Skip to main content
search

Jóhannes Þór Skúlason

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég er fimmtugur tvíkynhneigður karlmaður sem bý í Hafnarfirði ásamt eiginkonu og tveimur börnum, köttum og kanínu. Ég er óttalegur nölli um allskonar hluti – m.a. vísindaskáldskap og fantasíubókmenntir, júróvisjón, Star Trek/Wars (já það má bæði), Superman, tækniþróun og tunglferðir – og veit fátt betra en að sökkva mér ofan í góða bók í friði og ró, helst með malandi kött í fanginu. Ég gekk í fyrsta sinn í gleðigöngunni í fyrra með alla fjölskylduna með mér, eftir að hafa fylgst með af hliðarlínunni árum saman. Það er minning sem ég mun lifa á ótrúlega lengi, upplifun sem mér þykir alveg ólýsanlega vænt um og sem keyrði beint inn í hjartað hvað ég hef mikla þörf fyrir að leggja meira af mörkum fyrir hinsegin samfélagið, samfélagið mitt.

Ég er sagnfræðingur að mennt, kenndi unglingum í Seljaskóla í Breiðholti í tíu ár og starfaði svipað lengi í stjórnmálum sem aðstoðarmaður á Alþingi og í ráðuneytum. Um tíma rak ég svo eigið almannatengslafyrirtæki en síðan 2018 hef ég gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Ég hef því langa reynslu af því að starfa með fólki og við allskonar mannleg samskipti, en í þannig umhverfi uni ég mér best því þar lærir maður yfirleitt mest um sjálfan sig. Ég reyni að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og finnst mikilvægt að finna að það sem ég er að fást við í vinnu og félagsstarfi skipti máli.

Þótt störf mín hafi ítrekað otað mér í fjölmiðla að ræða misskemmtilega hluti er ég minna leiðinlegur en margir halda, almennt viðræðugóður og hef gaman af að kynnast nýju fólki. Ég hvet öll sem vilja kynnast mér betur eða spyrja mig um eitthvað til að hafa samband, t.d. á fb eða insta (@johannesthor), nú eða bara hringja og spjalla (s. 6909414).

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég kom seint út og hef ekki tekið mikinn virkan þátt í viðburðum eða öðru starfi Samtakanna ‘78. Bakslagið og sú neikvæða umræða sem á sér stað í samfélaginu núna hefur hins vegar vakið hjá mér brennandi þörf fyrir að verða að liði. Ef það er eitthvað sem drífur mig áfram meira en nokkuð annað þá er það að geta lagt lóð á vogarskálarnar til að búa til betra samfélag fyrir börnin mín, þó ekki væri nema að litlu leyti. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa verið boðið að taka þátt í Tímariti Hinsegin daga og pallborðsumræðum tvíkynhneigðra karla á síðasta ári en í kjölfarið fann ég á alls konar óvæntan hátt hvað það skiptir miklu máli að hinsegin fólk á ólíkum stöðum í samfélaginu sé tilbúið að vera sýnilegt og taka sér opinberlega stöðu með málstaðnum. Nú í febrúar tók ég svo sæti í fjármálaráði Hinsegin daga.

Ég hef langa reynslu af allskonar félagsstarfi, t.d. í stjórnum stéttarfélaga og íþróttafélaga, í grasrótarhreyfingum, stjórnmálaflokkum og kórum. Í dag ber ég ábyrgð á rekstri og starfsemi stórra félagasamtaka, þar á meðal fjármálum þeirra, markaðsstarfi og samskiptum við stjórnvöld og fjölmiðla. Ég þekki því hve mikilvægt er að stjórn og framkvæmdastjóri eigi gott samstarf og að ábyrgð hvors fyrir sig sé skýr.

Til að ná fram nauðsynlegum breytingum í samfélaginu þurfa Samtökin ‘78 að eiga árangursrík samskipti við stjórnvöld. Í þeim efnum hef ég mikla reynslu og þekkingu, úr störfum innan sem utan stjórnkerfisins, sem mig langar að nýta í þágu hinsegin samfélagsins. Þá hef ég einnig unnið í alls konar almannatengslaverkefnum síðustu fimmtán ár, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi með sumum stærstu PR stofum heims, og hef viðað að mér mikilli þekkingu á því sviði sem ég vil nýta í þágu hinsegin samfélagsins. Ég legg mig allan fram í þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur með áherslu á að ná sem bestum árangri.

Umfram allt hef ég þó trú á Samtökunum ‘78 og því sem þau standa fyrir. Réttindabarátta hinsegin fólks er ekki bara okkur nauðsynleg, heldur gerir hún samfélagið betra fyrir öll.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Við höfum að undanförnu fengið ógnvænlega áminningu um að mannréttindabarátta er aldrei búin. Samtökin ‘78 standa í framlínunni í þeirri baráttu sem málsvari og mikilvægt stuðningsnet hinsegin fólks.
Besta vopnið gegn misrétti og fordómum er meiri og ítarlegri þekking almennings á málefnum hinsegin fólks. Ég trúi því staðfastlega að fræðslustarfið sé eitt mikilvægasta verkefni Samtakanna. Samtökin hafa á síðustu árum byggt þetta starf mikið upp og það þarf að styrkja enn frekar. Það er mjög stór hluti fólks opinn fyrir því að hlusta og læra og það er hópur sem við þurfum að ná enn betur til.

Það þarf að efla innra starf Samtakanna og auka styrk þeirra sem málsvara hinsegin fólks gagnvart stjórnvöldum enn frekar, en það eru í raun tvær hliðar á sama verkefninu. Því sterkari sem Samtökin eru innbyrðis, þeim mun sterkari verður rödd þeirra út á við. Hér skiptir höfuðmáli að tryggja fjárhagslega framtíð Samtakanna svo hægt sé að skipuleggja starfið og byggja upp til næstu ára.

Sýnileikinn er í senn samvinnuverkefni okkar allra og ótrúlega flókin og persónuleg áskorun fyrir hvert og eitt okkar. Þegar ég kom út tók ég meðvitaða ákvörðun um að vera sýnilegur með mína kynhneigð, enda tvíkynhneigðir karlmenn í forréttindastöðu ekki á hverju strái og það skiptir mig máli að geta nýtt stöðu mína til góðs. Aukinn sýnileiki allra hópa hinsegin fólks, á öllum sviðum samfélagsins, er eitt mikilvægasta verkefnið sem við þurfum að vinna að í sameiningu.

Þótt verkefnin séu mörg og mikilvæg þá ofbýður mér sú framkoma sem samfélagið leyfir sér gagnvart trans fólki. Það er ógnvekjandi að sjá nær daglega fréttir af umræðu eða athöfnum fólks á öllum stigum samfélagsins sem vinna gegn því að trans samborgarar þess fái notið eðlilegra mannréttinda og grunnþjónustu og geti lifað við öryggi. Þar mun reyna verulega á mátt Samtakanna ‘78 á næstu árum og það er barátta sem ég ætla að taka þátt í.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Hinsegin samfélagið á öflugan málsvara í Samtökunum ‘78. Undanfarin ár hafa Samtökin verið áberandi í samfélagsumræðunni, náð árangri gagnvart stjórnvöldum, stóraukið fræðslustarf, þjónustu og ráðgjöf og sýnt ráðandi öflum mikilvægt aðhald. Samtökin hafa styrkt samstarf sitt við stjórnsýsluna, sveitarfélög og atvinnulíf og sýnt í verki að þau eru ein mikilvægustu mannréttindasamtök landsins.

Samtökin ‘78 eru rödd okkar út á við og styrkur okkar inn á við og það er gríðarmikilvægt að allt regnbogasamfélagið eigi þar eitt sameiginlegt heimili. Ég trúi því að barátta hvers hóps innan hinsegin samfélagsins sé barátta okkar allra. Við þurfum ekki að vera sammála um allt en það skiptir máli að við séum sterk og sameinuð út á við. Þannig náum við árangri og þannig vil ég vinna fyrir Samtökin ‘78 og fyrir hinsegin samfélagið allt.