Skip to main content
Fréttir

Frá stjórn Samtakanna ‘78

By 11. apríl, 2016No Comments

Niðurstaða félagsfundar Samtakanna’78 laugardaginn 9. apríl 2016

Laugardaginn 9. apríl 2016 var haldinn félagsfundur í Samtökunum ‘78. Ítarlegrar fundargerðar er að vænta. Á fundinum var félagsfólki boðið að kjósa um tvær leiðir til að leysa þann ágreining sem upp kom í kjölfar aðalfundar sem haldinn var laugardaginn 5. mars sl. Ágreiningurinn lýtur m.a. að hugmyndafræðinni um tilgang, stefnu og starf samtakanna, en umsókn BDSM á Íslandi um stöðu hagsmunafélags í samtökunum er hluti af því sem rætt er um.

Niðurstaða fundarins
Félagar ákváðu að fara þá leið að staðfesta eða synja því sem fram fór á aðalfundinum 5. mars sl. Lyktir urðu þær að öll atriði aðalfundar voru staðfest, þ.m.t. umsókn BDSM á Íslandi um hagsmunaaðild að samtökunum. Sá liður var staðfestur með 72 atkvæðum eða 55,81% greiddra atkvæða. Með synjun kusu 56 eða 43,41%. Einn sat hjá eða 0,78%. Alls greiddu 129 félagar atkvæði um þennan lið.

Fundurinn var afar erfiður félagsfólki. Stjórnin sá ekki fyrir hvernig honum myndi lykta en hefur ávallt verið reiðubúin til að vinna með hvaða niðurstöðu sem er, félaginu til heilla. Stjórnin lítur svo á að nú sé fengin niðurstaða í málið enda hafi félagarnir sjálfir leitt mál til lykta í kosningum á einum fjölmennasta félagsfundi sem haldinn hefur verið í sögu félagsins, a.m.k. í seinni tíð.

Brugðist við óánægju
Stjórnin gerir sér fulla grein fyrir þeirri óánægju sem uppi er meðal hluta félagsfólks. Hún mun hér eftir sem hingað til reyna að gera sitt besta til að koma til móts við fólk og skapa sem besta sátt, m.a. með því að leita ráða, halda uppi öflugri samræðu um stefnu og hugmyndafræði, bæta samskipti og vinna að endurbótum á lögum félagsins.

Vantrausti lýst yfir
Í kjölfar fundarins hafa nokkrir félagar lýst vantrausti á formann og stjórn félagsins og jafnvel hvatt til afsagnar. Formaður og stjórn hljóta að taka slíkt til alvarlegrar íhugunar. Félagar í Samtökunum ‘78 hafa skv. félagslögum rétt til að kalla saman félagsfund og flytja þar mál varðandi félagið – og þá væntanlega einnig um vantraust á forystuna.

Umboð stjórnar og ábyrgð
Félagsfundur staðfesti í gær kosningu stjórnar með 105 af 129 greiddum atkvæðum, eða 81,40% greiddra atkvæða. Sé það vilji félagsfólks að boðað verði að nýju til félagsfundar þar sem rætt verði vantraust á stjórnina er henni auðvitað ljúft og skylt að verða við slíku. Samþykki félagsfundur vantraust mun stjórn að sjálfsögðu víkja án tafar.

Stjórn samtakanna mun hér eftir sem hingað til starfa með hagsmuni félaganna og félagsins að leiðarljósi. Stjórnin vill uppfylla skyldur sínar og gegna þeim trúnaðarstörfum sem hún var kosin til af félögum. Hún telur ábyrgðarlaust að hlaupa frá verkum sínum þótt á móti blási. Stjórnin hefur hins vegar aldrei haft áhuga á því að hanga á embættum, embættanna vegna, og mun tafarlaust víkja sé það almennur vilji félaganna.

Tvö ný hagsmunafélög en að öðru leyti óbreytt starf
Með fundinum í gær hafa tvö félög, HIN Norðurland og BDSM á Íslandi, fengið hagsmunaaðild að Samtökunum ’78 og bætast þar með í hóp þeirra fjölbreyttu félaga sem fyrir eru. Í kjölfarið mun stjórn, í samstarfi við fulltrúa félaganna, ræða eðli og umfang samstarfsins og næstu skref.

Stjórnin ítrekar að ekkert hefur breyst í kjarnastarfsemi félagsins eða áherslum. Fræðsla, ráðgjöf, ungliðastarf og réttindabarátta er allt með óbreyttu sniði og rekið áfram af faglegum metnaði, á forsendum þeirra sem leiða starfið og njóta. Allt starf félagsins hefur verið í mikilli sókn undanfarið og ekkert er breytt, nema að nú hafa tvö ný félög fengið skjól undir regnhlíf Samtakanna ‘78. Við bjóðum þau velkomin.

Stjórnin harmar þá stöðu sem upp er komin í félaginu en heitir því að gera allt sem í hennar valdi stendur til að skapa sátt á ný þannig að félagið geti einbeitt sér að verkefni sínu: að berjast fyrir og standa vörð um réttindi, lífsgæði og lífshamingju alls hinsegin fólks – og þar með samfélagsins í heild sinni.

Sunnudaginn, 10. apríl 2016

Með hlýjum kveðjum,
Stjórn Samtakanna ‘78

———–
Hér að aftan verður gerð nánari grein fyrir málum:

Aðdragandi fundarins
Félagsfundurinn í gær var haldinn í kjölfar þess að lögmæti aðalfundar hafði verið véfengt á grundvelli þess hvernig staðið var að boðun hans. Upphaflega hafði verið véfengt að stjórninni hefði verið skylt að leggja fyrir aðalfundinn umsókn BDSM á Íslandi. Lögmaður samtakanna komst að því að stjórn hefði verið skylt að leggja umsóknina fyrir. Við þá skoðun kom hins vegar í ljós að efast mætti um lögmæti aðalfundarins á grundvelli þess að ekki hafi verið boðað til hans „bréfleiðis“ líkt og segir í lögum samtakanna.

Annmarkar á lögum félagsins – hvað er lýðræðislegast að gera?
Eftir að hafa notið lögfræðilegrar ráðgjafar, og rætt við félagsfólk sem stóð fyrir ólíkum sjónarmiðum í m&aacute
;linu, taldi stjórn félagsins ljóst að aldrei yrði hægt að fara að fullu að lögum félagsins til að leysa úr þeirri kreppu sem félagið var komið í eftir að lögmæti aðalfundar hafði verið véfengt. Ljóst væri að til að halda félaginu starfhæfu áfram þyrfti að leita nýrra leiða.

Komið hefur í ljós að lög félagsins eru að mörgu leyti ófullkomin. Þau eru þannig úr garði gerð að þau segja ekki fyrir um hvað skuli gera í stöðu sem þessari. Félagslegur veruleiki krafðist þess þó að nauðsynlegt var að eyða óvissu um starfsemina sem fyrst. Við slíkar aðstæður þurftu lýðræðisleg sjónarmið að sjálfsögðu að ráða ferð, þ.e. að félagsfólkið sjálft ákveddi næstu skref.

Boðað til félags- og umræðufunda
Stjórnin taldi fært að fara tvær leiðir að markmiðinu og ákvað að boða til félagsfundar þann 9. apríl, enda félagsfundur æðsta vald í félaginu milli aðalfunda. Frá fundinum þann 5. mars og að fundinum þann 9. apríl blés stjórn einnig til tveggja opinna og fjölmennra umræðufunda, 10. mars og 7. apríl, um form, formgalla, hugmyndafræðilegan ágreining og ólíkar áherslur félagsfólks. Á fundinum í gær, laugardaginn 9. apríl, stóðu félagar svo frammi fyrir að velja á milli eftirfarandi leiða:

a) Kosið yrði um það sem fram fór á aðalfundinum 5. mars sl., lið fyrir lið í leynilegri kosningu, þannig:

i. Staðfesting eða synjun áritaðra reikninga fyrra árs.
ii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til stjórnar.
iii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til trúnaðarráðs.
iv. Staðfesting eða synjun kosningar til skoðunarmanna reikninga.
v. Staðfesting eða synjun á kosningu BDSM á Íslandi sem hagsmunafélags.
vi. Staðfesting eða synjun á kosningu HIN Hinsegin Norðurland sem hagsmunafélags.

b) Boðað yrði til aukaaðalfundar þar sem hefðbundin aðalfundarstörf yrðu endurtekin og kosið um aðild BDSM á Íslandi og HIN – Hinsegin Norðurland að samtökunum.

Ákvarðanir fundarins
Fyrst voru greidd atkvæði með handauppréttingu um tillögu Svanfríðar Önnu Lárusdóttur um að gengið yrði fyrst til atkvæðagreiðslu um tillögu b). Tillagan var samþykkt með 74 atkvæðum gegn 29.

Næst voru greidd atkvæði með handauppréttingu um að boða til aukaaðalfundar: „Lagt er til að boðað verði til aukaaðalfundar þar sem hefbundin aðalfundarstörf verða endurtekin og kosið um aðild BDSM á Íslandi og HIN – Hinsegin Norðurland að Samtökunum ‘78.“ Tillagan var felld með 69 atkvæðum gegn 60.
Þá voru greidd atkvæði með handauppréttingu um frávísunartillögu Margrétar Pálu Ólafsdóttur og Matthíasar Matthíassonar en þau lögðu til að vísa frá tillögu a). Tillagan hljóðaði svo: “Legg til frávísun á tillögu stjórnar um ákvarðanir aðalfundar enda var hann ekki löglega boðaður”. Frávísunartillagan var felld með 68 atkvæðum gegn 47.

Þá voru greidd atkvæði með handauppréttingu um að kjósa um það sem fór fram á aðalfundi Samtakanna ’78 þann 5. mars 2016: „Lagt er til að kosið verði um það hvort kjósa skuli leynilegri kosningu um samþykkt eða synjun þess sem fram fór á aðalfundi samtakanna þann 5. mars 2016.“

Var þá gengið til kosninga um tillögu a), að kjósa um samþykkt eða synjun þess sem fram fór á aðalfundi. Tillagan var samþykkt með 86 atkvæðum gegn 26.

Niðurstaða fundarins
Niðurstaða fundarins var sú að kjósa um leið a) og féllu atkvæði sem hér segir:

i. Staðfesting eða synjun áritaðra reikninga fyrra árs.

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu: 105 eða 81,40%.
Með synjun: 24 eða 18,60%.
Sátu hjá: 0.

ii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til stjórnar.

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu: 105 eða 81,40%.
Með synjun: 24 eða 18,60%.
Sátu hjá: 0.

iii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til trúnaðarráðs.

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu: 105 eða 81,40%.
Með synjun: 24 eða 18,60%.
Sátu hjá: 0.

Iv. Staðfesting eða synjun kosningar til skoðunarmanna reikninga.

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu: 105 eða 81,40%.
Með synjun: 24 eða 18,60%.
Sátu hjá: 0.

v. Staðfesting eða synjun á kosningu BDSM á Íslandi sem hagsmunafélags.

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu kusu 72 eða 55,81%.
Með synjun kusu 56 eða 43,41%.
Sátu hjá: 1 eða 0,78%.

vi. Staðfesting eða synjun félagsfundar á kosningu HIN Hinsegin Norðurland sem
aðildarfélags Samtakanna ´78

Alls greiddu atkvæði: 129
Með staðfestingu: 107 eða 82,95%.
Með synjun: 22 eða 17,05%
Sátu hjá: 0.
 

Leave a Reply