Skip to main content
search

Félagsfundur að hausti 2023

Hýryrði 2023

Kæru félagar.
Velkomin á félagsfund að hausti sem er að þessu sinni tileinkaður Hýryrðum 2023. Félagsfundurinn fer fram á Center Hotel Plaza við Ingólfstorg (Aðalstræti 4-6), fimmtudaginn 16. nóvember kl. 17.
Dagskrá:
1. Staða Samtakanna ’78 í dag
2. Kosning kjörnefndar fyrir aðalfund 2024
3. Hýryrði 2023
4. Önnur mál
Niðurstöður Hýryrða, nýyrðasamkeppni Samtakanna ’78, verða kynntar á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember næstkomandi á félagsfundi Samtakanna ’78.

Þetta er í þriðja skipti sem keppnin er haldin. Hún hófst formlega 19. apríl sl. þegar kallað var eftir tillögum að orðum sem vantaði í málið. Dómnefnd valdi sex orð úr þeim hópi og í kjölfarið hófst hin eiginlega keppni þar sem almenningi gafst kostur á að senda inn nýyrðatillögur í gegnum vef Samtakanna ’78. Í þetta sinn var auglýst eftir eftirfarandi orðum:

• Kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra: amma — ? — afi
• Skammstöfun fyrir kynsegin: kk. — ? — kvk.
• Kynhlutlaust ábendingarfornafn í eintölu sem hægt er að nota um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á: sú — ? — sá
• Lýsingarorð yfir enska orðið femme.
• Lýsingarorð yfir enska orðið masc.
• Orð yfir það sem á ensku kallast allosexual og vísar til þess sem er gagnstætt eikynhneigð (e. asexual).
Samkeppnin var opin til 15. september og þátttaka var mjög góð en alls sendu tæplega 300 manns inn tillögu að einu eða fleiri orðum. Dómnefnd hefur setið að störfum undanfarnar vikur og mun kynna niðurstöður sínar eins og áður segir á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember.
Dómnefnd Hýryrða 2023 skipa:
Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands
Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Reyn Alpha Magnúsar, varaformaður Trans Íslands
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, meðstjórnandi í stjórn Samtakanna ’78.
Ef þú vilt gefa kost á þér í kjörnefnd, sendu okkur póst á skrifstofa@samtokin78.is
Hlökkum til að sjá ykkur öll!