Skip to main content
search

Ingibjörg Ruth Gulin

Fornafn: Hún

Hægt er að bóka lögfræðiráðgjöf hjá Ingibjörgu, lögfræðingi Samtakanna ’78, um hvers konar lögfræðileg álitamál sem upp geta komið, m.a. um jafnrétti og bann við mismunun innan og utan vinnumarkaðar, málefni útlendinga, refsirétt, fjölskyldu- og erfðarétt. Hún mun vega og meta stöðu hvers álitamáls og ráðleggja um næstu skref þess.

Ingibjörg Ruth Gulin hefur verið að veita lögfræðilega ráðgjöf hjá Samtökunum ’78 frá upphafi árs 2023 og verið virk í hinsegin félagslífinu frá árinu 2019. Hún er ein af stofnendum VERU – félags hinsegin kvenna og kvára sem var stofnað árið 2019 af henni og Ástrós Erlu Benediktsdóttur. 

Ingibjörg útskrifaðist sem lögfræðingur með Mag. Jur. frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2018. Frá þeim tíma hefur hún öðlast margbreytilega reynslu bæði í opinbera- og einkageiranum. Í gegnum starfsreynslu hennar hefur hún byggt upp sterkan grunn við að greina og veita lögfræðilega ráðgjöf vegna flókinna lagalegra álitamála, bæði fyrir einstaklinga og hið opinbera. 

Frá útskrift Ingibjargar hefur hún unnið sem verkefnastjóri og sérfræðingur hjá forsætis- og velferðarráðuneytinu. Hún var meðal jafnréttisteymisins í velferðarráðuneytinu sem svo varð að skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu. Í þeim störfum vann hún með starfshópi um undirbúning endurskoðunar jafnréttislaga og stjórnsýslu jafnréttismála, einnig vann hún að og veitti lögfræðilega ráðgjöf m.a. varðandi lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Þess til viðbótar var hún verkefnastjóri formennskuáætlunar Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni á fagsviði jafnréttismála fyrir árið 2019 og kom að stjórnun, tímastýringu og skipulagningu stórra verkefna m.a. alþjóðlegra funda og ráðstefna. Jafnframt hefur hún unnið sem löglærður fulltrúi hjá lögmannsstofunum Rétti sem og Claudia & Partners þar sem hún m.a. veitti einstaklingum lögfræðilega ráðgjöf. 

Þá hefur hún starfað sem sjálfstæður lögfræðingur, í því starfi hefur hún kennt sem gestakennari við HÍ í áfanganum um jafnrétti og bann við mismunum m.a. um kynrænt sjálfræði, unnið að og veitt lögfræðilega ráðgjöf um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, stýrt verkefni um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningurinn), kortlagt og gert aðgerðaráætlun um frekari innleiðingu samningsins fyrir Stjórnarráðið sem verkefnastjóri. 

Hún hefur einnig greint og ritað umsagnir um lög og reglur á sviðum mannréttinda, haldið framsögu um margvísleg erindi og kennsluefni, skrifað ritrýnda fræðigrein um kynbundið ofbeldi í nánum samböndum og rannsakað réttarstöðu kvenna sem brotaþola kynbundins ofbeldis í ljósi femínískra lagakenninga. 

Í ljósi ofangreinds sérhæfir Ingibjörg sig í kynferðis- og kynbundnu ofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum, mannréttindum, jafnrétti innan og utan vinnumarkaðar sem og bann við mismunun.   

Senda erindi