Skip to main content
search
AlþjóðamálFréttirHagsmunabarátta

Áskorun S78 og SOLARIS til íslenskra stjórnvalda

By 2. febrúar, 2017nóvember 15th, 2021No Comments
Samtökin ’78, félag hinsegin fólks á Íslandi og Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, skora á íslensk stjórnvöld að standa við skuldbindingu sína um að taka tillit til sérstakrar stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda, sem búa við fjölþætta mismunun vegna kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna.

Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað bent á sérstaklega viðkvæma stöðu hinsegin hælisleitenda.[1] Sú hætta sem þeim er búin í upprunasamfélögum sínum vegna fordóma og mismununar fylgir þeim á flótta, sérstaklega í þeim löndum sem taka á móti miklum fjölda flóttafólks frá þeirra upprunasvæði og öðrum löndum þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki líðast almennt. Við meðferð mála hinsegin hælisleitenda á Íslandi virðist þessi gríðarlega viðkvæma staða hinsegin fólks þó hafa lítið sem ekkert vægi, hvorki við efnislega meðferð eða ákvarðanatöku, t.d. þegar kemur að brottvísun til annarra landa sem eiga aðild að Dyflinnarreglugerðinni.
Á Íslandi eru dæmi um að hælisleitendur fái úrskurð þess efnis að heimaland þeirra tryggi öryggi hinsegin fólks og því fái þeir ekki hæli á grundvelli kynhneigðar sinnar, jafnvel þegar lífsreynsla þeirra og opinberar skýrslur leiða hið gagnstæða í ljós. Hvað Dyflinarreglugerðinni viðvíkur er það sérstaklega hættulegur misskilningur að ætla að lönd sem almennt séu örugg móttökulönd fyrir hælisleitendur séu einnig örugg fyrir hinsegin fólk. Til dæmis hafa ILGA-Europe, Evrópusamtök hinsegin fólks, lýst því yfir að Tyrkland, Serbía, Makedónía og Bosnía séu ekki örugg lönd fyrir hinsegin fólk þótt þau gætu talist örugg fyrir aðra.[2] Það er óásættanlegt að hælisleitendum sé ítrekað vísað brott frá Íslandi án þess að tilraun sé gerð til að skoða sérstaka stöðu þeirra sem hinsegin einstaklinga í landinu sem þeir eru sendir til.
Eitt skýrasta dæmið um þetta er Amír Shokrgozar, samkynhneigður íranskur hælisleitandi, sem varð fyrir hópnauðgun í flóttamannabúðum á Ítalíu. Hann hefur nú verið handtekinn og bíður þess að vera sendur þangað þrátt fyrir að brottvísunin stefni honum í alvarlega hættu á ofsóknum og ómannúðlegri meðferð. Þetta er þvert á þau viðmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér, m.a. í nýjum lögum um útlendinga frá 2016. Þar er heimild til að taka mál til efnismeðferðar ef sérstakar ástæður liggja fyrir sem ná m.a. yfir mismunun vegna kynhneigðar. Í nýju lögunum er ennfremur áréttað að einstaklingur sem hefur orðið fyrir „nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi“ teljsit vera í „sérstaklega viðkvæmri stöðu.“
Samtökin ‘78 og Solaris skora á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála:
  • Að fylgja verklagsreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni hinsegin flóttafólks í hvívetna og sækja sér þá fræðslu um hinsegin málefni sem reglurnar kveða á um.
  • Að byggja ákvarðanir sínar á áreiðanlegum gögnum hagsmunasamtaka hinsegin fólks um raunverulega stöðu hinsegin fólks í hinum ýmsu löndum.
  • Að taka raunverulegt tillit til sérstakrar stöðu hinsegin hælisleitenda, sem verða fyrir fjölþættri mismunun, bæði við efnislega meðferð og þegar kemur að aðbúnaði þeirra á meðan málsmeðferð stendur yfir.
Samtökin ‘78 og Solaris trúa á mátt samvinnu og bjóða stjórnvöldum aðstoð við að útbúa verkferla sem taka tillit til fjölþættrar mismununar sem flóttafólk og hælisleitendur verða fyrir og vona að saman getum við unnið að því að tryggja raunhæfa vernd þeirra aðila sem hingað leita vegna ofsókna í heimalandi sínu.
F.h. Samtakanna ´78
María Helga Guðmundsdóttir
Formaður
F.h. SOLARIS
Sema Erla Serdar
Formaður

Leave a Reply