Skip to main content

Einar Þór Jónsson

Sæmdur heiðursmerki 2022

Saga HIV og saga hinsegin fólks er samtvinnuð. Hinsegin samfélagið er enn að jafna sig eftir þann mikla missi sem þetta tímabil alnæmisfaraldursins fól í sér, þar sem fjöldi ungra homma létust langt fyrir aldur fram og við misstum stóran hluta heillar kynslóðar. Hinsegin samtíðarfólk þeirra missti vini og fjölskyldu, við sem yngri erum misstum fyrirmyndir. Það er mikilvægt að við skiljum, að HIV-jákvæðir hinsegin karlmenn voru jaðarsettir á a.m.k. tvennan hátt á Íslandi. Ekki aðeins í meirihlutasamfélaginu, heldur einnig innan Samtakanna ‘78. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við sem félag og saga sem við verðum að gera upp.

Einar Þór Jónsson er lifandi hluti þessarar flóknu sögu baráttu, sorgar og hugrekkis. Einar Þór hefur staðið í stafni baráttunnar við HIV og alnæmi frá því á 9. áratugnum og var einn sá allra fyrsti HIV-jákvæði einstaklingurinn til þess að koma fram undir nafni á Íslandi. Einar Þór hefur með þessu kjarkmikla skrefi, sýnileika sínum í kjölfarið og starfi fyrir HIV Ísland átt risastóran þátt í því að umbylta viðhorfum samfélagsins: bæði gagnvart HIV-jákvæðu fólki og gagnvart samkynhneigðum.

Ævisaga hans, Berskjaldaður, sem kom út árið 2020, hefur jafnframt haft mikil áhrif og varpað tímabæru ljósi á veruleika homma og tvíkynhneigðra á tímum alnæmisfaraldursins.

Það eru forréttindi að fá að vinna með og læra af fólki eins og Einari Þór – og Samtökin ‘78 hafa svo sannarlega notið góðs af reynslu hans og vinnu, enda hefur hann verið virkur félagi í áratugi.

Stjórn Samtakanna ‘78 sæmir með stolti Einar Þór Jónsson heiðursmerki félagsins fyrir baráttu sína í þágu réttinda hinsegin fólks og þá sérstaklega HIV-jákvæðra innan okkar samfélags. Til hamingju.