Skip to main content
search
FréttirMenning

Fjögur ný og hýr tákn

By 16. febrúar, 2022No Comments

Við kynnum stolt fjögur ný og hýr tákn! 

 

Samtökin ‘78 og málnefnd um íslenskt táknmál stóðu saman að Hýrum táknum, nýyrðasamkeppni á táknmáli. Leitað var að táknum fyrir fjögur hinsegin orð: eikynhneigð, kynsegin, kvár og stálp. Orðin eiga það sameiginlegt að hafa orðið til í Hýryrðum, nýyrðasamkeppni á íslensku raddmáli sem Samtökin ‘78 héldu áður. 

 

Dómefnd kom saman 11. febrúar, á degi íslensk táknmáls, til að velja sigurtillögurnar. Nokkur fjöldi innsendinga barst og hafði dómnefnd úr nógu að velja.

 

Mordekaí Elí Esrason átti tvær af sigurtillögunum, fyrir orðin eikynhneigð og stálp. Eikynhneigt fólk finnur fyrir lítilli eða engri aðlöðun að öðru fólki en í umsögn dómnefndar um táknið sem varð fyrir valinu segir að einfaldleiki þess hafi gripið þau, auk þess sem jákvætt sé að tákninu svipi til táknsins fyrir samkynhneigð.

Stálp er nýtt kynhlutlaust orð yfir barn, hliðstætt orðunum stelpa og strákur. Dómnefnd segir að það hafi verið einfaldleiki táknsins sem náði til þeirra.

Sigurtillögu fyrir kynsegin átti Kristín Lena Þorvaldsdóttir. Dómnefnd segir í umsögn sinni að erfitt hafi verið að velja milli tillagna en það hvernig Kristínu Lenu tókst að binda saman tákn fyrir regnboga og kyn hafi fært henni sigurinn. Kynsegin fólk upplifir sig ekki innan hinnar hefðbundnu kynjatvíhyggju karlkyns og kvenkyns og er þannig kyn-hinsegin, kynsegin.

Sigurtillögu fyrir kvár átti Anna Guðlaug Gunnarsdóttir. Í umsögn sinni segir dómnefnd táknið vera auðvelt í framkvæmd og gefa til kynna hlutleysi, en kvár er kynhlutlaust nafnorð yfir manneskju, hliðstætt við orðin karl og kona.

Samtökin ‘78 og málnefnd um íslenskt táknmál lýsa yfir mikilli ánægju með gott samstarf. Við erum þess fullviss að þetta flotta verkefni sem muni vekja jákvæða og góða athygli á íslensku táknmáli.

Það er Samtökunum ‘78 mikilvægt að stuðla að því að allt hinsegin fólk á Íslandi geti talað um reynslu sína og sjálfsmynd, hvort sem móðurmálið er íslenska eða íslenskt táknmál. Við þökkum öllum sem sendu inn tillögur kærlega fyrir þátttökuna! Nú er það undir DÖFF hinsegin fólki komið hvort þessi nýju tákn ná flugi og við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‘78.

 

Dómnefnd var skipuð Þórhöllu Guðmundsdóttur Beck, Uldis Ozols og Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur. Um Hýr tákn hafði Heiðdís, sem einnig er stjórnarmaður í málnefnd um íslenskt táknmál, þetta að segja: 

Málnefnd um ÍTM fagnar frumkvæði Samtakanna ´78 að leita samstarfs og halda nýyrðakeppnina Hýr tákn. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og er því frábært fyrir grósku þess og varðveislu að hljóta stuðning Samtakanna ‘78. Samkeppnin hefur veitt málsamfélaginu tækifæri til að koma saman og við hlökkum til að njóta þess meðbyrs sem Hýr tákn hafa veitt því.“ 

Hér má líta tilkynninguna á táknmáli: