Skip to main content
search
Fréttir

Hinsegin bókagjöf á Alþjóðadegi tvíkynhneigðra

By 25. september, 2014No Comments


Samtökin ’78 standa á miklum tímamótum á þessu ári en nú á haustdögum flytur félagið í ný heimkynni að Suðurgötu 3 í Reykjavík – eftir áralanga dvöl að Laugavegi 3.  Við þessi tímamót var á aðalfundi félagsins í mars 2014 einróma samþykkt að leysa upp þann hluta af bókasafni félagsins sem lýtur að kosti fræðibóka og skáldsagna. 

Ákveðið var að færa námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands fræðibækurnar að gjöf – til útláns á Landsbókasafni – Háskólabókasafni. Um er að ræða rúmlega 1.000 titla, erlend fræðirit er varða líf og menningu hinsegin fólks, svo og skáldskap. Jafnframt var ákveðið að færa Borgarbókasafni Reykjavíkur stærsta hluta erlendu skáldsagnanna og er þar um að ræða tæplega 1.400 titla.Gjafirnar voru afhentar við litlar athafnir í Borgarbókasafni og Þjóðarbókhlöðu þriðjudaginn 23. september síðastliðinn.

Alþjóðadagur tvíkynhneigðra – Bi Visibility Day 

Daginn bar upp á Alþjóðadag tvíkynhneigðra eða Bi Visibility Day en með því að velja hann vilja Samtökin ’78 vekja athygli á málefnum tvíkynhneigðra, pankynhneigðra og fólks með „fljótandi“ kynhneigðir (e. fluid) og fagna hlutverki og hlutdeild þessara hópa í sögu og menningu hinsegin fólks.

Einn af hornsteinunum í menningarsögu hinsegin fólks 

Bókasafn Samtakanna ’78 hefur frá vorinu 1987 þjónað félagsmönnum og almenningi með margvíslegum hætti en þangað hefur mikill fjöldi fólks sótt afþreyingu, andlega næringu og fræðilega þekkingu. Safnið hefur þannig verið einn af hornsteinunum í menningu hinsegin fólks á Íslandi, eflt sjálfsmynd þess og söguvitund og stuðlað að sýnileika. Safnið hefur því verið hinsegin fólki, og Íslendingum öllum, gríðarlega mikilvægt – ekki síst á þeim tímum er aðgengi að hinsegin efni á Íslandi var lítið sem ekkert.

Breyttir tímar, eftirsjá og sóknarfæri

Það er auðvitað með vissum trega að félagar í Samtökunum ’78 taka þessa ákvörðun enda safnið afar hjartfólgið flestu félagsfólki. Ákvörðunin er þó tekin af vel yfirlögðu ráði og með gleði í hjarta – enda liggja að baki henni margar góðar ástæður. Tímarnir eru breyttir. Aðgengi að hinsegin efni er til muna betra en á þeim tímum er safnið var stofnað. Miðlun efnis er líka með gerbreyttu sniði. Í raun má tala um byltingu í þessum efnum – ekki síst eftir tilkomu internets, spjaldtölva, lesbretta og annarrar snjalltækni nútímans.

Ýmislegt annað má tína til, en með því að gefa frá sér safnið sparar félagið óneitanlega ófáa fermetra í húsnæði og dýrt utanumhald – sem skiptir sköpum í rekstri lítilla félagasamtaka. Um leið léttum við álagi af því magnaða félagsfólki sem af fórnfýsi og eljusemi hefur rekið safnið með glæsibrag öll þessi ár – í sjálfboðavinnu. 

Gjöf sem vonandi fær að vaxa og dafna

Bókasöfn eiga framtíðina fyrir sér. Það erum við ekki í vafa um. En til að bókasafn standi undir nafni sem lifandi og frjó menningar- og fræðamiðstöð þarf stöðugt að endurnýja safnkostinn, brydda upp á nýjungum og hlúa vel að snjöllu starfsfólki – og auðvitað gestunum. 

Samtökin ’78 treysta námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Borgarbókasafni Reykjavíkur fullkomlega til að rísa undir þessum áskorunum og eru ekki í vafa um að þessar hinsegin bókagjafir muni vaxa og blómstra í hillum safnsins um ókomin ár – okkur öllum til gagns og gleði.

Leave a Reply