Skip to main content
search
Fréttir

Af framkvæmdum á Suðurgötu 3

By 15. mars, 2015No Comments

Eftir stopp frá því í haust, þar sem sem beðið var eftir byggingarleyfi og úttekt byggingarfulltrúa og svo ófyrirséðri vinnu við gerð nýrrar eignaskiptalýsingar og samnings (en okkur var tilkynnt um að 10 ára gömul lýsing væri röng og þarfnaðist endurbóta), komust framkvæmdir aftur á skrið á Suðurgötunni fyrir stuttu.

Unnið hefur verið hörðum höndum við ýmislegt, svo sem múrhúðun, veggjasmíð, uppsetningu loftræstikerfis og fleira. Hér að neðan er verkefnalistinn sem verið er að vinna í nákvæmlega þessa stundina og gefur hann góða mynd af því hver staðan er. Nýlega uppgötvaðist leki frá sameigninni sem stoppar flest allt í augnablikinu en við höldum áfram með þá þætti sem við getum þangað til gert verður við lekann. Óveður undanfarins vetrar gera það líkast til að verkum að lekinn kemur í ljós núna og má segja að það sé lánið í óláninu. Það er vissulega betra að fást við hann núna á framkvæmdastigi, heldur en að þurfa að opna loft og fleira og standa í viðgerðum síðar meir.

Við gerum ráð fyrir að framkvæmdir taki u.þ.b. einn og hálfan mánuð til viðbótar. Verkið er á kostnaðaráætlun, miðað við þá kostnaðarliði sem nú þegar hafa verið greiddir og þá sem eftir eru. Verkefnalistinn lítur þannig út:

1. Leki frá sameign

Töluverður leki er inni á stærri snyrtingunni og kemur hann frá sameign, en einnig lekur á fleiri stöðum meðfram veggnum milli sameignar og S’78. Mörg verkefni önnur bíða eftir því að þetta klárist og gert verði við lekann. Framkvæmdastjóri hefur samband við húsfélagið og fylgir því á eftir að það fái aðila í málið sem allra allra fyrst.

2. Prufur af gólfdúkum

Nú verða fengnar prufur af sterkum dúkum fyrir allt rýmið þar sem komið hefur í ljós að talsvert erfitt er að leggja parket á gólfið vegna ójafna.

3. Hurðir

Búið er að fá samþykkt tilboð í hurðir frá Húsasmiðjunni.

4. Kerfisloft inni í eldhúsi tekið niður 

Passa þarf að vera í hreinum hönskum til að káma ekki plöturnar út. Efnið verður notað til endurbóta inni í sal og á fleiri stöðum sem þörf er á. Farið verður í þetta miðvikudaginn 18. mars nk. Við þiggjum alla hjálp brosandi og geta áhugasamir sent póst á skrifstofa@samtokin78.is eða sent okkur skilaboð á Facebook.

5. Rennihurð að ráðgjafaherbergi

Smiðurinn okkar bíður tilboða í hurðina til að geta lokið við hana. Verkið er ekki háð öðrum þáttum.

6. Loft inn á salerni og inni í eldhúsi

Þegar gert hefur verið við lekann hefst smiðurinn handa við að setja upp loftin inn á baði og inn í eldhúsi.

7. Málningarvinna

Málarinn getur nú farið að vinna við allt sem mögulegt er. Nú þegar hefur hann gengið frá grunnvinnu, sparsl o.fl. Salinn getur hann farið í núna. Baðherbegi o.fl. eftir að búið er að gera við lekann. Grunna þarf allt húsnæðið áður en innréttingar o.fl. verða settar upp.

Leave a Reply