Skip to main content
search
FréttirViðburður

Fyrsta Landsþing hinsegin fólks

By 14. mars, 2022No Comments

Samtökin ‘78 héldu Landsþing hinsegin fólks helgina 4. – 6. mars. Dagskrá hófst föstudaginn 4. mars á móttöku í húsnæði samtakanna að Suðurgötu 3 sem Eliza Reid, forsetafrú, heiðraði með nærveru sinni. Fyrir móttökuna buðu valin öldurhús félagsfólki upp á sérstaka gleðistund. Móttakan var vel sótt og þakka samtökin öllum kærlega fyrir komuna.

 

Laugardaginn 5. mars fór dagskrá fram í IÐNÓ. Haldið var málþing í tveimur sölum um daginn og um kvöldið fór fram dansleikur. Mikil áhersla var lögð á fjölbreytta viðburði og hófst dagskrá á hreyfiviðburðum þar sem Spektrum Reykjavík bauð upp á morgunjóga og hugleiðslu. Samtímis átti að fara fram dansviðburður sem þurfti því miður að fella niður vegna covid tengdra forfalla, en þau voru ófá í aðdraganda landsþingsins. 

 

Í málstofunum dagsins var fjallað um hinsegin heimilisofbeldi, biðlista trans fólks innan heilbrigðiskerfisins, HIV á Íslandi, kynfræðslu, fötlun og hinseginleika, samstarf við BHM um rannsókn á kynhneigðarbundnum launamun, samstarf við Þjóðkirkjuna um að skapa sátt við hinsegin samfélagið, barneignir hinsegin fólks, deitmenningu homma og vinnu Rauða krossins með hinsegin hælisleitendum. Dagskráin var einstaklega vel heppnum og vel sótt en talið er að tæplega 200 manns hafi sótt málþingið. 

 

Um kvöldið var slegið upp í stórdansleik. Fram fór stórglæsileg burlesk sýning þar sem tíu listamenn komu fram undir stjórn hinnar óviðjafnanlegu Margrétar Erlu Maack. Í kjölfar þess lék Una Stef og hljómsveit fyrir dansi við mikinn fögnuð gesta. Einnig komu fram Haffi Haff og Selma Björns með sérstaka Eurovision-syrpu. Söngdagskrá lauk Hafsteinn Þórólfsson formlega með flutningi á þjóðsöng hinsegin fólks, Ég er eins og ég er. Í kjölfarið tók DJ Siggi Gunnars við stjórn sviðsins og passaði upp á halda hitastigi dansgólfsins á við finnskan sánuklefa út kvöldið. Stemningin á dansleiknum var engri lík, dansað var og sungið af lífsins sálarkröftum fram eftir nóttu. Skipuleggjendur voru hæstánægð með góða mætingu en á þriðja hundrað manns heimsóttu samtökin þessa kvöldstund.

 

Sunnudaginn 6. mars fór aðalfund Samtakanna ‘78 árið 2022 fram í Sunnusal IÐNÓ. Tæplega 70 manns sóttu aðalfund, sem telst mjög góð mæting, og fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf. Álfur Birkir Bjarnason lagði Örnu Magneu Danks í baráttu um formannsstól Samtakanna. Fimm voru í kjöri þegar kjörið var í þrjú sæti í stjórn til tveggja ára. Þar var Bjarndís Helga Tómasdóttir endurkjörin auk þess sem Mars M. Proppé og Vera Illugadóttir koma ný inn í stjórn. Ásgeir Ásgeirsson og Anna Íris Pétursdóttir hlutu ekki kjör að þessu sinni. Fyrir í stjórn voru þau Agnes Jónasdóttir, Ólafur Alex Kúld og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir. Stjórn yfirgáfu þau Andrean Sigurgeirsson, Edda Sigurðardóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, fráfarandi formaður.

 

Þá kaus aðalfundur sjö manna félagaráð. Kjör hlutu Derek Terell Allen, Hrefna Ósk Maríudóttir, Jessica Leigh Andrésdóttir, Ragnar Pálsson, Sigríður Ösp Elínborgar Arnarsdóttir, Tinna Haraldsdóttir og Þórhildur Sara. Heimilt er að bjóða sig fram í félagaráð alveg fram að þegar gengið er til atkvæða. Þá heimild nýtti Móberg Ordal á aðalfundi en átti ekki erindi sem erfiði sökum þess fjölda atkvæða sem þegar hafði fallið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

 

Samtökin ‘78 lýsa yfir mikilli gleði með þetta fyrsta Landsþing hinsegin fólks þar sem gestir voru fleiri en 500 yfir helgina. Landsþingið var gífurlega vel heppnað og ríkti almennt mikil gleði meðal gesta yfir að fá aftur að koma saman á ættarmóti hinsegin stórfjölskyldunnar eftir tveggja ára covid-pásu.