Skip to main content
search

Kristmundur Pétursson

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Hæhæ

Ég heiti Kristmundur og er 25 ára nemi á 2. ári í grunnnámi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Meðfram námi er ég í hlutastarfi hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands en hef auk þess tekið vaktir í Hinsegin félagsmiðstöðinni undanfarinn vetur og flutt fyrirlestra í menntaskólum fyrir Hugrúnu geðfræðslufélag. Nýlega uppgötvaði ég að ég gæti tekið þátt í ýmiskonar hagsmunabaráttu og hef setið sem varafulltrúi í Stúdentaráði Háskóla Íslands í vetur sem og í stjórn minnar fylkingar í Stúdentaráði. Það er búin að vera góð reynsla að taka þátt í hagsmunabaráttu stúdenta en ég veit að ég brenn enn meira fyrir hagsmunum hinsegin fólks.

Ég er trans maður og nú fer að líða að því að það séu tvö ár síðan ég kom út úr skápnum. Á þeim tíma hefur stuðningur S78 verið ómetanlegur, ekki síst sem vettvangur til að kynnast þessu verðmæta og fjölbreytta samfélagi. Svo hef ég líka gaman að því að horfa á góða kvikmynd eða lélegan þátt.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Síðan haustið ´22 hef ég verið sjálfboðaliði hjá Hinsegin félagsmiðstöðinni og það hefur verið ótrúlega gefandi að vinna bæði með unglingunum sem nýta félagsmiðstöðina og öllu frábæra starfsfólkinu sem er þar. Þar hef ég kynnst veruleikann sem hinsegin ungmenni á Íslandi glíma við og hvernig bakslagið hefur áhrif á líf mörg þeirra. Það er gífurlega mikilvægt að þau geti fundið öruggara rými í félagsmiðstöðinni sem er sístækkandi, og hana þarf að halda áfram að efla.

Þá tel ég að námið sem ég stunda veiti mér þekkingu sem nýtist í starfi með samtökunum, t.d. áhersla á valdeflingu og notendasamráð, áhrif samtvinnunar og uppbyggingu stjórnsýslunnar. Í þrjú ár vann ég sem lögregluþjónn en ákvað að hætta á þeirri braut. Þó hefur það veitt mér einstaka innsýn inn í það hvernig stofnunin og valdakerfi virka og ég reynslan sem ég kem með þaðan geti ég nýtt innan Samtakanna.

Ég bý líka yfir persónulegri reynslu af því að vera hinsegin. Ég upplifi bæði fordóma og fáfræði. Ég hef fundið það sjálfur að heilbrigðiskerfið bregst hinsegin fólki víða og ég veit að það er mikið af tækifærum til að gera betur.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Ég vil leggja höfuðáherslu á að Samtökin 78 séu vettvangur þar sem öll sem eru hinsegin upplifi að þau eigi sitt pláss á og stuðli að því að hinsegin samfélagið í allri sinni mynd sé sýnilegt. Það þarf að tala sérstaklega fyrir þau okkar sem hafa minnstu röddina og leggja áherslu á að það verði ekki meira úr bakslaginu sem er að eiga sér stað. Fræðsluhlutverkið sem samtökin sinna er ótrúlega verðmætt og fær vonandi að halda áfram að vaxa.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Samtökin 78 hafa stækkað hratt og þjónustan sem er veitt hefur aldrei verið meiri, auk þess eru samtökin stærsta hagsmunaafl hinsegin fólks á Íslandi og hafa verið það lengi. Baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks er fjarri því að vera lokið og ég býst við að Samtökin haldi áfram að vera áberandi í henni.

Nú þegar umfang Samtakanna 78 fer hratt stækkandi, fylgja því líka áskoranir. Samtökin tala fyrir gríðarstóra breidd fólks og þess vegna er mikilvægt að vinna með og efla aðildarfélögin. Samtökin 78 hafa mikla rödd og ættu ekki að vanmeta áhrifin sem þau geta haft.