Skip to main content
AlþjóðamálFréttirHagsmunabaráttaYfirlýsing

Enn drögumst við aftur úr í réttindum hinsegin fólks!

By 17. maí, 2017maí 28th, 2020No Comments

Í dag 17. maí, á alþjóðadegi gegn hómó-, bi- og transfóbíu, opinberuðu Evrópusamtökin ILGA-Europe Regnbogakort Evrópu fyrir árið 2017.

Ísland uppfyllir einungis 47% skilyrða Regnbogakortsins, samanborið við 59% árið 2016.

Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks um alla Evrópu. Ísland uppfyllir 47% af þeim atriðum sem sett eru fram og lækkar niður um tvö sæti þar sem við sitjum í 16. sæti, neðst af Norðurlöndunum og á svipuðum stað og Grikkland og Ungverjaland. Hér má finna heildarskýrsluna um stöðuna í Evrópu.

Það sem dregur Ísland helst niður á þessum lista er skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Einnig er löggjöf um réttindi trans fólks ábótavant enda er enn krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til þess að þeir einstaklingar geti fengið nafni sínu og kyni breytt í þjóðskrá. Þá er ekki búið að banna ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og líkamleg friðhelgi þeirra er því ekki tryggð.

Síðustu 10 ára hafa flest þau lönd sem berum okkur saman við tekið framúr okkur í löggjöf sem tryggir réttindi hinsegin fólks. Malta trónir á toppnum á Regnbogakortinu með 88% uppfylltra skilyrða. Vega þar þyngst lög sem sett voru árið 2014 sem veita trans og intersex fólki aukinn rétt yfir eigin líkömum. Þá getur trans fólk fengið nafnabreytingu og breytingu á kyni í þjóðskrá án þess að vera greint með geðsjúkdóm og læknisfræðilega ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna án þeirra samþykkis hafa verið bönnuð.

Samtökin ’78 vilja minna stjórnvöld á að mannréttindi koma ekki af sjálfu sér og ef þeirra er ekki gætt getur átt sér stað afturför eins og við sjáum í vaxandi hatursglæpum gegn hinsegin fólki út um allan heim. Samtökin benda á að það skjóti skökku við að á sama tíma og við höfum jafnt og bítandi dregist aftur úr samanburðarlöndum okkar í réttindum hinsegin fólks hafa fjárframlög til samtakanna staðið í stað síðustu 10 ár og framlögin í dag því aðeins um 60% af því sem þau voru upphaflega miðað við neysluverðsvísitölu.

Þá stöndum við frammi fyrir því að þurfa mögulega að loka Hinseginvænni félagsmiðstöð Ungliða S’78 sem komið var á fót með tímabundnum styrkjum frá Velferðarráðuneytinu og Reykjavíkurborg árið 2016. Hinsegin ungmenni eru í margfaldri áhættu á að verða fyrir fordómum og einelti á við aðra jafnaldra sína og allar innlendar og erlendar rannsóknir sýna að algengi þunglyndis, kvíða, sjálfsskaða og sjálfsvíga sé mun hærra í þessum hópi.

Á næsta ári eiga Samtökin ’78 afmæli og fagna 40 ára starfi í þágu mannréttinda og vitundarvakningar um stöðu hinsegin fólks hérlendis sem og erlendis. Það væri svo sannarlega kærkomin afmælisgjöf ef stjórnvöld tækju sér til fyrirmyndar allan þann metnað sem settur hefur verið í að tryggja jafnrétti kynjanna og útvíkka jafnréttishugtakið þannig að unnið sé að raunverulegu jafnrétti allra jaðarsettra hópa samfélagsins. Þar ætti Ísland svo sannarlega að vera í fremstu röð!

Leave a Reply