Skip to main content
search
FréttirHagsmunabaráttaViðburður

Er Ísland að dragast aftur úr í réttindum hinsegin fólks?

By 6. febrúar, 2017nóvember 16th, 2021No Comments

 „Þegar síðasti þjóðfundur var haldinn vorum við í 10. sæti og rétt á eftir Danmörku þegar kemur að réttindum hinsegin fólks samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe. Nú höfum við dregist langt aftur úr hinum Norðurlöndunum og erum á svipuðum stað og Grikkland í 14. sæti,” segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, framkvæmdastýra Samtakanna ’78.

Samtökin ’78 boða nú öðru sinni til þjóðfundar hinsegin fólks sem haldinn er undir yfirskriftinni Samtakamátturinn 2017. María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna, segir að árin síðan Samtakamátturinn var haldinn í fyrsta sinn 2013 hafi verið viðburðarík. „Síðastliðið ár var markað af átökum um stefnu félagsins sem reyndust mörgum erfið. Mikilvægt er því að stuðla að aukinni samkennd og samstöðu innan hinsegin samfélagsins, ekki síst þar sem enn er verk að vinna í baráttunni fyrir réttindum og heilsu hinsegin fólks á Íslandi. Markmið fundarins er ekki síst að móta stefnu félagsins til lengri tíma.“

„Síðan 2013 hefur Ísland dregist aftur úr í alþjóðlegum samanburði á réttindum hinsegin fólks,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, lögfræðingur og nýráðin framkvæmdastýra samtakanna. „Þegar síðasti þjóðfundur var haldinn vorum við í 10. sæti og rétt á eftir Danmörku þegar kemur að réttindum hinsegin fólks samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe. Nú höfum við dregist langt aftur úr hinum Norðurlöndunum og erum á svipuðum stað og Grikkland í 14. sæti. Þá er ýmislegt sem þarf að gera betur varðandi andlega og líkamlega heilsu hinsegin fólks.  Á liðnu ári fjölgaði smitum á HIV, lekanda og öðrum kynsjúkdómum sem einkum finnast meðal homma og tvíkynhneigðra karla. Hinsegin fólk glímir enn við margvíslegar andlegar afleiðingar fordóma, ofbeldis og jaðarsetningar sem birtast meðal annars í mikilli ásókn í ráðgjöf hjá félaginu.“

Stjórn félagsins telur sérlega mikilvægt að leiða hinsegin samfélagið saman til uppbyggilegs samtals á þessum tímapunkti. Í aðdraganda þjóðfundarins var send viðhorfskönnun um starfsemi félagsins á félagsmenn í Samtökunum ‘78 og hafa hátt í 230 manns svarað könnuninni. Vonir standa til að á annað hundrað þátttakenda leggi leið sína á fundinn.

Fundurinn verður haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og er haldinn í samstarfi við Reykjavíkurborg og Ölgerðina. Húsið opnar klukkan 13.00, dagskrá hefst klukkan 13.30 og stendur fundurinn sjálfur til klukkan 17.00. Til að auðvelda sem flestum þátttöku á fundinum verður einnig boðið upp á enskumælandi umræðuborð. Barnahorn verður á viðburðinum, hjólastólaaðgengi er í Ráðhúsinu og aðrar aðgengisþarfir má senda á samtakamatturinn@samtokin78.is.

María Helga hvetur allt áhugafólk um málefni hinsegin fólks til að leggja leið sína í Ráðhúsið 11. febrúar.„Auk félagsmanna eldri og yngri er allt áhugafólk um málefni hinsegin fólks velkomið – hvort sem það eru stjórnmálamenn, fræðimenn eða hinsegin fólk sem stendur utan félagsins. Það er okkur sérstakt kappsmál að brúa bilið milli kynslóða og ólíkra hópa á fundinum. Auðvelt verður fyrir fólk að mæta eitt því vel verður tekið á móti öllum. Þetta er kjörin leið til að kynnast Samtökunum og fólkinu þar.“

Nánari dagskrá og upplýsingar má nálgast á: samtokin78.is/samtakamatturinn

Leave a Reply