Skip to main content
FélagsstarfFréttirTilkynning

Daníel Arnarsson nýr framkvæmdastjóri

By 20. júní, 2017nóvember 15th, 2021No Comments

Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir framkvæmdastýra hefur sagt starfi sínu hjá félaginu lausu. Uppsögn hennar tekur gildi frá og með 1. júlí og mun hún vinna út uppsagnarfrest, sem er einn mánuður. Stjórn Samtakanna ‘78 færir Helgu bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskar henni velfarnaðar í komandi verkefnum.

Í kjölfar uppsagnar framkvæmdastýru hóf stjórn ráðningarferli með því að leita til umsækjenda sem sóttu um stöðuna síðla árs 2016 og voru þá metnir hæfir af stjórn og mannauðsráðgjöfum. Úr varð að Daníel Arnarssyni var boðin staða framkvæmdastjóra félagsins. Þáði hann boðið og mun hefja störf 1. júlí næstkomandi.

Daníel Arnarsson hefur nýlokið námi við Háskóla Íslands en hann útskrifast þaðan með BA gráðu í félagsfræði. Daníel hefur verið virkur í félagastarfi síðan 2007, bæði í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem og í Samtökunum ’78. Hann hefur tekið þátt í ungliðastarfi og kosningabaráttu árin 2009, 2013 og 2016 og er jafnframt varaþingmaður fyrir VG og situr í stjórn hennar. Daníel er vel kunnugur rekstri en hann var framkvæmdastjóri VG frá 2014-2016 og rak áður kaffihús Te & Kaffi ásamt öðrum.

Daníel hefur mikinn áhuga á mannréttindabaráttu og hefur ávallt sett hana á oddinn þegar kemur að félagslegu starfi bæði innan pólitíkurinnar sem og í öðrum störfum. Daníel sat í trúnaðarráði Samtakanna ’78 frá mars 2015 til september 2016. Reynsla Daníels af rekstri og því vinnuumhverfi sem hann kemur úr mun koma sér vel í starfi Samtakanna ’78.

Við bjóðum Daníel hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að halda áfram að efla og styrkja félagið í samstarfi við hann.

Stjórn Samtakanna ’78

Leave a Reply