Skip to main content
Fréttir

Baráttumaður deyr

By 31. október, 2011No Comments

Birtist á vef Morgunblaðsins sunnudaginn 30. okt 2011

Danski baráttumaðurinn Axel Axgil lést í dag, 96 ára að aldri. Axgil skráði sig á spjöld sögunnar ásamt unnusta sínum Eigil þegar þeir urðu fyrstu samkynhneigðu karlmennirnir til að giftast hvor öðrum, árið 1989. Axel stofnaði jafnframt elstu starfandi LGBT baráttusamtök heims.

Á Jónsmessunótt árið 1948 stofnaði Axel samtökin sem í dag kallast LGBT Denmark. Hann var innblásinn af nýsamþykktri mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og sannfærði vini sína um að stofna með sér samtök, sem hann sjálfur leiddi sem formaður. Það reyndist ekki átakalaust því Axel var úthúðað í fjölmiðlum í kjölfarið, missti vinnuna og var sparkað úr stjórnmálaflokknum sem hann hafði verið virkur í. Hann var nánast hrakinn af heimaslóðum sínum í Álaborg til Kaupmannahafnar, þar sem hann kynntist Eigil, lífsförunaut sínum.

Eigil og Axel bjuggu saman í 40 ár áður en þeir fengu að eigast, en mótmælaskyni tóku þeir báðir upp eftirnafnið Axgil, sem var blanda af fornöfnum þeirra beggja. Eftir áratuga baráttu samþykkti danska þingið lagabreytingu sem heimilaði borgaralega giftingu samkynhneigðra árið 1989 og Eigil og Axgil urðu þeir fyrstu sem létu pússa sig saman. Ljósmynd af þeim þar sem þeir stóðu á tröppum ráðhússins í Kaupmannahöfn og kysstust eftir athöfnina fór eins og eldur í sinu um allan heim.

Eigil lést árið 1995 en Axel hélt áfram að leggja baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra fram í háa elli þar til hann lést í morgun.

Leave a Reply