Skip to main content
search
Fréttir

Samúðarkveðjur vegna atburða í Bangladess

Þær hörmulegu fréttir bárust frá Bangladess á dögunum að tveir baráttumenn fyrir réttindum hinsegin fólks, Xulhaz Mannan og Tanay Mojumdar, hafi verið myrtir í fólskulegri árás. Xulhaz Mannan var stofnandi og ritstjóri eina hinsegin tímarits Bangladess, Roopbaan, og einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir réttindum alls hinsegin fólks í heimalandi sínu. Tanay Mojumdar var einnig virkur aktivisti og kaus að leyna ekki samkynhneigð sinni þrátt fyrir að hún bryti í bága við lög og samfélagsvenjur Bangladess. Báðir kusu þeir að dvelja í heimalandinu þrátt fyrir óvissuna um öryggi sitt og berjast þar fyrir réttlátara samfélagi. Með láti þeirra er skarð hoggið í hinsegin samfélagið í Bangladess og um heim allan.

Á þessari erfiðu stund vill stjórn Samtakanna ’78 senda samúðar- og baráttukveðjur til aðstandenda Mannans og Majumdars og alls hinsegin fólks í Bangladess. Brautin til réttlátari heims er því miður oft þyrnum stráð, og í kjölfar harmleikja sem þessa reynir á samstöðu í sorginni.

Ennfremur fordæma Samtökin ’78 beitingu ofbeldis til að kúga og þagga niður í minnihlutahópum og skora á yfirvöld í Bangladess að standa vörð um viðkvæmustu hópana í sínu samfélagi. Það að löngu úreltri breskri nýlendulöggjöf sé enn beitt til að útskúfa þeim sem laðast að eigin kyni er skammarleg staða sem Samtökin ’78 skora á yfirvöld Bangladess að breyta hið fyrsta.

Leave a Reply