Skip to main content
FréttirSagaViðburður

Einar Þór sæmdur heiðursmerki

By 21. mars, 2022No Comments

Stjórn Samtakanna ‘78 ákvað á fundi sínum 18. febrúar 2022 að veita Einari Þór Jónssyni heiðursmerki Samtakanna ‘78, sem er æðsta viðurkenning sem samtökin veita. Heiðursmerkið er veitt brautryðjendum í mannréttindabaráttu hinsegin fólks sem viðurkenning fyrir þrotlaust og óeigingjarnt starf. 

 

Einar Þór steig opinberlega fram sem HIV-jákvæður árið 1990 á tíma gífurlegs ótta og fordóma. Greining þótti jafngilda dauðadómi og um margt var komið fram við HIV-jákvæð líkt og þau væru ósnertanleg, svo mikill var óttinn við að smitast. Sem betur fer hefur þar margt breyst fram til dagsins í dag, þó fordómar séu enn til staðar. Þar má þakka öllum þeim sem hafa verið opin með að vera HIV-jákvæð og fræðslustarfi HIV-Íslands sem Einar Þór hefur lengi veitt forstöðu, en þúsundir Íslendinga kannast eflaust við að hafa á einhverjum tímapunkti setið fræðslu hjá honum

 

Einari var veitt heiðursmerkið í fallegri og látlausri athöfn sem fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Athöfnin hófst á því að Þorbjörg Þorvaldsdóttir, þáverandi formaður, bauð fólk velkomið og kynnti á svið Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur sem ritaði ævisögu Einars, Berskjaldaður. Hún sagði frá kjörkuðum strák flutti tvítugur til London: „Þar var hann kallaður Thor. Það fer honum svo vel, því Einar hefur svo mikið þor. Hann vílar hlutina ekkert fyrir sér og var einn þeirra fyrstu sem gaf alnæmisveirunni andlit. Hann hefur í gegnum árin ekki hikað við að vera andlit hópa sem hafa þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum, hvort sem það var í formennsku fyrir Geðhjálp, í stjórn Samtakanna ‘78 eða í starfi hans fyrir HIV-Ísland.

 

Að lokinni tölu Gunnhildar sagði Þorbjörg frá því hvers vegna stjórn ákvað að Einari Þór skyldi veitt heiðursmerkið. Hún hrósaði Einari fyrir það stóra skref að stíga fram sem HIV-jákvæður á sínum tíma og standa fyrir stafni í baráttunni æ síðan. „Einar Þór hefur með þessu kjarkmikla skrefi, sýnileika sínum í kjölfarið og starfi fyrir HIV Ísland átt risastóran þátt í því að umbylta viðhorfum samfélagsins: bæði gagnvart HIV-jákvæðu fólki og gagnvart samkynhneigðum.“ 

 

Að ræðu sinni lokinni bað Þorbjörg Einar Þór um að stíga á svið og taka á móti heiðursmerki Samtakanna ‘78 ásamt viðurkenningarskjali. Einar tók auðmjúkur á móti viðurkenningunni og kinkaði kolli til tveggja vina og baráttufélaga á fremsta bekk þegar hann hóf þakkarræðu sína. Bjöggi og Árni, þessi vegferð sem höfum átt í þrjátíu og fimm, bráðum fjörtíu ár, það hefur gengið á ýmsu og þið tveir, þið eruð hetjur. Ég er svo þakklátur fyrir ykkur. Það sem við þurftum að búa við. Við voru fyrirlitnir og réttlausir, það mátti koma fram við okkur hvernig sem var og ekki margir stóðu með okkur. En okkur tókst að halda áfram, eignast líf og lokum finna sátt og fyrirgefningu,“ sagði Einar. 

 

Þá minntist Einar eiginmanns síns, Stig, sem hafði fallið frá nokkrum dögum áður með fallegum orðum. Ég er þakklátur fyrir alla ást í mínu lífi, ég verið svo heppinn að njóta ástar og hún er meðalið sem reddar öllu.“ 

 

Hjarta mitt er barmafullt, takk fyrir mig,“ sagði Einar að lokum.

—————
Forsíðumynd fréttarinnar á Hrund Þórisdóttir. Myndina hér að neðan tók Anika Batkowska.