Skip to main content
search
FélagsstarfFréttirUngmennastarf

Félagsmiðstöðin orðin hluti af Samfés

By 2. maí, 2019maí 26th, 2020No Comments

Á dögunum hlaut Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna 78 og Tjarnarinnar aðild að Samfés, samtökum félagmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi.
Samfés (Youth Work Iceland) eru frjáls félagasamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa sem voru stofnuð að Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík þann 9. desember árið 1985.
Alls eiga um 120 félagsmiðstöðvar og ungmennahús víðsvegar af landinu aðild að Samfés og aðild að samtökunum er stórt skref í að festa starf Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar í sessi.

Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar hefur verið rekin í formi félagsmiðstöðvar síðan haustið 2016 og hefur mikið vatn runnið til sjávar á þeim tíma. Meðalmæting í félagsmiðstöðina eru um 45 unglingar á hverri opnun. Félagsmiðstöðin sinnir auk þess fræðslu í formi reynslunáms til starfsmanna félagsmiðstöðva í Reykjavík og hefur hlotið Hvatningaverðlaun Skóla- og frístundasviðs. Einnig fékk félagsmiðstöðin viðurkenningu Barnaheilla árið 2018 og hefur fest sig í sessi sem ein af félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Í félagsmiðstöðinni sækja unglingarnir í fyrirmyndir sem finna má í starfsfólki og öðrum unglingum, þau sækja í að hitta jafnaldra sína sem eru í svipaðri eða jafnvel sömu stöðu og þau en fyrst og fremst sækja þau félagsmiðstöðina því þar tilheyra þau hópi, þar sem allir eru hinsegin, í hinsegin pælingum eða opin fyrir hinum fjölbreytilega hinsegin heimi og engir fordómar ríkja.

Það öfluga og mikilvæga starf sem unnið er í Hinsegin félagsmiðstöðinni er drifið áfram á aðeins einum starfsmanni og sjálfboðaliðum. Hinsegin félagsmiðstöðin er jafnframt rekin á einungis hluta af þeim fjárframlögum sem aðrar félagsmiðstöðvar geta rekið sig á. Samtökin ‘78 hafa ýtt á ríki og sveitarfélög að bæta úr þessum málum en fátt hefur verið um svör frá hinu opinbera. Húsnæði Samtakanna er komið að þolmörkum og bæta þarf við starfsfólki til að halda rekstrinum vönduðum og faglegum.

Það er okkur hjartans mál að félagsmiðstöðin fái að halda áfram að vaxa og dafna, eflast á faglegan máta og geta tekið við þeim fjölda unglinga sem finnur sig í starfinu og veitt þeim alla þá þjónustu sem þau mögulega þurfa til að fá að blómstra og verða sterkir og öflugir einstaklingar út í lífið.

Leave a Reply