Hér geturðu séð hvaða breytingar er boðaðar á lögum um kynrænt sjálfræði. Fjögur frumvarp liggja í samráðsgátt stjónvalda og eru þeim gerð skil hér. Einnig geturðu sent okkur, Samtökunum ’78, Trans Ísland og Intersex Ísland, ábendingu um hvað þér finnst að betur mætti fara
Hver er breytingin?
Að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hefur rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Einnig, samhliða þessari breytingu, er lögum um mannanöfn breytt til að gæta samræmis við lög um kynrænt sjálfræði.
Fyrir hvern er breytingin?
Öll þau sem vilja breyta skráningu sinni í Þjóðskrá, sem geta nú gert það frá 15 ára aldri en ekki frá 18 ára eins og áður.
Hvað er jákvætt?
Frumvarpið í heild sinni er jákvætt.
Hvað er neikvætt?
Ekkert.
Hefðum við viljað ná einhverju öðru fram?
Vissulega væri óskastaðan að litlar sem engar hömlur væru á nafna- og kynskráningarbreytingu og hægt er að færa rök fyrir því að lækka aldurstakmarkið enn frekar. Að þessu sinni er farið niður í 15 ára, sem er vert að fagna.
Forsaga
Í upphaflegum frumvarpsdrögum að lögum um kynrænt sjálfræði þá var lagt til að 15 ára ætti að vera viðmiðið þegar kæmi að bæði kynskráningar- og nafnabreytingu. Í þinglegri meðferð frumvarpsins breytti allsherjar- og menntamálanefnd aldrinum og færði upp í 18 ára. Þetta var gert aðallega vegna umsagnar Barnaverndarstofu, en hún var þó þvert á umsögn t.d. Umboðsmanns barna. Því er í raun verið að leggja til breytingu sem er sú sama og upphaflegu frumvarpsdrögin kváðu á um.
Hver er breytingin?
Gerð er tilraun til að laga feðrunarregluna (pater est), þannig að hún heiti foreldraregla (parens est) og bætt er inn í lagabókstafinn að fólk sem hefur breytt kynskráningu sinni missi ekki réttindi sem foreldri og að þó að kynskráningu hafi verið breytt áður hafi manneskjan enn sama rétt og aðrir einstaklingar. Meginmarkmið þessarar lagabreytingar er að tryggja fólki með hlutlausa kynskráningu sömu lagalegu stöðu sem foreldri og einnig að tryggja þeim sem hafa breytt um kynskráningu lagalegan rétt sem foreldri, móðir eða faðir.
Fyrir hvern er breytingin?
Þau sem hafa breytt kynskráningu sinni sem og þeim sem bera hlutlausa kynskráningu.
Hvað er jákvætt?
Að lagalegur réttur trans foreldra og barna þeirra er tryggður
Hvað er neikvætt?
Að lögin gangi ekki lengra og að þau geri ráð fyrir að tvær konur í sambandi geti ekki eignast barn nema að það sé gert með tæknifrjóvgun. Það vissulega er ekki endilega það sem kynræna sjálfræðið átti að breyta en hefði verið afar vel til fundið að breyta því á sama tíma.
Hefðum við viljað ná einhverju öðru fram?
Varðandi kynræna sjálfræðið og markmiðum þess frumvarps þá nei. Varðandi hinsegin samfélagið allt þá já. Feðrunarreglunni er til dæmis ennþá haldið inni fyrir ákveðinn hóp en er sleppt þegar kemur að til dæmis manneskju sem hefur breytt um kynskráningu, þó með þeim annmörkum sem talað er um í fyrstu grein lagana, það er að upplýsa um sína kynskráningarbreytingu sem vissulega er ekki öllum að skapi.
Forsaga
Breytingar á barnalögum voru settar í nefnd við úrvinnslu frumvarpsins inni á Alþingi vorið 2019. Þessar breytingar eru því afrakstur þeirrar nefndar sem skilar nú af sér rúmu ári síðar.
Hver er breytingin?
Í þessum drögum má finna víðtækar breytingar á lagaumhverfi intersex barna sérstaklega. Í frumvarpinu er í fyrsta sinn kynntur almennilegur lagarammi er varðar intersex börn sem og almennilegt eftirlitskerfi. Einnig er sett skýlaust bann við inngripum nema í tveimur tilvikum (útskýrt síðar). Eftirlitshlutverkið er eflt sem og í fyrsta skipti grundvöllur fyrir kæru ef um vanefndir er að ræða.
Fyrir hvern er breytingin?
Öll intersex börn, og foreldra þeirra, sem og í raun intersex fólk þar sem skerpt er á eftirlitshlutverki með nefnd og upplýsingaskyldu.
Hvað er jákvætt?
Að loksins sé kominn lagarammi fyrir intersex börn.
Hvað er neikvætt?
Að öllu intersex fólki sé ekki tryggð vernd þar sem hypostadias aðgerðir sem og aðgerðir er snúa að því að „laga“ micropenis falla ekki undir vernd, þó fellur hvort tveggja undir eftirlits- og upplýsingaákvæði laganna, þ.e. að farið sé með málið fyrir nefnd og að forsjáraðilar séu upplýstir.
Hefðum við viljað ná einhverju öðru fram?
Já. Við hefðum viljað sjá skýlaus drög að frumvarpi er verndar öll intersex börn, líka þau sem fæðast með micropenis eða hypospadias. Einnig hefðum við viljað sjá að intersex einstaklingar sem hafa lifað við það að á þeim séu gerðar aðgerðir geti leitað réttar síns aftur í tímann.
Forsaga
Þegar lög um kynrænt sjálfræði voru kynnt fyrir Alþingi þá hafði forsætisráðuneytið tekið út kaflann um intersex börn og borið upp þá málsmeðferðartillögu að þau mál færu í nefnd. Nefndin vann mikið starf við að koma þessu frumvarpi á framfæri og þetta er afrakstur þeirrar nefndar.
Þessi lög eru einungis til þess fallin að breyta öðrum lögum svo þau samræmist tilgangi laga um kynrænt sjálfræði, það er að bæta inn hlutlausri skráningu, að gert sé ráð fyrir þeim hópi og að réttur þeirra sé tryggður í öðrum lögum en einungis lögum um kynrænt sjálfræði. Þetta frumvarp er tæknilegs eðlis og í raun er ráðuneytið að passa samræmi annarra laga við kynrænt sjálfræði.