Skip to main content
search
AlþjóðamálFréttir

Frá Evrópuráðstefnu hinsegin félaga

By 28. október, 2016nóvember 25th, 2021No Comments

Dagana 19.-22. október síðastliðinn fór fram árleg ráðstefna ILGA-Europe, evrópskra regnhlífarsamtaka hinsegin fólks, í borginni Níkósíu á Kýpur. Þátttakendur voru um 430 talsins frá 44 löndum. Fyrir hönd Samtakanna ’78 sóttu María Helga Guðmundsdóttir formaður og Kitty Anderson alþjóðafulltrúi ráðstefnuna.

Þema ársins var „Valdið til fólksins“ (e. Power to the People) og var valdefling skoðuð í víðtækum skilningi. Sá árangur sem náðst hefur í réttindabaráttu hinsegin fólks sýnir að hægt er að breyta samfélaginu til hins betra. Var ráðstefnan tækifæri til að horfa yfir farinn veg og fagna mörgum áfangasigrum. En ráðstefnan nýttist einnig til að skoða hvaða hópar í samfélagi okkar búa enn við valdskerðingu og hvernig er hægt að efla stöðu og sýnileika þeirra. Sérstök áhersla var lögð á samtvinnun og áhrif fjölþættrar jaðarsetningar. Kitty Anderson alþjóðafulltrúi S78 og formaður Intersex Íslands var meðal fulltrúa í pallborðsumræðum um samtvinnun, og það var samhljóða niðurstaða pallborðsins að mikið verk væri óunnið í hinsegin samfélaginu við að sporna gegn jaðarsetningu ákveðinna hópa innan okkar eigin samfélags.

Formaður og alþjóðafulltrúi sóttu einnig fjölmargar vinnustofur um málefni tengd starfi S78, þ.á.m. stuðning við eldra hinsegin fólk, málefni hinsegin hælisleitenda, starf með trans börnum, stöðu intersex fólks, aðferðir við að knýja fram samfélagsbreytingar með áhrifamiklum hætti, alþjóðlega réttindabaráttu á vettvangi Sameinuðu þjóðana, og heilsu og velferð aðgerðasinna og félagasamtaka. Vinnustofurnar nýttust vel til að mynda tengsl við félög og aðgerðasinna erlendis og til að afla og miðla upplýsingum um starfsemi á þessum sviðum. Skrifleg samantekt á vinnustofunum er í vinnslu og verður gerð aðgengileg sjálfboðaliðum og starfshópum félagsins.

Fulltrúar Samtakanna ’78 miðluðu ráðstefnunni beint á samfélagsmiðlum. María Helga hélt úti beintísti á Twitter-aðgangi félagsins (@samtokin78) alla ráðstefnuna, og föstudaginn 21. okt sáu hún og Kitty um Snapchat-reikninginn Hinseginleikann (@hinseginleikinn) og veittu fylgjendum reikningsins beina innsýn inn í ráðstefnuna. Virkni íslensku ráðstefnugestanna á samfélagsmiðlum vakti mikla athygli ytra fyrir lifandi notkun samélagsmiðla og virka miðlun ráðstefnunnar á íslensku.

Leave a Reply