Skip to main content
search
ÁlyktunFréttir

Ályktun um blóðgjafir

By 7. mars, 2021júní 15th, 2021No Comments

„Mér líður eins og annars flokks að mega ekki gefa blóð, sem fullfrískur maður sem vill láta gott af mér leiða er þetta glatað!“

Aðalfundur Samtakanna ´78 beinir því til stjórnvalda, heilbrigðisráðherra og Blóðbankans að aflétta þeirri hrópandi mismunun sem felst í því að meina karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum, t.a.m. hommum, tví- og pankynhneigðum körlum, að gefa blóð.

Samkvæmt núgildandi reglum Blóðbankans má ekki undir neinum kringumstæðum gefa blóð ef maður er karlmaður sem hefur haft samfarir við sama kyn, eða ef rekkjunautur er karlmaður sem hefur sofið hjá karlmanni. Hér er ekki á neinn hátt tekið tillit til kynhegðunar að öðru leyti. Í reglum Blóðbankans felast því gamalgrónir fordómar, þar sem kynlíf hinsegin karla er flokkað sem áhættuhegðun algjörlega óháð öðrum þáttum, t.d. sambandsstöðu.

Í vefkönnun Samtakanna ´78, sem framkvæmd var haustið 2020, kemur skýrt í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra 140 einstaklinga sem tóku þátt í könnunni telja að hverfa þurfi frá þessum úreltu reglum sem viðhalda fordómum gagnvart þeim einstaklingum sem flokkast undir MSM. Eðlilegast væri að skima alla blóðgjafa fyrir áhættuhegðun í kynlífi. Mikill
meirihluti svarenda taldi hugmyndir um að krefja hinsegin karla um ákveðinn skírlífistíma fyrir blóðgjöf niðurlægjandi.

„Mér finnst rökin ekki halda og það sé verið að gera mér upp kynhegðun út frá kynhneigð minni. Það ætti frekar að gera takmarkandi reglur út frá kynhegðun en ekki kynhneigð.“

Aðalfundur Samtakanna ‘78 skorar því á eftirtalda aðila: Heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðherra, Blóðbankann og ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu að tryggja að reglum verði breytt í samræmi við stefnu stjórnvalda er varða bann við mismunun.