Skip to main content
Fréttir

Hinsegin bíódagar 17.–27. september 2009

By 16. september, 2009No Comments

Fyrir um þrjátíu árum tóku samkynhneigðir sig saman í San Francisco og skipulögðu sína eigin kvikmyndahátíð í þeim tilgangi að koma á framfæri kvikmyndum sem fjölluðu um samkynhneigðan veruleika á marktækan hátt. Brátt festu slíkar hátíðir rætur í öðrum stórborgum heimsins, efldust og öðluðust miklar vinsældir. Smám saman urðu þær líka vettvangur fyrir tvíkynhneigða og transgender fólk sem þyrsti í að sjá fjallað á marktækan hátt um líf sitt á hvíta tjaldinu.

 

Hinsegin kvikmyndahátíðir eru nú haldnar í flestum stórborgum Evrópu og Bandaríkjanna og þær hafa einnig fest sig í sessi í öðrum heimshlutum. Hinsegin bíódagar hafa einnig verið haldnir þrisvar sinnum í Reykjavík við ágætar undirtektir. Fyrir vikið hefur smám saman orðið til vönduð kvikmyndagerð sem lýsir hinsegin veruleika á virðingarverðan og einlægan hátt. Það er af sem áður var þegar list af því tagi sem hér er lýst ferðaðist eingöngu á jaðrinum og kom fyrir fárra sjónir.

Hinsegin bíódagar í samstarfi við RIFF – Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík
Í annað sinn ganga Hinsegin bíódagar til samstarfs við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík og kynna sérstaklega tólf kvikmyndir sem ætla má að höfði sérstaklega til lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transfólks. Hér er að finna leiknar myndir sem vakið hafa mikla athygli víða um heim og merkar heimildamyndir sem varða líf okkar og reynslu. Ýmsar þeirra hafa unnið til verðlauna og vakið líflegar umræður meðal þeirra sem láta sig hinsegin kvikmyndalist varða.

Við hvetjum kvikmyndaunnendur til að sjá það fjölbreytta efni sem hér gefur að líta og vekjum jafnframt athygli á fjölbreyttu dagskrárriti Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík.

Lítið á hinsegin dagskrá kvikmyndahátíðarinnar á www.hinbio.org og www.riff.is

 

Góða skemmtun

Leave a Reply