Skip to main content
search
FréttirStjórn

Framboð til stjórnar 2016-2017

By 31. ágúst, 2016desember 11th, 2021No Comments

Reykjavík, 30. ágúst 2016
Vegna aðalfundar Samtakanna ’78 sem haldinn verður 11. september 2016 kallaði kjörnefnd eftir framboðum til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Tilkynningu þess efnis sendi nefndin frá sér þann 28. júlí 2016. Framboðsfrestur rann út þann 28. ágúst og skulu framboð kynnt félagsfólki hið minnsta 10 dögum fyrir aðalfund, samkv. verklagsreglum kjörnefndar vegna framkvæmdar komandi kosninga.

Innan framboðsfrests bárust 26 framboð í 19 embætti. Framboðin skiptast sem hér segir:

Formaður (1) – tvö framboð:

Varaformaður (1) – eitt framboð:

Gjaldkeri (1) – tvö framboð:

Ritari (1) – tvö framboð:

Alþjóðafulltrúi (1) – eitt framboð:

Meðstjórnandi (2) – þrjú framboð:

Skoðunarmenn reikninga (2) – tvö framboð:

Trúnaðarráð (10) – þrettán framboð:

  • Alda Villiljós
  • Hlynur Kristjánsson
  • Jóhann G. Thorarensen
  • Kjartan Þór Ingason
  • Lotta B. Jónsdóttir
  • Magnús Gestsson
  • Margrét Sigurðardóttir
  • Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir
  • Sólveig Rós
  • Sigríður J. Valdimarsdóttir (Erica Pike)
  • Sigurþór Gunnlaugsson
  • Sigurður Júlíus Guðmundsson
  • Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

Kynningar á frambjóðendum til stjórnar má sjá hér að neðan.
Kynningar á frambjóðendum til trúnaðarráðs má sjá hér Framboð til trúnaðarráðs 2016-2017.

Í kjörnefnd sitja Gunnlaugur Bragi Björnsson, Tótla (Anna Þórhildur) I. Sæmundsdóttir og Svanhvít Ada Sif Björnsdóttir.

Virðingarfyllst,
kjörnefnd

 

Formaður

Eitt embætti – tvö framboð: Kristín Sævarsdóttir og María Helga Guðmundsdóttir.

Kristín Sævarsdóttir

Kristín Sævarsdóttir

1.1 Nafn og aldur
Kristín Sævarsdóttir, 52ja ára

1.2 Menntun og starf
Starfa sem sölumaður hjá N1 og hef lengst af fengist við sölustörf. Var um tíma meðeigandi í  Hexa ehf, sem framleiddi og seldi vinnu- og öryggisfatnað fyrir ýmsar greinar vinnumarkaðarins. Stúdentspróf frá MH  og tvær diplómagráður frá EHÍ í markaðsfræði og í mannauðsstjórnun.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Er gift Valgerði Guðjónsdóttur og höfum við búið saman í rúm 20 ár. Var ritari Hinsegin daga í Reykjavík í sjö ár og öðlaðist þar dýrmæta reynslu af því að byggja upp hreyfingu sem haft hefur mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til hinsegin fólks.  Einnig stýrði ég götusölu Hinsegin daga í u.þ.b. tíu ár og byggði hana upp með þátttöku og stuðningi fólks sem telur sig velunnara hinsegin fólks á Íslandi.  Hef einnig starfað mikið fyrir Samfylkinguna, verið í framkvæmdastjórn flokksins og var formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi frá 2012 til 2015. Einnig var ég kosningastjóri Samfylkingarinnar í Kraganum vorið 2009. Ég er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi og hef þar lagt fram tillögur um hinsegin fræðslu í skólum bæjarins sem þegar eru að koma til framkvæmda og einnig um aðgerðir gegn brottfalli hinsegin fólks úr íþróttum.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Ég hef verið félagi í Samtökunum ‘78 frá 1994 og tekið þátt í ýmsu sjálfboðaliðastarfi á vettvangi Samtakanna, fyrstu árin aðallega sem sjálfboðaliði á opnu húsi og í símaráðgjöf og einnig í kjörstjórn á nokkrum aðalfundum. Var einnig í trúnaðarráði auk þess sem ég sat í stjórn KMK í tvö ár þegar félagið var endurvakið.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Undanfarna áratugi hefur gott fólk unnið ötullega að réttindabaráttu hinsegin fólks og ljóst er að unnist hafa miklir sigrar þótt margt sé enn óunnið. Félagslega og lagalega standa hommar, lesbíur og tví-/pankynhneigt fólk mun betur að vígi en áður og því hefur áherslan verið lögð á réttarbætur fyrir transfólk, intersex fólk og aðra þá sem falla ekki undir að vera sis sam-/tví-/pankynhneigðir
einstaklingar.
Innra starf félagsins hefur undanfarin ár litast af flutningi félagsins úr einu húsnæði í annað, lokun bókasafns og minni áherslu á félagslega þáttinn í þjónustu við félagsfólk.  Markmið félagsins hafa orðið óskýr og ómarkviss vegna þess að blandað er saman einstaklingsbundinni félagsaðild og hagsmunaðild ýmissa hópa hinsegin samfélagins. Nú er svo komið að Samtökin ‘78 eru nánast á barmi klofnings vegna þess að félagið hefur þróast í að verða róttækt pólitískt afl og of lítil áhersla hefur verið lögð á að sameina fjölbreyttan hóp félagsfólks.

Ég mun beita mér fyrir að hagsmunaaðild verði lögð af í félaginu og það byggt upp á félagsaðild hinsegin einstaklinga í samræmi við lög félagsins, grein 1.2. Einnig vil ég stuðla að stofnun regnhlífarsamtaka hinsegin félaga á Íslandi þar sem öll aðildarfélög starfa saman á jafnræðisgrundvelli. Samtökin ‘78 eiga að vera þjónandi félag fyrir allt félagsfólk, burtséð frá pólitík og lífsskoðunum fólks. Það þarf að efla samstöðu félagsfólks með því að leggja áherslu á það sem sameinar í stað þess að stugga fólki í sundur vegna þess hvernig það skilgreinir sig. Við þurfum að auka fjölbreytileika í starfinu og skilgreina þjónustuhlutverk félagsins í takt við breytta tíma. Þau sem standa við stjórnvölinn í félaginu verða að þekkja söguna, hafa skýra framtíðarsýn og bjóða upp á litríka starfsemi fyrir þá fjölbreyttu flóru hinsegin fólks sem að samtökunum stendur.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Ég tel að reynsla mín af félagsmálum og það hve vel ég þekki til innviða hinsegin samfélagsins geti komið að góðum notum á næstunni þegar við leggjum í þá vegferð að auka samstöðu og samtal félagsfólks. Ég vil leggja áherslu á félagslega þáttinn í starfsemi félagsins, stuðla að aukinni samkennd meðal félagsfólks með fjölbreytti starfsemi, viðburðum og innra fræðslustarfi. Ytri fræðslustarfsemin þarf í senn að vera fagleg og fjölbreytileg og við þurfum að nýta okkur það hæfa fólk sem allir þekkja og verið hefur andlit hreyfingarinnar út á við vegna starfa sinna og hugsjóna en hefur jafnframt mikla reynslu af því að fræða samfélagið um hinsegin veruleika.   Eldri borgarar hinsegin samfélagsins þurfa á athygli okkar að halda í auknum mæli og sem fyrr er mótun ungliðastarfs samtakanna eitt mikilvægasta hlutverk félagsins og þar  verðum við að vanda okkur. Samtökin ‘78 eru mörgum afar kær og það þarf að hlúa vel að þeim og efla gleði og samstöðu í starfi félagsins. Við erum öll ein stór og litrík fjölskylda og það þarf öllum að líða vel og finnast þau tilheyra í stórfjölskyldunni Samtökunum ‘78.

 

María Helga Guðmundsdóttir

1.1 Nafn og aldur
María Helga Guðmundsdóttir, 28 ára.

1.2 Menntun og starf
MS og BS í jarðfræði og BA í þýskum bókmenntum frá Stanfordháskóla. Sjálfstætt starfandi þýðandi og landsliðskona í karate.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég hef mikla reynslu af verkefnastjórn og hef m.a. skipulagt alþjóðlega tónlistarakademíu og jarðfræðileiðangra um Ísland og Himalajafjöllin. Einnig hef ég stundað kennslu og námsefnisgerð á ýmsum sviðum. Ég var meðal skipleggjenda að æfingabúðum Gettu betur-stelpna árin 2014 og 2015 og er formaður og kennslustjóri Karatefélagsins Þórshamars. Ég er tungumálanjörður, bókaormur og íþróttastrympa með alvarlega fíkn fyrir Esjugöngum.

Ég hef unnið að þýðingum fyrir Intersex Ísland og OII Europe og þýtt heimildamyndir um hinsegin málefni fyrir RÚV.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Undanfarin ár hef ég verið virkur sjálfboðaliði hjá Samtökunum ’78, einkum í verkefnum er snúa að þýðingum, textagerð og mótun hinsegin orðræðu. Ég sat í dómnefnd Hýryrða 2015 og er höfundur hinsegin fræðsluefnisins sem nú er kennt í þjálfaranámi ÍSÍ. Að auki hef ég skipulagt jólabingó, sinnt fræðslu, selt kakó og skafið gólfdúka af miklum móð.

Síðan í mars 2016 hef ég setið í stjórn félagsins, fyrst sem áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs og síðar sem meðstjórnandi. Ég tók beinan þátt í sáttamiðlunarferli því sem fram fór í vor og sumar milli stjórnar og Velunnara.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin ’78 eru öflugur og virtur málsvari hinsegin fólks og standa fyrir fjölbreytni, jafnrétti og víðsýni. Kærurnar vegna hatursorðræðu í f
yrra, vinna undanfarinna ára til stuðnings hinsegin hælisleitendum og undirbúningur þverpólitísks frumvarps um málefni trans og intersex fólks sýna þá breidd og alvöru sem er í baráttu félagsins fyrir mannréttindum.

Samstarf við hagsmunafélög gegnir lykilhlutverki í því að auka bolmagn samtakanna og gera þeim kleift að sinna sértækum verkefnum. Það samstarf hefur tekist vel á mörgum sviðum, t.d. í kringum Hinsegin daga, samskipti við íþróttahreyfinguna, fræðslustarfið og frumvarpsvinnuna. Hagsmunaaðild að Samtökunum ‘78 er ekkert annað en formlegur grundvöllur fyrir samvinnu og samtal milli félaga; slíkt samtal verður alltaf lykilatriði í mannréttindabaráttunni og styrkir félagsstarfið.

Undanfarin ár hefur regnhlíf Samtakanna ‘78 víkkað í takt við þróun hinsegin samfélagsins í nágrannalöndum okkar og breytingar á stöðu hinsegin fólks hér heima fyrir. Það er minn eindreginn vilji að félagið starfi áfram á þeim forsendum að öll þau sem leggja vilja hönd á plóg séu boðin velkomin. Baráttumál ólíkra hópa innan hinsegin samfélagsins eru ekki alltaf þau sömu, en skörunin er mikil. Samstaðan eykur slagkraft okkar í baráttunni fyrir auknu réttlæti.

Deilur undanfarinna mánaða hafa verið erfiðar og mikið verk fyrir höndum við að ná upp gagnkvæmum skilningi milli félaga. Heyrst hefur að einhverjum hluta félagsfólks finnist það ekki velkomið á viðburðum félagsins. Mér er mjög í mun að bæta úr því og ég vona að fólk úr þeim hópi sé tilbúið að taka þátt í mótun viðburða sem mæta þörfum þeirra.

Á slíkum tímum er það mikið lán að staða félagsins er um margt mjög góð. Fjárhagur þess er heilbrigður og stöðugildum starfsmanna hefur verið fjölgað, sem eykur bolmagn fyrir stærri verkefni. Fræðsla og ungliðastarf dafna, sívaxandi ásókn er í ráðgjöf, tugir manns sækja opin hús í hverri viku og sjálfsprottin verkefni á borð við Gallerí ’78 og nýyrðasamkeppnina Hýryrði hafa tekist með eindæmum vel. Í núverandi stöðu er því nægt svigrúm til að hvetja félagsfólk að taka frumkvæðið, halda viðburði að sínu skapi og stofna starfshópa um sín hjartans mál.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Forysta snýst í mínum huga um fordæmi og tengslamyndun. Sem formaður í öðrum félögum hef ég lagt áherslu á að taka frumkvæði og vera sýnilegur og virkur sjálfboðaliði, en jafnframt að útdeila verkum og dreifa ábyrgð svo allir félagar fái hlutdeild í starfinu. Þau vinnubrögð hafa reynst mér vel og mun ég hafa þau að leiðarljósi í Samtökunum ‘78.

Í fjölbreyttu félagi sem okkar verða ávallt skiptar skoðanir. Ég vil beita mér fyrir því að í samtökunum fari fram opinská og heilbrigð skoðanaskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu og lýkur, eftir atvikum, með atkvæðagreiðslu. Ég vil ennfremur að félagsfólk geti auðveldlega komið að máli við mig um allt milli himins og jarðar. Ég stefni því á að hafa fastan tíma í hverri viku þar sem ég tylli mér á Suðurgötunni með heitt á könnunni og gestir og gangandi geta litið við til skrafs.

Næsta hálfa ár
Á þessu stutta og og óvenjulega kjörtímabil tel ég mikilvægt að setja fá en brýn verkefni í forgang. Í ljósi deilna undanfarinna mánaða er mér hugleikið að hlúa að innra starfi félagsins. Því vil ég leggja áherslu á:

  • yfirferð á félagaskrá og póstlista til að tryggja góðar boðleiðir
  • stefnumótun gegnum félagsfundi og endurskoðun á lögum félagsins
  • fjölbreytt félagslíf þar sem öll eru velkomin
  • frekari þjónustusamninga til að tryggja faglegan rekstur ungliðastarfs
  • uppbyggingu á fræðslustarfi með það að markmiði að ráða megi fræðslufulltrúa í fullt starf

Ég vil að félagsfólk hafi sem mesta aðkomu að endurbótum á lögum félagsins. Eftirfarandi atriði set ég þó á oddinn fyrir aðalfund 2017:

  • skýr ákvæði um endurboðun aðalfundar ef formgalli reynist á honum
  • innleiðingu rafræns kosningakerfis (eða annars fyrirkomulags sem heimilar öruggar fjarkosningar fyrir félaga sem ekki komast á fund)
  • endurskoðun á uppbyggingu og hlutverki trúnaðarráðs

Til lengri tíma litið
Markmið mitt er að samtökin hafi aukið samstarf við aðra jaðarsetta hópa, t.d. fatlað fólk, öryrkja og innflytjendur, um málefni sem varða hinsegin fólk innan þeirra raða. Aukin áhersla á landsbyggðina í starfi félagsins er líka löngu tímabær. Ég vil vinna að eflingu hinsegin fræðslu og er spennt fyrir ýmiss konar nýsköpun á því sviði, t.d. í gegnum hlaðvarp og samfélagsmiðla. Einnig vil ég auka aðgengi fólks að fræðsluefni um kynlíf og kynheilbrigði sem einskorðast ekki við sís gagnkynja pör.

Nú er aðeins rúmt ár í 40 ára afmæli samtakanna. Það væri mikið fagnaðarefni ef marka mætti þau tímamót með því að Ísland væri aftur komið í fremstu röð á Regnbogakorti ILGA-Europe, t.d. með því að langþráð frumvarp um m&a
acute;lefni trans og intersex fólks verði að lögum. Í aðdraganda að afmælisárinu væri líka vel við hæfi að byggja upp jákvæða ímynd félagsins í fjölmiðlum og láta drauma um fjölgun félagsfólks verða að veruleika.

 

Varaformaður

Eitt embætti – eitt framboð.

Unnsteinn Jóhannsson

Unnsteinn Jóhannsson

1.1 Nafn og aldur
Unnsteinn Jóhannsson, þrítugur

1.2 Menntun og starf:
KaosPilot – starfsmaður Bjartrar framtíðar

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram):
Fæddur í Hlíðunum og uppalinn í Garðabænum. Skáti, bróðir, KaosPilot, eiginmaður, hundaeigandi, opinskár, pólitíkst nörd, pylsugerðamaður, forvitinn og með sterka réttlæstikennd.

Hvernig lýsir maður sjálfum sér best? Ég veit það ekki alveg, en ég get sagt ykkur að ég hef búið í 5 löndum í heiminum, að frá töldu Íslandi. Nýja Sjálandi, Hollandi, Belgíu, Danmörku og Kólumbíu. Það mætti segja að ég hafi þó nokkra reynslu úr sjálfboðaliðastarfi. Þar á meðal hef ég starfað innan skátahreyfingarinnar, setið í stjórn ýmiskonar félagasamtaka og unnið við ýmsa viðburði. Á síðasta ári starfaði ég sem framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga sem veitti mér kenndi mér og gaf mér dýpri skilning um hvernig rekstur og daglegstörf félagasamtaka fara fram.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78:
Hef setið í Trúnaðarráði í tvö ár.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Mér hefur þótt frábært að fylgjast með og fá að taka þátt í þeim verkefnum sem Samtökin hafa staðið fyrir. Flutningar í nýtt húsnæði tóku drjúgan tíma en að sjá hvernig það hefur lifnað við starfinu eftir opnun veitir innblástur og einmitt staðfestir að samtökin eru á réttri leið. Með tilkomu nýrra samninga við fleiri sveitarfélög sést mikilvægi þess að Samtökin séu sterk og haldi þeim trúverðugleika sem þau hafa. Einnig hefur mér þótt áhugavert hvernig ákveðið var að fara í málsókn vegna hatursummæla og er ég nokkuð vissum að það hafi aðeins ýtt við því að nú er komin af stað hatursglæpadeild innan lögreglunnar. Þó margt hafi spilað inní. Einnig finnst mér ánægjulegt að heyra að allri ráðgjöfinni sem Samtökin veita enda með því mikilvægara sem við gerum. Það mætti telja upp svo marga hluti en ég held ég stoppi hér í bili.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Enn eru mér ofarlega í huga fjölskyldumál hinsegin fólks. Mér þykir mikilvægt að Samtökin haldi áfram að skoða allar hliðar af fjölskyldumálum hinsegin fólks, bæði hvaða möguleikar eru í boði sem og hlúi að og vinni með hinsegin fjölskyldum. Einnig vil ég sjá nýjar leiðir í fjáröflun fyrir Samtökin.  Ég mikinn áhuga á að skýra og skerpa hlutverk Trúnaðarráðs, sem best væri að gera með stofnun laganefndar. Það yrði mér líka mikið kappsmál að á þessu ári verið hlutverk og ábyrgð stjórnar og trúnaðarráðs mjög skýr og að enn meiri samvinna verði með sjálfboðaliðum innan Samtakanna. Ég get þó ekki sleppt því að nefna málefni hinsegin hælisleitenda og flóttafólks, ég held að við séum á réttri braut og getum haldið áfram og gert enn betur í þeim málum.

 

Gjaldkeri

Eitt embætti – tvö framboð: Benedikt Traustason og Matthías Matthíasson.

Benedikt Traustason

Benedikt Traustason

1.1 Nafn og aldur
Benedikt Traustason, 21 árs.

1.2 Menntun og starf
Hef lokið hönnunarnámi við lýðháskólann Rødding Højskole og stunda nú nám við líffræði í HÍ ásamt því að vera í hlutastarfi hjá Arion banka.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Starfsreynsla: Ég hef undanfarið ár starfað sem einstaklings- og fyrirtækjaráðgjafi hjá Arion banka.

Menntaskólinn í Reykjavík: Ég sat tvo vetur í skólanefnd MR fyrir hönd nemenda ásamt því að sjá um stofnun Catamitusar – hinsegin félags nemenda við skólann.

Amnesty International: Ég sat í stjórn Ungliðahreyfingar Amnesty.

Samband íslenskra framhaldsskólanema: Ég gengdi embætti varaformanns veturinn 2014-15 og er nú skoðunarmaður reikninga fyrir félagið.

Ég hef einnig setið í hinum ýmsu nefndum á vegum ráðuneyta og stofnanna fyrir hönd
SÍF og gengt trúnaðarstörfum fyrir önnur samtök, þ.á.m. skátahreyfinguna.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Ég kynntist samtökunum fyrst með því að leita mér ráðgjafar við að koma út úr skápnum. Þeirri ráðgjöf á ég allt að launa og vil ég því bjóða fram krafta mína í stjórn sem gjaldkeri. Undanfarna mánuði hef ég setið í trúnaðarráði samtakanna en hef nýlega tekið við embætti meðstjórnanda í stjórn og vil gjarnan halda áfram sem gjaldkeri.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Það er ekkert launungarmál að undanfarnir mánuðir hafa verið samtökunum erfiðir og átök félagsfólks á opinberum vettvangi varpað skugga á starf okkar. Það er mín von að aðalfundurinn verið upphaf sátta og vil ég leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að þær sættir haldi.

Mikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað innan samtakanna á undanförnum árum sem við megum ekki missa niður. Má þar m.a. nefna stóraukna fræðslu til fólks og félagasamtaka, nýtt húsnæði og aukinn áhuga almennings á málefnum hinsegin fólks. Ég vil halda áfram á sömu braut og fylgja þeirri stefnu sem félagsfólk hefur mótað því þó við höfum náð langt á sumum sviðum eigum við lengra í land annars staðar.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)

Búið er að skipa lagabreytinganefnd sem skila á tillögum sínum á aðalfundi í mars og tel ég að tillögur þeirra verði forsenda áframhaldandi uppbyggingarstarfs. Ég tel brýnt að komið verði á ákvæði um rafrænar kosningar, að ákvæði um starf trúnaðarráðs verði skýrt, að stuðningur samtakanna við hagsmunafélögin verði efldur og að þeir vankantar lagana sem komið hafa upp verði sniðnir af.

Til þess að hagsmunabaráttan verði sem skilvirkust þarf að mínu mati að:

  • Leita tillagna hjá aðildarfélögum og félagsmönnum um hvaða mál eigi að setja á oddinn, skilagreina markmið út frá því starfi og í framhaldinu vinna aðgerðaáætlun hvernig ná megi þeim markmiðum.
  • Leita fjölbreyttari leiða við fjáraflanir og öflun fjárstuðnings.
  • Afla stuðnings sem víðast við baráttumál samtakanna.

Sterkur fjárhagur og skýr stefna, mótuð af félagsmönnum, er að mínu mati lykillinn að öflugri hagsmunabaráttu.

2.3 Annað sem þú vilt koma á framfæri?
Auður félagsins eru fólginn í einstaklingunum sem taka þátt og móta starf félagsins, það er mitt kappsmál að virkja þá. Ég tel að skilgreiningarvaldið liggi hjá einstaklingunum sjálfum því það er sama hvaðan úr regnboganum við komum, við eigum að fagna fjölbreytileikanum og taka á móti öllum með opnum huga. Eins og skáldið sagði: við erum bara eins og við erum og hvernig eigum við að vera eitthvað annað?

 

Matthías Matthíasson

Matthías Matthíasson

1.1 Nafn og aldur
Ég heiti Matthías Matthíasson og er 51 árs

1.2 Menntun og starf
Ég er menntaður klínískur sálfræðingur og starfa sem slíkur, bæði sjálfstætt og á vegum Hjallastefnunnar. Einnig er ég með kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunn- og framhaldsskólum.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég er nýlega skilinn við minn ágæta fyrrverandi eiginmann og á tvö börn (þó ekki með honum); tvo uppeldissyni að auki og tvö barnabörn.

Nýverið var ég  lektor í sálfræði við Háskólann á Akureyri; en ég hef einnig verið stundakennari við Háskóla Íslands og við Kennaraháskóla Íslands auk kennslu við MH og ýmsa grunnskóla. Jafnframt hef ég starfað sem kerfisstjóri hjá Íslenska Menntanetinu og hjá KHÍ. Ég var forritari fyrir KHÍ og fyrir Hjallastefnuna auk þess sem ég sinnti sjálfstæðum forritunarverkefnum. Ég starfaði um árabil sem ráðgjafi í megindlegri aðferðafræði og tölfræðiúrvinnslu fyrir rannsóknafólk og háskólakennara. Einnig hef ég verið meðferðarfulltrúi á geðdeildum og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.

Nú er ég sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Íslandi, bæði í áfallateymi og  í sálfélagslegum viðbragðshópi vegna hamfara eða annarra sviplegra aðstæðna sem upp geta komið á Íslandi eða erlendis. Ég hef einnig starfað að málefnum hælisleitenda og að skaðaminnkunarverkefni fyrir Rauða krossinn. Á hverju sumri er ég sjálfboðaliði á Hinsegin dögum og hef verið í allnokkur ár. Þar hef ég sinnt undirbúningi og sviðsstjórn á Arnarhóli og á opnunarhátíð, auk þess að starfa í kaupfélagi Hinsegin daga og við fleiri tengd verkefni.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna 
9;78

Ég var varaformaður Samtakanna ‘78 árin 1995-1996 og 1997-1999 og formaður félagsins 1999-2000. Ég var einnig sjálfboðaliði á opnum húsum, í símaráðgjöf og á bókasafni félagsins um árabil. Ég hef undanfarin ár verið sálfræðilegur ráðgjafi á vegum Samtakanna ‘78 auk þess sem ég hef komið að ráðgjöf við stjórn félagsins, m.a. varðandi málefni ungliðastarfsins.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin ‘78 eru á ákveðnum krossgötum nú þegar tilteknum borgaralegum réttindum hefur verið náð fyrir fólk sem kýs samkynja sambúðar- eða hjúskaparform. Að mínu mati er æskilegast að félagið verði nú þjónandi hagsmuna- og réttindafélag fyrir félagsfólk og þá sem til þess leita frekar en að þróast í almennt róttækt pólitískt félag með óljósa skírskotun. Mikilvægt er að félagið þjóni öllu félagsfólki og þeim er til þess leita, óháð lífsskoðunum og pólitískum viðhorfum. Ég tel því mikilvægt fyrir Samtökin að félagsfólk eigi samræðu um skipulag og markmið félagsins.

Félagsaðild hefur að mínu mati orðið óljós með tilkomu hagsmunafélaga þar sem félagar í þeim þurfa ekki um leið að vera félagar í Samtökunum ‘78. Þannig er aðkoma hagsmunafélaga að starfinu óskýr og veldur því að þjónusta Samtakanna við félagsfólk verður ómarkviss. Ég er á því að leggja beri hagsmunafélagsaðildina af en hafa þess í stað gott samstarf við öll þau félög sem vilja vinna með Samtökunum að fræðslu, ráðgjöf, félagsstarfi, réttindabaráttu eða öðrum atriðum. Slíkt væri til dæmis hægt að gera með stofnun regnhlífarsamtaka. Samtökin ‘78 sem slík eiga fyrst og fremst að þjóna hagsmunum trans fólks, intersex fólks, pankynhneigðra, asexual fólks, tvíkynhneigðra, homma og lesbía sem eru einstaklingsaðilar að félaginu.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Þau svið í starfi Samtakanna sem ég hef mestan áhuga á eru fræðsla, ráðgjöf og félagsleg úrræði auk þess sem ég hef mikinn áhuga á því að hafa reksturinn traustan og innan ramma þess fjármagns sem fæst í starfsemina hverju sinni.

Fræðslu á vegum samtakanna þarf að bæta, skerpa og einfalda. Jafningjafræðslumódelið hefur gefist vel en ég tel að það sé mikilvægt að senda einnig með félaga sem eru eldri og geta þannig gert fræðsluna ítarlegri, t.d. með því að svara spurningum um sögu og réttindi hinsegin fólks sem reynslan hefur sýnt að jafningjafræðarar treysta sér ekki alltaf til að svara. Einnig er mikilvægt að jafningjafræðarar hafi eldri félaga sem stuðning sem geti aðstoðað ef fræðsla fer fram við erfiðar aðstæður. Til dæmis væri hægt að senda með kennara, sálfræðinga, félagsráðgjafa, Pál Óskar eða aðra aðila sem geta bætt við þá fræðslu sem þegar fer fram.

Ráðgjöfin er nokkuð traust en það má skilgreina betur þau viðmið sem stuðst er við í ráðgjöfinni og setja um hana skýrari ramma. Jafnframt er áhugavert að efla tengslanet ráðgjafar við markþjálfa, námsráðgjafa og heilbrigðisstarfsfólk. Loks er mikilvægt að ræða við nágrannasveitarfélög Reykjavíkur um hvort og hvernig þau sjá fyrir sér að geta haft not af ráðgjöfum.

Félagsstarf þarf að styrkja með tilboðum til ólíkra hópa innan Samtakanna og utan. Fjölmargt hinsegin fólk er til dæmis einangrað, án félagslegs baklands og hefði gagn af starfsemi sem auðveldlega væri hægt að koma upp á vegum Samtakanna. Sem dæmi má nefna heimsóknarþjónustu til aldraðra hinsegin einstaklinga. Samtökin þurfa jafnframt að mæta þörf fyrir annað félagsstarf, t.d. Samtakaböll, jólabingó og fleiri uppákomur sem áður voru fastir liðiðr en hafa lagst af á síðari árum.

 

Ritari

Eitt embætti – tvö framboð: Frosti Jónsson og Júlía Margrét Einarsdóttir.

Frosti Jónsson

Frosti Jónsson

1.1 Nafn og aldur
Ég heiti Frosti Jónsson og er 44 ára.

1.2 Menntun og starf
Ég er með BA-próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í frumkvöðlafræði frá Háskólanum á Bifröst. Ég hef starfað við markaðsmál undanfarin 15 ár og stýri netmarkaðssviði Birtingahússins.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég er í sambúð með Páli Guðjónssyni til 13 ára. Samhliða vinnu minni í Birtingahúsinu held ég úti upplýsingaveitunni Gayice.is sem ég setti í loftið árið 2003.

2005 skipulagði ég fyrstu BEARS ON ICE-hátíðina sem er haldin árlega í september og hefur vaxið í að vera einn af þremur stærstu vi&e
th;burðum LGBT+-senunnar hérlendis og einu „men only“ skemmtanirnar undanfarin ár.

Einnig er ég tónlistarmaður og hef gefið út þrjár plötur undir listamannsnafninu Bistro Boy auk útgáfu á endurhljóðblöndunum á verkum annarra og fl. Ég hef haldið fjölda tónleika, t.d. í Berlín, Madrid, Kaupmannahöfn, Dublin, Belfast og Seattle og farið hringferð um Ísland.

Þá rek ég tónlistarútgáfuna Möller Records ásamt fleirum.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Ég var ritari í stjórn Samtakanna ‘78 starfsárið 2006-2007 og formaður félagsins næstu 3 starfsárin þar á eftir, 2007-2010.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Í mínum huga eiga Samtökin ‘78 að vera þjónandi félag. Samtökin ‘78 eiga eftir fremstu getu að aðstoða alla þá sem til félagsins leita og veita þeim nauðsynlegan stuðning. Samtökin ‘78 eiga eftir fremsta megni að skapa félögum sínum félagslegan vettvang með það að markmiði að efla samkennd og samstöðu félagsfólks. Að skilgreina Samtökin ‘78 sem róttækt pólitískt félag hefur ekki stuðlað að samstöðu meðal hinsegin fólks. Félagið á að þjóna öllum félögum sínum, óháð stjórnmála- eða lífsskoðunum þeirra. Þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í félaginu má m.a. rekja til þess að félagið er í senn félag einstaklinga og hagsmunafélaga. Ólík sýn á hlutverk og markmið félagsins, í bland við óljósan tilgang hagsmunafélaga, hefur leitt til alvarlegs klofnings sem þarf að bregðast við. Ég vil beita mér fyrir því að hagsmunafélagsaðild verði lögð af og meiri áhersla verði lögð á að styrkja starf starfshópa á vettvangi þess. Þá vil ég ræða stofnun regnhlífarsamtaka hinsegin félaga á Íslandi þar sem öll aðildarfélög starfa saman á jafnræðisgrundvelli.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Sá árangur sem félagið hefur náð á undanförnum áratugum hefur náðst með uppbyggilegu en gagnrýnu samtali við stjórnvöld, stjórnmálamenn og fólkið í landinu. Þannig hefur tekist að bæta réttar- og félagslega stöðu hinsegin fólks til muna og gerbreyta samfélagslegum viðhorfum til okkar.

Þrátt fyrir þennan mikla árangur er ennþá mikið verk óunnið, bæta þarf réttarstöðu þeirra hópa sem félagið vinnur fyrir og falla undir markmið félagsins eins og þau eru skilgreind í lögum félagsins. Fræðsla hefur alltaf gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa vitund um tilveru hinsegin fólks og stuðla að jákvæðum viðhorfum gagnvart því og viðhalda þeim jákvæðu viðhorfum. Á þeim tíma sem ég var formaður félagsins voru í fyrsta sinn gerðir þjónustusamningar við sveitarfélög (Hafnarfjarðarbæ, Akraneskaupstað, Árborg, Reykjanesbæ, Seltjarnarnes auk Reykjavíkur) sem fólu í sér markvissari fræðslu til fagfólks og skóla og ég vil halda áfram á þeirri braut.

Ég tel að þekking og reynsla mín af markaðsmálum, þekking á innviðum félagsins, reynsla af markaðs- og kynningarmálum og af stjórnun viðburða geti nýst félaginu vel og ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að efla samstöðu meðal félagsfólks. Viðburðir af ýmsum toga gegna mikilvægu hlutverki í að efla samstöðu meðal félagsfólks og ég tel að þar sé verk að vinna. Fjölbreyttari viðburðir sem höfða til þeirra ólíku hópa sem félagið starfar fyrir eru að mínu mati nauðsynlegir til að efla félagslega virkni og rjúfa félagslega einangrun. Þá vil ég beita mér fyrir því að gerð verði þjónustukönnun meðal félagsfólks, bæði skráðra félaga og þeirra sem eru á póstlistum, og afla upplýsinga um viðhorf til félagsins, þess starfs sem þar fer fram og óska félagsfólks.

 

Júlía Margrét Einarsdóttir

Júlía Margrét Einarsdóttir

1.1 Nafn og aldur
Júlía Margrét Einarsdóttir, fædd 1987

1.2 Menntun og starf
Ég er skáld og miðasölukona í Þjóðleikhúsinu með bachelor-gráðu í Heimspeki og mastersgráðu í ritlist.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég á tvo ketti sem ég elska meira en allt fólk, hef unnið mest í umönnunarstörfum en líka sem blaðamaður, kaffibarþjónn og miðasölukona. Mér finnst samt skemmtilegast að skrifa og læra.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Ég er sitjandi ritari í samtökunum og vil mjög gjarnan halda áfram. Ég var upphaflega meðlimur í trúnaðarráði en tók við ritarasæti snemma á starfsárinu og fann mig mjög vel þar.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu &aacu
te;rum?

Að mínu mati hefur starfið verið mjög öflugt í ár og samvinna og samsláttur í stjórninni góður. Við fögnuðum því happi að fá nýja framkvæmdastýru til liðs við okkur og svo loksins eins og við vitum gátum við opnað þetta frábæra húsnæði sem við erum í núna. Efst á baugi í mínum huga eftir starfsárið er auðvitað kærumálið mikla og húsnæðisopnunin. Við höfum látið okkur málefni hinsegin hælisleitenda varða og beitt okkur fyrir þeirra réttlæti. Svo hafa verið haldin frábærlega vel lukkuð opin hús og ég á von á því að starfsemi hússins muni halda áfram að blómstra og stuðið muni aukast enn meira á komandi starfsári.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Ég vil halda ótrauð áfram góðu starfi síðasta starfsárs, halda áfram að sigla stolt undir Samtaka-regnhlífinni okkar og að vera öflugur vettvangur fyrir hinsegin fólk á landinu, jafnt sem Íslendinga og bjóða erlenda ríkisborgara sem dvelja á landinu velkomin.

Við þurfum að hlúa að hinsegin fólki sem búa ekki við réttlæti og þá sem sem berjast við fordóma. Við þurfum að vera vettvangur fyrir fólk til að hittast og kynnast og finna þá samheldni sem finna má í okkar hópi. Við þurfum að halda því áfram að halda partý og aðra viðburði svo við getum hist og glaðst saman. Við þurfum að halda áfram að fokka á fordóma, fokka á hatursorðræðu, fokka á útlendingastofnun og feðraveldið.

 

Alþjóðafulltrúi

Eitt embætti – eitt framboð.

 

Kitty Anderson

Kitty Anderson

1.1  Nafn og aldur:
Ég heiti Kitty Anderson og er 34 ára.

1.3  Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram):
Ég fæddist í Reykjavík, ólst upp í Skotlandi og á Egilsstöðum en bý í Reykjavík með manni og stjúpsyni og gegni þjónustuhlutverki við kettina tvo sem eiga heimilið.

Ég er einn af stofnendum Intersex Íslands og hef gegnt formennsku félagsins frá stofnun þess árið 2014.

Síðastlðið ár hef ég gegnt stöðu meðstjórnanda Samtakanna ´78 og sit í stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands fyrir hönd Samtakanna ´78  og hef komið að starfi teymi Samtakanna ´78 um málefni hælisleitanda og flóttamanna.

Í september 2015 var ég kosin ritari framkvæmdastjórnar Organisation Intersex International Europe e.V (OII Europe) og sinni þar ýmsum trúnaðarstörfum í þágu evrópsku intersex hreyfingarinnar. Fram að því sat ég í stjórn félagsins frá haustinu 2014.

Síðastliðin ár hef ég myndað sterk tengsl við hinsegin félög víða um Evrópu. Ég hef meðal annars sótt árlega ráðstefnu ILGA-Europe og vinnustofur um “Common frames and values” og “Organisational structuring and development” á þeirra vegum.

Ég hef einnig myndað óformlegri tengsl við stjórnarmeðlimi hinsegin félaga marga Evrópulanda.

Á síðastliðnu ári sótti ég fundi með mannréttindafulltrúa Evrópuráðssins, SOGIESC deild Evrópuráðsins, þingmönnum evrópuþingsins og sérstökum erindreka utanríkisráðuneyti bandaríkjanna um málefni hinsegin fólks og hef myndað tengsl við þessar stofnanir.

Á þessu ári fundaði ég með European Commission against Racism and Intolerance fyrir hönd Samtakanna ‘78 ásamt framkvæmdastýru og lögfræðingi félagsins, þar sem núverandi staða hinsegin fólks á Íslandi var rædd. Fyrir hönd OII Europe var ég á vordögum með sérfræðivitnisburð á fundi Lífsiðfræðinefndar um trans og intersex málefni í boði SOGI-deildar ráðsins og styrkti þar ennfremur tengsl mín við Evrópuráðið.

Í maí var ég kosin stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofu Íslands, þar sem ég sit fyrir hönd Samtakanna ‘78.

Ég hef setið í stjórn Karatefélagsins Þórshamars frá árinu 2011, og hef þar gegnt hlutverki bæði gjaldkera og ritara.  Á árunum 2006-2008 gegndi ég hlutverkum félagslegs trúnaðarmanns og öryggistrúnaðarmanns á vinnustöðum.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78:
Á síðastliðnu ári hef ég sem stjórnarmaður gegnt hefbudnum stjórnarstörfum innan Samtakanna 78.

Ég vann einnig að loka hluta “Ég er ég” verkefnisins ásamt því að sjá um eftirfylgd með því máli þar til nýr framkvæmdastjóri hóf störf.

Ég kom að vinnslu gagna fyrir kærur sem Samtökin ´78 lögðu fram í apríl á síðastliðnu ári og sótti ásamt framkvæmdastjóra fund með lögregluembættinu til þess að koma á samstarfi við embættið.

Ég hef einnig komið að starfi Samtakanna ´78 að málefnum flóttafólks og hælisleitenda og hef sótt fundi með bæði Rauða krossi Íslands og Útlendingastofnun til að koma á samstarfi við þessar stofnanir.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefn
um sem unnið hefur verið að á síðustu árum?

Þrátt fyrir töluvert fjársvelti þá hefur félagslíf innan Samtakanna 78 blómstrað frá opnun Suðurgötu 3

Með nýju húsnæði hefur félagsstarfsemi aukist og mikil ásókn hefur verið í hina ýmsu og fjölbreyttu viðburði sem félagsmenn og hagsmunafélög hafa staðið fyrir.

Aukin og jákvæð fjölmiðlaumfjöllun á árinu 2015 og framan af árs 2016 skilað sér í aukinni samfélagsumræðu um mikilvægi hinsegin malefna. Aukning hefur orðið á eftirspurn eftir grunnskólafræðslu, ásókn í ráðgjöf er mikil og bætt hefur verið við lögfræðiráðgjöf.

Með auknum umsvifum félagsins er ljóst að félagið þarf á meira en einu stöðugildi að halda og hefur tímabundin ráðning fræðslustýru í hlutastarf verið eitt af verkefnum þessa árs. Von okkar er sú að enn frekar sé hægt að auka við starfsmanna flóru samtakanna og auka með því þjónustu til hinsegins samfélagsins alls. Eitt af mikilvægari verkefnum komandi árs verður að tryggja félaginu aukið fjármagn til þess að efla þá þjónustu sem félagið getur veitt félagsmönnum og eins til að auka stórlega hinsegin fræðslu til samfélagsins alls.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Tel ég að auka þurfi hinsegin fræðslu all verulega. Fræðslan sem félagið veitir til efsta stigs grunnskóla og framhaldskóla er mjög góð en heildræn hinsegin fræðsla ætti að ná yfir öll skólastig. Einnig þarf að hefja skipulega fræðslu til hinna ýmsu embætta og stofnanna. Til dæmis lögreglu, heilbrigðiskerfisins, og til ýmsra félagasamtaka sem koma að málefnum sem geta tengst inn á hinsegin málefni.  Einnig þarf að taka á hinsegin málum þegar kemur að vinnumarkaðnum í heild og hefur vinna seinustu 3 mánaða við íslenska staðfæringu á Workplace Pride Index verið fyrsta skref í lengra tíma ferli við að ná því

Ef staða Ísland er skoðuð á ILGA Europe kortinu má glöggt sjá að ýmislegt vantar upp á til þess að fullt jafnrétti og lagalega vernd sé hér að finna. Miklar réttarbætur þarf að gera í málefnum Trans og Intersex fólks, samkynja mæður mæta hindrunum við barnseignir og gangskör þarf að gera í ættleiðingarmálum hinsegin fólks. Engar stefnur eða áætlanir hafa verið markaðar í málefnum er snerta jafnrétti og mismunun hinsegin fólks, né til að glíma við hatursorðræðu sem hinsegin fólk sætir, hjá stjórnvöldum. Engin formleg stefna ríkir hér gagnvart hinsegin hælisleitendum sem tekur tillit til þeirra viðkvæmu stöðu. Tel ég Samtökin ´78 þurfa beita sér í þessum málum á komandi árum og vil ég gjarnan taka þátt í því starfi.

Aukin tengsl við hinsegin félög og stofnanir sem koma að hinsegin málum víða um Evrópu tel ég styrkja starfsemi félagsins. Þessháttar tengsl auðvelda okkur að sækja þekkingu og samstarf útum alla Evrópu og jafnvel víðar. Ég vil gjarna leita eftir umboði Samtakanna ´78 til þess að nýta það tenglsnet sem ég hef þegar myndað til að styrkja stöðu alþjóðastarfs samtakanna og byggja upp samstarfsverkefni við önnur hinsegin félög í Evrópu.

2.3 Annað sem þú vilt koma á framfæri?
Ég hef brennandi áhuga á mannréttindum almennt en þá sérstaklega hjá þeim hópum sem búa við flókna skörun mannréttindabrota. Helstu áhugasvið eru þó mannrréttindamál hinsegin fólks og hælisleitenda. Ásamt því að sinna hlutverki alþjóðafulltrúa hef ég mikinn áhuga á að byggja upp og þróa starf samtakanna í þágu hinsegin hælisleitenda og flóttamanna

 

Meðstjórnendur

Tvö embætti – þrjú framboð: Álfur Birkir Bjarnason, Guðmunda Smári Veigarsdóttir og Gunnar Karl Ólafsson.

Álfur Birkir Bjarnason

Álfur Birkir Bjarnason

1.1 Nafn og aldur
Ég heiti Álfur Birkir Bjarnason og er 23 ára

1.2 Menntun og starf
Ég er á þriðja ári í tölvunarstærðfræðinámi við Háskólann í Reykjavík. Meðfram námi hef ég starfað hjá Plain Vanilla Games við gagnanám og myndvinnslu. Þar að auki er ég að stíga mín fyrstu skref sem dæmatímakennari í HR.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég hef mikla reynslu af félagsstarfi og umsjón með stórum verkefnum. Ég hef starfað sem sjálfboðaliði hjá AFS á Íslandi og verið formaður leikfélags MR, Herranætur. Á stjórnartíma mínum settum við upp verkið Títus Andrónikus eftir Shakespeare við góðar undirtektir en auk þess skiluðum við miklum hagnaði sem er fátítt í sögu félagsins.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Innan Samtakanna sjálfra er ég nýgræðingur. Ég hef fylgst með að utan, dáðst að starfinu og fagnað sigrunum en þorði ekki að skrá mig fyrr en eftir
fundinn í mars. Ég skráði mig í Samtökin til þess að geta sjálfur lagt fram krafta mína og hef síðan m.a. setið í lagabreytinganefnd félagsins sem var skipuð í maí, enda gestsaugað glöggt.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin ‘78 eru einstök að því leyti að þau hafa skapað sér virðingu innan nánast allra hópa samfélagsins. Það eru félagar Samtakanna sem skapa þessa virðingu, talsmenn þess og stjórn. Ég minnist þess þegar ég var enn í skápnum og fylgdist með starfi Samtakanna ‘78 að utan. Ég bar hlýjan hug til Önnu Pálu Sverrisdóttur, þáverandi formanns, og síðar Hilmars Hildar Magnúsarsonar, sem tók við af Önnu Pálu. Ég man þegar Anna Pála mótmælti Franklin Graham og Hátíð Vonar og stóð fyrir fjölbreytileikafögnuði. Ég man þegar Hilmar afhenti kærur á hendur fólki sem hafði staðið í hatursorðræðu á internetinu og þegar hann flutti erindi um hinsegin söguskriftir á vegum Sagnfræðingafélagsins. Svona sé ég félagið enn. Fullt af fólki sem er tilbúið að taka slaginn. Fullt af fólki sem ætlar ekki að vera kúgað af öfgatrúafólki. Fullt af fólki sem situr ekki þegjandi undir hatursorðræðu og leyfir engum öðrum að skrifa sögu sína en þeim sjálfum. Við látum ekki valta yfir okkur og við látum ekki valta yfir systkini okkar og þannig vil ég hafa það.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2­3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Ég vil halda áfram að skrifa hinsegin söguna, ég vil halda áfram að steyta hnefann á móti og ég vil halda áfram því frábæra starfi sem hefur verið unnið undanfarin ár. Sífellt fleiri mæta á opin hús og sýna regnbogans lit og sífellt fleiri hafa samband við skrifstofuna og óska eftir samstarfi, aðstoð eða fræðslu. Með auknu starfi á opinberum vettvangi, aukinni fræðslu, og auknu starfi félagsmanna tel ég Samtökin geta rammað sig inn sem eitt sterkasta mannréttindafélag landsins.

Við erum komin góða leið með að skapa þetta draumafélag, nú er bara að hitta síðustu bognu naglana á höfuðið. Ég er lunkinn með hamar og þess vegna býð ég mig fram sem meðstjórnanda Samtakanna ‘78 á aðalfundi 11. september 2016.

 

Guðmunda Smári Veigarsdóttir

Guðmunda Smári Veigarsdóttir

1.1 Nafn og aldur
Guðmunda Smári Dísuson Veigarsdóttir. Fæðingarár 1987.

1.2 Menntun og starf
Skóli lífsins ásamt að hafa fengið tækifæri á að sækja hinar ýmsu alþjóðlegar ráðstefnur um hinsegin málefni og æskulýðsstarfs.

Ég er vaktsjóri og kokkur á Kringlukránni í fullri vinnu, ásamt því að sinna öðrum tilfallandi hlutastörfum og verkefnum.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég hef starfað á Kringlukránni í meira en 9 ár og þar af 5 ár sem vaktstjóri. Samhliða því hef ég unnið með og fyrir Samtökin ‘78 ásamt því að hafa verið formanneskja Q félags hinsegin stúdenta, setið í stjórn ANSO Association of Nordic and Pol-Balt LGBTQ Student Organizations, farið með hóp ungs hinsegin fólks í sumarbúðir Lambda í Þýskalandi, haldið alþjóðlegar sumarbúðir fyrir 70 hinsegin ungmenni á Íslandi, leitt fræðslunefnd Hinsegin daga, unnið með sérfræðihópi barna um trans málefni, stofnað til fræðslumálþingsins Nú skal hinsegja, staðið fyrir hinsegin fræðslu, málþingum, vinnustofum og mótmælum, farið á ráðstefnur, málþing og vinnustofur um hinsegin málefni ásamt fleiru tengt hinsegin aktívisma.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Ég hef starfað með og fyrir Samtökin síðan 2007. Ég byrjaði sem þátttakandi í jafningjafræðslu og var hátt í 6 ár mjög virkur þátttakandi þar. Ég var leiðtogi ungliðahreyfingar Samtakanna í rúmlega 2 ár. Ég hef tekið þátt í almennu félagsstarfi, meðal annars sem sjálfboðaliði á böllum, bingói og fleiri viðburðum. Síðustu ár hef ég aðallega starfað í umsjónarteymi fyrir ungliða Samtakanna.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Þegar ég var ungt hinsegið blóm og var í ungliðum Samtakanna 78 var mér sagt að Samtökin 78 stæði við bakið á okkur, myndi verja okkur ef eitthvað kæmi upp á og væri að berjast gegn misrétti sem hinsegin fólk verður fyrir. Þetta voru samtökin sem björguðu lífi mínu! Þessi hugmynd eða ímynd er eitthvað sem við verðum að reyna halda í, eitthvað sem við verðum að geta haldið áfram að segja ungu hinsegin fræjunum sem eru þarna úti. Sama hvort þau séu BDSM hneigð, trans, intersex, kynsegin, samkynhneigð, tvíkynhneigð, pankynhneigð, eikynhneigð og svo framvegis

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á
hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)

Ég vil búa betur um fyrir hagsmunafélögin þannig að húsnæði Samtakanna og önnur úrræði þeirra nýtist félögunum betur.

Ég vil einnig að rödd þeirra mest jaðarsettu fái meira vægi í starfi Samtakanna ‘78 og halda áfram að vinna gegn ójöfnuði og misrétti sem félagsfólk verður fyrir, bæði í lögum, réttarkerfinu og í samfélaginu. Meðal þeirra mála sem þarf að taka á eru: Ættleiðingar samkynja para, óþarfa aðgerðir á intersex börnum, biðlistar trans barna inn á BUGL, verndun á misrétti í stjórnarskrá Íslands, trans löggjöfin í heild sinni, vanlíðan ungra tvíkynhneigrða stúlkna, ósýnileiki tvíkynhneigðra, pankynhneigðra og eikynhneigðra, neikvæðri staðalímynd BDSM-hneigðra, búa þarf til vettvang fyrir eldra hinsegin fólk, aðgengi að kynlausri salernis- og sturtuaðstöðu og svo framvegis.

 

Gunnar Karl Ólafsson

Gunnar Karl Ólafsson

1.1 Nafn og aldur
Gunnar Karl Ólafsson, 22 ára.

1.2 Menntun og starf
Ég hef lokið tveimur árum í framhaldsskóla á Íslandi og einu ári á Spáni, en er nú á vinnumarkaðinum. Er með Wilderness First Responder-réttindi frá Landlækni eftir námskeið hjá Landsbjörgu. Ég starfa sem móttöku- og bókunarstjóri hjá Arcanum-ferðaþjónustu sem starfar á Mýrdalsjökli. Einnig hef ég verið að taka að mér að plötusnúðast við alls konar tilefni undir nafninu DJ GayKay.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla afvinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Einhleypur. Var virkur í félagstarfi í grunnskóla, formaður nemenda í félagsmiðstöðinni Zelsíus tvö ár í röð. Fór í skiptinám 15 ára gamall til Manresa á Spáni, var þar í eitt ár í menntaskóla, kynntist þar fullt af fólki alls staðar úr heiminum og lærði mikið á þeirri reynslu. Eftir það tók við Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu) þar sem ég tók virkan þátt í félagslífinu, var ritstjóri nemandafélags FSu, keppti í MORFÍS, tók þátt í að semja söngleik með íslenskum lögum og var framkvæmdastjóri uppsetningarinnar á honum. Var SÍFari (Samband íslenskra framhaldskóla) fyrir hönd FSu. Þá var ég sjálfboðaliði hjá AFS-samtökunum í rúmt ár og vann að undirbúningi íslenskra skiptinema og móttöku erlendra nema. Vann í bakaríi með skóla og var með útvarpsþátt á Suðurland FM. Flutti svo til Reykjavíkur, vann þar í fataverslun og á skemmtistað. Flutti aftur á Selfoss, byrjaði að vinna í BYKO og tók kvöldskóla með. Eftir það var ég þjónn á Hótel Selfossi, seinna vaktstjóri á veitingastað í bænum og þaðan kom ég til Arcanum fyrir ári. Öll þessi reynsla hefur kennt mér margt.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna 78
Ég hef ekki sinnt neinum störfum innan Samtakanna ‘78 en var virkur þátttakandi þegar ég kom út og mætti í rúmt ár á fundi ungliðahreyfingar Samtakanna. Það hjálpaði mér mikið og ég tel mikilvægt að efla það starf. Einnig náði ég saman Samtökunum og skólastjórnendum í mínum framhaldsskóla sem varð til þess að Samtökin héldu kynningu þar í fyrsta sinn. Í framhaldinu komu þau svo einnig í heimsókn í grunnskólana á Selfossi.

2.1 Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin ’78 hafa alla tíð sinnt ómetanlegu starfi. Á síðustu árum hafa samtökin þó tekið alltof margt að sér, svo mikið að það er lítil stefna, sýnileiki og samstaða. Einnig finnst mér Samtökin hafa gleymt rótum sínum svo að félagsstarfið er orðið fremur takmarkað. Það er slæmt því að félagstarf er mikilvægur partur af þessu öllu saman og það þarf að virkja á ný. Ég hef tekið eftir því að margt fólk á mínum aldri sér ekki tilefni til að skrá sig í samtökin. Ástæður þessa fólks eru margar, en í grófum dráttum finnst því það ekki eiga nógu vel heima í félaginu. Þó að síðustu stjórnir hafa komið mörgu á framfæri og gert góða hluti þá er samt eitthvað sem vantar, fókus.

2.2 Hver er þín sýn á starf Samtakanna ’78 næstu 2-3 ár og á hvaða sviði telur þú þig geta lagt mest af mörkum? (Hvaða verkefnum þarf að sinna, í hvaða aðgerðir þarf að ráðast og svo framvegis)
Alger viðsnúningur hefur orðið á viðhorfum til hinsegin fólks með baráttu Samtakanna og félagsfólks þeirra í gegnum árin. Þessari baráttu þarf að halda áfram og mikilvægt finnst mér að muna að þessir sigrar voru unnir með gleði, svita, þolinmæði og þori. Enn er nóg eftir af óunnum sigrum, en þeir verða ekki endilega jafn stórir eða jafn áberandi og þeir sem áður hafa náðst. Samtökin mega því ekki sofna á verðinum. Það þarf að endurvekja
félagslíf Samtakanna og halda betra sambandi við félagsfólk, bjóða upp á víða og breiða viðburði, svo sem böll, fyrirlestra, bíókvöld og annað til þess að skapa samheldni í þessu litla samfélagi okkar. Jafn mikilvægt er að halda sambandi við félagsfólk og láta það vita hvað er í gangi. Fræðslu í skólum þarf að bæta og hafa fólk á mismunandi aldri í þeirri fræðslu. Þær skorður sem transfólki eru settar á íslandi eru fjarri því að vera í lagi þó að við stöndum framar mörgum þjóðum. Það þarf að þrýsta á breytingar í lögum varðandi málefni trans fólks og fá trans fólk með í þær breytingar. Ég tel því mikilvægt að endurvekja Samtökin sem sterk félagasamtök og byrja þá endurvakningu að innan, standa vörð um fenginn árangur og sækja áfram í okkar baráttu.

 

Skoðunarmenn reikninga

Tvö embætti – tvö framboð.

Sigurjón Guðmundsson

Sigurjón Guðmundsson

1.1 Nafn og aldur
Sigurjón Guðmundsson – 62 ára

1.2 Menntun og starf
Gagnfræðingur + 1 vetur í Framhaldsdeild Gagnfræðaskóla – viðskiptakjörsvið  (Undanfari Fjölbrautarskólanna). Bankastarfsmaður.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég er einhleypur. Í frístundum hef ég sungið í kórum – mér til mikillar ánægju.

Bankastarfsmaður sl. 37 ár – þar áður „Skattendurskoðandi“  á Skattstofu Vestmannaeyja og Bókari hjá Rafveitu Vestmannaeyja.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Kom inn í Samtökin 1994. Varð fyrst skoðunarmaður 1996 eða 1997 og hef verið það flest árin eftir það.

 

Sverrir Jónsson

Sverrir Jónsson

1.1 Nafn og aldur
Sverrir Jónsson, 39 ára

1.2 Menntun og starf
Hagfræðingur og stjórnsýslufræðingur, vinn í Stjórnarráðinu.

1.3 Stutt samantekt á núverandi högum og reynslu (m.a. fjölskylduhagir, reynsla af vinnumarkaði og félagsstörfum og annað sem frambjóðandi vill taka fram)
Ég er nýbakaður faðir sem býr í Vesturbænum og vinnur í miðbænum. Hef verið þátttakandi í starfi Samtakanna í nokkur ár, m.a. með Hinsegin kórnum.

1.4 Fyrri verkefni/störf innan Samtakanna ’78
Var áður í trúnaðarráði, býð fram skoðunarkrafta mína í þriðja sinn.

 

Leave a Reply