Skip to main content
Fréttir

Hinsegin bókavaka

By 27. nóvember, 2013No Comments

Hinsegin bókavaka

Laugardaginn 30. nóvember kl. 18

Bókaverslunin IÐA efnir til bókmennta- og upplestrarveislu í versluninni IÐU Zimsen á Vesturgötu nk. laugardagskvöld kl. 18. Tilefnið er sú merkilega staðreynd að meðal útgáfuefnis á þessu ári eru óvenju margar bækur sem fjalla um líf og reynslu samkynhneigðs fólks, bæði frumsamið íslenskt efni, skáldskapur, minningar og fræðirit svo og þýðingar merkra bóka. 

Á hinsegin bókavöku IÐU les Jónína Leósdóttir upp úr minningum sínum, Við Jóhanna sem hlotið hafa afbragðs góðar undirtektir og vakið athygli. Þá les skáldið Sjón upp úr nýrri skáldsögu sinni, Mánasteinn – Drengurin sem aldrei var til, sem einnig hefur hlotið einróma lof lesenda og gagnrýnenda. Einnig les Ásdís Óladóttir upp úr ljóðabók sinni Innri rödd úr annars höfði sem kemur út á næstunni. Af öðru efni íslensku sem lesið er upp úr er fræðirit Gunnars Karlssonar sagnfræðings,Ástarsaga Íslendinga að fornu þar sem hann fjallar m.a. um forna íslenska vitnisburði um það fólk sem elskaði sitt eigið kyn.

Tvær athyglisverðar þýðingar eru í hópi útgáfubóka ársins. Þar er fyrst að nefna austurrísku minningasöguna Mennirnir með bleika þríhyrninginn sem lýsir reynslu homma í fangabúðum nasista í heimsstyrjöldinni síðari. Þessi áhrifamikla frásögn vakti á sínum tíma heimsathygli á grimmu hlutskipti sem heimurinn hafði lengstum þagað um. Síðari þýðingin er annar hluti þríleiksinsÞerraðu aldrei tár án hanska eftir sænska rithöfundinn Jonas Gardell og nefnist þessi hluti sagnabálksins Sjúkdómurinn. Þar segir frá lífi og reynslu nokkurra sænskra homma á fyrstu árum alnæmis, áhrifamikil lýsing á árum átaka og sársauka sem seint gleymast þeim sem lifðu þau.

Stjórnandi bókavökunnar og kynnir í IÐU Zimsen er Þorvaldur Kristinsson. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Leave a Reply