Skip to main content

Sveitarstjórnarkosningar 2022

Samtökin ’78 sendu fjórar spurningar til allra framboða til sveitarstjórnar þar sem íbúar eru fleiri en 1500. Spurningunum er ætlað að draga fram afstöðu framboða í hinsegin málefnum og vekja þau til umhugsunar um tækifæri þeirra til að hafa jákvæð áhrif.

Framboðin eru á annað hundrað og viljum við því setja fyrirvara um að það gæti hafa misfarist að senda einhverju framboði spurningarnar. Þá voru netföng sem gefin voru upp á opinberum síðum framboðanna í einhverjum tilfellum óvirk. Rétt er að nefna að sum framboðanna fengu skamman fyrirvara til að senda inn svör og biðjumst við forláts á því. Það að svar ákveðins framboðs sé ekki að finna hér að neðan þarf ekki að vera merki um skeytingarleysi þeirra þegar kemur að hinsegin málum, þó áfram sé eðlilegt að spyrja þau hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun að svara ekki.

Telur þú að þitt framboð hefði átt að fá spurningarnar sendar? Endilega svaraðu þeim og sendu svörin þín á skrifstofa@samtokin78.is. Ef þú eða þitt framboð hefur athugasemdir við framsetningu svaranna, ekki hika við að hafa samband við okkur.

Spurningarnar eru eftirfarandi:

Þjónustusamningur

  1. Samtökin ‘78 eru með þjónustusamninga við Reykjavík, Hafnarfjörð, Grindavík og Snæfellsbæ. Samningarnir kveða meðal annars á um fræðslu fyrir nemendur grunnskóla og starfsfólk og framlagi til að halda úti ókeypis ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur. Mun þitt framboð leggja áherslu á að gerður verði slíkur þjónustusamningur við Samtökin ‘78? Ef samningur er þegar í gildi, sérð þú fyrir þér að útvíkka samninginn?

 

Heildræn hinsegin stefna

  1. Mikilvægt er að sveitarfélög setji sér heildræna stefnu í hinsegin málum. Sveitarfélög hafa mikil tækifæri til að hafa áhrif, enda nær þjónusta þeirra til allra bæjarbúa og þau eru oftast nær einn stærsti vinnuveitandi innan sveitarfélagsins. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að sveitarfélagið setji sér sérstaka hinsegin stefnu, t.a.m. með tilliti til þjónustuþega, skólastarfs og starfsfólks sveitarfélagsins?

 

Hinsegin félagsmiðstöð

  1. Samtökin ’78 reka hinsegin félagsmiðstöð í samvinnu við Reykjavíkurborg. Mikill árangur hefur hlotist af starfinu og ungmennin sem nýta sér félagsmiðstöðina hafa lýst yfir þörf fyrir að boðið sé upp á þessa þjónustu víðar. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að sveitarfélagið leggi til fjármagn svo tryggja megi rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar, þá jafnvel í samstarfi við önnur sveitarfélög?

 

Hinsegin fólk á framboðslista

  1. Eru frambjóðendur á þínum lista sem eru opinberlega hinsegin? Hver eru þau og hvernig upplifa þau hinsegin áherslur listans?

 

Sveitarfélög birtast hér að neðan í stafrófsröð: Akranes, Akureyri, Árborg, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Garðabær, Grindavík, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Hveragerði, Ísafjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Múlaþing, Norðurþing, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Reykjanesbær, Reykjavík, Seltjarnarnes, Skagafjörður, Suðurnesjabær, Vestmannaeyjabær, Ölfus

 

Akranes

 

Akureyri

 

 

Framsókn

Þjónustusamningur
Hér á Akureyri eru sjö félagsmála- og forvarnarráðgjafar sem sinna fræðslu inn í alla skóla sveitarfélagsins ásamt Hinsegin fræðslu. Það hefur ekki verið gerður þjónustusamningur við Samtökin 78, og það þarf að skoða það vel með því fólki sem sinnir fræðslu og ráðgjöf hér í sveitarfélaginu. Fræðsla af þessu tagi er gríðarlega mikilvæg og nauðsynlegt að vel sé að henni staðið, því skiptir máli að taka samtalið og fara þá leið sem hentar notendum þjónustunnar best. 

Heildræn hinsegin stefna
Algjörlega og hiklaust. Við erum með Mannréttindastefnu; Allskonar Akureyri,  sem var samþykkt árið 2020 þar sem kemur skýrt fram að allir íbúar sveitarfélagsins skuli njóta meðferðar án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, kyns, kynhneigðar eða annarra þátta sem greina fólk að. Mannréttindi og fjölbreytni eru lykilatriði í allri stefnumótun og ákvarðanatöku hjá bænum. Þessu þarf að halda á lofti. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Það er nú þegar rekin hér á Akureyri Hinsegin félagsmiðstöð; Hinsegin FÉLAK. Við munum að sjálfsögðu leggja ríka áherslu á að sú starfsemi fái nauðsynlegt rými til að dafna og þróast og verði öruggt rými fyrir ungmenni sem þurfa á að halda. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Nei, það eru engir hinsegin frambjóðendur á okkar lista núna. 

 

L-listinn

Þjónustusamningur
Við teljum tvímælalaust að bærinn eigi að gera slíkan samning og er einmitt ein af okkar áherslum fyrir komandi kosningar, en hana má finna á www.l-listinn.is

  • Gera samning við samtökin 78 um fræðslu og ráðgjöf inn í skólana
  • Leggja áherslu á fjölbreytileikan

Heildræn hinsegin stefna
Já ekki spurning um að tekið sé á hinsegin málum í stefnumótun sveitarfélagsins og horft til jafnréttis og mannréttinda. Við í L-listanum höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Við viljum sveitarfélag þar sem íbúar eru jafnir án tillits til kyns, þjóðernis, trúar, aldurs, fötlunar, fjárhags eða annarrar stöðu. Við viljum samfélag sem leggur áherslu á fjölbreytileika og gefur rými fyrir öll.

Eitt af því sem mætti innleiða er kynlaust mál í starfi sveitarfélagsins og í skólum. Með því að nota kynlaust mál værum við að sjá til þess að allir sem leita til okkar eftir þjónustu eða ráðgjöf líði vel og finnist þau vera í öruggu umhverfi. Við teljum einnig að skólar séu mikilvægur vettvangur fyrir innleiðingu jafnréttis í okkar sveitarfélagi – bæði með fræðslu starfsfólks en einnig bara með því að sýna gott fordæmi sem börnin svo taka með sér út í lífið. 

Auk þessa hefur Akureyrarbær mannréttindastefnu Alls konar Akureyri sem við viljum leggja áherslu á að fylgja. https://www.akureyri.is/static/research/files/mannrettindastefna_akureyrarbaejar_2020-2023pdf

Hinsegin félagsmiðstöð
Við teljum ákaflega mikilvægt að sveitarfélagið mæti öllum einstaklingum þar sem þeir eru og reyni eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir þeirra. Félagsmiðstöðvar eru eitt af þeim verkefnum og við erum tilbúin í það verkefni og koma til móts við ákall hinsegin fólks.

Hinsegin fólk á framboðslista
Sæl samtaka félagar. Ég heiti Sæbjörg Sylvía Kristinsdóttir og er í 18 sæti hjá L-listanum á Akureyri. Kom út úr skápnum sem lesbía fyrir rúmum 20 árum. Eins eru á listanum bæði barn lesbískrar móður og foreldri trans einstaklings. Ég upplifi ekki fordóma hjá L-listanum eða í nefndarstörfum mínum fyrir bæinn minn. Er opin persóna og ekkert í felum með hver ég er. Leiði oft Gleðigöngu Hinsegin daga á mótorhjólinu mínu. L-listinn dæmir ekki út frá skoðunum fólks, kynhneigð, litarhætti, trúarbrögðum eða öðrum öðrum þáttum. Hver einstaklingur á sinn rétt. 

 

Vinstri Græn

Þjónustusamningur
Í stefnu framboðs VG fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 segir eftirfarandi: “Tryggjum jafnréttis- og hinseginfræðslu, fræðslu um hinn stafræna heim auk forvarnarfræðslu um kynbundið ofbeldi í öllu skóla- og uppeldisstarfi ásamt því að veita slíka fræðslu starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins.” Sömuleiðis er á stefnuskránni að “Ráðinn verði janfréttisfulltrúi hjá sveitarfélaginu” sem einstaklingar gætu þá leitað til. Við teljum samning við Samtökin ´78 vera góða leið til að sjá um hinsegin fræðslu og jafnframt til að sjá um ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur. Þannig að já við munum leggja áherslu á að gerður verði samningur við samtökin. 

Heildræn hinsegin stefna
Við munum beita okkur fyrir því að kannað verði hvort slík stefna eigi að standa ein og sér eða hvort hún eigi samleið með öðrum þáttum í stefnu. Jafnframt að farið verði af stað vinnu til að kanna hvernig slík stefna ætti að vera uppbyggð, viðhorf Samtakanna ´78 og það sem önnur sveitarfélög hafa gert. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Við munum beita okkur fyrir því að kannaðar verði útfærslur á hinsegin félagsstarfi eða félagsmiðstöð. Það væri þá mjög mikilvægt að það yrði gert í samstarfi við sveitarfélög í landshlutanum. Í dag er starfsemi í Rósenborg á vegum Hins segin norðuland. Sveitarfélagið styrkir þá góðu starfsemi með aðstöðu.

Hinsegin fólk á framboðslista
Já að minnsta kosti ein. Júlía Júlíusdóttir er tvíkynhneigð – ég er nýlega byrjuð í pólítíkinni en hef heyrt mikinn velvilja til að veita þessum málaflokki meðbyr, m.a. með fræðslu, vitundavakningu o.fl. Þónokkrum sinnum hef ég heyrt á fundum (og þá ekki bara ég sem minnist á það heldur mun fleiri) þar sem minnst er á hinsegin einstaklinga og vilja þeirra, t.d. varðandi sund)
Ég sem iðjuþjálfi og einfaldlega einstaklingur í samfélaginu veit hvað það er gífurlega mikilvægt að koma að opnum dyrum alls staðar – hvort sem það er í námi, starfi eða einkalífi – félagslegt aðgengi ekki síður en efnislegt aðgengi í umhverfinu er svo mikilvægt og þar spila fordómar sem eru auðvitað oftast nær ef ekki alltaf byggt á fáfræði

Árborg

 

D-listi

Þjónustusamningur
D-listinn í Árborg myndi vilja skoða gerð samnings við Samtökin ´78 um þessi verkefni í samstarfi við starfsmenn málaflokksins. 

Heildræn hinsegin stefna
D-listinn í Árborg vill skapa gott samfélag fyrir alla íbúa og m.a. með stefnu í þessum málaflokki. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Nú þegar eru í boði sérstök kvöld fyrir hinsegin fólk í félagsmiðstöðinni Zelsíuz sem eru vel sótt. D-listinn myndi vilja vinna að eflingu starfsins innan félagsmiðstöðvarinnar og með aukinni fræðslu.

Hinsegin fólk á framboðslista
Nei það er enginn opinberlega hinsegin á listanum

 

Borgarbyggð

 

Sameiginlegt framboð Samfylkingar og Viðreisnar

Þjónustusamningur
Það er ekki í gildi slíkur samningur í Borgarbyggð og Samfylkingin og Viðreisn munu leggja áherslu á að slíkur samningur verði gerður enda mjög mikilvægt að fræðsla sem þessi sé fagleg og markviss.
Heildræn hinsegin stefna
Samfylkingin og Viðreisn munu leggja mikla áherslu á að gerð verði heildræn hinsegin stefna í í sveitarfélaginu. Lagt verður áhersla á að slík stefna verði gerð í samráði við hinsegin samfélagið og samtökin´78.
Hinsegin félagsmiðstöð
Samfylkingin og Viðreisn munu beita sér fyrir því að hinsegin ungmenni í sveitarfélaginu geti starfrækt hinsegin félagsmiðstöð, hvort sem það er ein og sér eða í samstarfi við önnur sveitarfélög.
Hinsegin fólk á framboðslista
Það er enginn frambjóðandi á lista opinberlega hinsegin.
Hinsegin áherslur listans koma ekki fram í stefnuskrá en eru hluti af leiðarstefi okkar þegar kemur að öllum ákvarðanatökum. Að það sé rými fyrir öll og öllum mætt á sínum forsendum. Við hefðum þó getað gert betur með að koma því betur til skila í opinberri stefnuskrá okkar.
Vinstri græn
Þjónustusamningur
Vinstri græn í Borgarbyggð taka undir kröfu Hinsegin Vesturlands um að Borgarbyggð geri samning við Samtökin 78 um heildræna fræðslu í öllum stofnunum Borgarbyggðar, þar með talið í leik- og grunnskólum og stjórnsýslunni. Fræðsla er til alls fyrst en með henni breytum við viðhorfum alls samfélagsins smátt og smátt. Slíkt framtak myndi styðja vel við aukna kynfræðslu og fjölbreytileikafræðslu sem hefur verið lögð áhersla á undanfarin ár í skólum í Borgarbyggð. Aukin áhersla þarf að vera á vitundarvakningu um málefni kynsegin fólks, enn má finna kynjatvíhyggju í skólum og öðrum stofnunum sveitarfélagsins sem þarf að bæta.Heildræn hinsegin stefna
Vinstri græn vinna að jafnrétti fyrir alla. Eins og staðan er í dag er ekki til heildræn hinsegin stefna í sveitarfélaginu en Vinstri græn í Borgarbyggð taka undir kröfu Hinsegin Vesturlands um að slík stefna verði skrifuð og innleidd af krafti.Hinsegin félagsmiðstöð
Vinstri græn í Borgarbyggð vilja vinna með Hinsegin Vesturlandi að því að komið verði á fót slíkri félagsmiðstöð í landshlutanum svo ekki þurfi að sækja alla slíka þjónustu til Reykjavíkur. Hinsvegar hefur hinsegin fólk í Borgarbyggð nýtt sér úrræði Samtakanna 78, eins og félagsmiðstöðina, enda er ekki um mjög langan veg að fara. Hinsvegar þarf að auðvelda aðgengið og viljum við sjá Hinsegin Vesturland fá fjárráð og stuðning til að koma slíku á koppinn í samráði við önnur sveitarfélög í landshlutanum.Hinsegin fólk á framboðslista
Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, 4. sæti og Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson, 5. sæti og Ísfold Rán Grétarsdóttir, 7. sæti. Þau komu að því að skrifa áherslur listans og eru virkir þátttakendur.

Dalvíkurbyggð

 

Fjallabyggð

 

Fjarðabyggð

Fjarðalistinn

Þjónustusamningur
Núna koma Samtökin ‘78 annað hvert ár með fræðslu í skóla Fjarðabyggðar. Við í Fjarðalistanum viljum hins vegar leggja enn meiri áherslu á hinsegin fræðslu þar sem hinsegin samfélagið innan okkar sveitarfélags er sífellt stækkandi. Börn og ungmenni eiga orðið auðveldara með að opna sig um hver þau eru og við viljum að nemendur, kennarar og annað starfsfólk skólanna ásamt foreldrum nemenda fái viðeigandi fræðslu svo við getum tekið öllum þeim sem kjósa að vera þau sjálf opnum örmum og á réttan hátt. Samfélagið verður að átta sig á því að hinsegin fólk og hinsegin fræðsla á ekki að vera neðanmálsgrein í skólakerfinu heldur að vera inngildandi í öllu skólastarfinu. Utanaðkomandi fræðsla frá fagfólki er nauðsynlegur liður í því að auka þjónustu við hinsegin ungmenni og væri þjónustusamningur við Samtökin ´78 hluti af þeim lausnum sem við viljum sjá. Þar að auki viljum við líka vera í virku samstarfi við hinsegin félagasamtök í okkar nærumhverfi, líkt og Hinsegin Austurland.

Heildræn hinsegin stefna
Mikilvægt er að sveitarfélög setji sér heildræna stefnu í hinsegin málum. Sveitarfélög hafa mikil tækifæri til að hafa áhrif, enda nær þjónusta þeirra til allra bæjarbúa og þau eru oftast nær einn stærsti vinnuveitandi innan sveitarfélagsins. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að sveitarfélagið setji sér sérstaka hinsegin stefnu, t.a.m. með tilliti til þjónustuþega, skólastarfs og starfsfólks sveitarfélagsins?
Okkur finnst vanta heildarstefnu hvað varðar vinnulag t.d. í skólastarfi og hjá starfsfólki sveitarfélagsins þegar kemur að hinsegin málum. Það stendur ekkert í vegi fyrir því að sveitarfélagið setji sér heildræna stefnu í hinsegin málum því slík stefna gæti nýst gífurlegum fjölda fólks, bæði þeim sem hinsegin eru sem og aðstandendum. Heildræn stefna myndi einfalda aðgerðaráætlun hvað varðar fræðslu og einelti vegna t.d. kyngervis og kynhneigðar og veita sveitarfélaginu aðhald til þess að vanda til verka og vinna málin af virðingu við alla einstaklinga. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Við viljum nýta krafta hinsegin fólks og félagasamtaka í okkar nærumhverfi. Hinsegin Austurland eru félagasamtök sem við myndum vilja eiga í samstarfi við en okkur þykir tilvalið að sveitarfélögin á Austurlandi sameini krafta sína í að aðstoða Hinsegin Austurland við að efla sitt starf svo hinsegin ungmenni geti leitað til þeirra í auknum mæli. Kjörið væri að leita leiða í samstarfi við sveitarfélögin um að koma að rekstri, eða styðja við, hinsegin félagsmiðstöðvar. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Á lista Fjarðalistans virðast ekki vera opinberlega hinsegin frambjóðendur en hins vegar styður flokkurinn réttindabaráttu hinsegin fólks og innan hópsins má að auki finna fólk sem gjörsamlega brennur fyrir hinsegin málefnum, þar á meðal einn frambjóðanda sem hefur lært um sögu hinsegin fræða á háskólastigi og er virk í að fræða annað fólk um hinsegin málefni.

 

Vinstri græn

Þjónustusamningur
Vinstri græn í Fjarðabyggð vilja leggja áherslu á að gerður verði þjónustusamningur við Samtökin ‘78. Mikilvægt er að bjóða upp á slíka þjónustu og ekki síður að upplýsingar um hana séu aðgengilegar á vef sveitarfélagsins á fleiri tungumálum en Íslensku. 

Heildræn hinsegin stefna
Vinstri græn í Fjarðabyggð eru virkilega stolt af myndarlegri stefnu sinni um málefni hinsegin fólks. Hins vegar er framboðið opið fyrir því að rýna betur í stefnuna með aðstoð fagaðila ef á þarf að halda og meta hverju mætti bæta við til þess að gera Fjarðabyggð að enn ákjósanlegri stað fyrir fólk sem tilheyrir hinsegin samfélaginu. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Vinstri græn í Fjarðabyggð eru þeirrar skoðunar að sýnileiki og fræðsla uppræti fordóma og auki lífshamingju hinsegin ungmenna. Framboðið sér mikla möguleika í því að stíga inn í starf félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð og skipuleggja sameiginlega viðburði með hinsegin ívafi og fræðslu. Framboðið telur einnig að samstarf við félagsmiðstöðvar í nágrannasveitarfélaginu Múlaþingi væri raunhæfur möguleiki sem ungmenni á Austurlandi myndu njóta góðs af. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Vinstri græn í Fjarðabyggð eru með eina opinberlega hinsegin manneskju á lista, Steinunni Dagmar Björgvinsdóttur sem skipar 6. sæti. Hún er 22. ára gömul sís kona sem hrífst af fólki af öllum kynjum og kýs að skilgreina kynhneigð sína ekki nánar en það. Steinunn Dagmar vann stefnu framboðsins í málefnum hinsegin fólks ásamt fleirum af listanum og er ánægð með útkomuna. Hún segir flokkinn hafa góða hinsegin nærveru og mörg á listanum hafi tengingu við hinsegin samfélagið. Steinunn segir listann í heild sinni reiðubúinn til þess að beita sér af miklu afli í þessum málaflokk. Enn fremur þykir henni skipta máli að öll séu tilbúin að sýna skilning og bæta þekkingu sína á hinsegin málefnum.

Garðabær

Garðabæjarlistinn

Þjónustusamningur
Já, við munum leggja áherslu á það – enda teljum við að slíkur samningur við Samtökin ’78 sé langbest til þess fallinn að tryggja hágæða hinsegin fræðslu til starfsfólks bæjarins og til nemenda í grunnskólum.

Heildræn hinsegin stefna
Já. Í stefnuskrá okkar segir: ‘Sett verði sértæk stefna í hinsegin málefnum, t.a.m. um aðgengi trans fólks að sundstöðum, öðrum íþróttamannvirkjum og salernum, og verklagsreglur um það hvernig hinsegin börnum eigi að mæta í skólakerfinu.’

Hinsegin félagsmiðstöð
Já. Við viljum skapa öruggara rými fyrir hinsegin börn og ungmenni í Garðabæ. Í stefnuskrá okkar segir: ‘Skoða þarf að koma af stað vísi að hinsegin félagsmiðstöð fyrir ungmenni úr öllum bænum í samstarfi bæjarins, félagsmiðstöðva og Samtakanna ‘78.

Hinsegin fólk á framboðslista
Oddviti okkar, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, er hinsegin og hefur komið að mótun stefnunnar okkar í hinsegin málefnum.

 

Sjálfstæðisflokkurinn

Þjónustusamningur
Þjónustusamningur við Samtökin ´78 er til skoðunar hjá Garðabæ og hefur komi til umfjöllunar í nefndum, ráðum og bæjarstjórn. Við viljum hafa hinsegin fræðslu og stuðning í bæjarfélaginu og höfum boðið upp á slíkt í skólunum til dæmis þar sem reynslan hefur verið góð. Ekki síst þegar ungt fólk hefur komið út úr skápnum þá höfum við fundið fyrir ánægju með þann stuðning sem við höfum getað veitt. Á þessu viljum við byggja áfram og þróa í samvinnu við skólastjórnendur og aðra.

Heildræn hinsegin stefna
Það kemur vel til greina og raunar mætti útvíkka þá góðu hugsun til fleiri hópa. Við tókum til dæmis á kjörtímabilinu á móti hinsegin flóttamönnum frá Úganda sem var ekki vært í heimalandinu vegna kynhneigðar sinnar. Þar er hópur sem þarf tvenns konar stuðning, annars vegar að það finni að hinsegin fólk er velkomið og metið í samfélaginu en líka sem flóttamenn úr gjörólíkum menningarheimi. Fötlunarfordómar finnast því miður enn svo dæmi se tekið. Við höfum metnað og vilja til að sinna þessum hópum öllum vel og heildstæð slík stefna er af hinu góða því samfélag án fjölbreytileika er ekki frjálst samfélag. Kjarninn í okkar stefnu er frelsi einstaklingsins og mannréttindi eru þar samofin. Við höfum líka sýnt þennan stuðning með táknrænum hætti. Fyrir utan Ráðhús Garðabæjar standa nú regnbogarendurnar málaðar á gangstéttina allan ársins hring. Við flöggum regnbogafánum við bæjarskrifstofurnar stolt á Hinsegin dögum og þá hefur starfsfólk Ráðhússins mætt við það tilefni í litríkum peysum til sem saman mynda alla liti regnbogans. Deildum skemmtilegri mynd af því á samfélagsmiðlum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Já, það er eitthvað sem við viljum styðja, við viljum að okkar ungmenni hafi greiðan aðgang að slíkri félagsmiðstöð. Nú er starfandi hinsegin félag í FG sem við gleðjumst yfir og hefur breytt miklu fyrir skólann.

Hinsegin fólk á framboðslista
Guðfinnur Sigurvinsson varabæjarfulltrúi sem skipar 7. sæti listans og Guðjón Máni Blöndal háskólanemi sem skipar 20. sæti eru samkynhneigðir og stoltir sjálfstæðismenn. Þeir tengja sterkt við sjálfstæðisstefnuna og sögu flokksins í tengslum við hinsegin málefni enda var það á vakt Sjálfstæðisflokksins sem mestu réttarbæturnar til handar samkynhneigðum náðu fram að ganga, það var undir forystu Davíðs Oddssonar þáv. forsætisráðherra, Björns Bjarnasonar þáv. og Guðrúnar heitinnar Ögmundsdóttur þáv. þingmanns Samfylkingar. Þau tóku höndum saman þvert yfir flokkslínur og stjórn og stjórnarandstöðu og gerðu það sem rétt var af hugrekki og framsýni. Þannig eiga stjórnmálin að vinna fyrir allt fólk og af sínu framlagi til mannréttindabaráttu hinsegin fólks er Sjálfstæðisflokkurinn, þ.m.t. þessir tveir frambjóðendur, stoltur.

 

Viðreisn

Þjónustusamningur
Viðreisn í Garðabæ leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að haldið sé vel utan um hinsegin fræðslu fyrir nemendur, grunnskóla og allt starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum. Sara Dögg, oddviti Viðreisnar í Garðabæ, hefur lagt fram tillögur þess efnis að þjónustusamningar séu gerðir við Samtökin 78 og samningurinn nái til allra starfsmanna sveitarfélagsins og þeirra sem sinna nærþjónustu við íbúa. Því miður hafa þær tillögur ekki hlotið mikinn hljómgrunn hjá meirihluta sjálfstæðisfólks. En við munum halda áfram að berjast.

Heildræn hinsegin stefna
Viðreisn hafnar allri mismunun á fólki á grundvelli jaðarsetningar og tekur skýra afstöðu gegn hvers kyns hatri gagnvart jaðarsettum hópum samfélagsins. Við fögnum fjölbreytileikanum og gætum þess að enginn gjaldi fyrir að tilheyra jaðarhópi. Við leggjum mikið upp úr því að sett sé heildstæð stefna í hinsegin málum í Garðabæ. Garðabær hefur lengi verið talið einsleitt samfélag og því enn mikilvægara að heildstæð stefna sé til staðar.

Hinsegin félagsmiðstöð
Við í Viðreisn í Garðabæ höfum mikla trú á hinsegin félagsmiðstöð og viljum finna farsæla lausn með því fólki sem vinnur hvað mest með hinsegin ungmennum og láta fjármagnið fylgja.

Hinsegin fólk á framboðslista
Þrjú efstu sæti framboðslistans okkar eru opinberlega hinsegin og hafa í gegnum tíðina tekið þátt í hinsegin samfélaginu eða gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samtökin 78 eða Hinsegin daga. Hinsegin frambjóðendur Viðreisnar í Garðabæ eru; Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í Garðabæ, Guðlaugur Kristinsson, markaðsstjóri og skipar 2.sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ og Rakel Steinberg Sölvadóttir, frumkvöðull og skipar 3.sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ. Öll upplifa hinsegin áherslur listans mikilvægar og skýrar enda hafa þau öll fundið á eigin skinni hversu mikilvægt það er að hafa skýrar áherslur þegar kemur að hinsegin málefnum fyrir samfélagið.

 

Grindavík

 

Hafnarfjörður

 

Bæjarlistinn

Þjónustusamningur
Bæjarfulltrúi okkar var forseti bæjarstjórnar þegar Hinsegin fræðsla var samykkt í bæjarstjórn. Hún var einnig formaður nefndar sem endurskoðaði jafnréttis- og mannréttindastefnu Hafnarfjarðar sem var t.d. skrifuð á þeim grunni að kynin væru fleiri en tvö (þetta var áður en lög þess efnis voru samþykkt). Hafnarfjörður hefur haft samning við ykkur frá árinu 2015 sem hefur verið endurnýjaður árlega síðan. Við viljum gjarnan ræða við ykkur um framtíð þjónustusamnings bæjarins hvað varðar útvíkkun og erum áhugasöm um ábendingar þess efnis. 

Heildræn hinsegin stefna
Eins og fram kom í svari við spurningu 1 þá er jafnréttis- og mannréttindastefna Hafnarfjarðar býsna framsækin. Bæjarlistinn vill gjarnan skoða hvort innihald hennar tekur nægilega skýrt á málefnum hinsegin fólks og ef ekki, þá vinna slíka stefnu sérstaklega.

Hinsegin félagsmiðstöð
Ungmennahúsið Hamarinn heldur úti öflugu ungmennastarfi, meðal annars sniðnu að hinsegin ungmennum. Þar er m.a. aðgangur að ókeypis viðtölum við Samtökin ´78. Bæjarlistinn vill gjarnan skoða nánar hvort þörfum hinsegin ungmenna er nægilega vel mætt í okkar starfi og gera úrbætur sé þess þörf.

Hinsegin fólk á framboðslista
Eftir því sem við best vitum eru ekki opinberlega hinsegin frambjóðendur á okkar lista. Málefnið stendur okkur þó nærri þar sem fleiri en einn frambjóðandi ofarlega á lista eru foreldrar trans og kynsegin einstaklinga. 

 

Píratar

Þjónustusamningur
Eins og fram kemur þá er þjónustusamningur í gildi við Hafnarfjarðarbæ. Rétt er að efla fyrirliggjandi starf og eru Píratar opnir fyrir því að skoða allar hugmyndir um útvíkkun samnings. 

Heildræn hinsegin stefna
Píratar í Hafnarfirði vilja heildræna stefnu í hinsegin málum. Stefnan yrði unnin faglega og í samráði við sérfræðinga og hinsegin fólk. Þá er samráð nauðsynlegt þegar kemur að fræðslu um hinsegin mál. Einnig er mikilvægt að hinsegin fólk hafi aðkomu að ákvarðanatöku, til dæmis þegar kemur að því að byggja ný íþróttamannvirki eða breyta þeim eldri svo allt fólk hafi jöfn tækifæri á því að stunda íþróttir. Við viljum að Hafnarfjörður standi sig þegar kemur að innviðum bæjarins og að kynsegin og öðru transfólki líði vel í bænum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Píratar í Hafnarfirði styðja eindregið að komið verði á fót hinsegin félagsmiðstöð og sjá ótvíræða kosti þess að gera það í samstarfi við nágrannasveitarfélögin. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Áherslur hinsegin fólks eru okkur hjartans mál. Það er fólk á listanum sem eru opinberlega hinsegin. Ekki var leitað sérstaklega eftir slíkum einstaklingum heldur endurspegla þau fjölbreytileikann sem finna má í samfélaginu. Áherslur listans voru unnar í samstarfi þar sem öll höfðu kost á aðkomu og er almenn sátt um niðurstöðuna.
Brynhildur Yrsa Valkyrja segir: Ég er opinberlega hinsegin og upplifi áherslur listans taka mið af þörfum alls fólks og ekki útiloka neina hópa.

 

Samfylkingin

Þjónustusamningur
Samfylkingin styður þennan þjónustusamning af heilum hug og svo sannarlega til í að ræða útvíkkun samningsins við Samtökin ´78. Í hinsegin stefnu Samfylkingarinnar kemur eftirfarandi fram „ Styðja þarf við starfsemi Samtakanna ‘78 þannig að þau geti haldið út fjölbreyttu starfi fyrir þann fjölbreytta hóp fólks sem heyrir undir regnbogaregnhlífina auk aðstandenda þeirra. Samfylkingin telur æskilegt að Samtökunum 78 verði tryggir fjármunir í fjárlögum og þjónustusamningar verði gerðir til lengri tíma til að stuðla að markvissri uppbyggingu á sértækri þjónustu.“

Heildræn hinsegin stefna
Samfylkingin í Hafnarfirði styður þessa nálgun og mun beita sér fyrir heildrænni stefnu í hinsegin málum. Í þessu samhengi er ágætt að benda á stefnu Samfylkingarinnar í hinsegin málum sem hefur verið unnin. Vissulega snýr hún að ríkismálunum en það er svo sannarlega hægt að fylgja henni eftir á sveitarstjórnarstiginu. Stefnuna má finna í heild sinni hér: https://xs.is/hinsegin-2021

Hinsegin félagsmiðstöð
Samfylkingin í Hafnarfirði er tilbúin og áhugasöm um að skoða þá útfærslu á þessari þjónustu sem myndi henta best í Hafnarfirði. Í hinsegin stefnu Samfylkingarinnar kemur einmitt eftirfarandi fram „…styðja sérstaklega við að hinsegin börn hafi aðgengi að félagslegum vettvangi, s.s. Hinsegin félagsmiðstöð, og slíkt félagsstarf þarf að vera aðgengilegt á fleiri stöðum en í Reykjavík.“

Hinsegin fólk á framboðslista
Já, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir í 15. sæti og Sigurjóna Hauksdóttir í 18. sæti.
Inga Björk (28 ára) er þekkt fyrir baráttu sína fyrir réttindum fatlaðs fólks og hinsegins fólks. Hún er listfræðingur að mennt, fötlunaraktívisti og fyrirlesari sem starfar sem verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Landssamtökunum Þroskahjálp. Hún er fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar og hefur verið virk innan Samfylkingarinnar um langt skeið.
Sigurjóna Hauksdóttir (20 ára) er háskólanemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur verið virk í stúdentapólitíkinni með Röskvu og í starfi ungra jafnaðarmanna. Þá var Sigurjóna einnig virk í félagslífinu í Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Hún starfar sem tómstundaleiðbeinandi hjá Öldutúnsskóla í Hafnarfirði meðfram háskólanámi.
Inga Björk og Sigurjóna hafa upplifað hinsegin áherslur listans með þeim hætti að þeim finnst málefni hinsegins fólks innan Samfylkingarinnar í Hafnarfirði skipta miklu máli. Þá eru þær báðar ánægðar með hinsegin stefnu Samfylkingarinnar.

 

Viðreisn

Þjónustusamningur
Algjörlega. Við teljum mjög mikilvægt að halda vel um þennan hóp. Þetta er viðkvæmur hópur sem mjög mikilvægt er að aðstoða þar sem margir eru að fatta að þau eru hinsegin. Einnig er mikilvægt að halda uppi fræðslu í skólum/félagsmiðstöðvum fyrir vini til að kynna sér betur þessi málefni þannig að þau geta betur studd vini sína og fjölskyldu

Heildræn hinsegin stefna
Algjörlega. Mér skilst að Hafnarfjörður sé með hinsegin stefnu og hefur gott samstarf við Samtökin ‘78. Einnig er mikilvægt að halda uppi fræðslu fyrir starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar til þess að þau verði betur í stakk búin til að fræða nemendur sína og samstarfsmenn og til að styðja hinsegin ungmenni sem koma út úr skápnum eða enda í félagslegu horni vegna hinseginleika þess.

Hinsegin félagsmiðstöð
Við í Viðreisn höfum áhuga að setja upp hinsegin félagsmiðstöð innan Hafnarfjarðar fyrir hinsegin ungmenni. Ég (Hrafnkell) fór mikið í félagsmiðstöðina hjá Samtökunum ‘78 í Reykjavík á mínum yngri árum þegar ég var að átta mig á hinseginleika mínum. Það er mjög mikilvægt fyrir hinsegin ungmenni að hitta jafnaldra sem eru að fara í gegnum svipaða reynslu. Einnig er starfsfólk Samtakanna ‘78 sem reka félagsmiðstöðina sem geta svarað spurningum um hinseginleikann og frætt ungmennin. Fyrir utan fræðsluna sem ungmennin fá varðandi allt hinsegin þá myndast mikilvæg félagsleg tengsl við annað hinsegin fólk, að þau viti að þau eru ekki ein í þessu og að það eru fleiri sem eru að fara í gegnum svipað

Hinsegin fólk á framboðslista
Hrafnkell Karlsson, 11. sæti: „Ég er opinberlega hinsegin, samkynhneigður karlmaður (genderqueer). Ég get ekki sagt um aðra. Við höfum grunnstefnu flokksins að leiðarljósi í okkar starfi.“ https://vidreisn.is/malefni/hinsegin-folk/

 

Vinstri græn

Þjónustusamningur
Samningur við Hafnarfjörð hefur verið um nokkurt skeið um fræðslu við hinsegin  fólk, eða frá 2015. Það er mikilvægt að það haldi áfram – bæði sem ráðgjöf í  gegnum skólastarf, en einnig starf ungmennahúsanna. Slíkt samstarf þarf að útvíkka og þróa, í samræmi við bæði breytingar á mannrétindum og breyttri stöðu  hinsegin fólks, og auðvitað í góðu samstarfi við hinsegin samfélagið á Íslandi.  Sérstaklega þarf að huga að intersex börnum stöðu þeirra, sem og stöðu  transbarna og auðvitað aðstandenda beggja hópa.  

Heildræn hinsegin stefna
Já, það þarf að vinna slíka stefnu svo hún nái til allra hlutverka og þjónusu sem eru  á ábyrgð sveitarfélagsins, allt frá leik- og grunnskóla, Hafnarfjarðar sem  vinnustaðar, og ekki síst þess sem minna hefur verið sinnt svo sem stefnu í  þjónustu við eldra hinsegin fólk, en þjónusta við eldri borgara. Ekki síst þjónustu við hinsegin flóttafólk. Það þarf sömuleiðis að passa að kynvitund hvers eins njóti viðurkenningar og  skráning kyns allra sé í samræmi við óskir um hlutlausa skráningu eða hlutlausa  skráningu. Á grundvelli stefnumótunar þarf síðan að vinna aðgerðaáætlun og fylgja eftir  nausynlegum breytingum á starfsemi bæjarins.  

Hinsegin félagsmiðstöð
Já, en það þarf að vera á grundvelli þjónustuþarfar svo við áttum okkur vel á því  hvernig væri best að velja staðsetningu þeirrar miðstöðvar.  

Hinsegin fólk á framboðslista
Já – einn frambjóðandi, Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir. Það er ekki lögð sérstök  áhersla á málefni hinsegin fólks í kosningastefnuskrá – en tekið er mið af stefnu  flokksins í þeim málum.

 

Hornafjörður

 

Kex framboð

Þjónustusamningur
Við höfum mikinn áhuga á því að gera þjónustusamning við Samtökin ‘78. Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í réttindum hinsegin fólks má aldrei sofna á verðinum hvað varðar fræðslu. Nauðsynlegt er að sveitarfélagið beiti sér af krafti fyrir því að hér geti allir, hvort sem er íbúar eða gestir, verið þau sjálf án fordóma. Þjónustusamningur við Samtökin myndi festa slíka fræðslu og tryggja að málaflokkurinn gleymist ekki.

Heildræn hinsegin stefna
Já. Við viljum leggja áherslu á að sameina stefnur sveitarfélagsins undir hatti einnar mannréttindastefnu en þar undir er mikilvægt að ítarleg og sterk stefna sé í hinsegin málefnum. Sú stefna yrði þá grunnurinn að sértækari stefnum stofnanna sveitarfélagsins, líkt og skólanna.

Hinsegin félagsmiðstöð
Það er afar mikilvægt að hinsegin börn og ungmenni hafi þessa aðstöðu og við viljum skoða allar mögulegar útfærslur til að tryggja þeim þetta rými, hvort sem er í gegnum núverandi félagsmiðstöð eða í samstarfi við önnur sveitarfélög.

Hinsegin fólk á framboðslista
Já. Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir skipar 4. sæti listans. Hún er tvíkynhneigð í sambúð með konu sinni og er mjög ánægð með áherslur listans. Strax í upphafi var lagt upp með að listinn myndi endurspegla fjölbreytileika samfélagsins og hugað sérstaklega að minnihluta hópum. Við höfum vandað okkur við allt orðalag, bæði í stefnumótun og öllu sem við sendum frá okkur. Við leggjum einnig áherslu á að sveitarfélagið hafi jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í öllum sínum ákvörðunum. Við viljum öll leggja okkar af mörkum til þess að öllum megi líða vel og vera örugg í sveitarfélaginu og það verður okkar leiðarljós næstu fjögur árin.

 

Hveragerði

 

Okkar Hveragerði

Þjónustusamningur
Já, Okkar Hveragerði mun leggja áherslu á hinsegin fræðslu fyrir nemendur, grunnskóla og starfsfólk, og að íbúar geti fengið ókeypis ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur. Tilvalið er að gera það í góðu samstarfi við Samtökin ´78.
Heildræn hinsegin stefna
Okkar Hveragerði vill beita sér fyrir því að sett verði sérstök hinsegin stefna.
Hinsegin félagsmiðstöð
Hveragerðisbær rekur öfluga frístundamiðstöð og þar eiga hinsegin ungmenni að eiga athvarf og fá þjónustu. Okkar Hveragerði hefur þó vilja til að skoða samstarf við nágrannasveitarfélög um þjónustu við hinsegin ungmenni.
Hinsegin fólk á framboðslista
Nei, það er enginn á listanum sem er opinberlega hinsegin. Okkar Hveragerði styður fjölbreytileika mannlífsins.

Ísafjörður

 

Kópavogur

 

Miðflokkurinn og óháðir

Þjónustusamningur
Okkur finnst samtökin mikilvæg og nauðsynlegt að styrkja þau í ráðgjöf fyrir hinsegin folk og aðstandendur. Varðandi fræðslu þá er hún mikilvæg,  útfærsla hennar eða útvistun til samtaka er eitthvað sem þarf að kanna sérstaklega með tilliti til fjölbreytilegra hópa. 

Heildræn hinsegin stefna
Við höfum ekki tekið afstöðu til þessarar spurningar þó svo í rekstri þjónustu þarf að huga að fjölbreyttum hópum og þörfum m.a hinsegins fólks. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Nei ekki enn sem komið er. Mikilvægt er þó að félagsmiðstöðvar skólanna taki tillit til hinssegin fólks og gefi þeim næði óski þau eftir því sérstaklega. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Enginn frambjóðenda hefur upplýst sérstaklega um það og engin er spurður enda allir velkomnir hjá okkur óháð, kyni, kynhneigð, trúarbrögðum, fötlun eða þjóðerni. 

 

Píratar

Þjónustusamningur
Já ekki spurning, við myndum vilja að Kópavogsbær gerði slíkan samning hið fyrsta! Meðal áherslumála í stefnu okkar er m.a. að fjölga sérfræðingum í hinsegin málefnum sem starfa hjá bænum og að tryggja að Kópavogsbær virði öll fjölskyldumynstur til jafns, óháð kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, kynvitund eða annars kyngervis.

Heildræn hinsegin stefna
Já, við erum m.a. með það á stefnuskránni okkar að fjölga sérfræðingum í hinsegin málefnum sem starfa hjá bænum, tryggja að starfsfólk íþrótta- og tómstundafélaga fái virka og endurtekna hinseginfræðslu, styðja við að félagsmiðstöðvar verði almennt hinseginvænni og að auka hinseginfræðslu í skólum og tryggja að öll börn hljóti hana á mismunandi stigum skólakerfisins og í félagsmiðstöðvum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Já, meðal stefnumála okkar er einmitt að styðja við að félagsmiðstöðvar verði hinseginvænni (bæði félagsmiðstöðvar barna og ungmenna, sem og eldri borgara).

Hinsegin fólk á framboðslista
Já, til dæmis eru þrjú af efstu sex frambjóðendum á lista Pírata í Kópavogi hinsegin, Sigurbjörg (1.sæti), Margrét (5. sæti) og Árni (6. sæti). Við erum mjög ánægð með hinsegin áherslur listans. Stefnumótun Pírata var unnin í miklu og breiðu samráði í vetur og við teljum hafa tekist mjög vel til.

 

Vinir Kópavogs
Þjónustusamningur

Vinir Kópavogs bjóða fram í nafni íbúalýðræðis og fjölbreytni og myndu því hiklaust kjósa þjónustusamning við Samtökin ´78, hagsmunasamtök alls hinsegin fólks enda kemur á óvart að slíkur samningur sé ekki fyrir hendi i næststærsta sveitarfélagi landsins.

Heildræn hinsegin stefna
Vinir Kópavogs setja fjölbreytni og virðingu fyrir öllum bæjarbúum í samráði og sátt á oddinn í sínu framboði. Jafnréttisstefna ásamt skýrum aðgerðum er hluti þess, þar á meðal verður að huga sérstaklega að hinsegin fólki og öðrum hópum sem enn búa ekki við jafnrétti í víðasta skilningi þess orðs.
Hinsegin félagsmiðstöð
Allir hinir fjölbreyttu íbúar Kópavogs eiga að njóta virðingar og stuðnings samfélagsins og hluti þess er að geta fundið félagslegan vettvang við hæfi. Hluti þess er félagsmiðstöð hinsegin fólks sem hefur sannað gildi sitt um árabil.
Hinsegin fólk á framboðslista
Já, Vinir Kópavogs eru með mjög fjölbreyttan lista frambjóðenda og þar á meðal er Margrét Pála Ólafsdóttir, fyrrum formaður Samtakanna 78 í heiðurssæti listans. Hún hefur ásamt öðrum mótað áherslur listans um fjölbreytni og áhrif íbúa á allt sitt umhverfi og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins.

 

Vinstri græn

Þjónustusamningur
Vinstri græn munu leggja áherslu á slíkan samning.

Heildræn hinsegin stefna
Mikilvægi fræðslu til að draga úr fordómum og aðstoða öll við að líða vel í eigin skinni er mikilvægt. Vinstri græn vilja að samfélagið geri öllum kleift að njóta sín, á eigin forsendum. Vinstri græn í Kópavogi munu beita sér fyrir slíkri stefnu í Kópavogi.

Hinsegin félagsmiðstöð
Já, Vinstri græn munu beita sér fyrir því.

Hinsegin fólk á framboðslista
Á lista Vinstri grænna í Kópavogi er fjölbreyttur hópur fólks sem vill vinna að því að Kópavogur sé fyrir okkur öll. Samfélag þar sem við fáum öll jöfn tækifæri til að blómstra á okkar eigin forsendum. Já, það er fólk á okkar lista sem er opinberlega hinsegin en vill þó ekki endilega koma fram undir nafni hér. Upplifun þeirra af hinsegin áherslum er jákvæð og finnst vel tekið á móti öllum í flokkinn.

 

Norðurþing

 

D listi Sjálfstæðisflokksins

Þjónustusamningur
Við þekkjum ekki nægilega vel til samninganna, markmiðs þeirra og hvað þeir fela í  sér, til að segja ákveðið til um að við mundum leggja áherslu á slíka samninga. Við  erum hins vegar mjög jákvæð fyrir því að kynna okkur hvað felst í þjónustusamningi  við Samtökin ´78 og taka svo samtalið áfram þaðan. 

Heildræn hinsegin stefna
Nei við sjáum ekki fyrir okkur að sett verði sérstök hinsegin stefna á vettvangi  sveitarfélagsins. Aftur á móti er framundan að uppfæra ýmsar stefnur og áætlanir  eins og gert er ráð fyrir að hluta til með lögum samanber framkvæmdaáætlun í  barnaverndarmálum og jafnréttisáætlun. Við endurskoðun og/eða setningu nýrra  stefna eða áætlana munum við sjá til þess að tekið verði á málefnum hinsegin fólks  innan þeirra.  

Hinsegin félagsmiðstöð
Vegna smæðar samfélagsins er takmarkaður grundvöllur fyrir rekstri hinsegin  félagsmiðstöðvar. Við erum hinsvegar tilbúin til þess að koma eins vel og okkur er  frekast unnt til móts við hinsegin einstaklinga á vettvangi skóla, frístundar og  félagsmiðstöðvar þannig að þeir eins og aðrir fáið notið sín á eigin forsendum. Það  getum við gert t.d. með fræðslu til nemenda, foreldra, starfsfólks, viðburðum fyrir  framangreinda hópa, ráðgjöf og stuðningi við hinsegin einstaklinga og fjölskyldur  þeirra. Það sem við þekkjum til innan okkar sveitarfélags hefur verið vel staðið að  þjónustu og stuðningi við hinsegin einstaklinga og fjölskyldur þeirra af hálfu  fræðslusviðs og félagsþjónustu. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi er enginn frambjóðandi opinberlega  hinsegin. 

 

S listi Samfylkingar og annars félagshyggjufólks

Þjónustusamningur
Við vitum að Norðurþing er ekki með virkan þjónustusamning í gangi og viðkomandi starfsmaður vissi ekki hvað myndi felast í slíkum samningi. Því væri fyrsta skrefið að tala saman og fá upplýsingar hvað felst í slíkum samningi.

Heildræn hinsegin stefna
Við erum heilshugar fylgjandi því að slik stefna yrði gerð. En teljum að skoða verði vel hvort og geta og vilji sé sé til staðar hjá starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sveitafélagsins til að fylgja henni eftir. Það er auðvelt að setja falleg orð á blað en það verður að vera hægt að framfylgja stefnunni. Við hjá S lista erum til í að gera okkar til að svo megi verða

Hinsegin félagsmiðstöð
Við vitum að hér í Norðurþingi er farið með börn í 9 og 10 bekk inn á Akureyri að sækja félagsmiðstöð með hinsegin börn. Við hja S listanum viljum skoða framtíðaröguleika í sambandi við slíka starfsemi í samvinnu við ungmennin og á forsendum þeirra.

Hinsegin fólk á framboðslista
Já við erum með frambjóðanda á lista sem er opinberlega tvíkynhneigð. Hinsvegar er sá frambjóðandi ekki ungmenni og í ljósi ofangreindra spurninga ákváðum við að heyra í ungmenni á svæðinu til að heyra afstöðu þess til hinsegin félagsmiðstöðvar. Ungmennið lýsti yfir áhuga á að það yrði sett á laggirnar hinsegin félagsmiðstöð og við erum þakklát fyrir þennan spurningalista því það hvatti okkur á listanum að fara að íhuga þessi mál. Takk fyrir ykkar vinnu og við munum klárlega fara að skoða þjónustusamning og opna á samtal við hinsegin samfélagið í Norðurþingi.

 

V-listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

Þjónustusamningur
V-listinn leggur sérstaka áherslu á að hinseginvænt sveitarfélag byrji í skólastofunni. Okkur er ljóst að aðstöðumunur hinsegin barna, ungmenna og fjölskyldna er töluverður eftir búsetu á landinu þegar kemur að aðgengi fræðslu og stuðnings en við viljum gjarnan bæta úr því. V-listinn vill að Norðurþing fari í samstarf við önnur sveitarfélög á svæðinu um að byggja upp nauðsynlega þjónustu við hinsegin fólk í landshlutanum með sérstaka áherslu á börn, ungmenni og fjölskyldur. Slík uppbygging ætti að vera í samstarfi og samráði við Samtökin ’78 og hinsegin fólk og samtök á svæðinu.

Heildræn hinsegin stefna
V-listinn vill að Norðurþing sé hinseginvænt sveitarfélag. Mikilvægur liður í því er að sveitarfélagið setji sér sérstaka hinsegin stefnu í öflugu samráði við hinsegin íbúa og starfsfólk. V-listinn leggur áherslu á að leitað verði í þekkingu og reynslu Samtakanna ’78 í þeirri vinnu.

Hinsegin félagsmiðstöð
V-listinn vill að Norðurþing fari í samstarf við önnur sveitarfélög á svæðinu um að byggja upp nauðsynlega þjónustu við hinsegin fólk í landshlutanum með sérstaka áherslu á börn, ungmenni og fjölskyldur. Hið frábæra starf hinsegin félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki farið framhjá frambjóðendum V-listans í Norðurþingi og það er að okkar mati mjög mikilvægt að börn og ungmenni geti sótt félagsstarf með jafningjum sínum og samfélagi. Með hvaða hætti væri best að byggja upp eða styðja við slíkt starf er hluti af þeirri mikilvægu vinnu sem bíður sveitarfélagsins við mótun heildrænnar stefnu í hinsegin málum.

Hinsegin fólk á framboðslista
V-listinn er ungur listi ríkur af fjölbreytileika en konur og hinsegin fólk hafa verið áberandi í forystu og málefnavinnu listans. Dæmi um hinsegin frambjóðendur eru Íris Atladóttir sem býr á Húsavík með konunni sinni og börnum og Aðalbjörn Jóhannsson sem býr í dreifbýlinu með tilvonandi eiginmanni. Þau hafa víðtæka reynslu af störfum hinsegin samtaka og samfélags og hafa borið traust V-listans til að fjalla um og móta hinsegin áherslur framboðsins.

 

Mosfellsbær

 

Framsókn

Eftirfarandi svar barst frá framboði Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ:

Okkur hjá Framsókn í Mosfellsbæ finnst mjög mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna í hinsegin málum. Við munum beita okkur fyrir því að efla fræðslu í sveitarfélaginu um málefni hinsegin fólks. Félagsmiðstöðin Ból í Mosfellsbæ hefur um nokkurt skeið boðið upp á hinsegin opnanir sem við hjá Framsókn viljum gera hærra undir höfði svo ungt fólk í Mosfellsbæ geti sótt slíka þjónustu í heimabyggð. Frambjóðendur á lista Framsóknar eru fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri.
Til að árétta þessar áherslur flöggum við hinsegin fánanum hér fyrir utan kosningaskrifstofuna okkar. Við látum okkur þessi málefni varða.

Samfylkingin

Þjónustusamningur
Samfylkingin í Mosfellsbæ telur mjög mikilvægt að skapa eitt samfélag fyrir okkur öll. Opið samfélag þar sem fólk  er samþykkt sem þátttakendur óháð kyneinkennum, kynvitund, kynhneigð eða öllum öðrum þáttum sem taldir eru aðskilja okkur. Sem stendur er ekki þjónustusamningur í gildi milli Samtakanna ’78 og Mosfellsbæjar, en það er vilji Samfylkingarinnar að slíkur samningur verði gerður á komandi kjörtímabili. Fulltrúar frá Samtökunum hafa þó komið með fræðslu í skóla hér í bæ.

Heildræn hinsegin stefna
Já, Samfylkingin í Mosfellsbæ vill beita sér fyrir því að sett verði hinsegin stefna á vegum sveitarfélagsins. Stefnan tæki þá til alls starfs á vegum sveitarfélagsins og stofnana þess m.a. með það markmið að allt hinsegin fólk fái þjónustu við hæfi þegar hennar er þörf og að efla þekkingu innan kerfisins á aðstæðum hinsegin fólks. Samfylkingin í Mosfellsbæ hefur einnig áhuga á að í gegnum stefnu um hinsegin mál verði unnið að því að gera allan texta sem gefinn er út af Mosfellsbæ kynlausan og opinn.

Hinsegin félagsmiðstöð
Hinsegin ungmenni hafa rétt á að alast upp í umhverfi sem samþykkir þau og veitir þeim þann stuðning sem þau þurfa í því samfélagi sem við búum. Samfylkingin í Mosfellsbæ vill styðja við rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar.

Hinsegin fólk á framboðslista
Allir eru velkomnir í Samfylkinguna og almennt séð þá óskar Samfylkingin ekki eftir upplýsingum um kynhneigð eða kynvitund félagsfólks. En í sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ er Sunna Arnardóttir sem segist stolt styðja nálgun Samfylkingarinnar sem leggur áherslu á að sinna þjónustu við alla íbúa Mosfellsbæjar. Við vinnu að stefnumótun og áherslum framboðsins hafi allir einstaklingar verið metnir til jafns, og reynt að nálgast alla út frá þeim forsendum sem hafa mest áhrif á líf þeirra með það að leiðarljósi að allir íbúar sveitarfélagsins sitji við sama borð.

 

V listi

Þjónustusamningur
Vinstri græn í Mosfellsbæ eru hlynnt því að slíkur þjónustusamningur verði gerður og vill beita sér fyrir því að hann verði að veruleika.

Heildræn hinsegin stefna

VG í Mosfellsbæ vill vinna að því því að sérstök stefna í hinsegin málum verði sett í sveitarfélaginu.

Hinsegin félagsmiðstöð
Í Mosfellsbæ er Félagsmiðstöðin Bólið fyrir börn og unglinga. Innan Bólsins starfar Hinsegin klúbbur sem fékk jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2021. Á heimasíðu Bólsins segir: „Hinseginklúbbur Bólsins er fyrir alla krakka á aldrinum 13 – 18 ára sem hafa áhuga á hinsegin málefnum. Markmiðið er að gera vettvang þar sem allir geta verið þeir sjálfir og fræðst frekar um þessi málefni. Allir eru velkomnir í klúbbinn og geta tekið þátt í þeim viðburðum sem haldir eru. Við hittumst á mánudagskvöldum kl. 18:00 – 22:00. Þar eru í bland, afslappaðir hittingar með t.d. umræðu-, lærdóms-, spila- & bíókvöldum. En einnig förum við í heimsóknir til annara samtaka og fáum til okkar allskonar fræðslu t.d. sjúk ást, eitt líf & kynfræðslu. Umsjónarmaður klúbbsins er Katla Jónasdóttir og hefur hún unnið mikið að hinseginmálefnum undanfarin ár.“

Hinsegin fólk á framboðslista
Svar: Nei.

 

Múlaþing

 

Austurlistinn

Þjónustusamningur
Já, Austurlistinn mun leggja fram tillögu við sveitarstjórn Múlaþings um að stofnað verði til samstarfs við Samtökin ‘78 til að veita hinsegin fræðslu í skólastofnunum sveitarfélagsins. Það er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi hinsegin fræðslu. Þá sjáum við fyrir okkar að Kindsegin – Hinseginfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum verði boðið að taka þátt.

Heildræn hinsegin stefna
Já við tökum heilshugar undir með Samtökunum ’78. Austurlistinn mun leggja fram tillögu til þess efnis að vinna við heildræna stefnu í hinsegin málefnum hæfist á haustmánuðum 2022 með því markmiði að stefnan verði kynnt í veturinn 22-23. Við munum án nokkurs vafa leita til Samtakanna eftir ráðleggingum í þeirri vinnu.

Hinsegin félagsmiðstöð
Austurlistinn tekur þessari ábendingu fagnandi og sér mikilvægi þess að opnuð yrði hinsegin félagsmiðstöð á Austurlandi.
Í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu Múlaþings sjáum við okkur ekki fært að lofa sér félagsmiðstöð að svo stöddu. Á Egilsstöðum er hins vegar rekið ungmennahús undir nafninu Vegahúsið fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Eftir stutt samtal við forstöðumann í dag er ljóst að hinsegin samfélaginu er velkomið að nýta sér þá aðstöðu, t.d. sem félagsaðstöðu. Austurlistinn er tilbúinn að stofna til samstarfs við hinsegin samfélagið hér eystra og Samtökin ‘78 þar sem hentugar lausnir í þessu efni verði fundnar til að koma slíkri starfsemi af stað. Í þessum efnum er eðlilegt að bjóða góðum nágrönnum okkar í Fjarðabyggð til samstarfs um slíkt starf.

Hinsegin fólk á framboðslista
Við uppstillingu á listanum var ekki litið til kynhneigðar frambjóðenda en lausleg könnun á henni í tilefni þessarar spurningar er sú að enginn á honum er opinberlega hinsegin.

 

Framsókn

Þjónustusamningur
Það er eftir því sem ég best veit ekki samningur en það væri mjög mikilvægt að skoða að gera slíkan.
Heildræn hinsegin stefna
Við sem nýsameinað sveitarfélag þurfum að sjálfsögðu að huga að öllum hópum okkar samfélags og hafa það í huga þegar við setjum okkur stefnu í okkar málum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Það væri vel hægt að skoða mögulegar lausnir í því.

Hinsegin fólk á framboðslista
Við erum ekki með frambjóðendur á lista sem eru opinberlega hinsegin en hér er kveðja frá ungri konu sem starfar þétt með hópnum okkar.

„Ég heiti Guðrún Adela Salberg Dánjalsdóttir og starfa með Framsóknarfélagi Múlaþings. Mér var boðið sæti á lista Framsóknar en afþakkaði sætið þar sem ég treysti mér ekki. Ég er hinsegin en hef ekki skilgreint mig innan ákveðins hóps. Ég er stollt að vera partur af þessum frábæra hópi.“

 

Rangárþing eystra

 

Rangárþing ytra

 

Reykjanesbær

 

Sjálfstæðisflokkurinn

Þjónustusamningur
Já, í stefnuskrá okkar leggjum við áherslu á að hefja stórsókn í forvarnarstarfi. Við viljum að Reykjanesbær verði leiðandi þegar kemur að forvarnarstarfi foreldra, barna – og unglinga. Forvarnarstarf er mikilvægt í öllum aldurshópum og til þess þarf að horfa í öllu starfi Reykjanesbæjar. Við sjáum mikil tækifæri í því að vinna náið með Samtökunum ‘78, hvort heldur sem er í formi þjónustusamnings eða öðru samstarfi. Við hlökkum til að eiga samtal við Samtökin ‘78 eftir kosningar þegar Sjálfstæðislfokkurinn er kominn í meirihluta í Reykjanesbæ.

Heildræn hinsegin stefna
Já, það er mikilvægt að hinsegin samfélagið í Reykjanesbæ finni fyrir því að öll erum við mikilvægir þjónustuþegnar. Við viljum vinna málin í góðu samstarfi við skólasamfélagið, starfsfólk Reykjanesbæjar og nýta þá þekkingu sem til staðar er í samfélaginu í hinsegin málefnum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Í stefnuskrá okkar segir að öflugt frístundar- og tómstundarstarf er mikilvægur liður í velferð barna og ungmenna. Tryggja þarf fjölbreytt framboð þannig að sem flest finni eitthvað við sitt hæfi. Í 88 Húsinu, félagsmiðstöð bæjarins, er t.d. hittingur fyrir börn á aldrinum 12-18 ára sem ber heitið Hinsegin Plútó. Þar er hægt að fá stuðning frá öðrum hinsegin krökkum. Við ætlum að opna félagsmiðstöðvar í öllum hverfum bæjarins í samstarfi við Grunnskólana og Fjörheima. Það er mikilvægur liður í því að auka aðgengi og framboð í hverju hverfi fyrir sig. Bæjaryfirvöld verða að hlusta á raddir hinsegin fólks og bregðast við þörfum þeirra. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Já, Eyjólfur Gíslason sem skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ tilheyrir hinsegin samfélaginu og gerir það opinberlega. Samkvæmt Eyjólfi þá upplifir hann innra starf framboðsins þegar kemur að hinsegin málefnum með jákvæðum hætti. Hann finnur fyrir þeim vilja að hinsegin málefni verði hluti af þeim breytingum sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ boðar á komandi kjörtímabili. Hann bætir því við að aldrei megi sofna á verðinum þegar kemur að réttindum hinsegin fólks og hann mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim málum innan bæjarins fái hann tækifæri til.

 

Reykjavík

 

Framsóknarflokkurinn

Þjónustusamningur
Samningurinn er, eins og þið segið, nú þegar í gildi og við fögnum því. Það er mikilvægt að svona stuðningur sé fyrir hinsegin fólk og fjölskyldur þeirra en ekki síst þessi fræðsla fyrir nemendur og starfsfólk. Við myndum líka vilja sjá þessa fræðslu í leikskólum og framhaldsskólum borgarinnar og hvetja vinnustaði sem falla undir Rykjavíkurborg til að fræða sitt starfsfólk. Það má áætla að hinseginfræðslu sé ábótavant innan hjúkrunarheimila sem kemur sér illa fyrir hinsegin heimilisfólk sem gæti mætt fordómum frá öðru heimilisfólki og starfsfólki.

Heildræn hinsegin stefna
Á flokksþingi Framsóknar í mars 2022 kallaði formaður Sambands ungra Framsóknarmanna eftir heildrænni stefnu í hinsegin málum innan flokksins á landsvísu. Sú vinna er hafin (en er á hold vegna kosningabaráttu núna). Hún sat einnig í starfshópi um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Sá hópur lagði áherslu á að hinsegin fræðsla yrði partur af kynfræðslunni í heild sinni en ekki (eins og hefur verið) sér kafli um hinsegin kynlíf og kynsjúkdóma. Eins og Framsókn er að mælast í skoðunarkönnunum núna stefnir á að hún verði varaborgarfulltrúi og mun þarf að leiðandi sitja þó nokkra borgarstjórnarfundi og í hinum ýmsu nefndum. Hún mun að sjálfsögðu beita sér fyrir réttindabaráttu á þeim vettvangi eins og öðrum hingað til. Að auki er hinsegin fólk í framboði hjá öðrum flokkum og nú þegar í borgarstjórn. Þannig er hægt að nýta kraftinn í fjöldanum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Að sjálfsögðu munum við beita okkur fyrir því að félagsmiðstöðin í Hinu húsinu haldi áfram. Það er frábært að Reykjavíkurborg sé nú þegar með starfandi félagsmiðstöð og það væri hægt að fá hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu inn í þá vinnu. Fá þau í heimsókn til að sjá hvort þau geti lært eitthvað af því starfi sem fer fram í Hinu húsinu og geti innleitt það hjá sér.

Hinsegin fólk á framboðslista
Á framboðslista Framsóknar í Reykjavík eru allavega 5 opinberlega hinsegin. Þar má telja Unni Þöll Benediktsdóttur, frambjóðanda í 6. sæti, Jón Eggert Víðisson í 14. sæti, Berglindi Sunnu Bragadóttur í 15. sæti, Helenu Ólafsdóttur í 26. sæti, Lárus Sigurður Lárusson í 42. sæti. Að sjálfsögðu gætu hinsegin frambjóðendur verið fleiri á listanum en það er hlutur sem við spyrjum ekki sérstaklega að áður en fólk kemur í framboð hjá okkur, tökum frambjóðendum eins og þau eru

 

Píratar

Þjónustusamningur
Við Píratar í Reykjavík erum mjög ánægð með þjónustusamninginn sem er í gildi. Okkar stefna er að útvíkka hinseginfræðslu, kynfræðslu, kynjafræðslu og aðra jafnréttisfræðslu í skólakerfinu, fyrir nemendur og starfsfólk. Bæði í gegnum samninga við Samtökin, og með því að þrýsta á að þessum áherslum verði komið inn í kennaramenntun og símenntun og kennsluefni verði útbúið fyrir þá fræðslu.

Heildræn hinsegin stefna
Í Reykjavíkurborg er yfirgripsmikil og góð mannréttindastefna þar sem er veigamikill kafli um  Kynhneigð, kynvitund, kyntjáning og kyneinkenni, en mismunun á þeim grundvelli er aldrei ásættanleg. Þær áherslur eru líka áberandi í starfi og annarri stefnumótun Reykjavíkurborgar, en jafnrétti á víðum grundvelli og sérstaklega með tilliti til þessara þátta er tiltekið í öðrum stefnum, svosem íþrótta- og tómstundastefnu og í Reykjavíkurborg er starfandi á mannréttindaskrifstofu sérfræðingur í hinseginmálefnum. Árið 2019 gerðist Reykjavíkurborg aðili að Rainbow Cities Network, og hefur barist fyrir því að salerni á vegum borgarinnar geti verið ókyngreind, ásamt því að gefa skýrar leiðbeiningar til sundlauga um að fólk eigi rétt á að fara í þann klefa sem passar við þeirra kynvitund. Það er stefna Pírata að efla þennan málaflokk enn frekar og halda áfram að tryggja aðgengi að þjónustu og jafnrétti þessa hóps.

Hinsegin félagsmiðstöð
Árangurinn af hinsegin félagsmiðstöð í Reykjavík er gífurlega mikill og brýnt er að efla það starf. Nú þegar er á áætlun að fara í breytingar til að tryggja að svo megi verða út frá tillögum starfshóps. Einnig er mikilvægt að efla hinsegin-vitund í öðrum félagsmiðstöðvum, þar sem við viljum ekki heldur gefa þá hugmynd að þar sem sé til hinsegin félagsmiðstöð þá eigi hinsegin krakkar þar með ‘ekki’ að vera í öðrum félagsmiðstöðvum. Við myndum fagna samstarfi við önnur sveitarfélög í þessum málaflokki.

Hinsegin fólk á framboðslista
Það væri löng upptalning að fara yfir allan framboðslistann, sem er vel skipaður hinsegin og kynsegin fólki, en í átta efstu sætum má nefna að í öðru sæti listans Alexandra Briem, sitjandi borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar, sem er opinberlega trans og pankynhneigð (en hallast heldur að konum). Elísabet Guðrúnar- og Jónsdóttir sem er í 5. sæti listans er opinberlega tví-/pankynhneigð og kynsegin. Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns sem skipar 7.sæti listans er pankynheigð og kynsegin og Olga Margrét Cilia sem er í 8. Sæti listans er pankynhneigð.
Við erum stolt af því að taka þátt í framboði sem er með öfluga áherslu á hinseginmál og jafnréttismál almennt, og þar sem við upplifum að við séum velkomin á eigin verðleikum, en ekki til að tékka í eitthvað box.

 

Samfylkingin

Þjónustusamningur
Núverandi samningur við Samtökin hefur gengið vel. Það mætti vel hugsa sér að útvíkka hann en það væri samtal milli borgarinnar og Samtakanna. Það samtal hefur alltaf verið ótrúlega gott, hreinskilið og mikilvægt og væri hægt að taka þetta upp á þeim vettvangi. 

Heildræn hinsegin stefna
Í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er kafli sem fjallar um hinsegin málefni. Sá kafli tekur á ofangreindum þáttum og meira til. Reykjavík er eina sveitarfélagið þar sem sérstakur sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks er starfandi á mannréttindaskrifstofu. Þá er Reykjavíkurborg með regnbogavottun á starfstöðum Reykjavíkurborgar og erum við aðilar að rainbow cities. Þessar áherslur borgarinnar á undanförnum árum endurspegla um leið viðhorf og áherslur Samfylkingarinnar til hinsegin málefna.  

Hinsegin félagsmiðstöð
Borgin kom með 6 mkr aukafjárveitingu fyrir þetta ár til að tryggja að starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvar væri borgið.  Við viljum þó kalla önnur sveitarfélög til samtals varðandi kostnaðarþátttöku því félagsmiðstöðin er að þjónusta börn af öllu höfuðborgarsvæðinu. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Þrír frambjóðendur á listanum okkar eru opinberlega hinsegin. Þau sendu okkur eftirfarandi svör:
Davíð Sól Pálsson – 21. sæti: Ég er opinberlega hinsegin manneskja sem pankynhneigður (heillast af manneskjunni óháð kyni, útlit og kynhneigð). Sagan á til að gleymast og hlutir sem í dag eru sjálfsagðir voru það ekki alltaf. Samfylkingin skoraði hæst í könnun hjá Samtökum 78 í Alþingiskosningunum í fyrra og ég hef fulla trú að það yrði líka raunin núna. Ég hef verið að vinna hjá Reykjavíkuborg svo ég finn líka hvað meirihlutinn hefur verið að gera varðandi fræðslu og sýnileika hjá hinsegin einstaklingum. Reykjavík er á réttri leið og við megum alls ekki stoppa núna.
Ingiríður Halldórsdóttir – 27. sæti: Ég er tvíkynhneigð. Mér finnst við í Samfylkingunni hafa passað vel uppá að setja upp öll mannréttindagleraugun þegar við sömdum stefnuna okkar. Ekki bara í mannréttindakaflanum heldur stefnunni allri, sérstaklega í velferðar- og menntastefnunni. Hinsegin fræðsla í skólanum er mikilvægur þáttur í því að stuðla að jafnara samfélagi. Mér fannst þau sem sjá um skóla-, barna og tómstundamálin hjá okkur vera mjög meðvituð um hinsegimálefnin og lögðu fram sterka stefnu í þessum málaflokki. Þá þarf að muna að eldra fólk er líka hinsegin og nauðsynlegt að mæta þeirra þörfum á þeirra eigin forsendum. Reykjavík hefur verið framarlega þegar kemur að sýnileika hinseginleikans og við viljum halda áfram að beita okkur þar. Þegar málefnastarf flokksins var í fullum gangi núna í byrjun árs var leitað til mín vegna míns reynsluheims sem öryrkja. Þegar ég kom inn, las yfir stefnudrög og kom með mína punkta þá var nú þegar mikið inni um hinsegin málefni. Afar fjölbreyttur hópur kom að því að semja stefnuna og mér finnst stefnan endurspegla þann fjölbreytileika. Ég hef alltaf upplifað mikinn vilja innan flokksins til þess að allir hópar hafi rödd innan hans, ekki að það sé talað fyrir okkur heldur hlustað á okkur og okkar rödd varpað áfram.
Þóroddur Þórarinsson – 37. sæti: Hinsegin áherslur eru rótgrónar í jafnaðarmennskunni þar sem að við leggjum áherslu á jafnan rétt allra.  Fræðsla í skóla varðandi hin ýmsu mál hinsegin fólks er stefna okkar áfram sem hingað til. Fræðsla er mikilvægasta vopnið í baráttu við fordóma.  Regnbogavottun sem kom á síðasta kjörtímabili er gott dæmi um hvernig við viljum fræða.  Ég er ánægður með þær áherslur sem hafa birst í verki núverandi borgaryfirvalda.

 

Sjálfstæðisflokkurinn

Okkur barst orðsending frá framboði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þar sem tekið er fram að frambjóðendur séu mikið stuðningsfólk réttinda hinsegin fólks. Samtökin ’78 skipti þau miklu máli sem þau hafi meðal annars sýnt með góðri heimsókn og spjalli í upphafi kosningabaráttunnar.

 

Viðreisn

Þjónustusamningur
Við í Viðreisn erum mjög stolt af því að hafa staðið að samstarfsamningi við  Samtökin ‘78 með öðrum meirihlutaflokkum árið 2021. Þar er mjög mikilvægt ákvæði  um hinsegin fræðslu til íþróttafélaga innan ÍR og höfum við áhuga á að vinna með  fleiri íþróttafélögum. Við teljum mikilvægt að í Reykjavík sé sýnilegur fjölbreytileiki og  að Reykjavíkurborg bregðist við þeim fjölbreytileika á öllum sviðum. Viðreisn hefur  áhuga á að skoða hvernig hægt er að gera fræðslu á vegum samtakanna  markvissari í skólum til þess að færa okkur nær Grindavíkurmódelinu sem miðar að  því að öll börn fái fræðslu á hverju grunnskólastigi fyrir sig. Taka þarf tillit til þess í  nýjum samningum við Samtökin ‘78. Við áttum okkur á því að hinsegin fólk er hópur  sem þarf að halda þétt utan um og viljum við efla samstarf þjónustumiðstöðva og  Samtakanna ‘78 þegar kemur að ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur. 

Heildræn hinsegin stefna
Hinsegin málefni eiga sér tryggan stað í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og  Viðreisn mun beita sér fyrir því að hinsegin málefni eigi sér sess í öllum stefnum. Reykjavíkurborg hefur á síðasta kjörtímabili komið á fót Regnbogavottun  Reykjavíkurborgar, þar sem allir starfsstaðir borgarinnar geta fengið vottun, gegn því  að taka þátt í fræðslu um hinsegin málefni og rýna þjónustuna sem veitt er ásamt því  að þurfa að móta stefnu um hinsegin málefni.
Viðreisn hefur tekið þátt í vinnu við að koma kynlausum klósettum fyrir á öllum  starfsstöðum og rýmum á vegum borgarinnar. Munum við halda áfram þeirri vinnu á  næsta kjörtímabili. Er það mikið öryggismál fyrir trans og kynsegin fólk. Við höfum útbúið tól fyrir skóla sem taka á móti transbörnum og innihalda þessi tól  ákveðinn gátlista, stuðningsáætlun og fræðsluefni. Teljum við að Samtökin ‘78 geti  orðið sterkur aðili við þá vinnu. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Hinsegin félagsmiðstöðin er orðinn mikilvægur þáttur í lífi hinsegin ungmenna því þar er hægt að finna samanstað og geta þau losnað við áreiti sem þau kunna að upplifa í  sínu hversdagsumhverfi.
Í stefnu Viðreisnar í Reykjavík segir: Viðreisn vill borg þar sem fjölbreytileikinn er  sýnilegur. Við styðjum við félagsstarf hinsegin fólks á öllum aldri. Við styðjum við  hinsegin fræðslu í reykvískum skólum og viljum fjármagna hinsegin félagsmiðstöð í  samstarfi við önnur sveitarfélög. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Gaman er frá því að segja að 24% listans er skipaður opinberlega hinsegin  fólki, hér eru þau talin upp ásamt þeirra upplifun á hinsegin áherslum listans: 

  1. sæti – Erlingur Sigvaldason: „Mér finnst stefnan metnaðarfull enda er stór hluti fólksins sem kom að  stefnumótun flokksins hinsegin og þekkir hinsegin samfélagið að miklu leyti.  Ég vil í mikilli einlægni styðja við bakið á hinsegin félagsmiðstöðinni enda  lífsbjörg fyrir mörg ungmenni. Það er mér hugleikið að gera Reykjavík að  hýrustu borg í heimi og finn ég að Viðreisn hefur allt sem til þarf.“
  1. sæti – Emilía Björt Írisardóttir: „Ég er stolt af áherslum Viðreisnar þegar kemur að hinsegin málefnum,  regnboga-þráðurinn rennur í gegnum stefnuna alla, enda er þetta ekki  afmarkaður málaflokkur heldur eru snertifletir við svo margt annað, allt frá  félagsmiðstöðvum að þjónustu við aldraða. Margt má betur fara í þjóðfélaginu  og það skiptir máli að taka stöðugt skref í átt að hinseginvænna og  fjölbreyttara samfélagi þar sem við getum öll notið þess frelsis að vera við  sjálf.“
  1. sæti – Pétur Björgvin Sveinsson: „Ég upplifi það mjög sterkt í starfi og stefnu listans að Viðreisn sé flokkur sem  beitir sér fyrir málefnum hinsegin fólks. Það er hlustað og tekið mark á röddum  hinsegin hópsins sem mér finnst gríðarlega mikilvægt sem hinsegin  frambjóðendi.“
  1. sæti – Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir: „Ég er stolt af því að vera á lista frjálslynds jafnréttisflokks sem hefur alltaf  látið sig hinsegin málefni varða, hvort sem það er í borginni eða á Alþingi Íslendinga. Sem hinsegin manneskja og starfsmaður félagsmiðstöðvar finnst  mér mjög ánægjulegt að sjá að hinsegin félagsmiðstöðin fái verðskuldað pláss  í stefnunni, að henni verði tryggð full fjármögnun. Ég er spenntast yfir því að  ógleymdri áherslu Viðreisnar í heild á samstillt átak ríkis, sveitarfélaga,  fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að efla fræðslu á öllum stigum  samfélagsins til að berjast gegn ofbeldi og mismunun.“
  1. sæti – Oddgeir Páll Georgsson: „Ég er gríðarlega stoltur af stefnu Viðreisnar þar sem réttindi hinsegin fólks fá  að skína með sérstakri áherslu á hinsegin félagsstarf og fræðslu.“
  1. sæti – Ingvar Þóroddsson: „Ég er afskaplega ánægður með Viðreisn þegar kemur að málaflokknum en  flokkurinn hefur sýnt það og sannað frá stofnun að hann stendur með  réttindum hinsegin fólks á öllum sviðum íslensks samfélags. Í borginni er ég  meðal annars stoltur af því að stefnan taki á því vandamáli sem brottfall hinsegin karla úr hópíþróttum er en það var punktur sem ég kom sjálfur á  framfæri í málefnavinnu flokksins í borginni. Borgin þarf að beita sér fyrir því  að öll geti verið þau sjálf í íþróttafélögum borgarinnar.“
  1. sæti – Andri Freyr Þórðarson: „Ég upplifi Viðreisn sem einn af þeim flokkum í íslenskri pólitík sem er vel  treystandi fyrir hinsegin málefnum.“
  1. sæti – Reynir Hans Reynisson: „Ég upplifi stefnu flokksins vel, er hún mjög hinseginvæn og finnst mér  flokkurinn almennt gera vel fyrir hinsegin fólk.
  1. sæti – María Rut Kristinsdóttir: „Ég upplifi hinsegin áherslur listans eins og  ég upplifi Viðreisn almennt, flokkur fjölbreytileikans og regnbogans.“ 
  2. sæti – Árni Grétar Jóhannsson: „Mannréttindastefna Viðreisnar er stór hluti af því afhverju ég vil leggja  flokknum lið. Skoðirðu framboðslistan og hvernig hann er samsettur sérðu  strax að mannréttindastefnan er virkilega á borði, ekki bara í orði. Við þurfum  meira svoleiðis, meira allskonar.“
  1. sæti: Kjartan Þór Ingason: „Viðreisn leggur áherslu á að skapa frjálslynda og fjölbreytta Reykjavíkurborg  þar sem allir litir regnbogans fá að njóta sín. Viðreisn hefur sýnt það í verkum  sínum að þessar áherslur eru ekki bara falleg orð í kosningabæklingi. Sem  samkynhneigður er ég stoltur að tilheyra framboðslista sem vinnur markvist að  hinseginvænni Reykjavík.“

 

Vinstri græn

Þjónustusamningur
Við í Vinstri grænum erum mjög ánægð með samstarfið við Samtökin ´78. Það er mikilvægt að vera í virku samtali við hagsmunasamtök sem vinna að mikilvægri fræðslu og ráðgjöf. Enn gætir mikillar kynjatvíhyggju í samfélaginu og því er fræðsla algjört lykilatriði.
Það geta komið upp aðstæður í þjóðfélaginu sem kalla á að samningurinn verði útvíkkaður, tímabundið eða til lengri tíma. Til dæmis var þörf á aukinni þjónustu við trans ungmenni í Covid-faraldrinum þegar biðlistar lengdust. Þetta misserið er líklegt að það verði aukin þörf á aðstoð við hinsegin flóttamenn. Þetta eru er dæmi um göt í þjónustu borgarinnar sem Samtökin ´78 geta aðstoðað við að fylla upp í.

Heildræn hinsegin stefna
Aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, lagði fram snýst um þá sýn að skapa heildræna stefnu Íslands í hinsegin málum. Við hækkuðum um fimm sæti á Regnbogakortinu á dögunum og stefnum enn hærra, því okkar sýn er að Ísland eigi að vera hinsegin-paradís. Líf Magneudóttir skrifaði á sínum tíma Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem var mikilvægur liður í því að tryggja réttindi hinsegin fólks í borginni. Í mannréttindastefnunni kemur fram að ,,óheimilt er að mismuna fólki vegna kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Ekki skal ganga út frá því að allt fólk sé gagnkynhneigt og sís, meðal starfsfólks, þjónustuþega, í uppeldis- og tómstundastarfi, menntunar og menningarstarfi.”
Í kosningaáherslum Vinstri grænna er lagt áherslu á að allir skólar eigi að hlúa að fjölbreytni. VG vill að hinseginvænt sveitarfélag byrji í skólastofunni. Allir skólar eiga að hlúa að fjölbreytni. Þá viljum við styrkja forvarnir með aukinni jafnréttis- og kynjafræðslu í skólum.

Hinsegin félagsmiðstöð
Félagsmiðstöð Hinsegin ungmenna gegnir mikilvægu hlutverki að styðja við og fræða ungmenni um málefni hinseginsamfélagsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun halda áfram að beita sér fyrir að Reykjavíkurborg tryggi áframhaldandi fjárframlög til félagsmiðstöðvarinnar.

Hinsegin fólk á framboðslista
Í VG er stór og fjölbreyttur hópur hinsegin einstaklinga starfandi á öllum sviðum hreyfingarinnar, í grasrót, starfsliði, hópi kjörinna fulltrúa og ráðherra. Þessir einstaklingar eru lykillinn að mótun stefnu VG í málaflokknum.

 

Seltjarnarnes

 

Skagafjörður

 

Suðurnesjabær

 

Vestmannnaeyjabær

 

Ölfus

 

Íbúalistinn

Þjónustusamningur
Já Íbúalistinn er með það sem stefnumál að gera samning við samtökin ´78 um öfluga fræðslu fyrir börn, ungmenni, starfsfólk og stjórnendur í Sveitarfélaginu Ölfusi. 

Heildræn hinsegin stefna
Við teljum vera mikla þörf á stefnumótunarvinnu á ýmsum málaflokkum innan sveitarfélagsins sem snerta íbúa, stofnanir og atvinnumál og umhverfismál sveitarfélagsins. Hluti af þeirri vinnu verður að fara í stefnumótun í hinsegin málum og munum við án efa leita til Samtakanna ´78 þegar kemur að því. 

Hinsegin félagsmiðstöð
Við myndum vilja sjá samstarf á milli sveitarfélaga í Árnessýslu um þetta verkefni, að þau reki saman hinsegin félagsmiðstöð, sem gæti þá verið einhverstaðar miðsvæðis. 

Hinsegin fólk á framboðslista
Agnes Erna Estherardóttir sem skipar 11. sæti Íbúalistans er opinberlega hinsegin og mun vinna að hinsegin málefnum Íbúalistans ásamt öðrum frambjóðendum.