingur og sitjandi formaður Samtakanna ‘78. Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði og líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands og kann vel að meta hvernig þau störf kallast á við formennskuna enda er ég alltaf að læra eitthvað nýtt á öllum sviðum lífsins.

Í frístundum sæki ég í náttúruna. Á sumrin leita ég gjarnan í útivist eða rölt um bæinn en á veturna er betra að kúra inni á kaffihúsi, spjalla við skemmtilegt fólk og fylgjast með fólkinu. Ef náttúruþörfin verður þrúgandi hafa gönguskíði reynst vel til að fleyta sér inn í vorið.

Ég er bæði menntaður líffræðingur og tölvunarstærðfræðingur og hef sótt í ýmiss konar félagsstörf allt frá grunnskólaaldri. Þar má nefna Samtökin ‘78, Druslugönguna, AFS, Herranótt og margt fleira.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Eins og áður sagði hef ég setið sem formaður Samtakanna ‘78 síðan í mars í fyrra. Þar áður sat ég í stjórn Samtakanna á árunum 2016-2018. Sem formaður hef ég hlotið þó nokkra reynslu af ýmiss konar viðtölum og framkomu fyrir hönd Samtakanna ‘78 sem hefur reynst mér dýrmætt. Þar að auki hef ég reynslu af kennslu og verkefnastjórnun sem nýtist vel í starfi formanns til að mynda við að miðla flóknum viðfangsefnum hinseginleikans.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Fyrst og fremst vil ég leggja áherslu á að innan Samtakanna ‘78 haldi áfram að starfa framúrskarandi fólk bæði í stjórn, á skrifstofunni, í félagsmiðstöðinni og við ráðgjöf og fræðslu, og að við höldum áfram á réttri leið.

Undanfarin ár hefur velvild almennings og stjórnvalda í garð hinsegin fólks og Samtakanna ‘78 aukist. Eitt okkar mikilvægasta verk er að viðhalda jákvæðu viðhorfi og nýta okkur það til að knýja fram nauðsynlegar réttarbætur. Hér má nefna endurskoðun aðgerðaráætlunar um málefni hinsegin fólks, bann við bælingarmeðferð og bættur aðgangur trans fólks að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allt þetta og meira til mun telja inn í regnbogakort ILGA Europe sem er okkar heildstæðasti leiðarvísir um stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Við eigum að stefna ofar á þessu korti og verða fagurgræn í efstu sætum þess. Heppilega er þetta einnig stefna stjórnvalda en okkar verkefni er m.a. að halda þeim við efnið og veita þarfa ráðgjöf og aðstoð þar sem það á við.

Við vitum líka að börnin okkar eru framtíðin og þess vegna er Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ‘78 og Tjarnarinnar eitt mikilvægasta verkefni okkar. Að halda áfram að byggja upp faglegt starf í félagsmiðstöðinni með auknu fjármagni líkt og á síðasta ári og tryggja að hinsegin ungmenni Íslands um allt land geti fundið sér samastað. Fátt hefur veitt mér meiri ánægju í þessu starfi en að sjá krakkana okkar vera þau sjálf og blómstra á eigin forsendum. Það er framtíðin sem við viljum. Þetta er ekki síst mikilvægt í kjölfar þess bakslags sem við höfum séð en viðbrögð við því verða að vera almennt stef í allri starfsemi Samtakanna næstu árin. Þetta á sérstaklega við um þá ófrægingarherferð sem beinist að trans fólki og þá sérstaklega konum.

Og líkt og á síðasta ári er mikilvægt halda áfram að leggja áherslu á sýnileika og samstöðu hinsegin samfélagsins. Ég vil efla kynningu á starfsemi Samtakanna út á við, svo sem í fjölmiðlum, en hvetja einnig til aukins samtals okkar á milli. Við megum aldrei gleymast og við megum ekki gleyma hvert öðru. Við erum stór og flókin fjölskylda en öll eigum við okkar samastað undir regnhlíf Samtakanna ’78.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Heilt yfir er staðan virkilega góð. Við höfum tryggt gott fjármagn til starfseminnar, bæði frá stjórnvöldum, sveitarfélögum og frjálsum framlögum, og unnið okkar starf með sóma. Við höfum getað haldið áfram að byggja upp þrátt fyrir áðurnefnt bakslag og sjaldan verið jafn vel í stakk búin að takast á við mótvindinn. Við þurfum að leggja okkur öll fram við að viðhalda þeirri stöðu en á sama tíma getum við fagnað þeim árangri sem við náum.

Samtökin hafa vaxið hratt á undanförnum árum. Það setur okkur samtímis í mjög góða stöðu en einnig krefjandi. Með auknu fjármagni höfum við tækifæri til að vinna að fleiri góðum verkum og veita meiri og betri þjónustu. Á sama tíma er þetta viðkvæmur tími. Þegar starfsemin stækkar verða óhjákvæmilega breytingar og þá geta hlutir fallið milli þilja. Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda vel á spöðunum og setja skýra stefnu og tryggja góða samvinnu innan og utan Samtakanna.

En hvað sem framtíðin ber í skauti sér veit ég að Samtökin ‘78 og hinsegin samfélagið allt hafa alla burði til að bregðast við og standa vörð um réttindi okkar. Mig langar að halda áfram að byggja upp þetta sterka félag.