Skip to main content

UngmennaStyrkur

Samtökin ‘78 og Styrkur sjúkraþjálfun eru að fara af stað með lokaða virknihópa fyrir trans ungmenni. Markmið hópanna er að auka líkamlega virkni og bæta með því líkamlega og andlega heilsu. Boðið verður upp á einn hópatíma í viku, undir handleiðslu Ragnheiðar Silju Kristjánsdóttur sjúkraþjálfara.

Námskeiðið hefst á klukkustundar einstaklingstíma þar sem viðtal og skoðun sjúkraþjálfara (spurningalistar, styrkmæling og þolmæling) fer fram. Foreldrar/forráðamenn eru velkomin með í fyrsta tímann.

Tveir hópar fara af stað í október, hámark 10 í hóp, einn fyrir börn fædd á árunum 2008 til 2010 á þriðjudögum milli 16 og 17 og annar fyrir börn fædd 2006 til 2007 á miðvikudögum milli 16 og 17.

Hóparnir eru sérstaklega hugsaðir fyrir þau sem hafa átt erfitt með að taka þátt í hreyfingu og/eða félags- og skólastarfi t.d. vegna kynama og það verður tekið tillit til þess í hópunum. Stefnt er að því að vinna í litlum hópum og búa til öruggt andrúmsloft svo ungmennin geti notið þess að hreyfa sig á fjölbreyttan hátt. Möguleiki er á að bæta við hópum ef eftirspurn er mikil.

Til að geta tekið þátt í hópnum þarf að fá beiðni um virkniþjálfun frá heimilislækni fyrir sjúkraþjálfun, en þá er einungis greitt komugjald 1.860 kr fyrir fyrsta tímann og svo 875 kr fyrir hvern hóptíma sem mætt er í. Athugið að ef einstaklingur er ekki með beiðni þarf að borga bráðagjald fyrstu 6 tímana sem Sjúkratryggingar styrkja og svo fullt gjald eftir það.

Aðgengi hjá Styrk sjúkraþjálfun er gott, en þau bjóða aðeins upp á kynhlutlausa skiptiaðstöðu í formi einkaklefa. Einnig eru kynhlutlaus salerni á staðnum. Sturtuaðstaða er ábótavant en tvær sturtur í einkaklefa eru til staðar fyrir þau sem vilja

Ragnheiður Silja sjúkraþjálfari hefur töluverða reynslu á að vinna með börnum og ungmennum. Hún hefur starfað sem skátaforingi síðustu 6 árin þar sem hún hefur meðal annars unnið með trans ungmennum. Hún hefur fengið fræðslu frá Samtökunum ‘78 og mun einnig fá handleiðslu frá ráðgjafa á vegum Samtakanna á meðan á verkefninu stendur.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í virknihópnum eru vinsamlegast beðin um að skrá sig hér fyrir neðan.

Ragnheiður Silja sjúkraþjálfari mun síðan hafa samband við þau sem hafa áhuga og finna með þeim fyrsta tíma.