Skip to main content

Fyrir nokkrum vikum síðan hafði samband við okkur leirlistakonan Birgitte Munck. Hún vildi fá að kynna sér starfsemi okkar og í leit að tækifæri til að láta gott af sér leiða. Birgitte hefur mikla reynslu af hinsegin félagsstarfi en hún er fyrrum formaður LGBT Danmark, systursamtaka okkar í Danmörku. Eftir að hafa kynnt sér starfsemina okkar ákvað Birgitte að hún vildi styrkja ungmennastarf Samtakanna en við rekum bæði félagsmiðstöð fyrir 13-18 ára og bjóðum upp á stuðningshópa fyrir trans ungmenni. Birgitte kom fljótt auga á að betur mætti ef duga skyldi, ungmennastarfið væri aðeins aðgengilegt ungmennum á höfuðborgarsvæðinu og úr því mætti bæta. 

 

Hugmynd Birgitte var að handgera 100 blómavasa og selja til styrktar hinsegin ungmennum. Vasarnir myndu tákna ungmennin sem eru einstök hvert og eitt og búa innra með sér yfir fegurð sem springur út við réttar aðstæður, rétt eins og blóm í blómavasa. Yfirskrift verkefnisins er að 100 ástæður séu til að styrkja hinsegin ungmenni. Ástæðurnar 100 eru skapaðar þannig kaupandinn skrifar á miða sína ástæðu og lætur fylgja með vasanum eða birtir mynd af vasanum á samfélagsmiðlum þar sem ástæðan er tekin fram. Ágóðinn af sölu vasanna mun renna til verkefnis á vegum Samtakanna ’78 sem mun miða að ná betur til hinsegin ungmenna í dreifðari byggðum og koma þeim í kynni við jafningja sína. 

 

Verkefninu var ýtt úr vör á Hinsegin dögum þegar haldin var sölusýning í hönnunarversluninni MIKADO að Hverfisgötu 50. Þar hélt Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‘78, ræðu þar sem hún talaði um mikilvægi félagstarfs fyrir hinsegin ungmenni, boðið var upp á léttar veitingar og fjöldi vasa voru seldir. Vasarnir eru þar enn til sölu og verða fram til 22. ágúst en eftir það færist sala þeirra yfir í vefverslun Birgitte, munckceramics.com. 

 

Birgitte er nýlega flutt til landsins og spennt að helga sig leirlistinni. „Ég flutti nýlega til landsins og með konunni minni, sem er íslensk. Ég er gífurlega spennt fyrir samstarfinu við Samtökin ‘78 og verkefninu okkar, #100ástæður til að styrkja hinsegin ungmenni. Skipulagt félagsstarf fyrir hinsegin ungmenni getur verið lífsbjörg fyrir þau sem njóta ekki skilnings heima við eða í skólanum,“ segir Birgitte, og víkur næst að framleiðsluferlinu. „Það var ótrúlega skemmtilegt gera vasana – hver vasi er einstakur en samt tengdur hinum, rétt eins og hinsegin ungmenni. Ég vona að vasarnir muni gefa ungmennunum færi á að koma saman í haust og ég vona að þeir muni færa fegurð og gleði inn á eitt hundrað íslensk heimili,“ segir Birgitte að lokum.