Skip to main content
Fréttir

Heilsuvernd

By 16. febrúar, 2004No Comments

Alnæmi

Annan hvern mánuð bætist einn Íslendingur við tölu þeirra sem vitað er að hafi smitast af HIV-veirunni sem veldur alnæmi. HIV-veiran berst milli fólks við blöndun líkamsvessa, einkum við kynmök án þess að notaðar séu verjur. Þegar fyrst var vart við sjúkdóminn fyrir tæpum tuttugu árum voru hommar í meirihluta þeirra sem smituðust. En með því að stunda ábyrgt kynlíf hefur mjög dregið úr útbreiðslu HIV-veirunnar meðal þeirra. Á Íslandi eru það einkum gagnkynhneigðar konur sem núna greinast með veiruna. En á hverju ári bætast nokkur þúsund ungra Íslendinga í hóp þeirra sem byrja að iðka kynlíf og því er stöðugrar áminningar þörf þegar alnæmi er annars vegar.

HIV-veiran fer ekki í manngreinarálit, hún berst milli fólks á öllum aldri, milli gagnkynhneigðra, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, og enginn er óhultur fyrir henni nema hann stundi öruggt kynlíf. HIV-jákvæða er ekki hægt að þekkja á útlitinu.

HIV-veiran ræðst á ónæmiskerfi líkamans svo að eðlilegar varnir hans hrynja, örverur sem alla jafna eru skaðlausar fullfrísku fólki verða þá lífshættulegar og margs konar sýkingar leiða til dauða. Engin varanleg lækning er ennþá til við alnæmi en á síðustu árum hafa komið fram lyf sem gera veiruna óskaðlega ónæmiskerfinu og auka lífslíkur manna til muna. Slík lyfjagjöf reynist þó flestum erfið og henni fylgja ýmsar aukaverkanir. Enginn veit hvort og hvenær bóluefni kemur fram við HIV-veirunni, en ef það verður að veruleika í framtíðinni, þá gagnast það eðli málsins samkvæmt ekki þeim sem þegar hafa smitast af veirunni.

HIV-veiruna má forðast með því að nota smokk. Með því að nota hann undantekningarlaust við samfarir er auðvelt að forðast smit af völdum HIV-veirunnar.

Hættulaust kynlíf:

  • Að fróa sér með öðrum.
  • Líkamsnudd, atlot og kossar.
  • Hjálpartæki ástarlífsins – séu þau varin með smokk eða sótthreinsuð áður en þeim er deilt með öðrum.
  • Samfarir með smokk. Þá skal nota vatnsleysanleg krem (til dæmis KY) en ekki fiturík krem eins og vaselín því að þau geta brennt smokkinn og sett göt á hann.

Hættulegt kynlíf:

  • Að hafa samfarir án þess að nota smokk.
  • Að fá sæði annars manns í munn.

Þú átt ekki að sjá ástæðu til að spyrja þá sem þú hefur mök við hvort þeir séu HIV-jákvæðir því að svörin veita enga tryggingu gegn smiti. Ábyrgt kynlíf felst í því að haga sér eins og allir kunni að vera HIV-jákvæðir og nota smokkinn undantekningarlaust.

Settu þér einfaldar og öruggar reglur í kynlífi sem þú víkur aldrei frá. Mundu að notkun áfengis og vímuefna veikir dómgreindina og býður hættunni heim.

Öruggur ástarleikur er skemmtilegur leikur

HIV-mótefnapróf fæst:

  • Hjá heimilislæknum og á heilsugæslustöðvum
  • Á Húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala, Þverholti 18, Reykjavík. Sími 560 2320. Þar er hægt að fara í mótefnamælingu að morgni dags og þar gefst fólki kostur á að ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing. Tilvísun frá heimilislækni er óþörf. Hafa skal meðferðis persónuskilríki með kennitölu. Nokkur tími getur liðið frá smitun og þar til veiran finnst í blóði við HIV-mótefnapróf.
  • Á rannsóknardeild Landspítala í Fossvogi.

Félagsráðgjafi

Á Landspítala Fossvogi starfar félagsráðgjafi fyrir HIV-jákvæða, Sigurlaug Hauksdóttir, sími 525 1000 eða 525 1547.

Upplýsingar og aðstoð við HIV-jákvæða

Alnæmissamtökin á Íslandi, Hverfisgötu 69, sími 552 8586; Veffang: www.aids.is. Tölvupóstur: aids@aids.is. Skrifstofan er opin virka daga kl. 13-17. Alnæmissamtökin geta aðstoðað við að ná í lækni fyrir HIV-jákvæða ef bregðast þarf skjótt við.

Nánari upplýsingar um HIV-veiruna og alnæmi er að finna á fræðsluvef landlæknis: kyn.landlaeknir.is.

 

Lifrarbólga A, B og C

Áfengi og notkun lyfja geta valdið lifrarbólgu en langalgengast er að orsökin sé veiran hepatitis sem í vissum tilvikum berst milli manna við kynmök. Hér er fjallað um þrjár tegundir lifrarbólguveiru, hepatitis A, hepatitis B og hepatitis C, hvernig þær smitast, hver einkennin eru og hvað sé til varnar.

Lifrarbólguveira A

Einkenni: Margir sýna aldrei nein merki um smitun, en ef einkenni koma fram geta þau verið þreyta, gula, niðurgangur og beinverkir, óvenju ljós saur og dökkt þvag og sumir missa þyngd. Það geta liðið 2-7 vikur frá smiti og þar til einkenni koma fram. Veikindi af völdum lifrarbólguveiru A geta staðið frá 3 vikum og allt upp í 6 mánuði.

 

Smitleiðir: Þær tengjast skorti á hreinlæti, menguðum mat, vatni, svo og saurmengun. Það getur til dæmis auðveldlega valdið smiti að sleikja líkamssvæðið undir kynfærum og kringum endaþarm.

Meðferð: Engin meðferð er til við lifrarbólguveiru A, en læknar ráðleggja fólki að hvílast og halda sig frá áfengi á meðan líkaminn vinnur á veirunni. Hægt er að fá bólusetningu gegn lifrarbólguveiru A og hér er eindregið mælt með því. Um leið er æskilegt að biðja um bólusetningu við lifrarbólguveiru B. Þessa þjónustu veita heilsugæslustöðvar en í Reykjavík er hagkvæmt að leita til Heilsuverndarstöðvarinnar og nýta sér þjónustu hennar til fólks sem hyggur á ferðir til útlanda (gengið inn frá Egilsgötu). Panta þarf tíma í síma 585 1380. Þrisvar á hálfu ári þarf að mæta í bólusetningu gegn lifrarbólguveiru A og B í sömu sprautu og kostar meðferðin 13.500 kr. Bólusetningin dugar að minnsta kosti í áratug.

 

Lifrarbólguveira B

Einkenni: Sumir sýna aldrei nein merki um smitun, en ef einkenni koma fram geta þau verið þreyta, gula, niðurgangur og beinverkir, lystarleysi, óvenju ljós saur og dökkt þvag. Smitleiðir: Lifrarbólguveira B smitast á sama hátt og HIV-veiran sem veldur alnæmi, við blöndun líkamsvessa, með blóði eða sæði, en líkur á smiti eru þó langtum meiri en þegar HIV-veiran á í hlut. Í kynlífi gilda að miklu leyti sömu varnir gegn lifrarbólguveiru B og HIV-veirunni.

 

Meðferð: Engin fullkomin meðferð er til við lifrarbólguveiru B, en læknar ráðleggja hvíld á meðan líkaminn vinnur á veirunni. Veiran veldur í sumum tilvikum krónískri lifrarbólgu og þá á sjúklingurinn kost á sérstakri meðferð. Samt kann að reynast ógjörningur að vinna bug á veirunni.

Hægt er að fá bólusetningu gegn lifrarbólguveiru B og hér er eindregið mælt með því. Um leið er æskilegt að biðja um bólusetningu við lifrarbólguveiru A. Þessa þjónustu veita heilsugæslustöðvar en í Reykjavík er hagkvæmt að leita til Heilsuverndarstöðvarinnar og nýta sér þjónustu hennar ti
l fólks sem hyggur á ferðir til útlanda (gengið inn frá Egilsgötu). Panta þarf tíma í síma 585 1380. Þrisvar á hálfu ári þarf að mæta í bólusetningu gegn lifrarbólguveiru A og B í sömu sprautu og kostar meðferðin 13.500 kr. Bólusetningin dugar að minnsta kosti í áratug.

 

Lifrarbólguveira C

Fáir eru svo heppnir að finna einkenni um smit af völdum lifrarbólguveiru C og oft er blóðrannsókn eina leiðin til að komast að hinu sanna. Um þriðjungur þeirra sem smitast af veirunni getur með lyfjum losnað við hana úr líkamanum á hálfu ári. Þeir sem ekki eru svo heppnir eiga á hættu að fá króníska lifrarbólgu, skorpulifur eða krabbamein.

 

Smitleiðir: Lifrarbólguveira C berst með blóði og er því algengust meðal þeirra sem deila vímuefnum í sprautum. Hugsanlega getur hún borist milli manna þegar þeir deila tannbursta eða rakvélum sem ekki eru laus við blóð. Við kynmök felst hættan í hvers kyns blöndun blóðs.

Meðferð: Lyfið alpha interferon er notað til að vinna bug á lifrarbólguveiru C. Það hefur ýmsar óþægilegar aukaverkanir og gagnast ekki öllum sem smitast hafa af veirunni.

Nánari upplýsingar um lifrarbólgu B og C er að finna á fræðsluvef landlæknis: kyn.landlaeknir.is.

Leave a Reply