Skip to main content
FréttirTilkynning

Framlög til Samtakanna ’78 frádráttarbær

By 4. janúar, 2022No Comments

Gengið hafa í gegn breytingar á skattheimtu og fjármögnun félagasamtaka sem gera bæði fyrirtækjum og einstaklingum kleift að fá skattaafslátt á móti framlagi til félaga sem starfa til almannaheilla. Þar falla Samtökin ‘78 sannarlega undir. Ekki skiptir máli hvort um reglulegt framlag er að ræða eða stakt framlag. Þá felur þetta ekki í sér neina vinnu aukalega fyrir styrkveitanda þar sem við sjáum um að gögnin berist til RSK. 

Fyrirtæki geta fengið skattafslátt af styrkjum sem nema allt að 1,5% af tekjuskattsstofni. Hjá einstaklingum þarf styrkfjárhæðin að vera að lágmarki 10 þúsund og að hámarki 350 þúsund króna framlag. Fyrir hjón er hámarksupphæðin 700 þúsund krónur.

Hér er dæmi um hvað einstaklingar geta fengið í skattaafslátt miðað við mismunandi fjárhæðir*:

  • Einstaklingur sem reiðir af hendi 20 þúsund króna styrk fær skattafslátt að fjárhæð 7.600 krónur. Félagið fær þannig 20 þúsund til góðra verka, en þú borgar í raun 12.400 þegar skattaafslátturinn er dreginn frá.
  • Einstaklingur sem greiðir 50 þúsund króna styrk fær skattafslátt að fjárhæð 19 þúsund krónur. Félagið fær 50 þúsund til góðra verka, en þú borgar í raun 31.000
  • Fyrirtæki sem styrkir um 1 milljón lækkar tekjuskattinn sinn um 200 þúsund krónur. Félagið fær 1 milljón til góðra verka, en fyrirtækið greiðir í raun 800 þúsund

Hægt er að gerast regnbogavinur hér, en regnbogavinir styrkja fjölbreytta starfsemi Samtakanna ‘78 með mánaðarlegu framlagi.

Þá er einnig hægt að styrkja okkur með stöku framlagi. Nánari upplýsingar um það má finna hér.

*Tekjuskattshlutfall er breytilegt. Hér er gert ráð fyrir skattahlutfalli meðaltekna. Fjárhæðir birtast á heilu hundraði króna.