Skip to main content
search
Fréttir

Apaspil

By 8. febrúar, 2005No Comments

Mér er í fersku minni að þegar Gervasoni-málið stóð sem hæst og ég var í menntaskóla að ég og vinur minn sem nú er virðulegur prófessor skrifuðum fjölda lesendabréfa undir aðskiljanlegum nöfnum sem við fengum lánuð í því skyni að búa til almenningsálit. Það voru skemmtileg og skapandi skrif. Kann að hugsast að nú sé eitthvað svipað í gangi í Morgunblaðinu? Að minnihlutahópur í skoðunum sé að reyna að láta líta svo út sem hann sé sjálfur Almenningur að láta í ljós sitt Álit? Eða getur það verið einleikið hversu margt gagnkynhneigt fólk að eigin mati virðist finna sig knúið einmitt um þessar mundir til að amast við samkynhneigð annarra.

Ef marka má umræðuna í Morgunblaðinu um þessar mundir brennur það heitast á íslenskri þjóð þetta ár hvort samkynhneigð sé sjúkdómur sem megi lækna, hvort hún sé Guði þóknanleg, andstæð kristinni trú, viðurstyggð.

Ýmislegt bendir reyndar til að trúfífl séu að færast í aukana nú í aldarlok. Í barnatíma á sunnudagsmorgni í Ríkissjónvarpinu um daginn velti stúlka fyrir sér upphafi mannsins og sagði að „ýmsir teldu“ að maðurinn „væri kominn af öpum“ og klykkti út með því að það væri „nokkuð athyglisverð hugmynd“. Svo fór hún að segja frá Adam og Evu.

En ætli við verðum ekki samt að ætla að flestir landsmenn séu svo upplýstir að vita að óyggjandi gögn hafa fundist sem sýna að menn og apar eiga sér sameiginlegan uppruna. Og ætli við verðum ekki líka að ætla að flestir Íslendingar noti aðrar aðferðir við að gera upp hug sinn um kynhneigðir náungans en að fletta upp í spámönnum Biblíunnar. Umræðan um samkynhneigð í Morgunblaðinu hefur sem sé verið alltof trúarleg til þessa, bæði hjá þeim sem ráðist hafa á samkynhneigða og líka hjá hinum sem gripið hafa til varna; það er ekki vandamál samkynhneigðra ef Kirkjan á ekki annað erindi við þá en að segja þeim að leita sér lækninga við þeim kvilla að vera þeir sjálfir.

Guðmundur Andri Thorsson í DV, 1999.

Leave a Reply