Skip to main content
Fréttir

Allir í sund!

By 18. september, 2012No Comments

Til allra í Samtökunum 78!

Það er okkur í Sunddeild Styrmis mikið gleðiefni að tilkynna að æfingar vetrarins eru að hefjas ÞRIÐJUDAGINN 18. SEPTEMBER kl 20:30 í innilaug Laugardalslaugar!
Einnig bjóðum við upp á einstaklega skemmtilegt og lærdómsríkt skriðsundsnámskeið, nú í þriðja sinn! (Sjá frekari upplýsingar neðar)
Við viljum benda ÖLLUM á að það eru alls engin skilyrði að hafa æft sund, það þarf ekki einu sinni að kunna sund til að vera með í Sunddeild Styrmis. Það verða tveir eða jafnvel þrír styrkleikahópar í gangi á hverri æfingu og nýi þjálfarinn mun sjá til þess að allir fái mikið út úr æfingunum og læri réttu tökin hratt og örugglega. Eina sem þarf frá þátttakendum er bros á vör og viljinn einn.

NÝR ÞJÁLFARI:
Það er enn meira gleðiefni að tilkynna að Hólmgeir Reynisson hefur verið ráðinn þjálfari Sunddeildar Styrmis. Hólmgeir æfði sund frá 13 ára aldri og hefur m.a. verið yfirþjálfari sunddeildar KR, þjálfað og kennt fötluðum í mörg ár og það besta er að hann er mjög spenntur að vera kominn í lið við Styrmi til að byggja upp okkar frábara félag. Hann er með hjartað á réttum stað og ætlar að leggja mikla áherslu á góða hópamyndum og skemmtilegar æfingar án þess að slaka á þjálfunarkröfum og tækni.

ÆFINGATIMI OG TÍMABIL
Vegna þess að nú er nýr þjálfari kominn í hópinn þá mun sunddeildin nú í fyrsta skiptið taka upp æfingagjald til að standa straum af kostnaði við það. Fyrsta tímabilið mun standa frá 18. september til 20. desember, sem gera 14 vikur. Æft verður tvisvar í viku: þriðjudaga og fimmtudaga kl 20:30 – 22:00 (u.þ.b.). Kostnaður fyrir tímabilið 18. sept – 20. des er aðeins kr. 10.000
Þeir sem vilja koma og prufa geta gert það í tvær vikur viðkomandi að kostnaðarlausu. Eftir það þarf að greiða æfingagjaldið til að geta haldið áfram að mæta á æfingar.

TILBOÐ Á ÁRSKORTI Í SUND
Þar sem Styrmir á sæti i í Sundráði Reykjavíkur gefst Styrmisfélögum sem æfa sund á vegum félagsins tækifæri til að kaupa árskort í sund á kr. 15.000.- (í stað kr. 28.000.-)
Athugið að viðkomandi þarf að skrá sig til æfinga á þessu sundtímabil Styrmis og greiða kr. 10.000 í æfingagjöld til að geta nýtt sér þetta tilboð.

SKRIÐSUNDSNÁMSKEIÐ
Skapast hefur hefð fyrir skemmtilegum og lærdómsríkum skriðsundsnámskeiðum hjá Sunddeild Styrmis. Hólmgeir mun standa á bakkanum og kenna öllum þeim sem vilja. Námskeiðið mun hefjast þriðjudaginn 2. október og verður kennt í átta skipti til þriðjudagsins 30. október. Námskeiðið verður keyrt samhliða sundæfingum Styrmis kl 20:30-21:30 á þriðjudögum og fimmtudögum og kennt verður í innilauginni. Gott væri ef þátttakendur kæmu með eigin froskalappir.
Verð á námskeiðið verður kr. 15.000. Þátttakendur standa sjálfir straum af kostnaði við að aðgang að lauginni. Athugið að ef vilji er fyrir því hjá þátttakendum námskeiðsins að halda áfram að synda með Styrmi, þá er það hægt að kostnaðarlausu fram að jólum. Í raun fær þátttakandi æfingagjaldið fellt niður ef hann / hún greiðir fyrir skriðsundsnámskeiðið.
Til að skrá þig á námskeiðið þarf aðeins að senda tölvupóst á bjarnisnae@gmail.com og taka fram
– Nafn
– Kennitölu
– Netfang
– Gemsanúmer
– Heimilisfang
Aðeins eru 15 laus pláss á námskeiðið – fyrstir koma, fyrstir fá!

IGLA MÓTIÐ Í VOR
Það er ekki úr vegi að þakka öllum þeim sem komu að hinu magnaða IGLA móti sem Styrmir hélt í Reykjavík í vor. Hver og einn einasti þátttakandi var með bros á vör allan tímann og í lokapartýinu þurftu skipuleggjendur að hafa sig alla við til að geta tekið á móti öllum þökkunum og hamingjuóskunum með skemmtilegasta, flottasta og best skipulagða IGLA mót til þessa í 25 ára sögu þess. Þetta hefði aldrei verið hægt nema vegna þess að allir lögðust á eitt, bæði Styrmisfólk, hinsegin samfélagið á Íslandi, vinir okkar og fjölskyldur, Reykjavíkurborg, Sundsamband Íslands, Menntamálaráðuneytið og Pink Iceland. Takk aftur allir sem hjálpuðu til – ykkar starf var ómetanlegt og óeigingjarnt.

SEATTLE
Sunddeild Styrmis er með nýtt markmið með vetrinum: að fara í keppnisferð til Seattle þar sem IGLA mótið árið 2013 verður haldið. Nú höfum við flest eignast nýja vini í IGLA heiminum og viljum gjarnan fara í skemmtilega ferð með sem flestum ykkar. Við endurtökum að allir eru velkomnir að byrja að æfa og svo keppa með okkur aðra helgina í ágúst á næsta ári í Seattle. Það verða fjáraflanir í gegnum allan veturinn þannig að peningaleysi verður engin afsökun. Oft og iðullega hafa duglegir keppendur safnað sér fyrir flugi, gistingu og eyðslufé á einu ári. Við stefnum á annað eins og mætum með stórt lið til Seattle!

SKRÁNING Í SUNDTÍMABILIÐ 18. SEP – 20 DES:
Nú þegar er hægt að skrá sig með því að senda póst á Bjarna Snæbjörnsson: bjarnisnae@gmail.com og taka fram
– Nafn
– Kennitölu
– netfang
– heimilisfang
– gemsanúmer
Greiða þarf æfingagjaldið þann 1. október (eftir tvær vikur). Eftir að skráning hefur verið send munu þér berast upplýsingar um greiðslumáta.
——–
Annars hlökkum við mikið til að sjá þig í lauginni þriðjudadaginn 18. september!
Sprikklkveðjur
Sunddeild Styrmis!

Leave a Reply