Skip to main content

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

Framboð til stjórnar

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ef ég ætti að lýsa mér í nokkrum stikkorðum þá er ég fyrst og fremst prjónakona, skáti, meistaranemi, kærasta, útilífsunnandi og stoltur Kópavogsbúi (sem býr reyndar í Kaupmannahöfn fram á sumarið). Ég elska kaffi og eitthvað gott með því, vann einu sinni í nammiverksmiðju og á eineggja tvíburasystur!

Ég er með B.A. gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálfræði, diplómu í tómstunda- og félagsmálafræði og er að klára meistaragráðu í kynjafræði. Ég hef unnið í félagsmiðstöðvum í Reykjavík undanfarin ár, síðast sem aðstoðarforstöðumaður félagsmiðstöðvar í Grafarvogi. Þessa stundina er ég þó aðeins í námi og ekki að vinna neitt samhliða því.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég er starfandi alþjóðafulltrúi í stjórn Samtakanna ’78 og hef gegnt þeirri stöðu frá mars 2021. Þar áður sat ég í trúnaðarráði Samtakanna 2016-2017, var ritari í stjórn árið 2017, og meðstjórnandi í stjórn á árunum 2017-2019. Samhliða stjórnar- og trúnaðarráðsstörfum var ég jafningjafræðari í hinsegin fræðslunni á árunum 2015-2019. Auk þess hef ég starfað sem sjálfboðaliði og seinna meir sem starfsmaður í Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ’78 og Tjarnarinnar. Þá hélt ég í stuttan tíma utan um HinUng hittingana á Suðurgötu fyrir 18-25 ára hinsegin ungmenni.

Ég kem inn í Samtökin með ríka reynslu af félagsstörfum almennt sem og félagsstarfi innan Samtakanna ’78. Ég var virk í allskonar ungliðastarfi sem unglingur og byrjaði svo á fullorðinsaldri að vinna með unglingum sjálf – ég brenn fyrir málefnum ungmenna og hef einkum lagt áherslu á þau í þátttöku minni í félaginu. Það er mikilvægt að hafa fólk með reynslu af því að vinna með börnum og ungmennum innan Samtakanna ’78 þar sem svo stór hópur þjónustuþega hjá okkur eru börn.

Ég er líka mikill skáti og hef unnið fyrir skátana í gegnum árin í sumarstarfinu þeirra og eitt ár sem framkvæmdarstjóri skátafélags. Hjá skátunum hef ég einnig verið virk í allskonar nefndum og stefnumótun; ég leiddi til að mynda vinnuna við að móta nýja jafnréttisstefnu skátahreyfingarinnar sem var samþykkt einhljóða á Skátaþingi árið 2022.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Ég er áköf talskona ungu kynslóðarinnar innan Samtakanna ’78 og að þau séu ekki einungis þjónustuþegar heldur að þau fái tækifæri til að taka virkan þátt í starfinu og mótun þess. Ég fagnaði manna hæst þegar ungmennaráð Samtakanna ’78 var stofnað og áheyrnarfulltrúi þeirra fékk sæti í stjórn félagsins. Að hafa rödd barnanna sem sækja unglingastarfið okkar við borðið hefur verið ómetanlegt að mínu mati og gert stjórninni kleift að vera í enn betra sambandi við þennan mikilvæga hóp.

Annars finnst mér félagslífið almennt vera stoð og stytta Samtakanna ’78 og finnst gríðarlega mikilvægt að það sé boðið upp á öflugt félagslíf, hvort sem það eru viðburðir, teiti, námskeið eða bara kósý á Suðurgötu. Þá finnst mér einkum skipta máli í því samhengi að Samtökin ’78 leitist eftir því að bjóða upp á vettvang fyrir hinsegin fólk sem á ekki í önnur hús að venda ef svo má að orði komast þegar kemur að því að stunda ákveðin áhugamál eða sækja sinn félagsskap. Opnu húsin, partýin, klúbbarnir og fleira er allt frábært og ég elska bæði að taka þátt í því öllu, sem og að hitta allt fólkið sem að mætir. Flóran sem er til staðar í hinsegin samfélaginu okkar er ótrúleg og ég vil að þau upplifi sig öll velkomin hjá Samtökunum ‘78. Ég tel að leiðin til að ná því sé að halda uppi því fjölbreytta starfi sem hefur verið í gangi hingað til, hvort sem það er í formi félagslífs eða beinnar þjónustu eða bæði.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Staða Samtakanna í dag er sterk. Það hefur mjög greinilegur vöxtur orðið á félaginu undanfarin ár sem sést skýrt í fjölgun á skrifstofunni og auknu umfangi þeirra verkefna og þjónustu sem Samtökin ’78 sinna. Þrátt fyrir fjölgun starfsfólks á skrifstofu er samt enn gríðarlega mikið álag á öllu starfsfólki Samtakanna þar sem að eftirspurnin er einfaldlega svo mikil eftir þjónustu, ráðgjöf og aðstoð. Það væri mjög ánægjulegt að sjá Samtökin ’78 fá enn meira fjármagn á komandi misserum til að geta sett meiri mannafla í að sinna fjölbreyttum verkefnum félagsins og efla stöðu félagsins á öllum sviðum.

Því miður hafa undanfarin ár ekki bara einkennst af mikilli grósku í starfi félagsins heldur einnig miklum erfiðleikum þar sem bakslag í jafnréttisbaráttu hinsegin fólks hefur verið gríðarlegt. Hinsegin fólk á Íslandi og víðar upplifir aukna fordóma og aukið ofbeldi í sinn garð. Þetta er grafalvarleg staða og hefur félagið staðið í ströngu að bregðast við og reyna að koma í veg fyrir frekara bakslag, frekara ofbeldi. Sú vinna þarf að halda áfram bæði innan félagsins og utan þess, og ég veit að starfsfólkið okkar, stjórn og félagsfólk allt mun halda áfram að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu.