Skip to main content
SagaViðtal

Elías Mar! Hvað erum við að gera?

By 1. júlí, 2003maí 28th, 2020No Comments

Skáldið Elías Mar hefur lifað tímana tvenna enda að nálgast áttrætt og hefur bæði ferðast víða og verið hispurslaus þátttakandi í samfélagi samkynhneigðra frá því snemma á þrítugsaldri. Hann kallar sjálfan sig tvíkynhneigðan enda gæddur þeim hæfileika, eins og hann kallar það, að geta hrifist bæði af konum og körlum. Hann sagði Ásgeiri Þ. Ingvarssyni frá þeim heimi sem mætti hómósexualista fyrir hálfri öld.

Ég hringi bjöllunni í gamalli blokk í Vesturbænum. Djúp rödd en eilítið brostin svarar og mér er hleypt inn. Á móti mér tekur hávaxinn og myndarlegur maður þótt hann sé sjáanlega orðinn nokkuð aldraður. Hárið er hvítt og mikið og greitt aftur. Við setjumst niður í stofunni hjá honum og það er ekki laust við að hárið og fasið minni mig á transilvanískan greifa, ekki síst þegar hann rennir þykkum gleraugunum fram á stórt en grannt nefið og undan úfnum hvítum augnabrúnum skjótast augu í tvítugum pilti, hálfgrallaraleg, og stríðnislegt glott kemur á munninn.

Ég er staddur hjá Elíasi Mar og bið hann að segja mér eitthvað af sögu sinni og hvernig það var að vera tvíkynhneigður maður á Íslandi fyrir fimmtíu árum.

„Strax sem krakki, eða að minnsta kosti um fermingu, var ég farinn að segja við vini mína að mér þættu sumir strákar fallegir eins og stelpur. Já, já, þeir gátu svo sem samþykkt það að sumir strákar væru andskoti kvenlegir, en þeir væru nú ekkert skotnir í þeim,“ segir Elías og hverfur aftur til fjórða áratugarins. „En ég sagðist vera skotinn í sumum þessum strákum og að mig langaði til að hátta hjá þeim. Þá hlógu vinir mínir – þeim þótti þetta svo fyndið. Og þessu hélt ég bara áfram, hélt áfram að tala um fallega stráka og það þótti aðeins spaugilegt og ég fékk ekkert orð á mig fyrir það, enda lifði ég ekki þannig. Ég hafði ekki framkvæmd í mér til þess og ekki aðstöðu til þess. Því það er nú eitt, að maður þarf að hafa húsnæði. Maður gerir þetta ekki undir beru lofti, svona á hvaða árstíma sem er.“

Maður heyrði stundum þessi orð

Hann segist engan hafa fælt frá sér með þessu tali, þó það virðist á frásögn hans að samkynhneigð hafi verið tabú:
„Á æskuárum mínum heyrði ég aldrei talað um þessa hluti. Það var í það minnsta ekki talað um þá svo krakkar heyrðu. Maður heyrði stundum þessi orð sem notuð voru þá sjaldan þetta bar á góma. Það var sagt að menn væru kynvilltir og sódómískir eða öfugir. Það var eiginlega aldrei talað um að konur gætu verið svona. Þegar þetta barst í tal þá var helst gert grín að því að þær gætu ekki verið svona því þær hefðu ekkert til að gera það með. Þær gætu ekki farið aftaní!“

Elías segist þó hafa vitað til þó nokkurra lesbía. Hann segir mér frá sumum þeirra: Leikkonu sem deildi heimili með ástkonu sinni um langt skeið, frá konu sem var húsamálari og annarri sem var vinsæl ljósmóðir og tók meira að segja á móti Elíasi í heiminn.

„En maður heyrði aldrei neitt um ungar stúlkur. Og þegar ég var strákur var líka sjaldan minnst á homma, og þá alltaf talað um gamla karla, að það væru gamlir karlar sem legðust á unga drengi og væru stórhættulegir. Það var afskaplega illa talað um sumt fólk,“ bætir Elías við og mér þykir gæta vonbrigða í röddinni yfir þröngsýni og dómhörku fólks.

Móðir Elíasar dó úr bráðaberklum þegar hann var ársgamall og hann ólst upp hjá ömmu sinni. Hún lést þegar hann var sautján ára, en Elías segist hafa að mestu unnið fyrir sér frá fermingu. Og þegar hann var sautján ára var hann með stúlku í fyrsta sinn. Hann átti ekki eftir að vera með pilti fyrr en mörgum árum seinna.

Hann fór í Kennaraskólann en þegar hann hafði lokið tveggja ára námi var námið lengt um eitt ár og hann hafði ekki efni á að stunda nám einn vetur til viðbótar enda á eigin framfæri. Hann gerðist blaðamaður við Alþýðublaðið 1945 og í framhaldi af því fór hann að skrifa skáldverk. Næstu tvo áratugi átti hann eftir að ferðast mikið, bæði til skrifta, á blaðamannaráðstefnur og á friðarráðstefnur sem vinstrisinnaðar stórnmálahreyfingar stóðu fyrir á þeim tíma. Þar átti hann eftir að komast í kynni við homma, bæði erlenda og íslenska, en áður en hann kemur að því segir hann mér af hernáminu:

Karlmenn í ástandinu

„Það breyttist margt hérna í Reykjavík með hernáminu. Það fór fjöldinn allur af kvenfólki í ástandið eins og það var kallað, en maður heyrði aldrei að karlmenn væru í ástandinu.“ Ég spyr Elías hvort það hafi nú samt ekki gerst: „Jú, það gerðist, en það var aldrei talað um það. Ég meina, það var aldrei skrifað um það í blöðin og lögreglan gerði ekkert í því. Það var ekkert verið að njósna um karlmenn í fylgd með ameríkönum. Fjölskyldurnar voru fyrst og fremst dauðhræddar um dætur sínar – að það yrði barn úr þessu og síðan ekkert meira. En þó að strákur færi með karlmanni þá var afar l&iacu
te;til hætta á því að eitthvað slíkt gerðist,“ segir Elías og hlær stríðnislega og bætir við glettinn: „Það er strax munur hvað það er miklu auðveldara að vera karlmaður. Ég hef oft þakkað Guði fyrir það.“

Elías kynntist sjálfur hvorki Bretum né Könum úr hernámsliðinu, hvorki kynferðislega né á annan hátt, en segir mér þó sögu af einum vini sínum sem gerði það: „Þegar Bretarnir komu gengu þeir alltaf vopnaðir byssum með byssustingjum. Þeir voru jafnvel á bíó með byssurnar og byssustingina með sér, stundum margir saman og stundum einir. Fólk vandist þessu og var ekkert hrætt við þá, því það var vel tekið á móti þeim og þeir vissu að þeir voru innan um fólk sem ekki vildi gera þeim nokkurt mein.

Hann er nýdáinn, einn vinur minn, sem átti fyrstu hómósexúal upplifun sína einmitt í Gamla bíói. Hann lenti við hliðina á breskum hermanni – með byssusting,“ segir Elías og kveikir sér í Camel-sígarettu sem hann reykir gegnum munnstykki. „Og hermaðurinn fer, svona, að leggja höndina á lærið á honum, stráknum. Strákurinn var nú hommi í sér þótt hann hefði aldrei reynt neitt. En í hléi fóru þeir niður á klósett og þar gerðist eitthvað.“

Elías brosir grallarabrosi sínu: „Það var víst ekki neitt merkilegt, en það var fyrsta hómósexúal reynsla þessa pilts.“

Þetta er sivilísasjón

Vorið 1946 fer Elías til Kaupmannahafnar. Hann lét þá áfengi og tóbak í friði og kennir því um að hann skyldi ekki hafa komist betur inn í samfélag samkynhneigðra í Kaupmannahöfn. Hann átti þar tvær kærustur en kynntist síðan einum ungum manni á pensjónati, mötuneyti þar sem hann borðaði daglega. Ég bið hann að segja mér frá fyrsta ástarævintýri sínu með öðrum manni:

„Ég tók eftir auglýsingu og fór að borða þarna. Borðaði í heilt ár á sama staðnum, í Olsensgade hjá frú Ehlers-Hansen, ekkju gamalli. Þar var heilmikið af kostgöngurum, ungir menn mestallt, og einn þeirra varð meiri kunningi minn en aðrir.“

Prakkaraglottið birtist aftur á andliti Elíasar og grallarablærinn í röddinni. Ég þykist nokkuð viss um að andspænis mér situr í raun unglingur:

„Við urðum ágætis vinir. Við löbbuðum út eftir kvöldmat eitt skiptið og ég fór að segja við hann hvað það væri fallegt fólk í Danmörku og að mér þættu danskir karlmenn fallegri en á Íslandi. Og hann spyr mig hvort ég hafi smekk fyrir þeim. Já, já, ég sagðist hafa það.“

Það virðist ekki hafa þurft fleiri orða við, því fyrr en varir voru þeir félagar komnir heim til Elíasar sem þá var 22 ára:

„Við töluðum um þetta fram og aftur, og svo þegar við komum heim til mín – áður en við fórum að gera nokkuð – þá spurði hann mig hvort þetta væri virkilega á Íslandi. Þá hélt hann einfaldlega að Íslendingar gætu ekki verið svona spilltir að vera hómósexúal. Ég sagði honum að það væri dálítið um þetta. „Og eru það gamlir karlar?“ spurði hann. „Já, áreiðanlega,“ sagði ég, „en það er ungir menn líka.““

Elías segist samt ekkert hafa orðið var við unga homma þegar hann sagði þetta: „Ég dró að minnsta kosti ekkert úr því við hann, því ég vildi sýna honum að Íslendingar væru svona siðmenntaðir. Hann kallaði þetta spillingu en ég sagði að þetta væri sivilísasjón.“

Elías kom aftur til Kaupmannahafnar 1951 og var þá farinn að smakka vín. Þá kemst hann meira inn í kreðsana eins og hann kallar það og heyrir fyrst af félagsskap homma í Danmörku. Það var sænskur vinur hans og hommi sem fyrstur sagði honum þetta og gaf honum eintak af danska hommablaðinu Vennen þar sem þeir voru staddir á Ráðhústorginu:

„Ég man að ég vildi ekki taka það upp þarna á torginu. Skrýtið hvað maður getur verið hræddur og feiminn,“ segir Elías og furðar sig. „Ég fór með það út á Vesterbrogade, gekk þar langa leið og settist niður á bekk á litlu torgi við kirkju og dró þetta upp og las.“

Þurfa þeir ekki að viðurkenna að þeir séu hommar?

Til að gera langa sögu stutta byrjaði Elías hægt og bítandi að kynnast samfélagi homma. Í Kaupmannahöfn þreifst allblómlegt samfélag sem tók hann nokkurn þátt í.
„Það voru jafnvel haldin böll. Þar komu íslenskir menn sem ég hafði ekki hugmynd um að væru hommar.“ Elías segir þó að það hafi oftast verið þeir sem þekktu hann en ekki öfugt, enda var hann orðinn nokkuð kunnur í Reykjavík á þessum árum. Hann segir mér frá þegar hann fór með einn íslenskan kunningja sinn á svona ball:

„Hann hafði varla þorað að fara þangað því hann sagði að það gætu verið Íslendingar þarna sem sæju hann. Hann var í skápnum, þessi maður, eða hélt hann væri það. Það vissu allir í bænum að hann var hommi. Þegar við komum þarna – ég bauð honum og borgaði þótt hann væri miklu ríkari en ég – þá var hann dauðhræddur við að fara inn, óttaðist að lögreglan myndi gera rassíu. „Nei, það er lítil hætta á því,“ sagði ég, „því að þeir eru búnir að fá leyfi fyrir þessari samkomu og það er ekki hleypt inn öðrum en þeim sem borga.“
„En þurfa þeir ekki að viðurkenna að þeir séu hommar?“ segir hann. „Það held ég ekki,“ segi ég. Svo þegar við komum þarna og ég er búinn að borga segir hann: „Þarna situr Íslendingur sem þekkir mig,“ og Elías sýnir með leikrænum tilbrigðum örvæntingarsvip félaga síns.

„Það munaði minnstu að hann færi út, en við gengum að Íslendingnum og ég kynnti mig. Hann var einn af þessum hommum sem seinna kvæntust og hurfu aftur inn í skápinn.

Það voru sumir strákar sem ekki voru í skápnum á tímabili, kvæntust svo og hurfu inn í skápinn aftur ef svo má segja og hættu að umgangast homma. Sumir eru jafnvel nokkuð þekktir menn, en ég nefni engan þeirra á nafn. Þetta er dálítið skrýtið fyrirbæri, og þó ekki. Þeir hafa kannski alltaf verið bísexúal og hitt einhverja stúlku sem hefur ja . . .“

Elías leyfir mér að giska í eyðurnar.

Ekkert að kyssast og kjassast

Á 6. áratugnum eignuðust hommar á Íslandi athvarf á kaffihúsi á Laugavegi 11: „Það var ósköp skemmtilegur staður að því leyti að þangað komu menn á ýmsum aldri, bæði karlar og konur. Þarna var gjarnan menntaskólafólk og listamenn. Það var langt frá því að Laugavegur 11 væri einhver sérstakur hommastaður því að það komu svo afskaplega margir þarna.“ Elías segir að það hafi samt ekkert verið amast við hommunum: „Það fór mjög vel um þá,“ segir Elías og segir hommana ekkert hafa farið leynt þarna.

“Veitingastúlkurnar voru mjög alminlegar og ekki stuggað við neinum nema þeim sem voru drykkfelldir, en mjög drukknir menn fengu ekki afgreiðslu.“

Menn voru samt ekkert að kyssast og kjassast á Laugavegi 11: „Nei, nei. Þeir höfðu nóga aðra staði til að gera það. Þetta var afar siðsamur staður og huggulegur.“

Elías segir mér frá hommapartýum sem haldin voru í heimahúsum og líflegu tilhugalífi sem átti sér stað í sundlaugum bæjarins og annars staðar. Hann segir mér frá því sem virðist hafa verið smátt en samheldið samfélag homma í Reykjavík. Það virðist af frásögn hans sem það hafi alls ekki verið svo slæmt að vera hommi í Reykjavík á þessum tíma. Þetta vefst fyrir mér enda hef ég lesið og heyrt fjölda frásagna af því hvað það var erfitt hlutskipti að vera samkynhneigður allt fram á síðasta áratug, og er jafnvel enn í dag:

„Ég skal segja þér eitt,“ segir Elías og setur upp spekingslegan svip: „Ég held að hommar hafi farið mjög misjafnlega út úr þessu eftir því hvort þeir voru kvenlegir eða ekki. Ef hommar eru áberandi kvenlegir þá held ég að samfélagið hneigist miklu fremur til að stríða þeim og leggja þá í einelti. Mun frekar en ef þeir eru karlmannlegir og ekki hægt að sjá á þeim að þeir séu hommar.“

Sjálfur flokkast Elías með karlmannlegum hommum: „Mér var aldrei strítt á því að vera kvenlegur, enda held ég að ég sé hvorki kvenlegur í rödd né hreyfingu –ekki neitt að ráði að minnsta kosti.“ Elías segir að það hafi verið vel þekkt á vinnustað hans að hann væri fyrir karlmenn en aldrei hafi honum þótt það koma niður á framkomu fólks við hann: „Og aldrei varð ég var við að nokkur væri að tala um það eða jafnvel hugsa um það.“

Elías segir þó að vitaskuld hafi upplifun manna verið misjöfn. Sumir hafi átt afskaplega erfitt með að sætta sig við hlutskipti sitt og reynt í lengstu lög að leyna kynhneigð sinni fyrir ættingjum sínum. Pilturinn, sem fyrr var minnst á, kom út úr skápnum gagnvart móður sinni þegar hann ungur maður: „Hún varð afskaplega sorgmædd fyrst,“ segir Elías um viðbrögð hennar. „En hún jafnaði sig fljótt.“

Undir trjánum í Búkarest

Elías segist þó aðeins einu sinni hafa átt kærasta. Hann minnist á nokkur skemmri ástarsambönd en kallar þó aðeins einn pilt kærasta. Það var ungur Íslendingur sem hann hitti fyrst á ráðstefnu í Búkarest. Þeir voru saman í þrjú ár:

„Ég kynntist honum 1953. Ég er þá 29 ára og hann að verða 21 árs. Við gistum á sama hótelinu og kvöld eitt mæti ég honum í stiganum. Ég þekkti hann þá ekki nema bara í sjón. Ég var búinn að sjá hann áður og var skotinn í honum. Það var á gamlárskvöldi niðri í bæ. Með mér var maður sem sagði mér hver pilturinn væri og að hann væri í Kennaraskólanum. Já, ég varð strax geysilega skotinn í honum,“ endurtekur Elías og ég heyri á röddinni hvernig minningarnar um þetta ástarævintýri ylja honum. Hann sýnir mér mynd úr albúmi sínu af þessum bráðlaglega pilti. „Ég sumsé sé hann þarna í Búkarest og ákveð strax að ég fari ekki fara heim án þess að kynnast honum.“

Elías segist ekki hafa haft nokkra vísbendingu um að pilturinn snotri væri gefinn fyrir aðra karla: „Ég hafði ekki hugmynd! Mér fannst hann nú samt svolítið píulegur. Hann var hávaxinn og laglegur – og það var eitthvað við hann. Eitthvað afskaplega æsandi.“

„Það var veitingahús þarna þar sem við Íslendingarnir drukkum bjór. Það var ódýr bjór en ekki mjög sterkur. En það var sama, hann gerði sitt gagn. Þarna kynntist ég piltinum og eitt kvöldið fórum við saman út í göngutúr í almenningsgarð ekki langt þar frá, kannski ekki miklu stærri en Hljómskálagarðurinn. Þar var miki&eth
; um hávaxin tré og fólk var víst eitthvað þarna að sýna hvert öðru blíðuhót. En svo var líka hundaskítur þarna svo maður var ekkert að leggjast í grasið.

Ég man að við pilturinn settumst á bekk. Það var eilítil rigning og ég sest þétt upp að honum og legg höndina á bekkinn aftan við öxlina á honum.“

Elías ljómar upp og sýnir með leikrænum tilburðum hvernig hann bar sig að. Það er ekki laust við að hann sé hálfmontinn af þessu, og ósköp skiljanlega: „Ég tók svo um höfuðið á honum, sneri honum að mér og kyssti hann.

Það var allt og sumt. Ég hugsaði mér að það væri þess virði að reyna við hann. Og þá segir hann strax og við vorum búnir að kyssast – en hann tók því vel.“ Elías brýnir röddina og hermir eftir unga piltinum sem var að kyssa annan karlmann í fyrsta sinn: „Elías Mar! Hvað erum við að gera?“

„Við vorum að kyssast,“ segi ég. „Almáttugur,“ segir hann.“ Og Elías hermir eftir feimnislegum viðbrögðum piltsins og kímir. „Þá varð hann ægilega kvenlegur. Og ég kyssti hann aftur. Ég held hann hafi roðnað en ég sá það ekki vel enda var orðið nokkuð dimmt.

Svo leiddumst við heim.“

Birtist upphaflega í Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride. Dagskrárrit, júlí 2003.

Copyright © Ásgeir Þ. Ingvarsson 2003
Tilvitnun er heimil sé heimildar getið