Skip to main content
search
Fréttir

Ákall til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra

By 11. maí, 2013No Comments

Samtökin ´78 fara fram á endurupptöku máls samkynhneigðs hælisleitanda

Samtökin ´78, félag hinsegin fólks á Íslandi, fara hér með fram á að innanríkisráðuneytið endurskoði þá ákvörðun að synja samkynhneigða Nígeríumanninum Martin um efnislega meðferð á umsókn um hæli á Íslandi. Hann sótti um hæli á grundvelli kynhneigðar sinnar eftir að hafa flúið frá Nígeríu til Ítalíu vegna ofbeldis og niðurlægingar sem hann mátti sæta. Undanfarin níu ár hefur hann dvalist á Ítalíu við bágbornar aðstæður.

Aðstæður hinsegin fólks í Nígeríu eru afar slæmar og fara versnandi, samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International og öðrum mannréttindasamtökum. Nýlega hefur verið hert á löggjöf þar sem gerir samkynhneigð refsiverða og gríðarlegir samfélagslegir fordómar gera að verkum að líf hinsegin fólks er í hættu og ofsóknir á grundvelli kynhneigðar algengar án þess að yfirvöld veiti einstaklingum sem verða fyrir barðinu á slíku nokkra vernd.

Yfirgnæfandi líkur eru á að verði Martin sendur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar, muni hann verða sendur aftur til Nígeríu. Hefur beiðni Martin um hæli á Ítalíu þegar verið hafnað. Ekki einungis er Ítalía ríki þar sem afar ólíklegt er að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð, heldur er afar lítið tillit tekið til kynhneigðar við málsmeðferð hælisleitenda á Ítalíu samkvæmt upplýsingum Evrópusamtaka hinsegin fólks.

Sterk mannúðarsjónarmið sem og lagaleg rök eru fyrir því að afgreiðsla á máli Martins á Íslandi verði endurskoðuð. Farið er fram á að ákvörðun verði tekin um að fresta fyrirhugaðri brottvísun Martins frá Íslandi á meðan unnið er að því að fá þá endurskoðun, hvort sem það verður með atbeina dómstóla, endurupptöku málsins hjá Útlendingastofnun eða eftir öðrum leiðum.

Íslendingar eru stoltir af því að vera í fararbroddi í réttindamálum hinsegin fólks. Samtökin ´78 krefjast þess að íslensk stjórnvöld tryggi að réttarverndin nái til allra sem dveljast á íslenskri grundu. Annað væri tvískinnungur. Samtökin ’78 lýsa sig viljug til að styðja og aðstoða Martin eins og mögulegt er á meðan mál hans er til meðferðar hér á landi.

Leave a Reply